Hvers vegna eignumst við börn?

Ef allir Íslendingar byrjuðu í dag að setja barneignarákvarðanir sínar upp í Excel, þar sem þeir legðu saman mælanlegan bata og drægju frá honum mælanlegan kostnað, þá tæki það rétt rúmlega 100 ár fyrir þjóðina að þurrkast út.

Auglýsing

Árið 1960 mældist frjósemi okkar Íslendinga rétt rúmlega fjórir, sem þýðir að yfir ævi hverrar lifandi konu árið 1960 fæddust fjögur börn; að meðaltali átti hver kona fjögur börn. 

Til að viðhalda mannfjöldanum þarf hver kona að eignast, að meðaltali, 2,1 barn. Að sjálfsögðu þurfa ekki að allar konur í landinu að eignast tvö börn og einn líkamshluta (til dæmis eyra), heldur þarf einfaldlega fjöldi fæddra barna, deilt í fjölda kvenna að vera 2,1. 

Ástæðan fyrir því að talan sé rétt rúmlega tveir er að sjálfsögðu sú að um helmingur Íslendinga eru karlar, sem óalgengt er að beri sjálfir börn. Því þarf meðalkona að eignast eitt barn til að fylla upp í skarðið sem myndast þegar hún deyr, annað til fylla í skarðið á karlmanni og svo smá til viðbótar til að bæta upp fyrir ótímabær dauðsföll. 

Árið sem ég fæddist (1984) hafði frjósemi helmingast og var þá í viðhaldsfasa. Síðan þá hefur frjósemi haldið áfram að falla og í dag er þjóðin dottin úr viðhaldsfasa – yfir ævi hverrar konu fæðast nú tæplega tvö börn.

.

Sagan af fallandi frjósemi og minkandi fjölskyldum er ekki alíslensk. Í nánast öllum löndum heims hefur sama þróun átt sér stað, sérstaklega í auðugri samfélögum. 

.

Hvað skýrir fallandi frjósemi?

Það eru ýmsar kenningar á kreiki um fallandi frjósemi. Einhverjar kenningar eru af líffræðilegum toga – oft ganga þær út á að kenna mengun, tölvuspilum og klámi um –  þó ólíklegt sé að slíkar kenningar skýri stóran hluta þessa mikla samdráttar. Líklegri eru kenningar félagsfræðinga, sem hafa með val og getu kvenna til þess að stjórna hvenær og hversu mörg börn þær velja að eignast. 

Eftir að það komst í tísku að seinka barneignum þá dróst einnig fyrirsjáanlega úr frjósemi. Þeim mun seinna sem maður byrjar að búa til börn, þeim mun færri börn getur maður búið til og þeim mun líklegra er það að maður detti úr barneign áður en maður býr til sitt síðasta barn. Tölfræðin sýnir þetta, svart á hvítu: Þegar ég fæddist árið 1984 var meðalaldur móður við fæðingu frumburðar síns 23 ár (feður: 25); í fyrra var hann 29 ár (feður: 31). 

.

Straumar samfélagsins eru eins öflugir og þeir eru óútreiknanlegir. Seinkun barneigna er breyta í formúlu sem ræður frjósemi en það er þriðja – eða fjórða, jafnvel fimmta – breytan sem ræður því hvort það komist í tísku að seinka barneignum eða ekki. Fólk seinkar ekki barneignum „af því bara“, heldur mótar samfélagið hvata sem leiða til slíkrar ákvarðana.

Vöruþróun getnaðarvarna ásamt kynfræðslu og aukinnar vitundar hefur augljóslega eflt getu fólks til þess að velja hvenær og hversu mörg börn þau velja að eignast. Amma ætlaði sér aldrei að eignast sjö börn, að stjórna því var þó hægara sagt en gert á Djúpavogi fyrir 70 árum. 

Ég er þó kominn út af sporinu, Eikonomics ekki kynfræðsludálkur, heldur hagfræðidálkur. Því er best að ég komi mér að verki og reyna að útskýra fallandi frjósemi með hagfræðina að leiðarljósi, sem var upphafleg hugmynd greinarinnar.

Gróði og gæði

Ég vill meina að hagfræði og hagvöxtur spili mikilvægt – ef ekki aðal – hlutverk fallandi frjósemi. Sér í lagi þá hefur aukin velmegun gert okkur Íslendingum – sem og útlendingum – kleift að taka fleiri samfélagsþegna í kynfræðslu en nokkurn tíma fyrr, sem og að velmegunin hefur gert fólki kleift að borga fyrir getnaðarvarnir. 

