Grein mín Um Alaskaarðinn og Íslandsarfinn, sem birtist í Kjarnanum 25.05., hefur vakið miklar umræður og margar spurningar, m.a. um það hvers vegna lagaákvæði um þjóðareign á auðlindinni og rétt eigandans til gjaldtöku fyrir nýtingarrétt virðast vera haldlaus í framkvæmd. Fólk spyr sig í forundran, hvernig það má vera að tímabundnar veiðiheimildir sem lögum samkvæmt mynda aldrei lögvarinn eignarrétt eru þrátt fyrir lagaákvæðin meðhöndlaðar sem einkaeign. Þær eru veðsettar fyrir lánum og ganga loks að erfðum. En það eru fleiri spurningar sem vakna af þessu tilefni. Tilgangur þessarar greinar er að svara þeim eftir bestu getu:
1. Hvers vegna aflamarkskerfi, sem í daglegu tali kallast kvótakerfi?
Ástæðan fyrir því að það var tekið upp og fest í sessi, á árunum 1983, 1988 og 1990, er einföld. Fiskifræðingar vöruðu ítrekað við því að frjáls sókn stefndi helstu nytjastofnum í hættu vegna ofveiði. Það yrði því að takmarka sóknina. Niðurstaðan varð sú að ríkið yrði að taka að sér fiskveiðistjórnina. Í framkvæmd gefur ríkið út tilskipanir um hámarksafla fyrir hvern nytjastofn með það að markmiði að veiðarnar yrðu sjálfbærar. Annað meginmarkmiðið var að auka arðsemi greinarinnar með því að sækja minni afla með færri skipum og minni tilkostnaði. Þetta er hvorki meira né minna en bylting í atvinnuháttum þjóðar sem löngum hefur byggt afkomu sína á frjálsum og takmarkalausum veiðum. Afleiðingarnar hafa verið djúpstæðar og langvarandi, einkum í mörgum sjávarplássum á landsbyggðinni, ekki síst á Vestfjörðum.
2. En er framsalið nauðsynlegt?
Framsalið þjónar öðru meginmarkmiði kerfisins, nefnilega að fækka skipum við að sækja takmarkaðan afla og draga þannig úr kostnaði. Af því leiðir aukin hagkvæmni og arðsemi. Með skiptum á veiðiheimildum geta útgerðarmenn aukið sérhæfni. Þannig hafa veiðiheimildirnar, sem upphaflega var úthlutað þeim sem á viðmiðunarárum höfðu gert út, skipt um eigendur. Fjölmargir útgerðarmenn hafa verið keyptir út úr greininni. Smám saman hafa veiðiheimildirnar safnast á æ færri hendur. Þetta er einn helsti galli óbreytts kerfis, sem og að nýliðun í greininni er torveld.
3. En hvers vegna voru auðlindagjöld ekki lögð á strax með framsalinu?
Ástæðan er sú að á þeim tíma hafði engin auðlindarenta myndast sem andlag veiðileyfagjalds. Sjávarútvegurinn var á þeim tíma sokkinn í skuldir eftir langvarandi fjárfestingafyllerí fyrri ára. Flotinn var alltof stór. Það var samdráttarskeið 1988 – 94, minnkandi afli og versnandi viðskiptakjör. Flest útgerðarfyrirtæki voru rekin með tapi. Framsalið var heimilað til að hraða hagræðingu í greininni þannig að hún stæði framvegis undir auðlindagjöldum. Þetta tók nokkur ár. Næstu árin var lagt á sérstakt „þróunargjald“. Það rann í úreldingasjóð fiskiskipa og átti sinn þátt í bættri afkomu útgerðarinnar. Þegar leið nær aldmótunum 2000 fór uðlindarentan vaxandi í skjóli takmarkaðrar sóknar.
4. Hver er árangurinn?
Markmiðið með kerfinu var sem áður sagði tvíþætt: 1) Sjálfbærar veiðar 2) aukin arðsemi. Árangurinn telst vera viðunandi. Það eru engir nytjastofnar innan lögsögunnar taldir vera í útrýmingarhættu. Samt hefur ekki tekist að auka afrakstur helstu nytjastofna til jafns við það sem mest var á liðinni öld. Veiðarnar eru því sjálfbærar þótt afraksturinn sé minni en þegar mest var áður fyrr. En arðsemi veiðanna er með því besta sem gerist á heimsvísu. Það er því sem næst eingöngu því að þakka að ríkisvaldið hefur takmarkað sóknina. Í þeim skilningi eru veiðiheimildirnar einkaleyfi. Handhafar þeirra öðlast einkarétt sem stendur ekki nein ógn af samkeppni. Þannig myndast nokkuð sem heitir „auðlindarenta“ sem er undirstaða auðlindagjalda.
