Í dag eru 366 dagar eða heilt ár (hlaupár munið þið) síðan ég hef verið án launaðrar vinnu. Heilt ár án þess að vakna á morgnana, fara í ræktina eða sund, fengið mér morgunmat og farið síðan til vinnu. Komið heim seinnipart dagsins, sest niður með kaffi og rætt við konuna mína um hvernig vinnudagur okkar var.
170 umsóknir – 170 hafnanir
Ekki það að ég hafi setið auðum höndum og horft í gaupnir mér, grátið örlög mín og fallið í depurð. Ég hef sótt um 170 störf og fengið jafn margar hafnanir. Það er að meðaltali rúmlega 14 störf á mánuði. Að auki hef ég sent út netpóst með almennri kynningu á mér til 52 fyrirtækja, hringt í eða hitta fólk frá 15 mismunandi fyrirtækjum/félagasamtökum sem ég þekki með von um vinnu. Ég hef fengið mikla hvatningu frá fólki sem ég hef starfað með og þekkir mig vel og er ég þakklátur fyrir það.
Störfin
Ég hef sótt um allskonar störf. Starf framkvæmdastjóra, verkefnastjóra og við markaðamál en þetta eru þær greinar sem ég hef menntað mig til. Þá hef ég sótt um starf skrifstofustjóra, þjónustufulltrúa, innkaupafulltrúa, sölumanns, fjármálafulltrúa, liðsauka, sveitastjóra, lagerstjóra, við innflutning, móttökufulltrúa, upplýsingafulltrúa, við ráðgjöf, skrifstofumanns, sumarstörf – allt störf sem ég treysti mér fullkomlega til að vinna vel.
Ég hef aðeins komist í 6 starfsviðtöl!
Hinir 50.000
Þegar ég missti vinnuna þá mældist atvinnuleysi 3,4 prósent og spáð var 4 prósent atvinnuleysi árið 2020. Því taldi ég að það ætti ekki að vera erfitt að fá vinnu. Þróunin varð sú að hægt og rólega bættust fleiri við atvinnuleysisskrá og fór í 5 prósent.
Afleiðing COVID-19 varð síðan skelfileg og er skráð atvinnuleysi í maí 2020 17,8 prósent þ.a. 7,5 prósent almennt atvinnuleysi og 10,3 prósent vegna minnkaðs starfshlutfalls. Um 50.000 manns voru því án vinnu eða í mjög skertu vinnuhlutfalli. Nú í júní er atvinnuleysið komið í 13 prósent sem er vissulega mikið en jákvætt að það lækki.
Þess má geta að atvinnuleysi meðal erlendra ríkisborgara er um 40 prósent! Þetta er fólkið sem hefur komið til landsins á síðustu 15 árum og var meginstoðin í byggingariðnaði en einnig var grunnurinn að því að ferðaþjónustan náði þeim hæðum sem varð.
Baráttan
Það er kannski ekki réttlátt að nota orðið barátta þegar maður sækir um starf því það er mikið af hæfileikaríku fólki sem er í sömu stöðu og ég. Í eitt skipti voru aðeins 15 sem sóttu um tiltekið starf fyrir utan mig. Síðan komu „metin“. Lengi vetrar var „metið“ tæpir 200 umsækjendur um eitt tiltekið starf en í vor var starf sem ég sóttist einnig eftir þar sem yfir 300 umsækjendur sóttu um. Ég fagna því að fólk fær vinnu því ég unni þeim það vel.
Barnabörnin, líkamsrækt, sund og heimilið
En það er ekki aðeins það neikvæða sem ég hef upplifað á þessum tíma. Ég hef verið svo heppinn að geta tekið meira þátt í lífi yngstu barnabarnanna með því að sækja í leikskóla og dekra svoldið við þau. Þá hefur Reykjavíkurborg útvegað mér sundkort sem ég reyni að nýta vel. Að sjálfsögðu sé ég um heimilið á meðan eiginkonan sér um að draga björg í bú. Þurrka af, þríf og elda sem er ágætis dægradvöl.
Að „liggja“ á kerfinu
Sumir stjórnmálamenn hafa minnt landslýð á að „liggja“ ekki á kerfinu – að skrá sig t.d. atvinnulausan og fá BÆTUR. Þeim til upplýsingar þá er hámarksgreiðsla á mánuði 289.510 krónur. Ég held ekki að upphæðin sé það merkileg að hún lokki til sín fólk sem ætlar að hafa það náðugt. Fyrir fólk sem missir vinnuna og hefur fyrir fjölskyldu að sjá auk þess að standa skil á mánaðarafborgun lána er atvinnuleysi og „bæturnar“ algjör katastrófa. Ég tek því heilshugar undir kröfu Alþýðusambands Íslands að hækka þurfi greiðslur til vinnuleitenda.
Tíu týnd ár?
Ég á alveg tíu ár eftir á vinnumarkaðnum enda frískur og sprækur og held mér í formi með reglulegri líkamsrækt og sundi. Þá ósk á ég heitasta að hafa vinnu í stað þess að sækja stöðugt um störf næstu tíu ár.
Það rætist vonandi úr innan tíðar!