Þrælahald hófst á Íslandi um leið og sögur hófust. Fyrstu landnemarnir höfðu með sér þræla – suma úr heimabyggð en mestmegnis þræla, sem sóttir voru til annara landa. Í lögbókum, sem Íslendingar settu sér sjálfir, er gert ráð fyrir þrælum. Svo var í Grágás, lagasafni íslenska þjóðveldisins, sem gilti fram yfir 1270. Þar er víða gert ráð fyrir þrælum. Svo var einnig í svokölluðum Kristnirétti eldri, sem gilti á árunum 1122-1133. Þar gerði íslenska þjóðin einnig ráð fyrir þrælum.
Afnám þrælahalds
Flest ef ekki öll vestræn þjóðríki hafa afnumið þrælahald með setningu laga og gerðu það strax á 19. öld. Flest eða öll vestræn þjóðríki – nema Ísland. Íslendingar hafa aldrei bannað þrælahald með lögum. Þvert á móti setti þjóðin sér svokölluð Vistarbandslög, sem giltu frá árinu 1490 og til ársins 1894. Þau lög mæltu svo fyrir, að fátækt fólk væri skyldað til þess að vista sig í vinnu til einhvers jarðeiganda án nokkra vinnu- eða verkalaunaréttinda – og var því ákvæði m.a. líka beitt eftir gildistöku laganna sem pólitísku vopni til þess að koma í veg fyrir að fátækt fólk gæti haslað sér völl utan bændasamfélagsins og þar sem það mætti vænta verkalauna.
Stundað fyrir opnum tjöldum
Hver skyldi því undrast það, að þrælahald sé enn stundað á Íslandi. Enn sækja íslenskir athafnamenn sér þræla til erlendra ríkja eins og gert var í upphafi íslenskrar byggðar. Þangað eru sótt karlar og konur, sem neydd eru til þess að starfa langt undir löglegum lágmarkslaunum. Þeim er komið fyrir í vistarverum á vegum atvinnurekendanna, sem engum lágmarkskröfum um aðbúnað lúta – engum brunavarnarreglum, engum sóttvarnarreglum, engum reglum um þrifnað og umgengni, sjötíu og þrír skráðir í einu og sama húsnæði þar sem þrír hafa nú verið brenndir til bana og annar eins fjöldi í öðru sambærilegu húsnæði í eigu sama aðila, sem neitar með öllu að tjá sig. Slasist einhver slíkur „vinnukraftur” við vinnu sína er hann sendur við fyrsta tækifæri auralaus og einn til síns heimalands eins og skýrt hefur verið frá í fjölmiðlum. Og þjóðin þegir! Lætur sem hún viti ekki!
Auðvitað veit þjóðin
En auðvitað veit hún. Verkalýðsfélögin og heildarsamtök þeirra hafa árum saman reynt að ná eyrum bæði þjóðarinnar og ráðamanna til þess að vekja þau úr dvala. Verkalýðssamtökin hafa bent á, að engin viðurlög hafa verið né hefur verið beitt við svona starfsemi.
Þau geta vissulega krafist þess, að vangreiddum launum verði skilað – en það kostar málarekstur, sem ekki er á færum fátæks fólks í þrælahaldi Engin önnur refsing er gerð þeim, sem gera sig seka um framkomu eins og hér um ræðir. Þeir iðka sömu starfsaðferðir aftur og aftur stundum undir nýjum og nýjum kennitölum – en ávallt á ábyrgð sömu einstaklinga. Ávallt refsilaust.
Varðveita umfram allt „sérstöðuna”
Íslendingar eru líklega eina siðmenntaða vestræna þjóðin, sem ekki hefur séð ástæðu til þess að banna þrælahald. Er ekki kominn tími til þess að afnema þá sérstöðu. Eða særir það þjóðarstoltið að sækja fyrirmyndir til annara þjóða? Banna ekki bara þrælahald heldur gera stórlega refsivert að slíkum og þvílíkum aðferðum sé beitt gagnvart fátæku og framandi fólki? Og í sumum tilvikum gegn landsmönnum sjálfum!?!
Hvað segja félagsmálaráðherrann, dómsmálaráðherrann, forsætisráðherrann – eða forseti Alþingis. Ætla þau bara að þegja áfram? Látast hvorki sjá né heyra? Vegna „þjóðarstoltsins”! Engin áhrif frá útlöndum!!!
Höfundur er fyrrverandi þingmaður og ráðherra.