5. Hvað er auðlindarrenta?
Auðlindarentan verður til í skjóli takmarkaðrar sóknar. Henni var áður eytt með takmarkalausri sókn og hömlulausri samkeppni. Þegar útgerðin hefur greitt allan kostnað við veiðarnar (fjárfestingar- og rekstrarkostnað, afborganir af lánum, hlut sjómanna, olíu og veiðafærakostnað, skatta og gjöld) stendur eftir auðlindarenta, í skjóli takmarkaðrar sóknar. Það er þetta sem skýrir stórbætta arðsemi veiðanna. Deilur s.l. áratugi um auðlindargjöld snúast fyrst og fremst um ráðstöfun auðlindarentunnar. Tilheyrir hún eiganda auðlindarinnar, sem hefur takmarkað sóknina, og þar með aukið arðsemina? Eða tilheyrir hún útgerðarmanninum, sem fékk sinn nýtingarrétt í skjóli takmarkaðrar sóknar?
Frá og með seinustu aldamótum hefur auðlindarrentan numið tugum milljarða króna á ári að meðaltali. Álögð auðlindagjöld hafa hins vegar sjaldnast dugað fyrir kostnaði ríkisins af þjónustu við sjávarútveginn (hafnir, hafrannsóknir, landhelgisgæsla, fiskveiðistjórnunin o.s.frv.). Á sama tíma hafa veiðiheimildirnar safnast á æ færri hendur, uns nú er svo komið að fyrirtækjasamsteypur fimm fjölskyldna ráða yfir meira en helmingi allra veiðiheimilda. Þessar fjölskyldur hafa tekið auðlindarrentuna til sín í skjóli pólitísks valds.
6. Er auðlindagjald skattur á landsbyggðina?
Auðlindagjald er ekki skattur heldur sérstakt nýtingargjald. Þetta skýrist best með einfaldri samlíkingu. Sá sem leigir húsnæði borgar leigugjald fyrir afnotin. En hann hefur ekki þar með keypt íbúðina, né heldur hefur hann rétt til að selja hana, veðsetja hana, leigja öðrum eða arfleiða afkomendur sína að henni. Leigugjald fyrir afnot af íbúðinni myndar m.ö.o. ekki lögvarinn eignarétt og er tímabundið. Húseigandinn getur sagt leigjandanum upp. Auðlindagjald er því með öðrum orðum ekki skattur og þ.a.l ekki skattur á landsbyggðina. Þar sem auðlindagjöld renna í þjóðarsjóð eins og t.d. í Alaska og Noregi, er þjóðarsjóðurinn sameign íbúanna og kemur öllum að notum, ekki síst landsbyggðinni þegar honum er varið til uppbyggingar innviða (samgöngur, heilbrigðiskerfi, menntastofnanir).
7. Hvernig á að ákvarða auðlindagjöld?
Hvernig eru auðlindagjöld ákvörðuð? Það eru einkum tvær aðferðir sem koma til greina: 1) að stjórnmálamenn ákvarði auðlindagjöld frá ári til árs eða 2) að veiðiheimildirnar verði boðnar upp þannig að útgerðarmenn sjálfir skilgreini hvað þeir eru reiðubúnir til að borga fyrir einkaleyfi. Íslendingar hafa hingað til valið fyrri kostinn. Það býður heim pólitískri spillingu af verstu sort, eins og alþjóðleg reynsla, sem og okkar eigin, staðfestir. Miklum auði fylgja mikil völd og áhrif. Það er löngum ljóst að handhafar veiðiheimildanna hafa gríðarleg pólitísk áhrif, í kjördæmunum heima fyrir og á Alþingi. Þess vegna hafa auðlindagjöldin einungis verið til málamynda hingað til. Alþingi hefur sýnt sig að vera ófært um að gæta almannahagsmuna í þessu máli.
