Stór hluti Íslands, eða alls um 53% landsins, telst vera úthagi. Þetta eru gróin eða hálfgróin svæði sem ekki eru brotin til ræktunar en iðulega nýtt til beitar. Hlutfall úthaga sem líka má kalla mólendi er óvenjulega hátt hérlendis. Annars staðar í Evrópu er yfirborðið landsins yfirleitt akur eða skógur en víðfeðm úthagasvæði eru aftur á móti algeng á þurrkasvæðum jarðar. Á Íslandi er ræktað land eins og eyjar í víðáttu úthagans meðan því er öfugt farið víðast annars staðar í Evrópu.
Moldin er mikilvægur þáttur flestra vistkerfa. Hún er, eins og vatn og andrúmsloftið, ein af undirstöðum lífs á jörðinni, í senn búsvæði óteljandi lífvera, beður og rótfesta fyrir gróðurinn, geymsla og uppspretta næringarefna. Moldin varðveitir meðal annars og miðlar kolefni (C) sem er límið í lífkeðjunni og allir þekkja nú sem lykilefni í óðahlýnun andrúmsloftsins.
Við Íslendingar höfum ekki farið vel með þessar auðlindir okkar, úthagann og moldina, sumpart vegna vanþekkingar en líka þrátt fyrir betri vitund – það er önnur saga.
Staðan
Athygli og aðgerðir vegna uppsöfnunar kolefnis í andrúmsloftinu á formi koltvísýrings (CO2) hafa hingað til fyrst og fremst beinst að þeim þætti sem tengist beinum umsvifum manna, þ.e. samgöngum, landbúnaði, stóriðju og úrgangslosun. Loftslagsbókhaldið hefur líka lagt megináherslu á þessa þætti. Þó hefur lengi verið vitað að mikið magn kolefnis losnar úr mold undir framræstu, ofbeittu og öðru röskuðu landi. Athygli alþjóðasamfélagsins beinist nú æ meira að þessum þætti og Evrópusambandið hefur sett fram kröfu um að losun frá landi verði talin fram með býsna nákvæmum hætti æi opinberu bókhaldi landsins.
Og hvar stöndum við gagnvart þeirri kröfu? Á undanförnum áratugum hefur margt verið gert og umtalsverðrar þekkingar aflað um nýtingu landsins, kolefnisbúskap þess, áhrif framræslu á losung gróðurhúsalofttegunda og hverju endurheimt landgæða, svo sem með vistheimt eða ræktun skóga, getur skilað. Samt eru enn fyrir hendi mjög stór þekkingargöt – jafnvel óhætt að segja risavaxin – sem nauðsynlegt er að fylla í til þess að hægt verði að bæta landnýtingu á Íslandi, draga úr losun kolefnis frá landinu, uppfylla þær loftslagsskuldbindingar sem við höfum undirgengist gagnvart Evrópu og ekki síst eigin markmið um kolefnishlutleysi Íslands árið 2040.
Nokkrar tilraunir hafa verið gerðar til að meta kolefnislosun frá þurrum úthaga byggðar á tiltækri þekkingu. Munurinn á þrengsta og víðasta mati sem komið hefur út úr þeim útreikningum er yfir tuttugufaldur eða frá 2.000 upp í 45.000 kt CO2 ígilda á ári. Þetta sýnir í hnotskurn hve lítið við vitum í raun um kolefnisbúskap þessa gríðarstóra hluta landsins. Mikill munur á ofangreindum matstölum stafar fyrst og fremst af mismunandi forsendum sem menn gefa sér um losun ólíkra landgerða og ástand þeirra með tilliti til jarðvegsrofs o.fl. þátta – land sem er rofið losar kolefni meðan velgróið land bindur það. Ofbeitt land missir einnig smám saman kolefnisforða sinn. Til að fá áreiðanlega tölu um heildarlosun eða bindingu þarf til viðbótar við upplýsingar um ástand að vita heildarflatarmál ólíkra landgerða. Þessar upplýsingar vantar að stórum hluta.
