Mennta- og menningarmálaráðherra hefur höfðað dómsmál gegn einstaklingi sem vann mál gegn ráðherranum fyrir kærunefnd jafnréttismála. Forsögu málsins þekkja flestir, en ráðherra réð flokksbróður sinn í starf ráðuneytisstjóra menntamálaráðuneytisins. Ráðherra segist hafa aflað lögfræðiálita sem bendi til annmarka í úrskurði nefndarinnar sem valdi lagalegri óvissu. Þess vegna telur ráðherra „brýnt að lagaóvissu verði eytt fyrir dómstólum“. Því miður hefur ráðuneytið neitað að afhenda Kjarnanum umrætt lögfræðiálit en það væri fróðlegt að vita hvort í því sé tillit tekið til meðalhófsreglunnar, reglu sem Umboðsmaður Alþingis hefur sagt að stjórnvöld þurfi ekki einungis að fylgja þegar ákvarðanir eru teknar sem stjórnsýslulög ná til heldur sé grundvallarregla sem stjórnvöld þurfa almennt að fylgja í störfum sínum (nr. 2654/1999).
Í 12. grein stjórnsýslulaga segir að ráðherra geti einungis tekið íþyngjandi ákvörðun þegar settu markmiði verði ekki náð með öðru og vægara móti. Í greinargerð með frumvarpi að stjórnsýslulögum segir um þessa grein: „Stjórnvöld verða að gæta hófs í meðferð valds síns. Er stjórnvaldi því ekki aðeins skylt að líta til þess markmiðs sem starf þess stefnir að, heldur ber því einnig að taka tillit til hagsmuna og réttinda þeirra einstaklinga og lögaðila sem athafnir stjórnvaldsins og valdbeiting beinist að“. Svo segir að ákvæðið feli í sér „að ef fleiri úrræða er völ er þjónað geta því markmiði, sem að er stefnt, skal velja það úrræði sem vægast er. Íþyngjandi ákvörðun skal þannig aðeins taka að ekki sé völ vægara úrræðis sem þjónað geti markmiðinu“.
Við þurfum ekki að deila um það að kæra ráðuneytis gegn einstaklingi er íþyngjandi fyrir viðkomandi. Það þarf heldur enginn að velkjast í vafa um að ráðherra og ríkisstjórn hafa önnur og mildari úrræði til að bæta úr lagalegum annmörkum eða óvissu í þessu máli, t.d. með því að leggja fram frumvarp til breytinga á jafnréttislögum. Mennta- og menningarmálaráðherra valdi hins vegar harkalegasta úrræðið, því þó að í 5. grein jafnréttislaga sé gert ráð fyrir að hægt sé að höfða mál til ógildingar úrskurða kærunefndar jafnréttismála fyrir dómstólum, þá er sá valkostur eðlilegur farvegur fyrir einstaklinga, fyrirtæki og félagasamtök, ekki ráðuneyti sem bundið er af meðalhófsreglunni. Ráðherra hlýtur einnig að þurfa að taka mið af siðareglum ráðherra, en í 1. grein þeirra segir að ráðherra beri að beita ráðherravaldi af hófsemi og sanngirni.
Í umræddu máli hefur menntamálaráðherra reynt að skýla sér á bak við ráðgefandi hæfnisnefnd sem henni bar að skipa samkvæmt lögum um Stjórnarráðið. Slíkar nefndir eiga að stuðla að því að val á ráðuneytisstjórum ráðist af hæfni umsækjenda og að ferlið hafi jafnræði og gagnsæi að leiðarljósi.
Menntamálaráðherra gróf hins vegar undan þessu faglega ferli strax í upphafi með því að skipa pólitískan fulltrúa sinn til að stýra starfi hæfnisnefndarinnar. Í úrskurði kærunefndar jafnréttismála, sem skipuð er þremur fulltrúum tilnefndum af Hæstarétti, kemur skýrt fram að hæfnisnefndin hafi ekki vandað nægilega til verka, t.d. við mat á því hvernig umsækjendur uppfylltu hæfniskröfur. Við mat á huglægum þáttum eins og leiðtogahæfileikum hafi síðan ekki verið rætt við umsagnaraðila og ósamræmis hafi gætt við matið sem ráðuneytið hafi ekki getað útskýrt. Þannig hafi hæfnisnefndin og ráðuneytið vanmetið kærandann varðandi menntun, reynslu af opinberri stjórnsýslu, leiðtogahæfileika og tjáningu í ræðu og riti. Síðan hafi verulega skort á efnislegan rökstuðning ráðuneytisins í málatilbúnaði þess hjá kærunefndinni. Því hafi ráðuneytinu ekki tekist að sýna fram á að aðrar ástæður en kyn hafi legið til grundvallar ákvörðunar um ráðninguna.
Sennilega mun þetta mál þróast á svipaðan veg og mál þeirra ráðherra sem hafa brotið grundvallarreglur stjórnkerfisins í störfum sínum á undanförnum árum, þ.á.m. þeirra tveggja dómsmálaráðherra sem sögðu af sér 2014 og 2019. Sömu örlög hljóta að bíða ráðherra sem brýtur með þessum hætti meginreglu í samskiptum stjórnvalds og almennings og sem grefur um leið svo gróflega undan gildum og markmiðum jafnréttislaga.