Þegar frumkvöðlar sáu að fólk var til í að borga vel fyrir betri getnaðarvarnir kepptust þeir við að finna upp nýjar og betri varnir, til að græða pening. Með tímanum urðu varnirnar betri – bæði í því að koma veg fyrir þungun og í því að hámarka ánægju elskenda – og ódýrari sem jók eftirspurnina eftir þeim, sem aftur dró að sér fleiri frumkvöðla sem bjuggu til enn betri og ódýrari getnaðarvarnir sem enn fleiri vildu nota.

Auglýsing
Getnaðarvarnir eru þó bara tól. Elskhugar nota þær ekki af því þær eru kúl, eins og derhúfu á ská. Elskhugar nota þær aðalega af því að þeir vilja komast hjá því að fara í sónar upp á Landspítala 12 vikum eftir ástarleik. Og ég vil meina að eitt af því sem hvetji fólk til að notast við getnaðarvarnir sé fórnarkostnaður barneigna, sem risið hefur ár eftir ár, í meira en öld.

Fórnarkostnaður: Það sem þú getur ekki gert af því að þú gerir eitthvað annað

Fórnarkostnaður er stórfenglegt hagfræðihugtak. Þeir sem hafa góð tök á hugtakinu og nota það í greiningu sinni hafa betri skilning á umhverfinu sínu og taka betri ákvarðanir. Fórnarkostnaður hjálpar manni að skilja hvers vegna Íslendingar velja bíl fram yfir strætó, af hverju ekki er hægt að slökkva á íslenska hagkerfinu of lengi til þess að koma í veg fyrir hvert og eitt einasta COVID smit, sem og það gerir manni kleift að gefa konunni sinni róbótaryksugu í jólagjöf, án þess að enda á sófanum.

Í grunninn er hugtakið eins einfalt og það er mikil snilld: Fórnarkostnaður lýsir því sem þú getur ekki gert af því að þú ákveður að gera eitthvað annað. Til dæmis ef ég vinn 200.000 krónur á skafmiða, þá get ég annars vegar keypt mér 200 hamborgara í Skalla (Árbæ, hvar annarstaðar?), eða hins vegar keypt mér glænýtt Garmin Fenix Pro Solar Titanum hlaupaúr.

Ef ég kaupi hlaupaúrið, þá er fórnarkostnaður minn af úrkaupunum 200 himneskir hamborgarar að hætti Óla í Skalla; en ef ég kaupi hamborgarana þá er fórnarkostnaðurinn minn sá að ég þarf að sætta mig við að mæla hlaupin mín með lummulegu TomTom Sport 3 hlaupaúri (sem tekur þúsund ár að tengjast GPS gervihnattartungli) sem ég hef átt í hundrað ár.

Hugsið um börnin!

Undanfarin 6 ár hafa verið ansi ljúf í lífi mínu. Í fyrsta skipti á ævi minni hafði ég ágætar og stöðugar tekjur. Því hef ég getað lifað lúxus lífi sem aldrei fyrr (það var svo sem ekki erfitt að toppa instant-núðlur og Slots í dós). Á sama tímabili kynntist ég einnig konunni minni sem, fyrir utan að vera snillingur, er með fínar fastar tekjur. 

Það er svo skilvirkt að vera í barnlausu sambandi að á ensku er til skammstöfun yfir fyrirbærið: DINK („double income, no kids“). Skilvirknin fellst aðalega í því að deila föstum kostnaði lífsins (leiga, húsgögn, Netflix, o.s.frv.) 

Við konan mín vorum lengi DINK-arar og þar sem hvorugt okkar er mikið fyrir dýra neysluvöru (við höfum ekki áhuga á hraðskeiðum bílum og sjáum ekki muninn á Hilton og Holiday Inn) höfum við hingað til getað leyft okkur nokkurn veginn það sem okkur sýnist: Lost Bayou Ramblers á Blue Moon í Lafyett; Limoncello á Amalfi; súrar gúrkur í Spreewald; og Schwarzriesling í Die Pfalz. Ekkert Bjöggi Þór og Beckham að veiða lax með tætara úr þyrlu, en samt mjög næs.

Þó það hafi alltaf verið draumur okkar að stofna fjölskyldu og var það nokkuð skýrt að ef og þegar til þess kæmi þá væri fórnarkostnaður fjölskyldulífsins fyrst og fremst nautnalífið. Fimm rétta vín pöruðum máltíðum á Vanilla Black í London í skiptum fyrir stéttarfélagsbústað í Bláskógarbyggð.

Nautnalífið er þó ekki það eina sem fólk fórnar þegar það ákveður að eignast börn. Ef eitthvað er þá er það tittlingaskítur samanborið við þann fórnarkostnað sem konur standa frammi fyrir á framabrautinni. Það er nefnilega því miður þannig að konur greiða fyrir barneignir með framanum. 

