Auglýsing

Í janúar síðastliðnum var auglýst til sölu stórt hús á rótgrónum stað miðsvæðis í Reykjavík, Bræðraborgarstíg 1. Eigandi þess vildi fá 195 milljónir króna fyrir húsið, sem var byggt 1906 og er alls um 452 fermetrar. 

Í auglýsingu sem birtist á fasteignavef eins stærsta vefmiðils landsins sagði að um íbúðar- og atvinnuhúsnæði sé að ræða. Það skiptist í eitt atvinnurými, dagheimili, tvö íbúðarrými og skrifstofu. „Húsnæðið er í dag leigt út sem 18 herbergi og ein tveggja herbergja íbúð og er öll í útleigu. Tækifæri fyrir framkvæmda aðila að þróa eignina áfram. Laus strax.“

Síðdegis á fimmtudag varð þetta hús eldsvoða að bráð. Þrír íbúar létust. Fjöldi fólks sem bar að horfði hjálparvana á það gerast. 

Alls eru 73 einstaklingar skráðir til heimilis í húsinu. Tugir bjuggu þar þegar eldurinn braust út. Í næsta húsi, sem er í eigu sömu aðila, eru skráðir heimilismenn 134. 

Spáð fyrir um fólk að steypa sér út um glugga

Allir hinna látnu voru erlendir ríkisborgarar sem komu líkast til hingað til lands til að vinna. Í leit að betra lífi og nýjum tækifærum. Samkvæmt upplýsingum innan úr verkalýðshreyfingunni hefur meðal annars fólk sem flutt er til landsins á vegum þekktrar, og alræmdrar, starfsmannaleigu hafst við í húsinu á undanförnum árum. Eigandi hússins er, samkvæmt Vísi, stórtækur í útleigu á ólöglegu íbúðarhúsnæði þar sem erlendir ríkisborgarar án atvinnuleyfis bjuggu. 

Stundin fjallaði um húsið sem brann í umfjöllun sem birtist síðla árs árið 2015. Þar var það meðal annars kallað „óhæfur mannabústaður“. 

Í umfjölluninni sagði síðan að í húsinu væru „engar brunaútgönguleiðir fyrir utan aðalinnganginn upp á aðra og þriðju hæð. Ef kviknaði í stigaganginum yrði fólk að steypa sér gegnum gluggana af 2-3 hæð eða verða eldsmatur.“

Rætt var við byggingafulltrúa Reykjavíkur, sem sagðist ætla að láta skoða húsið. 

Fjórum og hálfu ári síðar dóu þrjár af þeim manneskjum sem urðu innlyksa í alelda húsinu og steyptu sér meðal annars út um glugga þess. 

Auglýsing
Þótt grunur sé um að einn íbúanna, maður á sjötugsaldri, beri ábyrgð á því að hafa kveikt eldinn þá blasir við að brunavarnir voru enn í ólestri, það hafi legið fyrir árum saman og að yfirvöld hafi ekki gert neitt í því að koma í veg fyrir að eigendur hússins gætu leigt út herbergi til fólks þrátt fyrir þá stöðu.

Skópu góðærið en fyrst til að vera ýtt til hliðar

Síðasta góðæri á Íslandi, sem lauk nýverið, var knúið áfram af erlendu vinnuafli. Hér fjölgaði starfandi fólki á íslenskum vinnumarkaði, aðallega í ferðaþjónustu og byggingariðnaði, um 32 þúsund frá árinu 2012 og fram á síðasta ár. Á sama tíma fjölgaði erlendum ríkisborgurum á Íslandi um 29.990 talsins. Þá eru ekki taldir með þeir sem koma hingað á vegum starfsmannaleiga. 

Stærðfræðin er tiltölulega einföld. Þessi mannaflsfreku, og oft lágt launuðu en erfiðu, verkamanna- og þjónustustörf í þessum lágframleiðnigeirum voru að uppistöðu mönnuð með innfluttu vinnuafli. 

Þegar í harðbakkann slær er þessi hópur fyrstur til að vera ýtt til hliðar. Fjórir af hverjum tíu sem voru hefð­bundnir atvinnu­leit­endur í maí, þ.e. voru atvinnu­lausir að öllu leyti en ekki á hlutabótum, voru erlendir rík­is­borg­ar­ar. Alls voru 6.320 slíkir án atvinnu í síð­asta mán­uði sem sam­svarar því að um 17,6 pró­sent atvinnu­leysi er á meðal erlendra rík­is­borg­ara sem búa á Íslandi. Til sam­an­burðar var almennt atvinnu­leysi í heild sinni 7,4 pró­sent í maí mán­uð­i. 

