Ríki óttans?

Fyrrverandi utanríkisráðherra skrifar um það sem hann kallar valdníðslu fjármála- og efnahagsráðherra á Þorvaldi Gylfasyni.

Auglýsing

„Íslendingar einskis meta alla sem þeir geta“ (Davíð Stefánsson frá Fagraskógi).

Þegar ég sannspurði, að fjármálaráðherra hefði rift ráðningu Þorvalds Gylfasonar, prófessors, í starf ritstjóra tímarits, sem fjármálaráðuneyti Norðurlanda standa sameiginlega að, rifjaðist upp fyrir mér eftirfarandi saga:

Ég var einu sinni fjármálaráðherra í fjórtán mánuði á árunum 1987-88. Ég var þokkalega undir það búinn, því að ég hafði sérstaklega lagt mig eftir ríkisfjármálum (skattapólitík og hlut hennar í hagstjórn) í námi mínu við Edinborgarháskóla. Á fyrsta vinnudegi í ráðuneytinu tók á móti mér ráðuneytisstjóri, sem var formaður fjáröflunarnefndar Sjálfstæðisflokksins. Ég komst ekki að því fyrr en seinna, að hann hafði verið látinn hætta í Seðlabankanum vegna leti. Þótt Seðlabankamönnum hafi gegnum tíðina verið um margt mislagðar hendur, rataðist þeim þarna satt á munn. 

Ég var tilbúinn með vinnuprógram. Það átti að endurskipuleggja frá grunni allt tekjustofna- og skattakerfi ríkisins, og gera það strax. Ég boðaði vinnufund með tekjudeild ráðuneytisins þegar í stað. Ég lagði fram verklýsingu og bauð upp á umræður um útfærslu. Smám saman rann það upp fyrir mér, að þarna voru aðallega samankomnir nýútskrifaðir unglingar úr lögfræðideild háskólans. Umræðurnar leiddu í ljós, að þeir höfðu aldrei heyrt orðið virðisaukaskattur nefnt. Niðurstaða fundarins var, að ráðuneytið réði ekki við verkefnið.

Næstu daga þurfti ég að ráða átta manns, að mig minnir, með þekkingu og reynslu víðs vegar að úr þjóðfélaginu og atvinnulífinu, utan stjórnkerfisins. Reyndar kom á daginn, að í ráðuneytinu leyndust nokkrir menn, sem kunnu til verka og voru þar vegna eigin verðleika en ekki út á flokksskírteinið. Þar fór fremstur í flokki Indriði H. Þorláksson, þýsklærður sérfræðingur í ríkisfjármálum og margra manna maki til verka. Hann hafði bara ekki verið boðaður á fundinn. Indriði tók að sér verkstjórnina. 

Við unnum dag og nótt allt haustið, milli hátíða og fram á næsta ár. Þegar ráðherrann loksins flutti framsöguræðu sína fyrir skattkerfisbyltingunni – því að það var hún – á Alþingi, voru lokakaflarnir enn í vélritun og sendir með hraðboða frá Arnarhvoli niður á Alþingi. Seinna, þegar ég lýsti þessari allsherjar uppstokkun á tekjustofnakerfi ríkisins, fyrir starfsbræðrum mínum, fjármálaráðherrum Norðurlanda, sagði sá sænski (Kjell- Olof Feldt), að í Svíþjóð hefði svona iðnbylting skattkerfisins tekið að lágmarki níu ár. Við höfðum ekki þann tíma til ráðstöfunar. Ríkisstjórnin sprakk í loft upp eftir 14 mánuði. Skattkerfisbreytingin er því sem næst það eina, sem eftir hana liggur.

Auglýsing
Hvað kemur þetta við valdníðslu fjármálaráðherrans gagnvart Þorvaldi Gylfasyni? Jú, sjáið þið til: Fjármálaráðherrann segir okkur, að hann geti ekki staðið að ráðningu Þorvalds, þrátt fyrir að hann var talinn hæfastur umsækjenda, af því að hann er ekki í Flokknum. Hann hafi m.a.s. lýst opinberlega skoðunum, sem séu ekki þóknanlegar formanni Sjálfstæðisflokksins, nefnilega fjármálaráðherranum. Það er málið. Enginn rengdi yfirburðahæfni Þorvalds, né óvenjulega alþjóðlega reynslu, enda var hann metinn af dómbærum aðilum hæfastur umsækjenda til starfsins. Það kemur bara ekki málinu við samkvæmt íslenskri stjórnsýsluhefð. Flokkurinn verður að geta treyst sínum mönnum. 

Gunnar Helgi Kristinsson, prófessor í félagsfræði við háskólann, staðfestir þetta í niðurstöðu rannsóknar á opinberum embættaveitingum fyrir nokkrum árum. Ef ég man þetta rétt, komst hann að þeirri niðurstöðu, að um það bil helmingur umsækjenda í auglýst störf á vegum hins opinbera, hafi sannanlega verið ráðnir út á flokksskírteinin. Og trúlega talsvert fleiri en það, þótt sönnunum verði varla við komið. 

En þið megið ekki misskilja þetta. Það er ekki bannað að hafa skoðanir. Það verða bara að vera réttar skoðanir, að mati Flokksins. Var það ekki þessi sami fjármálaráðherra, sem réði Hannes Hólmstein Gissurarson, prófessor í stjórnmálafræði, til þess að rannsaka orsakir Hrunsins (og borgaði honum tíu milljónir fyrir ómakið)? Það þurfti nefnilega að hreinsa mannorð fyrrverandi formanns flokksins, sem var bæði forsætisráðherra og Seðlabankastjóri í aðdraganda Hrunsins. Þetta var vandaverk og ekki á færi annarra en þess manns, sem er viðurkenndur helsti hugmyndafræðingur Flokksins. Og það þótti vel við hæfi, að skattgreiðendur yrðu látnir borga fyrir þessa pólitísku andlitslyftingu.