8. Uppboðsleiðin er markaðslausn: Hvers vegna ekki að beita henni?
Rökin fyrir því að hafna uppboðsleiðinni voru þau fyrst og fremst, að henni fylgir að öðru jöfnu mikil samþjöppun veiðiheimilda nema sérstaklega séu settar skorður við því. Reynslan sýnir að samþjöppun veiðiheimilda hefur orðið engu að síður í óbreyttu kerfi. Spurningin snýst því um það, hvers konar reglur eigi að setja sem takmarka samþjöppun veiðiheimilda. Setja verður strangar reglur um hámark veiðiheimilda í hlut hvers fyrirtækis og fylgja þeim eftir með öflugu eftirliti. Það hefur brugðist algerlega hér á landi. Við eigum að kynna okkur reynslu Færeyingja, sem hafa farið uppboðsleiðina á undanförnum árum. Við getum einnig lært mikið af reynslu Norðmanna, sem sett hafa ítarlega löggjöf um samfélagslega ábyrgð fyrirtækja í sjávarútvegi. Tilgangurinn er að tryggja að arðurinn af fiskveiðum skili sér til byggðarlaga á landsbyggðinni þar sem sjávarútvegurinn er burðarás atvinnulífsins. Eðlilegt væri að fela stofnun eins og Þjóðhagsstofnun var að reikna upphæð auðlindarentunnar á ári hverju þannig að við hættum þeim leiða ávana að rífast um staðreyndir. Það verður að teljast fráleitt að byggja ákvörðun um auðlindagjöld á úreltum upplýsingum eins og hér tíðkast.
9. Hvað er þjóðarsjóður?
Í grein minni Um Alaskamódelið kom fram að olíulindirnar í Alaska eru lögum samkvæmt, sameign Alaskabúa og að tekjur fylkisins af olíuvinnslunni renna að stærstum hluta í þjóðarsjóð en að hluta er þeim dreift til allra íbúa fylkisins með reglubundnum beingreiðslum. Þjóðarsjóðurinn er fjárfestingarsjóður, sem skilar arði og vöxtum. Þannig munu Alaskabúar njóta arðs af auðlindinni, jafnvel eftir að hún er þrotin. Svipaða sögu er að segja af Norðmönnum. Tekjur norska ríkisins af olíu- og gasauðlindum Noregs hafa nú bráðum í hálfa öld runnið í sérstakan þjóðarsjóð sem er stærsti fjárfestingarsjóður í heimi. Síðan þarf að ná pólitískri sátt um það, hvernig þessum miklu fjármunum verði best varið með hagsmuni allrar þjóðarinnar fyrir augum.
10. Er ríkið bótaskylt ef úthlutun veiðiheimilda verður breytt?
Svarið við þessari spurningu er klárt og kvitt: NEI. Ríkið er ekki bótaskylt. Lagatextinn, og vilji löggjafans þar með, er skýr. Í 1. grein laga (1990) um stjórn fiskveiða segir: „Úthlutun veiðiheimilda samkvæmt lögum þessum mynda ekki eignarrétt eða óafturkallanlegt forræði einstakra aðila yfir veiðiheimildum“. Skýring á þýðingu þessa ákvæðis í nefndaráliti hljóðar svo: „Lagt er til að bætt verði inn í 1. gr. til áhersluaukningar ákvæði þar sem ótvírætt er tekið fram að úthlutun veiðiheimilda skv. lögunum stofni ekki eignarrétt né skerði forræði löggjafans til að ákveða síðar, án bótaskyldu til einstakra útgerða, breytingu á fyrirkomulagi við stjórn fiskveiða.
Margir óttast að dómsstólar kunni að líta svo á að útgerðarmenn hafi áunnið sér hefðarrétt yfir veiðiheimildunum, í skjóli aðgerðaleysis Alþingis. En dómsstólar hafa tekið á þessu álitaefni. Í dómi Hæstaréttar nr. 12/2000 segir m.a.: „Til þess verður og að líta að skv. 3. málslið 1. gr. laganna myndar úthlutun veiðiheimilda ekki eignarétt eða óafturkallanlegt forræði einstakra manna yfir þeim, eins og áður segir.“...“Í skjóli valdheimilda sinna getur Alþingi kveðið nánar á um réttinn til fiskveiða, bundið hann skilyrðum eða innheimt fyrir hann frekara fégjald en nú er gert, vegna breyttrar sjónarmiða um ráðstöfun þeirrar sameignar íslensku þjóðarinnar sem nytjastofnar á Íslandsmiðum eru.“
Þurfum við frekar vitnanna við?
