Nú eru erfiðir tímar. Kreppa er skollin á í efnahagsmálum og sér ekki fyrir endann á henni. Atvinnuleysi er komið í tveggja stafa tölu. Samdráttur er í nánast öllum sviðum þjóðfélagsins og er spáð 7-10 prósenta samdrætti í vergri landsframleiðslu í ár.
Stjórnvöld bæði ríki og sveitarfélög hafa brugðist við þessari kreppu með margvíslegum hætti til að dempa áhrif kreppunnar sem er tilkomin vegna COVID-19 faraldursins.
Stjórnvöld hafa ekki með sínum aðgerðum reynt að verja ákveðna hópa meir en aðra fyrir þessari kreppu fyrir utan tímabundna hækkun barnabóta sem er á bilinu um 30.000–42.000 kr.(fer eftir tekjum) og er of lítið.
Ég legg til að það verði alvarlega skoðað af stjórnvöldum að hrinda eftirfarandi aðgerðum til framkvæmda.
- Taka upp sk. „barnabox fyrirkomulag“ sem þekkist í Finnlandi. Þessi aðgerð yrði hluti af mæðravernd. Með þessari aðgerð yrði nýju barni og foreldri þess tryggð flest það sem barnið þarf á sínum fyrstu sex mánuðum í lífi sínu, foreldrum að kostnaðarlausu. Í barnaboxinu yrði föt, bleyjur, rúmföt, baðvörur og sjálft boxið væru hægt að nota sem svefnaðstöðu fyrir barnið fyrstu sex mánuðina. Þeir sem af einhverjum ástæðum myndu ekki vilja þessi barnabox myndu fá í staðinn eingreiðslu sem næmi helming af kostnaði við barnaboxin.
- Lækka hámarksþak í almenna greiðsluþátttökukerfinu í heilbrigðisþjónustu strax í haust úr 75.802 kr. á tólf mánaða tímabili niður í 45.000 kr. Sambærileg hlutfallslækkun yrði á hámarki fyrir aldraða, lífeyrisþega og öryrkja. Kostnaður barna vegna heilbrigðisþjónustu verði felldur niður.
- Stórauka, í þrepum, kostnaðarhlutdeild ríkisins í tannréttingakostnaði, þannig að úr því að vera um 12,5% í dag, í 90% eftir þrjú ár.
- Lækka hámarksþak í greiðsluþátttökukerfi lyfja strax í haust, úr 62.000 á tólf mánaða tímabili í 35.000 kr. og sambærileg hlutfallslækkun fyrir aldraða, lífeyrisþega, örykja og börn.
- Sveitarfélög lækki í áföngum kostnað við gjaldfrjálsar skólamáltíðir í grunnskólum og að þær verði með öllu gjaldfrjálsar eftir 3 ár.
- Kostnaður foreldra vegna leikskólagjalda verði lækkaður um helming strax í haust.
- Lægstu lífeyrisgreiðslur til aldraðra og öryrkja og atvinnuleysisbætur verði hækkaðar í 336.916 sem m.v. lægsta tekjuskattshlutfall.
- Fólk sem þiggur lífeyrisgreiðslur eða atvinnuleysisbætur heldur sínum lífeyri eða bótum ef það ákveður að fara í nám.
- Greiðendur námslána geta frestað greiðslu afborgana og vaxta af námslánum næstu tvö árin. Þetta nýtist sérstaklega ungu fólki sem er nýbyrjað að greiða af námslánum.
- Hækka tekjuhámark einstaklinga og hjóna sem vilja leigja af óhagnaðadrifnum leigufélögum í 7.560.000 kr á ári fyrir einstakling og 10.560.000 fyrir hjón og sambúðarfólk. Þessi aðgerð myndi gera fleirum kleift að að leigja hjá óhagnaðadrifnum leigufélögum og um leið yrði þetta hvatning fyrir óhagnaðardrifin leigufélög að byggja fleiri íbúðir.
Ofangreindar aðgerðir eru jöfnunaraðgerðir og miða að því að verja fjölskyldur og sérstaklega barnafjölskyldur fyrir áhrifum kreppunnar. Jöfnuður verður meiri með því að að lækka kostnað t.d. við skólagöngu barna og heilbrigðisþjónustu og einnig með því að auka stuðning til þeirra, sérstaklega hvað varðar að hækka lífeyri og til foreldra nýbura með sk. barnaboxi.
Höfundur er heilsuhagfræðingur.