Það er fátt annað sem kemst í umræðuna um þessar mundir en ójöfnuður og hefur þetta bil á milli ríkra og fátækra verið títt í tungumáli þjóðar undanfarin ár. Það er frekar regla en undantekning að undirritaður velti þessu fyrir sér á löngum stundum og spyrji: Af hverju er svona mikill ójöfnuður í heiminum? Hvers vegna er veröldin stöðugt að búa til meiri fátækt?
Svörin hafa verið af ýmsum toga eins og félagslegur darwinismi eða að aðeins þeir sterku lifa af og að þeir sem fæðast í fjárhagslega sterku umhverfi hafi forskot á að verða ríkir og geta lifað vellystingarlífi í áhyggjulausri tilvist. Síðan hafa komið fram fullyrðingar á borð við að sumar þjóðir séu fátækari en aðrar. Það er margslungið og flókið svar en á sama tíma krefst ítarlegri útskýringa en eingöngu sem bláköld staðreynd.
Þegar þetta er borið saman við lestur á bókinni And The Weak Suffer, What They Must? eftir hagfræðinginn og heimspekinginn, Yanis Varoufakis, sem kom út árið 2016 þá má segja að þessar spurningar fái sterka mynd en Varoufakis tekur saman hvernig hagkerfið hefur þróast frá árinu 1944 til 1971 í þeim tilgangi að skoða af hverju Grikkir urðu gjaldþrota eftir árið 2008 sem er önnur saga. En samkvæmt hans heimildum er árabilið 1950 til 1971 sennilega gæfuríkustu ár 20. aldarinnar. Þetta byrjaði árið 1940 með samkomulaginu „Bretton Woods“ sem var samþykki á milli Bandaríkjanna og Evrópuþjóða um að halda hagkerfinu í góðu jafnvægi eftir seinni heimsstyrjöldina. En eftir árið 1970 kom svokallað „Nixon-sjokkið“ eða „Nixon Shock“ sem verður til þess að Bandaríkin klippa á samkomulagið enda Þýskaland og Frakkland farin að svívirða samkomulagið sem gerði Bandaríkjamönnum erfitt fyrir að viðhalda þessu jafnvægi. Í kjölfarið á þessu varð til svokölluð „stýrð sundrung“ eða „controlled disintegration“ sem Bandaríkjamenn settu af stað til að forðast verðbólgu sem þeir og náðu, en bjuggu til mikinn ójöfnuð og fátækt á sama tíma.
Bretton Woods samkomulagið
Samkomulagið er frá hugmyndasmiðju breska hagfræðingsins John Maynard Keynes. En hann ásamt öðrum fræðimönnum töldu hið eina rétta í stöðunni að Bandaríkin og Evrópa myndu snúa bökum saman og leiða fram sátt og samlyndi eftir seinni heimsstyrjöldina. Með þessu ættu Bandaríkin og þjóðir Evrópu að aðstoða hvort annað við að halda góðu flæði í milliríkjaviðskiptum. En það varð til þess að á árunum í kringum 1950 til 1971 varð gríðarlegur vöxtur sem gerði fólki kleift að lifa í hagsæld víðsvegar um heiminn. Þetta skapaði umhverfi þar sem hver og einn gat keypt sér fasteign og lifað vellystingarlífi óháð umhverfi eða landi.
Það var alveg sama hvert var litið, til Suður-Ameríku eða Asíu, allar þjóðir högnuðust á þessum þjóðarviðskiptum með einhverjum hætti. Bandaríkin keyptu mikið af bílum og þvottavélum frá Þjóðverjum á meðan Frakkland seldi vín, brauð ásamt fleiru og Bretland Cadbury súkkulaðið og Ítalir sinn Fíat. Þessi milliríkjaviðskipti urðu til þess að allar þjóðir nutu góðs af þessu samkomulagi þannig að afkomumestu þjóðir dreifðu hagnaðinum á milli lítilla ríkja til að halda góðu jafnvægi á fasteignamarkaði, atvinnu og lífsviðurværi fólksins.
