Þórður Snær Júlíusson, ritstjóri Kjarnans, slær öll fyrri met sín í rangfærslum, útúrsnúningi og dylgjum í grein sinni: „Gjörið svo vel, fáið ykkur þjóðareign“ sem birtist á vef Kjarnans hinn 28. maí síðastliðinn. Í greininni fjallar hann um uppskiptingu Samherja upp í tvö félög sem ráðist var í á árinu 2018 og framsali hlutabréfa í Samherja hf. frá stofnendum félagsins til barna sinna.
Um uppskiptingu Samherjasamstæðunnar í tvö félög skrifar Þórður Snær eftirfarandi: „Engin sérstök skýring var gefin á þessari aðgerð en innan íslenska stjórnkerfisins hafa verið uppi grunsemdir um að ástæðuna megi finna í því að Samherji vildi komast hjá víðtækri upplýsingagjöf sem fylgir svokallaðri ríki-fyrir-ríki skýrslu til ríkisskattstjóra. Slíkri skýrslu þurfa fyrirtæki að skila sem eru með veltu yfir ákveðnu og mjög háu viðmiði.“
Ritstjórinn virðist gleyma fyrri fréttaflutningi sínum um sama mál því eins og hann ritaði sjálfur í leiðréttingu við eigin fréttaskýringu, sem birtist 21. nóvember 2019, þá hefði umrædd upplýsingagjöf aldrei náð til Samherjasamstæðunnar því samanlögð velta samstæðunnar var ekki nálægt viðmiðunarmörkunum. Verður að teljast furðulegt að hann stilli málinu fram með þessum hætti núna, hálfu ári eftir að hann þurfti að leiðrétta eigin fréttaflutning um sama mál.
Þórður Snær horfir síðan framhjá því, vísvitandi eða vegna fáfræði, að í afkomutilkynningu, vegna ársuppgjörs Samherja fyrir árið 2017 kom fram að tilgangurinn með uppskiptingunni í tvö félög væri að aðgreina innlenda starfsemi samstæðunnar með skýrari hætti frá erlendri. Þá kemur fram í skjölum vegna skiptingar (Demerger documents), sem voru send Fyrirtækjaskrá ríkisskattstjóra og birtast opinberlega, að skiptingin í tvö félög hafi verið liður í að auka hagkvæmni í rekstrinum. Í greinargerð stjórnar Samherja hf., sem er hluti af þessum skjölum, segir orðrétt: „Skipting þessi er liður í endurskipulagningu á Samstæðu Samherja hf., en með skiptingunni er starfsemi félagsins erlendis færð í viðtökufélagið, sem miðar að því að ná meiri skilvirkni og hagkvæmni í rekstri.“
Ónafngreindir viðmælendur ritstjóra Kjarnans „innan íslenska stjórnkerfisins“ eru alveg örugglega ekki starfsmenn skattyfirvalda því öll þessi gögn eru í vörslum þeirra. Það er ómögulegt að geta sér til um hvaða ónafngreindu manna ritstjórinn er að vísa til. Þó er ljóst að þeir hafa ekki kynnt sér málið vel. Kjarninn hefur væntanlega aðgang að þessum sömu skjölum í gegnum áskrift að Creditinfo. Annað hvort hefur ritstjórinn viljandi kosið að líta framhjá þeim eða hann hefur hreinlega ekki nennt að fletta skjölunum upp.
Dylgjur um skattasniðgöngu
Þórður Snær fjallar einnig um þá ákvörðun hluthafa Samherja hf. að framselja hlutabréfaeign sína í fyrirtækinu til barna sinna. Annars vegar með sölu hlutabréfa og hins vegar með fyrirframgreiddum arfi. Ritstjórinn dylgjar í grein sinni um það að ekki verði greiddir skattar af framsali hlutabréfanna. Þannig skrifar hann: „Skattgreiðslurnar af þessum gjörningi ættu því nokkuð augljóslega að hlaupa á milljörðum króna. Fróðlegt verður að fylgjast með því hvort svo verði. Margt bendir til að svo verði ekki.“ Þórður Snær gerir hins vegar enga tilraun til að útskýra fyrir lesendum sínum hvað þetta sé sem veiti vísbendingu um að ekki verði greiddur skattur af framsali hlutabréfanna.
Samkvæmt lögum um tekjuskatt myndar hagnaður af sölu hlutabréfa stofn til fjármagnstekjuskatts en skattur á fjármagnstekjur er 22% samkvæmt sömu lögum. Erfðafjárskattur er 10% samkvæmt lögum um erfðafjárskatt.
