Ég vaknaði upp við minningu á Facebook um að ég hafi fyrir sjö árum síðan á þessum degi verið að baka íslenskar pönnukökur í Osló í Noregi þar sem ég bjó árum saman. Stúdínan stendur galvösk, prýdd náttfötum, í eldhúsi íbúðar sem ég deildi með norskum vinum. Tilefnið var þjóðhátíðardagur Norðmanna 17. maí sem er fagnað rösklega ár hvert með skrúðklæddum landanum í morgunverðarpálínuboðum þar sem hjörtu slá í takt og sameinast í gleði líðandi stundar.
Upphaflega þótti mér þessi hefð undarleg. Þegar ég flutti til Noregs árið 2009 var hrunið í algleymingi sem fletti ofan af yfirgengilegri græðgi, landlægri spillingu og hræsni. Á örskammri stundu var hulunni svipt af þessu húsi sem var byggt á sandi, af blekkingum ráðamanna og viðskiptalífsins þar sem almenningur var hafður að leiksoppi og hagur landsins meðhöndlaður sem spilapeningur í vafasömum leik þar sem einu sigurvegararnir gátu verið þeir sem öll völdin höfðu. Ég fann satt best að segja fyrir biturð í garð landsins míns, langt umfram stoltið sem Norðmennirnir virtust deila. Fyrir mér var Ísland land óréttlætisins, spillingarinnar og óvandaðra vinnubragða þar sem einn flokkur var búinn að vaða uppi allt of lengi til þess eins að skapa kerfi sem þjónaði vinum þeirra fremur en almannahag.
Eftir að hafa séð og upplifað árum saman hvernig hægt var að standa betur að skipulagi samfélagsins fór mig að klæja í fingurna að hjálpa til við að raungera þau tækifæri til breytinga sem ég hafði orðið vitni að erlendis. Sú tilfinning leiddi að endingu til þess að ég kom aftur til Íslands.
Eftir hrunið sáum við upprisu almennings sem neitaði að taka áfram þátt í því óréttlæti og þeim ófaglegheitum sem höfðu lagt grunn að fallinu. Þrýstingur var á raunverulegar breytingar til frambúðar til að varna því að sagan gæti endurtekið sig. Skrifuð var ný stjórnarskrá af fólkinu fyrir fólkið þar sem sameiginlegum grunngildum var stillt upp sem leiðarstefi þjóðfélagsins. Þar sem almenningi yrðu færð aukin samfélagsleg völd en einnig aukin stjórn yfir þeim perlum sem Ísland býr yfir, þeirri náttúru og þeim auðlindum sem hafa skilgreint okkur sem þjóð og hafa mótað okkar sögu. Þar sem tryggt skyldi raunverulegt jafnræði og jafnrétti fyrir lögum í réttarríki. Við eygðum von um breytingar. Enn bíðum við þó eftir nýrri stjórnarskrá.
Eftir lærdóm síðustu krísu um að spilling, frændhygli og óvönduð vinnubrögð geti orðið okkur öllum að falli stöndum við nú frammi fyrir nýju hruni, nýrri krísu. Á meðan við verðum að halda í hávegum þennan lærdóm og vanda okkur við að deila út gæðum almennings til að koma landinu á réttan kjöl virðist flæða yfir okkur ný þekking, nýr skilningur. Það er hægt að lifa án þess að hlaupa í hjóli hamstursins. Taktur samfélagsvélar nútímans hefur róast og sums staðar staðnað og mörg fagna hvíldinni frá því að vera hlekkur mótors sem aldrei stoppar. Það er hægt að fagna 1. maí og nú 17. maí án skrúðgöngu. Að sama skapi sjáum við að nútíminn getur einkennst af öðru en að mengunargildin séu stanslaust yfir hættumörkum. Þegar við mannfólkið höldum okkur til hlés stíga dýrin fram og taka sviðið. Lífríkið teygir úr sér eins og köttur eftir blund og nær áður fjarverandi jafnvægi. Það sem við hræddumst að væri ómögulegt í nútímasamfélagi hefur orðið raunin. Kannski það sé enn von um líf fyrir framtíðarkynslóðir?
Spurningin er hvort þessi nýja vitneskja fái að festast í sessi og breyta samfélögunum til framtíðar. Hvort samfélag óstöðvandi neyslu, hvort sem það er í iðnaði eða persónulegum lífum okkar, fái að deyja dauða sínum og að við fæðumst öll á ný úr nýjum kjarna. Rísum úr öskunni eins og Fönixinn. Eða hvort henni verði ýtt til hliðar, eins og stjórnarskránni eftir síðasta hrun.
Höfundur er borgarfulltrúi Pírata.