Gróði fram yfir mannlegra reisn

Fjölmargar fréttir hafa verið fluttar, árum saman, af hörmulegum aðbúnaði hjá hluta þessa fólki, sem kom til Íslands til að reyna að vinna og bæta sinn hag. Það er svikið um laun. Sumir fá engin. Það sem fólkið fær er svo oft dregið af þeim í okurleigu fyrir óboðlegt húsnæði eða annan tilbúinn kostnað. Við vitum þetta og við vitum að það er hægt að koma í veg fyrir þessi níðingsverk. En stjórnvöld ákveða að forgangsraða ekki í þágu réttinda þessa fólks. Hagsmunir þeirra sem græða á þeim eru látnir njóta forgangs. 

Þolendurnir eru í erfiðri stöðu. Þeir tala oft ekki tungumál sem gagnast þeim til að leita réttar síns í íslenskum kerfum, þekkja illa þann rétt sem þeir eiga og hræðast það að verða sendir úr landi ef upp á samskipti við vinnuveitanda slettist. Það er vart hægt að kalla þetta neitt annað en nútíma þrælahald. En stjórnvöld ákveða að forgangsraða ekki í þágu réttinda þessa fólks. Hagsmunir þeirra sem græða á þeim eru látnir njóta forgangs. 

Auglýsing
Yfirvöld áætla að um fjögur þúsund manns búi í atvinnuhúsnæði á höfuðborgarsvæðinu. Þá eru ótaldir hjallarnir sem erlendu fólki er holað niður í og skilgreindir eru sem íbúðarhúsnæði. Eins og sá sem brann á fimmtudag. En stjórnvöld ákveða að forgangsraða ekki í þágu réttinda þessa fólks. Hagsmunir þeirra sem græða á þeim eru látnir njóta forgangs. 

Athugað hvort þeir séu þeir sem þeir segjast vera

Þrátt fyrir að kallað hafi verið eftir því árum saman að dómsmálaráðuneytið geri aðgerðáætlun gegn mansali, og að það ákall komi jafnt frá verkalýðshreyfingunni, lögreglunni, félagsmálayfirvöldum og fleirum hagaðilum, þá hefur það ekki gerst. Algjöran pólitískan vilja hefur skort til þess að móta nýja slíka áætlun. Sú afstaða er beinlínis á skjön við alþjóðasamþykktir sem Ísland er aðili að. 

Þess í stað var meðal annars lögð áhersla að koma í gagnið sérhönnuðum landamæraeftirlitsbíl sem notuð er til að fara á vinnustaði og leita að starfsfólki sem vinnur ólöglega á Íslandi. Nýlega vakti athygli þegar yfirlögregluþjónn, sem kynnti virkni bílsins, sagði að lögreglan væri að stöðva „bíla með Albönum eða Rúmenum. Þá athugum við hvort þeir séu þeir sem þeir segjast vera.“  

Þrátt fyrir að lofað hafi verið, við gerð lífskjarasamningsins, að lögfesta aðgerðir gegn félagslegum undirboðum og sektarákvæðum vegna kjarasamningsbrota þá bolar ekkert á þeim. Frumvarp gegn kennitöluflakki, sem felur meðal annars í sér atvinnurekstrarbannsheimild, var fyrst lagt fram í maí 2020. Og er enn óafgreitt á þingi.

Stjórnvöld ákveða einfaldlega að forgangsraða ekki í þágu réttinda þessa fólks. Hagsmunir þeirra sem græða á þeim eru alltaf látnir njóta forgangs. 

Smánarblettur

Þetta er ekkert flókið. Á Íslandi er níðst á erlendu fólki. Það er komið fram við hluta þess eins og skepnur. Ástæðan sem liggur að baki þeirri hegðun er græðgi. Vilji til að auðgast með því að skapa mannlega eymd. 

Á Íslandi ríkir þar af leiðandi kerfislægur rasismi sem hefur þá birtingarmynd að við sem samfélag tökum ekki á ömurlegri framkomu og níðingsskap sem á sér stað í auðgunarskyni, vegna þess að þeir sem verða fyrir honum eru útlendingar. Níðingarnir sleppa við alla refsingu. Og þeir vita að gjörðum þeirra fylgja engar alvarlegar afleiðingar aðrar en mögulega pöntun á nýrri kennitölu og heilabrot um nýtt nafn á óhæfustarfsemina. 