Tuttuguföld óvissa um losun kolefnis frá íslenskum úthaga er æpandi þekkingargat og endurspeglar því miður að einhverju leyti áhugaleysi þeirra sem um hafa véla. Það er afar brýnt að þessu áhugaleysi linni og að losun frá úthaga verði kortlögð með ítarlegum hætti; þekking er grunnur aðgerða til að minnka losun og til að mótvægisaðgerðir séu markvissar. Rannsóknir á kolefnisbúskap landsins eru ekki fokdýr geimvísindi en krefjast vissulega yfirlegu og nákvæmni sem hentar vel doktorsnemum undir leiðsögn sérfræðinga. Þekking á kolefnisbúskap er nauðsynleg grunnþekking sem rannsóknasjóðum finnst yfirleitt ekki spennandi að styrkja. Þess vegna þarf sérstakt fjármagn frá hinu opinbera til í að vinna þessar rannsóknir.
Okkar tilgáta er að binding kolefnis í mold og gróðri ásamt samdrætti í losun frá framræstu votlendi og úthaga – að ógleymdum mannlegum umsvifum – geti verið það mikil að unnt sé á fáum árum að ná kolefnishlutleysi fyrir allt Ísland. Samhliða yrði unnt að kolefnisjafna starfsemi er lýtur að nýtingu landsins, m.a. framleiðslu landbúnaðarafurða með búfé.
Átaks er þörf
Landbúnaðarháskóli Íslands, Landgræðslan og Skógræktin lögðu á síðasta hausti – eftir vel heppnað málþing um sama efni – fyrir umhverfis- og auðlindaráðherra og talskonu ríkisstjórnarinnar í loftslagsmálum, fjarska hóflega áætlun sem færi langt með að stoppa í það stóra þekkingargat sem tíundað er hér að ofan. Átakið mundi meðal tryggja þjálfun þriggja nýrra sérfræðing (nýdoktora) á sviði landnýtingar, stórefla innviði til jarðvegsrannsókna og skila af sér kolefnisforðakorti og -losunarkorti af Íslandi. Með þannig tól að vopni væri hægt að stýra landbótaaðgerðum með markvissum hætti og fara í landgræðslu- og vistheimtaraðgerðir þar sem þeirra er mest þörf og mest von um skjótan árangur. Ofangreind áætlun mundi kosta ríkissjóð 40–60 milljónir á ári í fjögur til fimm ár, eftir því hve vel yrði í lagt.
Við höfum lagt áherslu á að átakið skili nýrri sérfræðiþekkingu. Það er mikilvægt því margir þeirra vísindamanna sem mest hafa fengist við rannsóknir tengdar landnýtingu eru að nálgast eftirlaunaaldur. Átakið mun líka stórefla alla innviði til rannsókna á sviðinu –verða grunnur að sameiginlegu kolefnissetri ofangreindra stofnana og fleiri. Þá hafa viðkomandi stofnanir lofað vinnuframlagi vísindamanna sinna til verkefnisins. Mikilvægt er að ábyrgðin og stjórn verkefnisins falli ekki á sömu stofnanir og sjá um framkvæmdir og eftirlit með landnýtingu. Háskólasamfélagið þarf að vera í leiðandi stöðu til að tryggja trúverðugleika og þjálfun doktorsnema.
Undirtektir ráðamanna við ofangreindu tilboði hafa einkennst af kurteislegri tortryggni og hafa litlu sem engu skilað hingað til. Bent hefur verið á samkeppnissjóði en eins og þegar hefur verið nefnt falla rannsóknir á kolefnisforða og kolefnisflæði illa að markmiðum sjóðanna. Þegar hið opinbera þarf á tilteknum upplýsingum að halda hefur sýnt sig að ekki er hægt að treysta á samkeppnissjói til að afla þeirra. Sjóðirnir geta aftur á móti komið að tengdum rannsóknum sem falla betur að markmiðum þeirra.
Vonandi bera stjórnvöld gæfu til þess að grípa ofangreint kostaboð landsliðsins í landnýtingu á lofti og þannig stórefla þekkingu okkar á kolefnisbúskap Íslands – án þeirrar þekkingar verður erfitt að skila fullnægjandi kolefnisbókhaldi til alþjóðasamfélagsins eða færa sönnur á fyrirhugaða kolefnisjöfnun Íslands.
Höfundur er deildarforseti við Landbúnaðarháskóla Íslands.