Bæjarfulltrúum og almennum Hafnfirðingum krossbrá þegar auglýsing frá Kviku banka um sölu á hlut Hafnfirðinga í HS Veitum birtist í Fréttablaðinu þann 7. maí síðastliðinn. Bæjarfulltrúar minnihlutans voru hvorki upplýstir um að söluferli væri hafið né heldur að Kviku banka hefði verið falið að sjá um það ferli enda hafði málið ekki verið tekið til umfjöllunar á vettvangi bæjarráðs, né heldur bæjarstjórnar. Þessar upplýsingar fengu bæjarfulltrúar minnihlutans því fyrst að lesa um í fjölmiðlum.
Margir hafa velt vöngum yfir því hvernig og af hverjum sú ákvörðun var tekin að fá Kviku banka til að annast söluna fyrir Hafnarfjörð. Á fundi bæjarráðs þann 20. maí lagði Adda María Jóhannsdóttir, oddviti Samfylkingarinnar, fram fyrirspurn um hvernig sú ákvörðun hafi verið tekin og hvaða forsendur hafi legið þar að baki. Svörin eru væntanleg á næsta fundi bæjarráðs á fimmtudag og verður áhugavert að sjá hvað kemur fram í þeim.
Þangað til hljótum við að spyrja okkur hvort tengsl Rósu Guðbjartsdóttur, bæjarstjóra, og eiginmanns hennar við lykilmenn í Kviku banka kunni að hafa leikið hlutverk í þeirri skringilegu atburðarrás sem spilast hefur út í Hafnarfirði í tengslum við fyrirhugaða sölu á hlut bæjarins í HS Veitum.
BF-útgáfa, RNH og Sjálfstæðisflokkurinn
Rósa Guðbjartsdóttir og eiginmaður hennar, Jónas Sigurgeirsson, tengjast tveimur lykilstarfsmönnum Kviku banka á a.m.k. þrjá vegu. Jónas starfar sem framkvæmdastjóri bókaútgáfunnar BF-útgáfu sem gefur út undir heitunum Bókafélagið, Almenna bókafélagið, Bókaútgáfan Björk og Unga ástin mín. Einn af eigendum BF-útgáfu er Ármann nokkur Þorvaldsson, en Ármann er aðstoðarforstjóri Kviku banka. Aðrir eigendur BF-útgáfu eru Hannes Hólmsteinn Gissurarson, stjórnmálafræðiprófessor, Kjartan Gunnarsson, fyrrum framkvæmdastjóri Sjálfstæðisflokksins og Baldur Guðlaugsson, fyrrverandi ráðuneytisstjóri í fjármálaráðuneytinu sem dæmdur var í Hæstarétti árið 2012 fyrir innherjasvik og brot í opinberu starfi. Auk þess að tengjast í gegnum BF-útgáfu voru þeir Ármann og Jónas einnig samstarfsfélagar í Kaupþingi á árunum fyrir hrun.
Þræðir Kviku banka og Jónasar Sigurgeirssonar liggja einnig saman í Rannsóknarsetri um nýsköpun og hagvöxt. Á vef rannsóknarsetursins er Jónas titlaður framkvæmdastjóri auk þess sem hann situr í stjórn þess. Með Jónasi í stjórn RNH situr Gísli Hauksson, formaður fjármálaráðs Sjálfstæðisflokksins og fyrrverandi forstjóri GAMMA. Gísli var samstarfsfélagi þeirra Jónasar og Ármanns Þorvaldssonar í Kaupþingi en hann seldi Kviku allt hlutaféð sitt í GAMMA í lok ársins 2018. Í stjórninni sitja einnig þeir Eyþór Arnalds, oddviti Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn Reykjavíkur og eigandi Íslenskrar vatnsorku hf, Þórður Þórarinsson, framkvæmdastjóri Sjálfstæðisflokksins og Jónmundur Guðmarsson, forstöðumaður sölu og viðskiptatengsla hjá Kviku banka.
Auk þess að tengjast Jónasi í gegnum RNH tengist Jónmundur einnig Rósu í gegnum Sjálfstæðisflokkinn, en Jónmundur var bæjarstjóri á Seltjarnarnesi árin 2002 til 2009 og framkvæmdastjóri Sjálfstæðisflokksins frá 2009 til 2014. Rósa var kjörin í bæjarstjórn Hafnarfjarðar árið 2006 og hefur verið oddviti flokksins frá árinu 2010. Því hafa þau Rósa og Jónmundur, sem nú starfar hjá Kviku banka, verið samverkamenn í flokknum í dágóðan tíma.
Sporin hræða
Spillingarsaga Sjálfstæðisflokksins í tengslum við einkavæðingu á eignum almennings verður ekki rakin hér, þó af mörgu sé að taka. Hjá Sjálfstæðisflokknum virðist vera regla frekar en undantekning að eignum almennings sé ráðstafað til vildarvina í reykfylltum bakherbergjum í stað þess að reynt sé að fá fyrir þær sem hæst verð í opnu söluferli. Ég ætla ekki að halda því fram að sú sé raunin nú og að einhvers staðar bíði vel tengdur aðili eftir því að fá hlut Hafnfirðinga í HS Veitum á vildarkjörum. Hins vegar hræða sporin í þessum efnum og ógagnsæ vinnubrögð meirihluta bæjarstjórnar í málinu vekja upp spurningar um hvort annarlegir hagsmunir búi að baki áformum um einkavæðingu fyrirtækisins.
Með þessum skrifum er ég heldur ekki að halda því fram að Kvika banki sé rangur aðili til að annast sölu á hlut Hafnfirðinga í HS Veitum, sé það á annað borð vilji Hafnfirðinga að selja hlut sinn í fyrirtækinu. Bæjarstjóri hlýtur hins vegar að átta sig á því að tengsl hennar við lykilmenn í Kviku kunni að vekja upp spurningar og gera málið tortryggilegt, sérstaklega þar sem ákvarðanir hafa verið teknar með jafn ógagnsæjum hætti og raun ber vitni.
Kallað hefur verið eftir gögnum sem sýna að ákvörðunin um að fela Kviku banka verkefnið hafi verið tekin með faglegum hætti. Vonandi sýna þau með afgerandi hætti að hvorki flokkstengsl bæjarstjórans né viðskiptatengsl eiginmannsins hafi ráðið för.