Stóri punkturinn í Þorvaldar Gylfasonar málinu er hversu smátt það er. Hversu langt er seilst í lágkúrunni þegar um er að ræða litla hagsmuni.
Þorvaldur Gylfason er alþjóðlega virtur fræðimaður og hefur verið ritstjóri fjölda fræðirita. Hann var þar á meðal aðalritstjóri eins virtasta hagfræðitímarits í Evrópu, European Economic Review, frá 2002-2010. Hann var líka í ritstjórn Scandinavian Economic Review, Macroeconomic Dynamics og Japan and the World Economy. Allt eru þetta tímarit sem ég þekki vel úr mínum fræðaheimi og vitna oft til. Ég verð hins vegar að játa að ég hef aldrei lesið, vitnað í eða yfirleitt heyrt minnst á Nordic Economic Policy Review. Það er því ekki nema von að skandinavískir frændur okkar hafi verið himinlifandi þegar útlit var fyrir þeim hvalreka sem það hefði verið að fá Þorvald í þetta ritstjórnarstarf.
Hvers eðlis eru ritrýnd fræðitímarit í hagfræði? Þetta eru ekki dagblöð með Staksteinum og skoðanabauli. Í þau eru skrifaðar rannsóknargreinar, yfirleitt af háskólamönnum, sem ráða eigin efnistökum, þótt stundum séu ákveðin þema eins og virðist vera í tilfelli þessa rits. Ritstjórinn sendir svo greinarnar til sjálfstæðra rannsakenda sem fella dóma um hvort efnið sé hæft til birtingar og hvort aðferðarfræðin standist fræðilegar kröfur. Í slík störf ritstjóra veljast þar af leiðandi fræðimenn og konur með doktorspróf í hagfræði sem skilja hvað felst í nútíma fræðistörfum á þessu sviði.
Það er með öllu fáránlegt að íslenskir stjórnmálamenn séu að beita neitunarvaldi á tiltekna fræðimenn í slík störf, vegna þess að þeir hafi einhvern tíma sagt eitthvað ljótt um Sjálfstæðisflokkinn á Facebook. Fyrrum ritstjóri Nordic Economic Review, Lars Calmfors, var enda furðulostinn þegar hann heyrði af því að fjármálaráðuneytið íslenska beitti neitunarvaldi til að koma í veg fyrir ráðningu Þorvaldar Gylfasonar „Þetta er rangt að gera," sagði Lars. Það er óeðlilegt að blanda pólitík í faglegar ráðningar. Lars taldi óhugsandi að slíkt myndi gerast í Svíþjóð. Aðrir Skandinavar hafa tekið í sama streng. Þetta er stórfurðulegt mál.
Þúfnagöngulag hins ljóta klíkusamfélags
Svör Bjarna Benediktssonar eru algerlega opinberandi. Fjósalyktina lekur langar leiðir: „Hér er mögulega gamla kunningjasamfélagið á ferð," segir Bjarni. Hérna blasir við manni þúfnagöngulag hins litla ljóta klíkusamfélags. Tilhneiging Íslendinga er einmitt að heimfæra það hvernig hlutirnir ganga fyrir sér á litla Íslandi – –maður þekkir mann" – upp á heiðvirt fólk sem býr við venjulegar siðvenjur og er vant því að vinnulag sé byggt á faglegum grunni.
Lars Calmfors er heimskunnur hagfræðingur. Hann er fyrrverandi forseti Nóbelsvísindaakademíunnar í hagfræði og prófessor við Stokkhólmsháskóla. Auðvitað þekkir Lars Þorvald, líkt og flesta aðra þjóðhagfræðinga sem standa í fremstu röð í rannsóknum í heiminum í dag. Þannig virkar fræðaheimurinn. Sjálfur hef ég margoft hitt Lars Calmfors.
