Um allan heim standa stjórnvöld og fyrirtæki frammi fyrir þeirri áskorun að byggja upp efnahaginn í kjölfar COVID-19. Þá erum við á sama tíma að sjá milljónir rísa upp og þrýsta á aðgerðir gegn því óréttlæti sem svart fólk í Bandaríkjunum og litað fólk um allan heim býr við. Heimurinn allur er í raun á tímamótum sem bjóða upp á ótal tækifæri til að tryggja okkur gæði á borð við félagslegt réttlæti, öfluga nýsköpun í heilsulausnum, loftslagsaðgerðir sem virka, líffræðilegan fjölbreytileika og hringrás með auðlindir.
Fyrirtæki sem heimsborgarar
Fyrirtæki finna fyrir aukinni kröfu til að vera hluti að lausninni og huga að hagsmunum heildarinnar, huga að umhverfinu, félagslegum þáttum og góðum stjórnarháttum (UFS). Magnús Harðarson forstjóri Nasdaq Iceland ritar í nýútgefnu fréttabréfi Festu – miðstöð um samfélagsábyrgð um auknar áherslur fyrirtækja á UFS málefni og með þeim áherslum séu þau að svara kalli fjárfesta, viðskiptavina, starfsfólks og almennings. „Fyrirtækin skynja að til þess að vera lífvænleg þurfa þau að lífa í sátt og samlyndi við samfélagið“. En pistill Magnúsar ber yfirskriftina „Gerð samfélagsskýrslna er arðbær iðja“.
COVID-19, loftslagsaðgerðir og Black Lives Matter
Lise Kingo, fráfarandi framkvæmdarstjóri UN Global Compact, leggur áherslu á skýra tengingu milli lausna á efnahagsvandanum tengdum COVID-19, loftslagsvandanum og því óréttlæti sem mótmælt er um allan heim í Black Lives Matters mótmælunum. Fyrirtæki hafi þarna hlutverki að gegna og stjórnendur geta verið hreyfiafl sjálfbærrar þróunar með því að ljá baráttunni fyrir réttlátum heimi rödd sína og á sama tíma byggja upp rekstur sem í hvívetna hugar að því að enginn verði skilin eftir í sjálfbærri, efnahagslegri uppbyggingu.
Á nýafstöðnu alþjóðlegu þingi UN Global Compact, tók Al Gore, fyrrverandi varaforseti Bandaríkjanna, í sama streng og lagði til að við stæðum frammi fyrir fjölbreytileika krísu (e. crisis of diversity) og að lausnin við þeirri krísu lægi samhliða lausnum við loftslagskrísunni. Með því að skapa raunverulegt hagkerfi hagaðila (e. stakeholder economy) líkt og Klaus Schwab stofnandi World Economic Forum hefur talað fyrir, þá sé haft samráð við hagaðila um rekstrartengdar ákvarðanir hverju sinni til að gæta ábyrgðar og stuðla að sjálfbærni.
Frans van Houten forstjóri Phillips lét þau orð falla í vor að það yrði þau fyrirtæki sem byggja á sterkum samfélagslega ábyrgum gildum og eru í grunninn tilgangsmiðuð sem munu koma sterkari út úr þeirri krísu sem nú gengur yfir. En gildi Phillipis eru í grunninn byggð á heimsmarkmiðum SÞ og telur van Houten það hafa reynst þeim mikill styrkur og eflt samkeppnisforskot þeirra. Nú höfum við á síðustu dögum séð fyrirtæki á borð við Adidas og vörumerki á borð við Crossfit missa trúverðugleika og stöðu sína á markaði þar sem starfsmenn og viðskiptavinir hafa sagt skilið við þau vegna aðgerðaleysis þegar kemur að gildum þeirra í baráttunni við kynþáttahatur.
Líkt og í baráttunni við loftslagsvánna og COVID-19, þá hafa vísindin vísað leiðina að lausnum í fjölbreytileika krísunni en samkvæmt könnunum McKinsey þá eru fyrirtæki sem huga að fjölbreytni í stjórnendahóp sínum, bæði þegar kemur að kyni og kynþáttum (e. ethnic diversity) arðbærari en þau sem ekki huga að fjölbreytni.
Hvað eru „þau“ að spá?
Nú þegar við erum öll að vanda okkur við að fara eftir fyrirmælum vísindafólks í gegnum COVID-19 faraldurinn, kemur það líklega fyrir hjá okkur flestum að líta til hegðunar vissra hópa og hugsa „Hvað eru „þau“ að spá? Hvernig getur fólk tekið sína eigin stundar hagsmuni yfir hagsmuni heildarinnar? Og jafnvel fram yfir möguleika þeirra sem verst standa til að lifa þetta af?“
Eins óþægilegt og það er þá getum við á sama hátt mátað þessar vangaveltur við hinar krísurnar sem hér um ræðir. Hvað erum við að spá þegar við tökum okkar stundar hagsmuni fram yfir hagsmuni framtíðar kynslóða þegar kemur að kolefnisfótspori fyrirtækja og okkar sem einstaklinga? Hvað erum við að spá þegar við horfum fram hjá óréttlæti og mannréttindabrotum og látum ekki í okkur heyra?
Hvað erum við að spá?
Í Bangladesh tekur það verkafólk (sem flest eru konur) í fataverksmiðjum fimm stærstu tískuvelda heims alla starfsævina að vinna sér inn þá upphæð sem forstjórar þeirra fyrirtækja vinna sér inn á fjórum dögum. Til að bæta á þau óþægindi sem fylgja þeirri staðreynd, þá sýna grófir útreikningar frá árinu 2017 að til að tvöfalda mánaðarlaun (eru um 12.000 ISK) alls verkafólks „fast-fashion“ keðjunnar H&M í Bangladesh, þyrfti ekki að hækka verð hvers selds stuttermabols um nema ca 25-40 kr. Hvað erum við að spá? Hraðtísku geirinn, með 52 árstíðir í nýjum fötum og tilheyrandi offramleiðslu, er skýrt dæmi um viðskiptamódel sem býður ekki upp á sjálfbærni. Þá má nefna að fataframleiðsla í heiminum losar meira magn CO2 en allar flug- og sjósamgöngur heimsins. Hvað erum við að spá? Í Bandaríkjunum hefur hin meðal svarta fjölskylda möguleika á að vinna sér inn um 1/10 af því virði sem meðal hvít fjölskylda vinnur sér inn á sama tíma. Hvað erum við að spá? Dæmin eru því miður fjölmörg og alls staðar liggja tækifæri til að byggja upp ný viðskiptamódel sem byggja á félagslegu réttlæti, arðsemi og sjálfbærni.
Gerum betur
Að reka sjálfbært tilgangsmiðað fyrirtæki þýðir að við byggjum á gildum sem miða að því að byggja upp betri heim fyrir alla - þar sem við stöndum vörð um mannréttindi, plánetuna og líffræðilegan fjölbreytileika, og sjáum í því arðbært viðskiptatækifæri til langs tíma.
Höfundur er verkefnastjóri hjá Festu – miðstöð um samfélagsábyrgð.