„Íslendingar einskis meta alla sem þeir geta“ (Davíð Stefánsson frá Fagraskógi).
Þegar ég sannspurði, að fjármálaráðherra hefði rift ráðningu Þorvalds Gylfasonar, prófessors, í starf ritstjóra tímarits, sem fjármálaráðuneyti Norðurlanda standa sameiginlega að, rifjaðist upp fyrir mér eftirfarandi saga:
Ég var einu sinni fjármálaráðherra í fjórtán mánuði á árunum 1987-88. Ég var þokkalega undir það búinn, því að ég hafði sérstaklega lagt mig eftir ríkisfjármálum (skattapólitík og hlut hennar í hagstjórn) í námi mínu við Edinborgarháskóla. Á fyrsta vinnudegi í ráðuneytinu tók á móti mér ráðuneytisstjóri, sem var formaður fjáröflunarnefndar Sjálfstæðisflokksins. Ég komst ekki að því fyrr en seinna, að hann hafði verið látinn hætta í Seðlabankanum vegna leti. Þótt Seðlabankamönnum hafi gegnum tíðina verið um margt mislagðar hendur, rataðist þeim þarna satt á munn.
Ég var tilbúinn með vinnuprógram. Það átti að endurskipuleggja frá grunni allt tekjustofna- og skattakerfi ríkisins, og gera það strax. Ég boðaði vinnufund með tekjudeild ráðuneytisins þegar í stað. Ég lagði fram verklýsingu og bauð upp á umræður um útfærslu. Smám saman rann það upp fyrir mér, að þarna voru aðallega samankomnir nýútskrifaðir unglingar úr lögfræðideild háskólans. Umræðurnar leiddu í ljós, að þeir höfðu aldrei heyrt orðið virðisaukaskattur nefnt. Niðurstaða fundarins var, að ráðuneytið réði ekki við verkefnið.
Næstu daga þurfti ég að ráða átta manns, að mig minnir, með þekkingu og reynslu víðs vegar að úr þjóðfélaginu og atvinnulífinu, utan stjórnkerfisins. Reyndar kom á daginn, að í ráðuneytinu leyndust nokkrir menn, sem kunnu til verka og voru þar vegna eigin verðleika en ekki út á flokksskírteinið. Þar fór fremstur í flokki Indriði H. Þorláksson, þýsklærður sérfræðingur í ríkisfjármálum og margra manna maki til verka. Hann hafði bara ekki verið boðaður á fundinn. Indriði tók að sér verkstjórnina.
Við unnum dag og nótt allt haustið, milli hátíða og fram á næsta ár. Þegar ráðherrann loksins flutti framsöguræðu sína fyrir skattkerfisbyltingunni – því að það var hún – á Alþingi, voru lokakaflarnir enn í vélritun og sendir með hraðboða frá Arnarhvoli niður á Alþingi. Seinna, þegar ég lýsti þessari allsherjar uppstokkun á tekjustofnakerfi ríkisins, fyrir starfsbræðrum mínum, fjármálaráðherrum Norðurlanda, sagði sá sænski (Kjell- Olof Feldt), að í Svíþjóð hefði svona iðnbylting skattkerfisins tekið að lágmarki níu ár. Við höfðum ekki þann tíma til ráðstöfunar. Ríkisstjórnin sprakk í loft upp eftir 14 mánuði. Skattkerfisbreytingin er því sem næst það eina, sem eftir hana liggur.
Gunnar Helgi Kristinsson, prófessor í félagsfræði við háskólann, staðfestir þetta í niðurstöðu rannsóknar á opinberum embættaveitingum fyrir nokkrum árum. Ef ég man þetta rétt, komst hann að þeirri niðurstöðu, að um það bil helmingur umsækjenda í auglýst störf á vegum hins opinbera, hafi sannanlega verið ráðnir út á flokksskírteinin. Og trúlega talsvert fleiri en það, þótt sönnunum verði varla við komið.
En þið megið ekki misskilja þetta. Það er ekki bannað að hafa skoðanir. Það verða bara að vera réttar skoðanir, að mati Flokksins. Var það ekki þessi sami fjármálaráðherra, sem réði Hannes Hólmstein Gissurarson, prófessor í stjórnmálafræði, til þess að rannsaka orsakir Hrunsins (og borgaði honum tíu milljónir fyrir ómakið)? Það þurfti nefnilega að hreinsa mannorð fyrrverandi formanns flokksins, sem var bæði forsætisráðherra og Seðlabankastjóri í aðdraganda Hrunsins. Þetta var vandaverk og ekki á færi annarra en þess manns, sem er viðurkenndur helsti hugmyndafræðingur Flokksins. Og það þótti vel við hæfi, að skattgreiðendur yrðu látnir borga fyrir þessa pólitísku andlitslyftingu.
Já, en hvað kemur þetta málinu við? Jú, sjáðu til: Það eru pólitískar mannaráðningar af þessu tagi, til að standa vörð um meinta hagsmuni flokksins fremur en þjóðarinnar, sem valda því, hvernig er komið málum þjóðarinnar í dag. Dæmin eru legio. Íslensk stjórnsýsla er að verða fræg að endemum fyrir sjúsk og fúsk. Ég læt lesandanum eftir að tíunda dæmin. Það er auðvitað grafalvarlegt mál, ef menn geta ekki treyst því, að menntun og starfsreynsla sé metin að verðleikum. Geðþóttastjórn af þessu tagi rís ekki undir sæmdarheitinu réttarríki. Og afleiðingarnar blasa við. Hversu margt hæfileikafólk– í okkar þjóðfélagi, þorir ekki fyrir sitt litla líf að tjá skoðanir sínar opinberlega eða að fylgja fram sannfæringu sinni í þágu góðs málstaðar, af ótta við að baka sér vanþóknun valdhafanna? Ríki óttans er andstæðan við tjáningarfrelsið og réttarríkið. Svo einfalt er það.
Höfundur er fyrrverandi utanríkisráðherra.