Staðan í samningaviðræðum Icelandair og flugfreyja/flugþjóna er vissulega erfið. En þó alls ekki óleysanleg. Raunar má ætla að félagið þurfi ekki að bæta svo miklu við þann samning sem felldur var nýlega til að ná saman á ný. Samt myndi félagið ná fram mikilli hagræðingu í rekstrinum.
En þá bregður svo við að stjórnendur Icelandair kasta sér út í straumþunga á og segjast ætla að synda á móti straumnum með því að freista þess að fella ríkjandi samningaskipan á vinnumarkaðinum. Það ætla þeir að gera með því að sniðganga stéttarfélag starfsmanna sinna, sem margir hverjir hafa þjónað félaginu vel í gegnum súrt og sætt í áratugi.
Með þessu fær Icelandair gjörvalla hreyfingu launafólks í landinu upp á móti sér.
Þetta virðist gert að undirlagi Samtaka atvinnulífsins (SA), sem lætur sig dreyma um að veikja samtök launafólks varanlega með slíkum aðgerðum, að hætti nýfrjálshyggjumanna. Er einhver skynsemi í svona ævintýramennsku á viðkvæmum tíma?
Nei! Raunar er þetta mikill afleikur hjá stjórnendum Icelandair. Hvers vegna?
Hér eru nokkur rök fyrir þessari staðhæfingu:
- Opið stríð við hreyfingu launafólks í landinu mun á engan hátt auðvelda leit að lausnum á vanda félagsins. Það mun þvert á móti auka á vandann svo um munar.
- Icelandair þrengir verulega með þessu möguleika sína á að endurfjármagna félagið, því fulltrúar launafólks í stjórnum lífeyrissjóðanna munu vissulega eiga mun erfiðara en ella með að styðja nýjar fjárfestingar í Icelandair ef það stendur samtímis fyrir herferð til að veikja samtök launafólks og samningsréttinn á vinnumarkaðinum. Lífeyrissjóðirnir eiga nú hátt í helming hluta í félaginu.
- Það verður einnig erfiðara fyrir ríkisvaldið að styðja félagið, umfram það sem þegar hefur verið gert, ef þetta útspil stendur.
- Viðhorf almennings til Icelandair verður í framhaldinu neikvætt, ólíkt því sem lengi hefur verið. Icelandair verður ekki lengur “flugfélagið okkar” í hugum launafólks. Aðrir valkostir munu hafa hærri sess þegar flugferðir verða valdar í framtíðinni. Þetta grefur þannig undan markaðsstöðu félagsins meðal almennings á Íslandi.
Fleira af sama toga mætti nefna. En ljóst er að með þessu útspili hafa stjórnendur Icelandair tekið verulega áhættu sem auðveldar ekki framhaldið, heldur eykur líkur á að áætlunin um endurreisn félagsins verður í mun meiri óvissu en fyrir var.
Þeir sem vilja félaginu vel hljóta að vona að stjórnendur endurskoði hug sinn og hverfi frá þessari óskynsamlegu óvissuferð í boði SA, með því að bjóða fulltrúum Flugfreyjufélagsins aftur að samningsborðinu og sýni þá meiri samningslipurð.
Höfundur er prófessor við HÍ