11. Varist hræðsluáróður
Það eru gríðarlegir hagsmunir í húfi. Þeir sem hafa orðið ofurríkir, í skjóli pólitísks valds, í óbreyttu kerfi mun skirrast einskis við að hræða almenning frá öllum tillögum um róttækar breytingar. Tilraunir til að ná samningum, um innköllun lítils brots af veiðiheimildum á ári hverju (tæki allt að 40 ár!) hafa verið reyndar, án árangurs. Hræðsluáróðri verður miskunarlaust beitt um að auðlindagjöld, sem taki mið af markaðsaðstæðum, séu skattur á landsbyggðina. Fyrirtækin verði lögð í rúst, fjöldaatvinnuleysi taki við og fiskmarkaðir erlendis verði í hættu. Allt þetta og fleira til viðbótar verður notað til að hræða fólk frá raunhæfum aðgerðum. Kannski eru að verða seinustu forvöð til að taka á málinu af festu, áður en auðræðið leysir lýðræðið af hólmi. Þá verður of seint að spyrja „hverjir eiga Ísland?“ Svarið verður þá ekki lengur í okkar höndum.
12. En hvað með stjórnarskrána?
Fyrir liggur að yfirgnæfandi meirihluti þjóðarinnar vill að auðlindir hennar verði lýstar ævarandi sameign þjóðarinnar í nýrri stjórnarskrá. Það á að tryggja með varanlegum hætti að einkaaðilar, innlendir og erlendir, geti ekki sölsað þær undir sig. Í átta ár hefur þjóðin beðið eftir því að Alþingi tryggi að þjóðarviljinn fái að ráða. Það hefur ekki tekist hingað til. Við verðum að vera sérstaklega á verði gagnvart öllum tilraunum til málamiðlunar sem ekkert hald er í. Það er ófrávíkjanleg krafa að gildandi lagaákvæði um að veiðiheimildir séu tímabundnar og myndi hvorki lögvarinn eignarétt né bótaskyldu á ríkissjóð sé þeim breytt eða þær afturkallanlegar, standi óhögguð sem og að gjaldtaka fyrir afnotaréttinn taki mið af markaðsaðstæðum.
13. Og auðlindirnar eru fleiri – en eru þær okkar?
Íslendingar eru rík þjóð að náttúruauðlindum. Það á ekki bara við um helstu nytjastofna innan fiskveiðilögsögunnar. Það á við um orkulindirnar, í fallvötnum og jarðhita. Það á við um landið og vatnið, fyrir utan náttúruperlurnar, sem munu áfram laða að ferðamenn, þegar veirufaraldrinum linnir. En það skortir mikið á að Íslendingar hafi mótað sér framsýna auðlindastefnu. Krafan um að þjóðin fái notið arðs af fiskveiðiauðlindinni er því bara hluti af stærra máli, af því að sama máli gegnir um aðrar auðlindir okkar líka. Þess sjást nú þegar merki að jafnt innlendir sem erlendir gróðafíklar seilist eftir eignahaldi á löndum og orkulindum, án þess að þjóðin hafi varann á og án þess að stjórnvöld bregðist við, svo sem vera bæri. Og það er stutt í það að vatnið - tært og ómengað – verði eftirsóttasta auðlind Íslands. Nú þegar er svo komið í heiminum að vatnsskortur herjar á íbúa margra stærstu borga heimsins. Framundan er miskunarlaust kapphlaup um að komast yfir eignarhald á og umráð yfir vatnslindum. Það er kominn tími til að Íslendingar vakni af dvala sínum og taki til þeirra ráða sem duga í tæka tíð til að tryggja eignarhald sitt á auðlindum þjóðarinnar.
...............................................................................
Í fyrri grein minni um Alaskaarðinn og Íslandsarfinn lagði ég til að stjórnarandstaðan tæki nú höndum saman um heildstæða og framkvæmanlega aðgerðaráætlun um nauðsynlegar breytingar á fiskveiðistjórnuninni, eins og hér hefur verið lýst, til að tryggja að þjóðin njóti framvegis arðs af auðlind sinni. Þessa aðgerðaráætlun ber að leggja fram í frumvarpsformi á Alþingi. Þar með væri líklegt að næstu kosningar yrðu í reynd þjóðaratkvæðagreiðsla um málið. Fyrir liggur að yfirgnæfandi meirihluti þjóðarinnar styður málið. Málið er brýnt og málsstaðurinn göfugur. Vilji er allt sem þarf.
Greinarhöfundur er fyrrverandi utanríkisráðherra og höfundur bókarinnar Tæpitungulaust: Lífsskoðun jafnaðarmanns (HB Av 2019) þar sem ítarlegar er fjallað um auðlindastefnu jafnaðarmanna.