Í morgun sátum við hjónin með sitthvorn kaffibollann og hlustuðum á útvarpsfréttir af kosningaúrslitum næturinnar. Í fréttatímanum var spilað viðtal við annan frambjóðandann, Guðmund Franklín Jónsson, sem tekið var í gærkvöldi. Þar sagðist hann hæstánægður með nýjustu tölur, hann hefði nefnilega aldrei gert ráð fyrir að fylgið næði tveggja stafa tölu! Í morgun, þegar allt hafði verið talið og úrslit endanlega ljós, náði fylgið reyndar ekki nema 7,8% en látum það liggja milli hluta.
Það er annað sem ég vil ræða hér og það er að játning Guðmundar sem fylgdi í kjölfarið. Fréttamaðurinn hafði nefnilega vit á að spyrja hann af hverju hann hefði þá talað eins og hann ætti séns og byggist við öðrum úrslitum og þá sagði Guðmundur að "hann hefði haft gott svar á reiðum höndum." Viðtalið má heyra hér.
Hann viðurkennir sem sagt að hann hafi bara verið að ljúga. Í kosningasjónvarpi á föstudagskvöldið gerði hann engu að síður lítið úr faglegum skoðanakönnunum sem hafa mælt fylgi hans nokkuð nærri lagi og reyndi að rugla um fyrir spyrli og ekki síst áhorfendum heima í stofu og spurði hvort Gallup, MMR, Félagsvísindastofnun og fleiri væru ekki bara með netkannanir og gaf í skyn að slíkar kannanir sem byggja á faglegum forsendum séu ekki betri eða merkilegri en þeir samkvæmisleikir sem Útvarp Saga býður upp á vef sínum en kallar skoðanakannanir. Faglegar kannanir eru vissulega ekki bara gerðar í gegnum síma heldur líka með spurningalistum á netinu en mestu skiptir að spyrja hóp sem endurspeglar þjóðina. Sem betur fer endurspeglar umferðin á vef Útvarps Sögu ekki þjóðina. "Kannanir" þar sýndu afgerandi sigur Guðmundar en nú ætti öllum að vera ljóst að það voru einkum 7,8% þjóðarinnar sem tóku þátt.
Guðmundur þóttist ekki skilja þetta á föstudagskvöldið en játaði að hann hefði fullan skilning á þessum vísindum í gærkvöldi. Hann viðurkenndi fúslega að hafa logið í kosningabaráttunni og raunar var þetta ekki í eina skiptið sem hann varð uppvís að því. Á föstudagskvöldið kannaðist hann heldur ekkert við að hafa nefnt að hann hefði sagt að ef 10% kjósenda myndu krefjast þjóðaratkvæðagreiðslu myndi hann, sem forseti, verða við því. Þann 20. mars 2016 þegar hann tilkynnti um framboð sagði hann þó: „Ég mun ekki hika við að beita 26. greininni, um málskotsrétt, og þá myndi ég miða við að tíu prósent atkvæðabærra manna skoruðu á mig.“ Á föstudagskvöldið sagði hann hins vegar forseta lýðveldinsins, Guðna Th. Jóhannesson, fara með fleypur þegar hann rifjaði þetta upp. Eins og ekkert væri eðlilegra þegar hann var sjálfur að ljúga. Hvað heitir svona hegðun? Siðblinda?
Þetta ræddum við hjónin sem sagt yfir morgunkaffinu og ég minntist á "upplýsingaóreiðu" nema ég mismælti mig og sagði óvart "upplýsingaóeirðir". Seinna í dag, eftir að hafa séð skjáskot frá stuðningsmönnum Guðmundar sem töldu ljóst að úrslit kosninganna væru byggð á svindli, velti ég fyrir mér hvort "upplýsingaóeirðir" væru hreinlega ekki betra orð en "upplýsingaóreiða".
"Upplýsingaóreiða" eða "information entropy" er áhyggjuefni margra og nýlega var stofnuð nefnd til að reyna að vinna gegn fyrirbærinu. Íslenska orðið er svo sem ágætt en það felur ekki í sér neina sök eða sökudólg. Og stundum er það líka þannig. Falsfréttir fara af stað fyrir misskilning og það getur verið erfitt að vinda ofan af þeim. Við trúum því sem við heyrðum eða lásum fyrst. En stundum eru falsfréttir viljandi settar af stað vegna þess að einhver eða einhverjir hafa ávinning af því að koma röngum upplýsingum á framfæri eða grafa undan alvöru fréttaflutningi og upplýsingamiðlun. Og kannski væri nærtækara að nota "upplýsingaóeirðir" eða jafnvel "upplýsingahryðjuverk" um slíkt. Og það sem nú er alveg ljóst er að frambjóðandi til eins æðsta opinbera embættis Íslands, forsetans sem á að gæta hagsmuna okkar allra og er treyst til að tala fyrir okkar hönd þjóðarinnar á opinberum vettvangi, laug blákalt að þjóðinni eins og dæmin sanna ogfannst það ekkert stórmál.