Þessi staða er val. Það er pólitískt val, og meðvituð forgangsröðun, að eyða frekar tíma og afli í að eltast á sérútbúnum bílum við einstaka erlenda verkamenn sem eru mögulega vitlaust skráðir eða hafa ekki rétt leyfi, í stað þess að lögfesta almennilega umgjörð sem refsar þeim sem níðast á öðrum mannfólki með mansali eða annarri glæpastarfsemi. 

Þeir sem valdefla níðinganna, og gera þeim kleift að gera það sem þeir gera, eru oft fínir menn sem njóta virðingar í samfélaginu. Þeir telja sig ekki ábyrga fyrir ömurlegheitunum sem þeir valda þar sem að viðskipti þeirra eru við fólkið sem níðist á innflutta vinnuaflinu. Þolendurnir verða með þeim hætti ekki lengur mennskir, heldur tölur í hagkvæmri rekstraráætlun. Þessir fínu menn taka ákvörðun um að líta undan og græða á gangverkinu. Í eigin huga að fullu undanþegnir ábyrgðarkeðjunni.

Kerfið á Íslandi ræðst alltaf á litla manninn en lætur þann fína, sem sleikir út um, saddur og fullnægður, vera. Þannig er til að mynda lítil vilji til að koma upp almennilegu eftirliti og rannsóknargetu gagnvart fjármagnseigendur sem mögulega stunda milljarða króna skattasniðgöngu og peningaþvætti, en hart eftirlit er með því að bótaþegar með mánaðarlegar greiðslur undir öllum eðlilegum framfærsluviðmiðum fái alveg örugglega ekki krónu meira en þau eiga rétt á. Veikar eftirlitsstofnanir með peningafólki, hörð eftirfylgni gagnvart launamanninum eða bótaþeganum er íslenska leiðin. 

Þessi nálgun endurspeglast líka í afstöðu kerfa okkar gagnvart erlendu vinnuafli. Hún er forkastanleg og smánarblettur á íslenskri þjóð.

Og í fyrradag dóu þrír vegna hennar.

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, í forystusætinu á RÚV í gærkvöldi.
Það liggur ekki fyrir hvort Ísland geti gert tvíhliða samning til að tengja krónu við evru
Staðreyndavakt Kjarnans skoðar fullyrðingu Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur um það sé mögulegt fyrir Ísland að gera samkomulag við Seðlabanka Evrópu um að tengja krónuna við evru.
Kjarninn 23. september 2021
Sigríður Ólafsdóttir
Draumastarf og búseta – hvernig fer það saman?
Kjarninn 23. september 2021
Árni Stefán Árnason
Dýravernd: Í aðdraganda kosninganna er blóðmeraiðnaðurinn svarti blettur búfjáreldis – Hluti II
Kjarninn 23. september 2021
Segist hafa reynt að komast að því hvað konan vildi í gegnum tengilið – „Við náðum aldrei að ræða við hana“
Fyrrverandi formaður KSÍ segir að sambandið hafi frétt af meintu kynferðisbroti landsliðsmanna í gegnum samfélagsmiðla. Formleg ábending hafi aldrei borist.
Kjarninn 23. september 2021
Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, og Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra og formaður Vinstri grænna.
Fleiri kjósendur Sjálfstæðisflokks vilja Katrínu sem forsætisráðherra en Bjarna
Alls segjast 45,2 prósent kjósenda Sjálfstæðisflokksins að þeir vilji fá formann Vinstri grænna til að leiða þá ríkisstjórn sem mynduð verður eftir kosningar.
Kjarninn 23. september 2021
Hugarvilla að Ísland sé miðja heimsins
Þau Baldur, Kristrún og Gylfi spjölluðu um Evrópustefnu stjórnvalda í hlaðvarpsþættinum Völundarhús utanríkismála.
Kjarninn 23. september 2021
Völundarhús utanríkismála Íslands
Völundarhús utanríkismála Íslands
Völundarhús utanríkismála Íslands – Þáttur 4: Byggir Evrópustefna íslenskra stjórnvalda á áfallastjórnun?
Kjarninn 23. september 2021
Rósa Björk Brynjólfsdóttir
Kosningarnar núna snúast um loftslagsmál
Kjarninn 23. september 2021
Meira úr sama flokkiLeiðari