Fyrir nokkrum mánuðum tilkynnti stórfyrirtækið Rio Tinto, eigandi álversins í Straumsvík, að fyrir mitt ár (2020) yrði tekin ákvörðun um framtíð álversins. Það gekk að vísu ekki eftir, en nú segir talsmaður álversins að Rio Tinto ætli að taka sér mánuð til viðbótar til að komast að niðurstöðu í málinu. Þar sem lokun álversins er einn af möguleikunum.
Þarna er sem sagt lagður áframhaldandi þrýstingur á Landsvirkjun að lækka raforkuverðið til álversins. Það vill reyndar svo til að Rio Tinto náði tímabundið fram kröfu sinni með tímabundinni einhliða yfirlýsingu og ákvörðun Landsvirkjunar um verðlækkun nú í vor. Það sem málið snýst um núna er hvort Landsvirkjun hætti að veita afsláttinn þegar vetur gengur í garð. Og bersýnilegt að Rio Tinto vonast til þess að ná einhverju samkomulagi við Landsvirkjun áður en júlí er á enda; samkomulagi um að verðlækkunin framlengist þar til álverð hafi náð að hækka umtalsvert.
Það er staðreynd að álver víða um heim eru í vandræðum vegna offramboðs af áli og lágs álverðs. Yfirlýsingar Rio Tinto um mögulega lokun álversins í Straumsvík eru samt nokkuð sérkennilegar í ljósi þess að ekki er langt síðan álverið samdi við Landsvirkjun um raforkukaup allt til ársins 2036. Hafa ber í huga að álverð í dag er lítið lægra en var þegar sá samningur var gerður. Það er líka athyglisvert að stutt er síðan að álverið var af sérfróðum sagt vera áhugaverð fjárfesting, m.a. vegna nokkuð hagstæðs raforkusamnings.
Það er nýtt fyrir íslensk orkufyrirtæki að stóriðjan fari fram á breytingar á gildandi raforkusamningi með yfirvofandi hótun um lokun starfseminnar. Þetta er engu að síður í takti við það sem hefur lengi mátt sjá víða erlendis og kannski lítið við því að segja. Þessir stóru álframleiðendur eru fyrirtæki skráð á hlutabréfamarkað og stjórnendurnir þurfa að standa sig í stykkinu. Í þessu sambandi er vert er að hafa í huga að senn renna út nokkrir raforkusamningar annars álfyrirtækis hér, þ.e. Century Aluminum sem á álver Norðuráls í Hvalfirði. Þá mun ekki aðeins reyna á Landsvirkjun að landa nýjum ásættanlegum samningi, heldur líka Orku náttúrunnar (Orkuveitu Reykjavíkur) og HS Orku.
Ólíklegt er að álverið í Straumsvík loki. Líklegra er að raforkuverðið verði áfram óbreytt samningsverð eða að Landsvirkjun samþykki tímabundna breytingu á verðskilmálum álversins (lægra verð) gegn því að eiga kost á góðum ávinningi ef og þegar álverð hækkar. Með sína grænu og hagkvæmu orku er Landsvirkjun í prýðilegri samningsstöðu.
Það er engu að síður svo að vaxandi offramleiðsla og álútflutningur frá Kína gæti veikt samningsstöðu íslensku orkufyrirtækjanna gagnvart álverunum hér. Þar að auki hafa vandræði í kísilframleiðslunni valdið Landsvirkjun tekjutapi. Skáni ástandið á ál- og kísilmarkaði ekki bráðlega er hætt við að fresta verði áætlunum um stórauknar arðgreiðslur Landsvirkjunar til eiganda síns, íslenska ríksins.
Hagkvæmni íslenska vatnsaflsins og jarðvarmans er þó með þeim hætti að líklegast er að öll álverin þrjú muni starfa hér áfram lengi enn. Ísland í sem sagt góðri stöðu með sína hagkvæmu og grænu orkuframleiðslu. Vissulega er þó óvenju mikil óvissa uppi þessa dagana, enda erfitt að sjá fyrir þróunina í kínverska furðukapítalismanum, auk þess sem eftirspurn eftir áli á Vesturlöndum kann að verða veik næstu misserin og jafnvel árin. Þar með er í reynd áhættusamara en oft áður að treysta um of á raforkusölu til stóriðju og skynsamlegt að leggja ríka áherslu á fjölbreyttari kosti.
Mikilvægt er að Ísland geti með sem bestum hætti nýtt sér þann meðbyr sem aukin áhersla á græna orku veitir. Þar eru ýmis tækifæri, hvort sem það væri t.d. beinn útflutningur á grænni raforku, framleiðsla á grænu vetni (eða ammóníaki) og/eða framleiðsla á grænu áli. Þá er í öllum tilvikum verið að vísa til þess að framleiðslan fari fram með 100% endurnýjanlegri raforku og því skilgreind sem græn.
Til allrar hamingju eru augu fólks víða um heim að opnast enn betur fyrir þörfinni á því að hagkerfin verði grænni og sjálfbærari. Þrátt fyrir óvenju óvissa stöðu bæði á ál- og kísilmörkuðum nú um stundir, er því ekki ástæða til að ætla annað en að framtíð íslenskrar raforkuframleiðslu sé björt. Hvort sem það verður með eða án álversins í Straumsvík.
Höfundur er framkvæmdastjóri vindorkufyrirtækisins Zephyr Iceland. Aðaleigandi þess er norska vindorkufyrirtækið Zephyr AS, sem m.a. hefur samið um sölu á miklu magni vindorku til Alcoa í Noregi. Þar er um að ræða vindmyllugarð sem nú rís á Guleslettene í vestanverðum Noregi, skammt frá Stavanger.