Í 4. gr. laga um erfðafjárskatt kemur fram skilgreining á skattstofni erfðafjárskatts en átt er við heildarverðmæti allra fjárhagslegra verðmæta og eigna sem liggja fyrir að frádregnum skuldum og kostnaði. Með heildarverðmæti er átt við almennt markaðsverðmæti. Í ákvæðinu kemur síðan fram upptalning á því hvaða verðmæti falli hér undir en þar segir: „Gildir þetta um öll verðmæti sem metin verða til fjár, þ.m.t. innbú, húsbréf, fasteignaveðbréf, verðtryggð spariskírteini ríkissjóðs, skuldabréf, hugverkaréttindi, líftryggingar, bifreiðar, aflaheimildir o.fl. Síðan kemur fram í ákvæðinu nákvæm lýsing á því hvernig beri að haga skattgreiðslum þegar um er að ræða hlutabréf í óskráðum félögum, eins og staðan er í tilviki Samherja hf. Þar segir: „Ef hlutabréf í félagi eru ekki skráð á skipulegum verðbréfamarkaði skal miða við gangverð þeirra í viðskiptum, annars bókfært verð eigin fjár samkvæmt síðasta endurskoðaða ársreikningi eða árshlutareikningi viðkomandi félags að viðbættum áunnum óefnislegum verðmætum sem metin eru til fjár og gefa af sér arð í framtíðinni en óheimilt er lögum samkvæmt að færa til bókar.“
Að framansögðu virtu komast menn ekkert hjá því að greiða 10% erfðafjárskatt þegar þeir framselja hlutabréf í fyrirtækjum, hvort sem þau hafa aflaheimildir eða ekki. Menn geta ekki bara giskað á einhverja tölu út í bláinn enda veitir löggjafinn skýrar leiðbeiningar um skattstofninn. Því er ljóst að skattgreiðslur fyrrverandi hluthafa Samherja hf., sem framseldu bréf í fyrirtækinu með sölu hlutafjár og fyrirframgreiddum arfi, hlaupa á milljörðum króna og munu væntanlega skipta verulegu máli fyrir ríkissjóð. Ritstjóri Kjarnans hefur ekki nennt að kynna sér reglur um um þetta gildir eða kýs að horfa alveg framhjá þeim. Gera verður ríkar kröfur um vönduð vinnubrögð hjá reynslumiklum blaðamanni eins og Þórði Snæ sem ætti að þekkja umrædd lagaákvæði eða að minnsta kosti kynna sér þau áður en farið er fram á ritvöllinn.
Ritstjórinn hefur lengi verið upptekinn af hugtakinu gaslýsingu (e. gaslighting) sem felst í því að afvegaleiða, ljúga og hanna nýja atburðarás í þágu tiltekins málstaðar. Þannig skrifaði hann grein um þetta fyrirbæri sem birtist í Kjarnanum hinn 24. september 2017. Hugtakið hefur einnig verið þýtt sem villuljós í íslensku máli. Undir þetta fyrirbæri, sem ritstjóra Kjarnans er svo hugleikið, fellur einnig að sleppa meðvitað mikilvægum upplýsingum ef þær þjóna ekki þeim málflutningi sem er borinn á borð. Má segja að umrædd grein Þórðar Snæs eitthvert tærasta dæmi um gaslýsingu eða villuljós sem sést hefur í seinni tíð.
Þórður Snær virðist hafa sterkar skoðanir á þeim málum sem hann fjallar um sem blaðamaður og hefur jöfnum höndum skrifað fréttaskýringar og skoðanagreinar um umdeild mál. Hefur hann reglulega hoppað á milli þessara hlutverka í miðli sínum. Það virðist ekki þjóna málflutningi pistlahöfundarins Þórðar Snæs að upplýsa lesendur sína um að hluthafar Samherja hf. munu ekki komast hjá því að greiða milljarða króna í skatta vegna framsals hlutabréfa í fyrirtækinu til afkomenda sinna. Það verður hins vegar að segjast að það er býsna ódrengilegt af honum að fjalla ekkert um þá hlið málsins og gefa í skyn að því sé þveröfugt farið. Í því sambandi skiptir engu máli þótt hann skrifi undir hatti pistlahöfundar í umrætt sinn en ekki blaðamanns.
Höfundur er þingmaður Sjálfstæðisflokksins.