Já, en hvað kemur þetta málinu við? Jú, sjáðu til: Það eru pólitískar mannaráðningar af þessu tagi, til að standa vörð um meinta hagsmuni flokksins fremur en þjóðarinnar, sem valda því, hvernig er komið málum þjóðarinnar í dag. Dæmin eru legio. Íslensk stjórnsýsla er að verða fræg að endemum fyrir sjúsk og fúsk. Ég læt lesandanum eftir að tíunda dæmin. Það er auðvitað grafalvarlegt mál, ef menn geta ekki treyst því, að menntun og starfsreynsla sé metin að verðleikum. Geðþóttastjórn af þessu tagi rís ekki undir sæmdarheitinu réttarríki. Og afleiðingarnar blasa við. Hversu margt hæfileikafólk– í okkar þjóðfélagi, þorir ekki fyrir sitt litla líf að tjá skoðanir sínar opinberlega eða að fylgja fram sannfæringu sinni í þágu góðs málstaðar, af ótta við að baka sér vanþóknun valdhafanna? Ríki óttans er andstæðan við tjáningarfrelsið og réttarríkið. Svo einfalt er það.

Höfundur er fyrrverandi utanríkisráðherra.

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Frá vígslu málverkanna í febrúar árið 2018. Síðan þá hafa þau ekki verið sýnd hlið við hlið.
Portrettmyndir Obama-hjónanna gera víðreist um Bandaríkin
Aðsóknarmet var slegið í National Portrait Gallery í Washington D.C. eftir að opinberar portrettmyndir Obama-hjónanna bættust í safneignina árið 2018. Nú eru myndirnar á leið í 11 mánaða reisu vítt og breitt um Bandaríkin.
Kjarninn 19. júní 2021
Stefan Löfven, forsætisráðherra Svíþjóðar.
Afnám leiguþaks gæti orðið Löfven að falli
Svíþjóð hefur, líkt og önnur lönd í Evrópu, reynt að sporna gegn hröðum leiguverðshækkunum með leiguþaki. Nú gæti farið svo að sænska ríkisstjórnin falli vegna áforma um að afnema slíkar takmarkanir fyrir nýbyggingar.
Kjarninn 18. júní 2021
Frá Akureyri.
Starfsfólki sagt upp á hjúkrunarheimilinu Hlíð á Akureyri
Forseti ASÍ gagnrýnir hagræðingaraðgerðir sem bitna fyrst og fremst á starfsfólki að hennar mati. Heilsuvernd tók við rekstri Öldrunarheimila Akureyrar í apríl á þessu ári.
Kjarninn 18. júní 2021
Kona gengur fram hjá minningarvegg um fórnarlömb COVID-19 í London.
Delta-afbrigðið á fleygiferð á Bretlandseyjum
Tilfellum af COVID-19 fjölgaði um 50 prósent í Bretlandi á einum mánuði frá 5. maí til 7. júní. Smitum af völdum Delta-afbrigðisins svokallaða fjölgaði um tæp 80 prósent milli vikna. Ný bylgja segja sumir en aðrir benda á að hún verði aldrei skæð.
Kjarninn 18. júní 2021
Komum erlendra ferðamanna til landsins fækkaði um 81 prósent milli 2019 og 2020.
Íslendingar eyddu minna á ferðalögum innanlands í fyrra heldur en árið 2019
Heildarútgjöld íslenskra ferðamanna innanlands námu 122 milljörðum króna í fyrra og drógust saman um 14 prósent frá 2019. Hlutfall ferðaþjónustu í landsframleiðslu dróst saman um rúmlega helming á tímabilinu, fór úr átta prósentum niður í 3,9 prósent.
Kjarninn 18. júní 2021
Upplýsingar um alla hluthafa og hversu mikið þeir eiga í skráðum félögum hafa legið fyrir á opinberum vettvangi undanfarið. Þetta telur Persónuvernd stríða gegn lögum.
Persónuvernd telur víðtæka birtingu hluthafalista fara gegn lögum
Vegna nýlegra lagabreytinga hefur verið hægt að nálgast heildarhluthafalista skráðra félaga í Kauphöllinni í samstæðureikningum á vef Skattsins. Persónuvernd telur þessa víðtæku birtingu fara gegn lögum.
Kjarninn 18. júní 2021
Flókið að fást við fólk sem lætur sannleikann ekki þvælast fyrir sér
Kerfið brást Helgu Björgu harðlega eftir að hún upplifði stöðugt áreiti borgarfulltrúa Miðflokksins í um tvö ár án þess að geta borið hönd fyrir höfuð sér. Málið hefur haft margvíslegar alvarlegar afleiðingar á andlega og líkamlega heilsu hennar.
Kjarninn 18. júní 2021
Horft frá Nauthólsvík yfir á Kársnes og að Hamraborg, þar sem Kópavogsbær stefnir á uppbyggingu þéttrar byggðar meðfram væntum borgarlínuleiðum.
Telur kjörnum fulltrúum skylt að rýna í hugmyndir um ódýrari Borgarlínu
Bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Kópavogi vill rýna betur í hugmyndir um ódýrari Borgarlínu, sem lagðar hafa verið fram að undanförnu, svo vilji sveitarstjórna sé skýr í málinu. Einnig viðrar hún sérstakar áhyggjur af rekstrarkostnaði.
Kjarninn 18. júní 2021
Meira úr sama flokkiAðsendar greinar