Hugtakið kórónuþvottur (e. coronawashing) hefur skotið upp kollinum og kannski ekki að ástæðulausu. Því svipar til hugtaksins grænþvottur (e. greenwashing), sem vísar til blekkinga af hálfu fyrirtækja sem þykjast vera græn en eru það í raun og veru ekki. Kórónuþvottur felst í því að stjórnendur og eigendur láta líta út fyrir að fyrirtæki séu styðjandi afl á þessum erfiðu tímum, en stuðningurinn er fyrst og fremst veittur í markaðs- og ímyndarlegum tilgangi. Fyrirtækin nota smáaura í gjafir eins og andlitsgrímur og gjafakörfur á sama tíma og þau hrifsa til sín háar fjárhæðir úr vösum skattborgara. Í þessu ljósi er áhugavert að rýna í aðgerðir íslenskra fyrirtækja með gleraugum samfélagsábyrgðar. Vert er að hafa í huga að fyrirtæki sem slík taka ekki ákvarðanir. Þau eru einungis skeljar eða rekstarform utan um ákvarðanir sem teknar eru af einstaklingum sem eru eigendur og stjórnendur fyrirtækja.
Samkvæmt hluthafakenningu Miltons Friedman er það skylda fyrirtækja að hámarka arðsemi af rekstri fyrirtækja og virði fyrir hluthafa. Samfélagslegt virði felst í því að fyrirtækin framleiði vörur og þjónustu og skapi störf, en þó þannig að þau starfi innan ramma laganna. Skammtímahugsun getur verið neikvæð með tilliti til langtíma frammistöðu fyrirtækja. Kenning Friedmans hefur verið gagnrýnd fyrir það að hún stuðli að skammtímahugsun innan fyrirtækjanna, en þar má nefna skráð félög þar sem hugsað er út frá ársfjórðungsuppgjörum.
Ástæður þess að fyrirtæki ákveða að axla samfélagslega ábyrgð skýrist af tveimur megin þrýstiöflum. Ytir þrýstingur kemur frá þeim sem láta sig málefni varða og eru í aðstöðu til að þrýsta á um breytingar. Má þar nefna löggjafarvald, samkeppnisaðila, neytendur, frjáls félagasamtök og háskóla. Aukinn ytri þrýstingur á fyrirtæki er meðal annars tilkominn vegna samfélagsmiðla. Innri þrýstingur skiptist í siðferðileg sjónarmið og fjárhagslegan ávinning. Siðferðilegu sjónarmiðin byggja á gildismati stjórnenda og eigenda sem gera greinarmun á réttu og röngu og því sem samfélaginu þykir sanngjarnt og eðlilegt (Tutore, I. (2010). Key drivers of corporate green strategy, EDAMBA Summer Academy 2010. Soréze). Fjárhagslegur innri hvati tengist því að samfélagsleg ábyrgð dragi úr kostnaði fyrirtækja eða auki tekjur fyrirtækja.
Stjórnvöld veita fyrirtækjum formlegt leyfi til rekstrar. Fyrirtæki þurfa líka óformlegt rekstrarleyfi, en það er komið frá samfélaginu. Samfélagslegt rekstrarleyfi fæst með því að fyrirtæki starfi í sátt við samfélagið og byggir á því að fólk vilji eiga í viðskiptum við fyrirtækin (Lára Jóhannsdóttir. (2013). Samfélagslegt rekstrarleyfi. Reykjavík. Viðskiptablað Mbl.). Tapi fyrirtæki samfélagslegu rekstrarleyfi getur verið erfitt, kostnaðarsamt eða jafnvel ógerlegt að vinna upp traust, eða lappa upp á skaðaða ímynd. Áhrif þess að fyrirtæki tapi samfélagslegu rekstrarleyfi á reksturinn eru skaðleg. Í versta falli getur neikvæð umfjöllun leitt til þess að fyrirtæki fara í þrot, eins og raunin varð með Brúnegg. Áratug eftir bankahrunið búa bankar enn við skaðað orðspor og skert traust almennings. Neikvæð umfjöllum um fyrirtæki getur dreifst eins og eldur í sinu um netheima. Hún dreifist hraðar en kórónuveiran og stjórnendur og eigendur fyrirtækja hafa takmarkaða getu til þess að stöðva framgang slíkrar umfjöllunar.
Hlutabótaúrræði stjórnvalda var hugsað sem skammtíma stuðningur við fyrirtæki í alvarlegum rekstrarvanda, en ekki fyrir stöndug fyrirtæki eða fyrirtækjasamstæður í fjárhagslegri stöðu til að greiða stjórnendum ofurlaun, hluthöfum arð og/eða eru í aðstöðu til endurkaupa á eigin hlutabréfum. Fyrirtækin vísa í það óvissuástand sem ríkir í samfélaginu og að þau hafi verið hvött til þess að nýta sér þessa ráðstöfun frekar en að segja starfsfólki upp störfum.
Speglað í kenningum um samfélagslega ábyrgð fyrirtækja má segja að áherslur hluthafakenningar, innri fjárhagslegir hvatar og skammtíma sjónarmið séu einkennandi fyrir ákvarðanir eigenda og stjórnenda fyrirtækja sem ekki glímdu við alvarlegan rekstrarvanda en ákváðu að nýta sér hlutabótaleið ríkisstjórnarinnar. Þá eru vísbendingar um að ákvarðanirnar hafi ekki verið endurskoðaðar út frá siðrænum sjónarmiðum ('its the right thing to do'), heldur vegna þrýstings frá utanaðkomandi aðilum, t.d. stjórnvöldum, stofnunum samfélagsins og neytendum.
Það má velta fyrir sér í ljósi samfélagslegs rekstrarleyfis hversu alvarlegum augum ákvarðanirnar eru og verða litnar. Jafnvel þó að fyrirtækin eða fyrirtækjasamsteypurnar hætti að nýta sér úrræði stjórnvalda og í sumum tilvikum endurgreiði kostnaðinn sem féll á ríkissjóð, má vera að skaðinn sé skeður. Vegna fákeppni getur verið erfitt fyrir viðskiptavini að leita annað með sín viðskipti og þeir tilneyddir til að halda áfram viðskiptunum með óbragð í munni. Við þessu þurfa stjórnendur og eigendur fyrirtækjanna að bregðast og sýna fram á að þeir ætli, með heilindum og heill samfélagsins að leiðarljósi, að leggjast á árarnar og hjálpa þannig stjórnvöldum og samfélaginu að komast út úr þessu ástandi, sem hafa má í hug að er tímabundið. Þannig öðlast þau traust samfélagsins að nýju og vonandi samfélagslegt rekstrarleyfi.
Höfundur er prófessor í umhverfis- og auðlindafræði.