Guðmundur Franklín Jónsson titlar sig "viðskipa- og hagfræðing", hvað sem það nú er, og er háskólamenntaður. Hann veit alveg hvernig faglegar skoðanakannanir virka en sumir af þeim sem styðja hann vita það ekki og margir í þeim hópi hafa ekki átt þess kost að mennta sig. Þeir eru í hópi þeirra sem eru viðkvæmastir fyrir "upplýsingahryðjuverkum", öðru nafni lygum.
Fyrir tíu árum eða svo hélt ég að stjórnmálin yrðu betri með meira aðgengi almennings að upplýsingum. Saga síðasta áratugar hefur sýnt okkur að það er alrangt. Það er hægt að gúggla sig að hvaða niðurstöðu sem er með skelfilegum afleiðingum. Milljónir manna um allan heim trúa því nú að COVID-19 veiran sé búin til á tilraunastofu eða runnin undan rifjum Bill Gates eða jafnvel bara plat. Og milljónir halda áfram að veikjast og þúsundir deyja.
Við getum líka gúgglað okkur að hvaða niðurstöðu sem er þegar kemur að loftslagsbreytingum og einhver fjöldi fólks trúir í alvöru að jörðin sé flöt. Prófið bara að gúggla, það er alveg hægt að finna upplýsingar um að hún sé það, sé maður staðráðin í því. Sumt af því fólki sem heldur fram falsfréttum eða upplýsingaóreiðu gerir það vegna þess að það trúir því að slíkum fréttum. Einhverra hluta vegna hefur það ekki forþekkingu til að meta hvort "skoðanakönnun" frá Útvarpi Sögu er byggð á meiri eða minni vísindum en könnun frá Gallup. Og þegar Gallup-könnunin reynist nærri raunveruleikanum hlýtur einhver að hafa falsað hann.
Upplýsingaóreiða er hættuleg því hún grefur undan trúverðugleika þess sem flestir kalla "áreiðanlegar upplýsingar", t.d. frá alþjóðlega viðurkenndum fréttastofum eða alþjóðlegum stofnunum á borð við WHO. Frægt er þegar Kellyanne Conway, þáverandi ráðgjafi Donald Trump, talaði um "alternative facts", eða "hliðstæðar staðreyndir" um fjölda þeirra sem höfðu verið við innsetningarathöfn forsetans. Tala þeirra sem þar voru var hins vegar fasti og hægt að telja hvern og einn á ljósmyndum sem teknar voru af atburðinum og bera saman við innsetningarathafnir annarra forseta. Tala gesta var því alls ekki á reiki. Síðan þau orð féllu eru liðin ríflega þrjú ár og við erum löngu hætt að kippa okkur upp við vitleysuna sem vellur upp úr Donald Trump og hans fólki. Og það eitt og sér er bæði hræðilegt og stórhættulegt.
Í nýliðinni kosningabaráttu hef ég bæði lesið skjáskot á samfélagsmiðlum frá stuðningsmönnum Guðmundar og rekist á slíkat sjálf. Sumt af því sem ég hef séð þar hryggir mig óendanlega því mér tekst ekki með góðu móti að setja mig inn í hugarheim þeirra sem þar skrifa og ég skynja raunverulega ótta á bak við skrifin. Hvernig í ósköpunum stendur á því að einhver haldi í raun og veru að ekki verði hægt að þvo bíla á bensínstöðum ef Guðni Th. heldur áfram að vera forseti eins og ég sá í dag? Ég get ekki einu sinni ímyndað mér ástæðuna.
Hvað er til ráða? Ég hef því miður ekki svarið við því.
Jú, vissulega er hægt að stofna nefnd um upplýsingaóreiðu og kannski skilar það einhverju. En það verður alltaf fréttnæmt hvað stjórnmálamenn og frambjóðendur segja, þrátt fyrir að það kunni að vera helber vitleysa. Hér, á hinum íslenska örmarkaði, eru flestir fjölmiðlar í fjárþröng. Auglýsingatekjur hafa mikið til flust úr landi til google og samfélagsmiðla sem gera lítinn greinarmun á bulli og staðreyndum. Og hluti þjóðarinnar, kannski 7,8%, gerir engan greinarmun á staðreyndum og "hliðstæðum staðreyndum". Á sama tíma er fólk, eins og Guðmundur Franklín Jónsson, sem hefur átt þess kost að mennta sig og veit sannarlega betur að grafa undan ábyrgum fréttaflutningi og upplýsingamiðlun. Og það er stórmál.