Og svo segja menn. Þetta er bara pólitík! Hvað ef að Steingrímur J. Sigfússon hefði verið fjármálaráðherra og stungið hefði verið upp á Hannesi Hólmsteini?! Svar: Skandinavískir fræðimenn hefðu aldrei stungið upp á Hannesi Hólmsteini sem ritstjóra fræðirits á grundvelli vísindastarfa Hannesar – því þau eru engin. Þetta er fljótlegt að ganga úr skugga um, til dæmis, með því að gera einfalda leit í Google scholar. Á hinn bóginn er vel hugsanlegt að skandinavískir fræðimenn hefðu stungið upp á Jóni Daníelssyni. Jón nýtur alþjóðlegrar virðingar en er hægra megin í pólitík. Hann hefur eflaust oft látið hitt og þetta flakka á Facebook eða annars staðar. Það hefði verið fullkomlega óeðlilegt ef Steingrímur J., eða hver annar, hefði reynt að standa í veg fyrir faglegri ráðningu á Jóni Daníelssyni sem ritstjóra fræðirits í hagfræði. Svipaða sögu má segja ef að lagt hefði verið til skipun Ragnars Árnasonar eða Þráins Eggertssonar. Hvernig dettur fólki í hug að það geti verið tilefni vanhæfni að umræddur fræðimaður „styðji ekki ríkisstjórn Sjálfstæðisflokksins” líkt og Bjarni Benediktsson hefur sagt? Eru ekki bæði hægri og vinstri stjórnir við lýði þvert og kruss í Skandinavíu á hverjum tíma? Ætli Svíar, Danir, Finnar, Norðmenn séu að lúslesa pólitísk skoðanaskipti á Facebook áður en þeir leggja blessun sína á skipanir ritstjóra í fræðileg tímarit? Hvers konar bull er þetta eiginlega?
Firring og blindni á eðlilegar siðvenjur
Þorvaldarmálið er stórt, vegna þess að það er svo lítið. Enginn hefur heyrst minnst á þetta litla fræðirit áður. En heift og hatur fólks á hægri væng stjórnmálanna á Íslandi á meintum pólitískum andstæðingum er svo stækt að það getur ekki hugsað sér að fólk með „rangar skoðanir” fái nokkur framgang, hérlendis eða annars staðar, svo lengi sem þeir fái nokkru við ráðið. „Ég myndi ekki einu sinni treysta mér til að senda Þorvald út í búð fyrir mig, jafnvel þótt hann væri með miða,” segir Brynjar Níelsson á Facebook. Firring þessara manna og heift og blindni á eðlilega siðvenjur er alger.
Stóra myndin er þessi: Þessir menn hafa ekkert lært eftir allar umræður um frændhygli, skort á fagmennsku og spillingu síðustu ára. Stóra vandamálið á Íslandi er frændhygli og skortur a fagmennsku. Í aðdraganda hrunsins, til dæmis, réði formaður Sjálfstæðisflokksins sjálfan sig seðlabankastjóra og setti hann svo á hausinn. Fyrrum formaður SUS var gerður að forstjóra Fjármálaeftirlitsins þótt hann hefði engar forsendur til þess að gegna því starfi. Bankar voru seldir flokkshestum sem fjármögnuðu kaupin að mestu leyti með lánum hvers til annars úr bönkunum sem þeir keyptu (!), á meðan fjármálaráðuneytið og Fjármálaeftirlitið hraut. Osfrv osfrv. Það er engin ástæða til að segja alla þessa sögu enn og aftur. En maður hélt að þetta væri að breytast.
Í máli Þorvaldar birtist andverðugleikasamfélagið Ísland í allri sinni dýrð. Engan skal ráða í neitt nema sá hinn sami sé „ópólitískur." Og hvað þýðir að vera ópólitískur? Í sjúkum hugarheimi þessa fólks þýðir það að vera „ópólitíkur" að hafa verið virkur í Sjálfstæðisflokknum en kannski ekki inni á þingi akkúrat sem stendur.
Ég sagði það fyrst þegar ég sá þetta ljóta mál poppa upp og segi það aftur: Myglulyktina lekur af þessu langar leiðir. Þetta rifjar upp fyrir mér þá köfnunartilfinningu sem ég stundum hafði þegar ég bjó á Íslandi fyrir meira en tveimur áratugum og horfði upp á hvernig ráðið var í hinar ýmsu stöður í þjóðfélaginu, litlar sem stórar. Mega þeir sem þar véluðu um hafa ævarandi skömm fyrir. Og þeir VG liðar sem leggja blessun sína yfir þennan óþverra ættu að skammast sín. Þeir ættu að minnsta kosti að vita betur.
Höfundur er prófessor í hagfræði við Brown-háskólann í Bandaríkjunum.