Nixon-sjokkið
Þegar tuttugu og sex ár af stöðugri innkomu á milli ríkja var búið að eiga sér stað voru aðrar þjóðir farnar að sjá sér leik á borði til að reyna hagnast meira. Þýskaland og Frakkland tóku ákvörðun um að hætta viðskiptum við Bandaríkin þannig að um tíma voru Bandaríkin eingöngu að kaupa vörur af Evrópuþjóðum og þá sérstaklega í meira lagi frá Þýskalandi og Frakklandi sem varð til þess að bandaríski forsetinn Richard Nixon kippti Bretton Woods-samkomulaginu fljótlega úr sambandi. Það varð til þess að þjóðir í Evrópu stóðu frammi fyrir því að geta ekki framfleytt sér enda var búið að stóla á viðskipti á milli risanna þriggja: Bandaríkjanna, Þýskalands og Frakklands. Engin þjóð gat tekið við af Bandaríkjunum þannig að innkoma dróst verulega saman og verðbólga fór að myndast.
Stýrð sundrung
Í kjölfarið á Nixon-sjokkinu tóku Bandaríkin ákvörðun um að verða afkomumesta þjóðin án þess að vera mikið í viðskiptum við aðrar þjóðir eins og átti sér stað áður fyrr. Heldur nýttu Bandaríkin sér hlutabréfamarkaðinn „Wall Street“ til þess að ná því markmiði að verða afkomumesta þjóð heims. Þarna verða straumhvörf í viðskiptum á milli landa og fyrirtækja þar sem lausafé fyrirtækja fór meira í fjárfestingar á hlutabréfamarkaðinum en í innviði: Starfsfólk. En bandaríski hagfræðingurinn Paul Volcker mælti með svokallaðri „stýrðri sundrung“ eða „controlled disintegration“ sem þýddi að auka ætti vexti til að búa til aðdráttarafl fyrir fyrirtæki fyrir utan Bandaríkin í viðskiptum með hlutabréf. Þannig að fyrirtækin gátu ávaxtað sinn gróða en þurftu að fórna sínu starfsfólki með því að lækka laun þess og skerða lífsviðurværi þess.
Þarna náði Volcker að gera Bandaríkin að afkomumestu þjóð án þess að selja nokkurn varning og á sama tíma eiga engin viðskipti við evrópskar þjóðir nema í gegnum hlutabréf. Þetta bjó til þá glufu sem hefur sífellt verið að aukast í heiminum í dag vegna þess að fyrirtækin hættu að borga þau laun sem þekktust á árunum 1950 til 1971 sem gat veitt fólki möguleika á því að kaupa sína fasteign, lifa vellystingarlífi og meðal annars kaupa þá vöru í því fyrirtæki sem unnið var í. Með þessu fara fyrirtæki að huga meira að hlutabréfamarkaðinum heldur en sínum innviðum. Verksmiðjur lokuðu og fasteignarverð hækkaði sem gerði hinum almenna íbúa erfitt fyrir að taka þátt í samfélaginu eins og gerðist áður fyrr.
Ójöfnuður og fátækt í heiminum
Undirritaður hefur stöðugt verið að leita af svörum við þessum spurningum: Af hverju er svona mikill ójöfnuður í heiminum? Hvers vegna er veröldin stöðugt að búa til meiri fátækt?
Að horfa til félagslegs darwinisma eða til þess að sumar þjóðir séu fátækari en aðrar fær minna vægi en áður. Enda skiptir þessi þrenna máli: Bretton Woods-samkomulagið, Nixon-sjokkið og stýrð sundrung eru án efa orsök og afleiðing af þeim heimi sem við búum í í dag.
Að fyrirtækin hafi byrjað að fjárfesta meira í hlutbréfum heldur en sínu starfsfólki býr augljóslega til þessa glufu á milli sem stanslaust er verið að reyna berjast fyrir að laga. Þarna stóðu þjóðir meira saman sem gerði minni þjóðum og fólki óháð umhverfinu kleift að kaupa sína fasteign og lifa vellystingarlífi.
Þarna verða lyfjafyrirtæki einnig fyrirferðameiri á fjármálamarkaðinum enda komin með fótinn inn í hlutabréfamarkaðinn. Þá er viðeigandi að spyrja sig: Er það ástæðan af hverju geðheilsa fólks er orðin að kaup og sölu hjá þriðja aðila?
Þarna verður líka til gjá sem myndast á milli geðlækna og sálfræðivísindanna og þá kemur önnur spurning: Er djúp og mannúðleg sálfræði hent út fyrir hagnað geðlyfja?
En það eru auðvitað skrif fyrir aðra grein, þessar tvær spurningar, en áhugavert er að velta þessu fyrir sér í þessum samanburði sem á sér stað á þessum tíma, árið 1970 og upp úr.
Höfundur er seigluráðgjafi.