Íslensk stjórnvöld hafa staðið sig einstaklega vel í baráttunni við COVID-19 faraldurinn. Auðvitað hlaut að koma að því, að verndun lífs kynni að þoka fyrir verndun eigna. Hvað á ég við? Ég á við það, að í staðinn fyrir að berjast fyrir því að standa vörð um líf og heilsu Íslendinga sjálfra kæmi að því að huga þyrfti að varðveislu eignanna – að því að tryggja hagsmuni atvinnulífs, atvinnurekstrar og atvinnurekenda, sem vissulega eru lifibrauð íslensks almennings. Hvernig á svo að gera það? Með því að opna fyrir möguleika þess, að endurtekning verði á því hvernig faraldurinn hófst – þ.e. með því að opna landið á ný fyrir aðgengi smits hvort heldur sem það er hingað borið með erlendum eða íslenskum ferðalöngum. Auðvitað varð að því að koma.
Áhætta – auðvitað
Við því einu er e.t.v. ekki margt að segja. Einhvern tíma hlaut að koma að því, að landið yrði á ný „opnað”. Öllum er ljóst, að því fylgir áhætta – ekki bara áhætta fyrir árangurinn, sem stjórnvöld hafa náð til þess að vernda líf íslenskra þegna heldur einnig áhætta um, að seinni bylgja rísi og gæti orðið þeirri fyrri skæðari.
Dýrir ferðalangar
Ýmislegt, sem þær varðar og upplýst hefur verið um, lítur skringilega út. Áformað virðist vera – þó ekki alveg víst – að íslenska þjóðin eigi að bera allan kostnað af þeim skimunum, sem þurfa að eiga sér stað á erlendum ferðalöngum áður en þeim er hleypt á land hvort heldur sem er á Keflavíkurflugvelli eða á Seyðisfirði með Norrænu. Geta íslenskra aðila er núna sögð vera, að þeim muni takast að sinna 1.000 slíkum skimunum á sólarhring – en að í ráði sé að kaupa vélbúnað, sem anna muni fjórföldum þeim fjölda. Ekki er þess getið, hvað sá búnaður muni kosta. Hins vegar liggur fyrir, að kostnaður við hverja skimun, sem mun nú nema um eða yfir 50 þús. kr., sé sagður verða um eða undir 25.700 krónum. Verða sem sé á milli 50 milljóna króna miðað við 1.000 smitrakningar á sólarhring upp í 110 milljónir króna á sólarhring miðað við að skimað sé fyrir 4.000 manns á sólarhring og kostnaðurinn verði 25.700 krónur á hverja og eina smitrakningu.
Vel boðið
Er þetta áhugavert? Já, svo er. Af hverju? Vegna þess, að íslenska ríkið undirbýr sig undir að senda sérhverjum Íslendingi ofan tiltekins aldurs tékka upp á 5.000 krónur – fimm þúsund krónur – til þess að hvetja þá til þess að ferðast um eigið land nú í sumar. Á sama tíma ráðgerir ríkisstjórnin að verja eitthvað frá 27.500 krónum upp að 50.000 krónum til stuðnings við hvern og einn erlend ferðalang, sem hyggst kaupa sér matvæli og gistingu hérlendis til þess að reyna að koma í veg fyrir að sá og hinn sami ferðalangur flytji með sér hingað til lands nýjan faraldur, sem mun leggjast líffræðilega og fjárhagslega þungt á þessa þjóð – svo ekki sé meira sagt. Þannig vernda menn eignir – eða þannig sko! Og hver borgar? Þjóðin – með sköttum til fleiri ára. Og með hverju meiru? Það á eftir að koma í ljós.
Höfundur er fyrrverandi heilbrigðisráðherra.