Mannkynið stendur frammi fyrir margvíslegum áskorunum sem krefjast náinnar og skilvirkrar alþjóðasamvinnu: nú síðast heimsfaraldri sem bæst hefur við flókin og viðvarandi verkefni vegna ójöfnuðar, stríðsátaka og loftslagsógnar.
Vart verður nógsamlega undirstrikað hversu mikilvægar okkur Íslendingum eru ýmsar þær alþjóðastofnanir sem við eigum aðild að með einum eða öðrum hætti. Þær voru stofnaðar til að standa vörð um mikilvæg gildi – frið og lýðræði, frelsi og mannréttindi; til að að skapa fólki betri lífsgæði. Þeim er ætlað að auðvelda samvinnu ríkja og gera þeim kleift að veita hvert öðru aðhald. Stofnanir hafa verið reistar um viðskiptafrelsi, heilbrigðismál, öryggi, menntun, loftslagsbreytingar – í raun allt sem snertir okkar daglega líf og tilveru. En þessi samvinna hefur átt á brattann að sækja og margar þessar stofnanir glíma við mikinn vanda.
Mörg lönd sem verið hafa virkir og mikilvægir leikendur í slíkri fjölþjóðlegri samvinnu hafa jafnvel snúist gegn henni. Eins og þekkt er hafa Bandaríkin dregið sig út úr ýmsum alþjóðastofnunum og sagt sig frá ýmsum skuldbindingum. Bretland hefur sagt skilið við Evrópusambandið og nokkur Evrópuríki sýnt á sér skuggalegar hliðar undanfarið. Þegar leiðandi vestræn ríki snúa af braut þeirra grunngilda sem alþjóðasamfélagið er reist á, skapast ákveðið svigrúm sem hætta er á að öfl og jafnvel ríki, sem ala á ótta og fordómum, nýti sér.
Áætlun nýrrar ríkisstjórnar Ísraels um frekari innlimun Palestínu, sem nýtur stuðnings og verndar Bandaríkjamanna, er eitt dæmi. Ómannúðleg og andlýðræðisleg hegðun leiðtoga Póllands og Ungverjalands gagnvart innflytjendum og samkynhneigðum, og erfiðleikar Evrópusambandsins til að takast á við hana, annað.
Okkur Íslendingum er svo ferskt í minni hvernig þrjú ríki beittu sér með ómálefnalegum hætti gegn áframhaldandi ráðningu Ingibjargar Sólrúnu Gísladóttur og fleiri stjórnenda mikilvægra stofnana innan Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu.
Þau ríki sem vilja standa vörð um grunngildi lýðræðis, frelsis og mannréttinda verða að rísa undir nafni og leggjast á eitt um að takast á við þau vandamál sem steðja að. Þegar vinaþjóðir okkar eru á villigötum megum við ekki bara að halla okkur aftur í sætinu og dæsa. Við þurfum að sýna kjark og þor, nota rödd okkar í alþjóðasamfélaginu og halda á lofti þeim gildum og lausnum sem við teljum nauðsynlegar.
Þegar á reynir er nefnilega hægt að ná ótrúlegum árangri með samvinnu þjóða. Nýleg áætlun Evrópusambandsins í loftslagsmálum, sú metnaðarfyllsta í heimi, er gott dæmi um það. Einnig nokkurra daga ákvörðun þess um stofnun 750 milljarða evra bjargráðssjóðs sem koma á til aðstoðar þeim ríkjum sem verst hafa farið út úr COVID-19 farsóttinni.
Herlaus smáþjóð á allt undir því að alþjóðareglur séu virtar og samningar haldnir. Sagan kennir okkur líka að íslenskri þjóð vegnar best í miklum samskiptum við umheiminn. Alþjóðasamstarf hefur stuðlað að aukinni efnahagslegri velmegun og blómlegra menningarlífi, auk þess sem alþjóðlegar skuldbindingar okkar hafa flýtt fyrir framförum á sviði jafnréttismála, mannréttinda, umhverfismála og samkeppnismála.
Íslenskir stjórnmálamenn verða að sýna aukinn kjark og framsýni og beita sér fyrir öflugra alþjóðasamstarfi og enn nánari Evrópusamvinnu. Nýleg dæmi sanna að þrátt fyrir smæð, er okkur treyst til að vera leiðandi afl t.d. í Mannréttindaráði SÞ og Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu. Höldum áfram að efla tengsl okkar, sækjumst eftir áhrifum og notum rödd okkar á alþjóðavettvangi í þágu friðar, mannréttinda, frelsis, jöfnuðar og lýðræðis.
Höfundur er formaður Samfylkingarinnar.