Hin svokallaða langtíma barnarefsing lýsir tekjutapi meðalkonu eftir að hún eignast sitt fyrsta barn, samanborið við meðalkarlmann eftir að hann eignast sitt fyrsta barn. Í nýlegri rannsókn sem gerð var á íbúum jafnaðarbælisins Danmörku mældist langtíma barnarefsing kvenna 20%. Þ.e.a.s. kona sem áður var með 500 þúsund kall á mánuði þarf að sætta sig við 400 þúsund kall á mánuði það sem eftir er ævinnar, ef hún ákveður að eignast börn, á meðan sambærilegur karlmaður heldur sínum 500 þúsund krónum eftir að hann eignast sitt fyrsta barn [1].

Því má einfaldlega færa rök fyrir því að síðastliðin 60 ár hafi einkennst af hækkandi fórnarkostnaði barneigna. Þ.e.a.s. laun (bæði kvenna og karla) hafa hækkað umtalsvert sem og tækifærin til þess að eyða þessum hærri launum í allskonar hressa neyslu. Þegar ég fæddist þá þótti fínt að fara á Hróarskeldu á tónleika eða í sólarlandaferð til Algarve. Í dag er maður algjört egg ef maður ferðast ekki í það minnsta til Kaliforníu á Coachella og alger auli ef maður fer styttra en til Bali til að baða sig.

Vandamálið við hið mælanlega

Eitt öflugasta og mest notaða tól verkfærakistu hagfræðinnar er svokölluð kostnaðar- og ábatagreining. Þegar hagfræðingar vilja vita hvort ákveðin verkefni eru þess virði að ráðast í þá grípa þeir gjarnan til hennar. 

Í slíkri greiningu er verkefni skilgreint, gert er grein fyrir öllum hugsanlegum kostnaðar- og ábataliðum sem verkefninu tengjast og svo er ábatinn lagður saman og kostnaðurinn dregin frá. Ef ábatinn er meiri en kostnaðurinn, þá vilja hagfræðingar meina að þess virði sé að ráðast í verkefnið.

Einfalt, ekki satt?

Fyrir einhverju síðan gaf Hagfræðistofnun út ágæta, þó misvinsæla, skýrslu sem reyndi að meta samfélagságóðann af hvalveiðum. Tólið sem notað var til greiningarinnar var kostnaðar- og ábatagreining. Eftir að hafa tekið saman allan mælanlegan kostnað og bata af hvalveiðum komst Hagfræðistofnun að þeirri niðurstöðu að hvalveiðar margborguðu sig fyrir íslensku þjóðina. 

Niðurstaðan var þó tæpast háð hrávörunni sjálfri – þó örfáir Japanir éti hval þá eru þeir ekki til í að borga mikið fyrir hann. En það kostar ekki mikið að kasta spjóti í stóran fisk og dauður stór fiskur borðar ekki litla fiska. Með því að láta Kristján í Hval slátra samkeppninni geta Samherjabörn – og aðrir sem kvóta hafa – veitt fleiri litla fiska og grætt meiri peninga.

Í kostnaðar- og ábatagreiningum fær hið auðmælanlega oft hlutfallslega of mikið vægi. Almennt er beinn kostnaður af barneignum nokkuð skýr: kúkableyjur; grenjuköst; svefnleysi; ferilshrun (fyrir mömmur); og að sjálfsögðu hrein og bein peningaleg útgjöld sem fylgja barneignum. 

Ábatinn, kostirnir eða hvað sem maður vill kalla það, við barneignir eru aftur á móti eins og draumasena í sápuóperu; þokukenndur og aðeins úr fókus. Almennt þegar fólk talar um það sem þau fá út úr barneignum þá talar það um einhverskonar draumkennda og ómælanlega ánægju. Fólk talar um tilfinningu sem oft er kölluð ást. Einnig talar fólk oft um það hvað börn eru skemmtileg, jafnvel sniðug, eða þá góðu tilfinningu sem það upplifir við það að móta og skapa einstakling og sjá hann svo vaxa og dafna. 

Allar þessar tilfinningar eru auðvita einhvers virði, en að mestu ómælanlegar. Ef hægt er að færa á slíka tilfinningu tölu þá yrði sú tala líklega umdeild og í öllu falli auðhrekjanleg.

Hvalveiðiskýrsla Hagfræðistofnunar ræðir einnig kostnað sem hálf ómögulegt var að mæla. Skýrslan bendir á að slíkur kostnaður sé mögulegur, en reynir að sjálfsögðu ekki að magnfæra hann af því að í eðli sínu er hann ómælanlegur. Hvernig setur maður krónutölu á mannorð Íslands? Hvers virði er syndandi hvalur í sjó fyrir alla þá Íslendinga (og útlendinga) sem þykja hvalveiðar glataðar? Hvers virði er hvalur í sjó fyrir vistkerfið? Hvers virði er það að vernda þessa tignarlegu herra hafsins? 

Þetta er allt einhvers virði. Mögulega hellings virði. En enginn getur á sannfærandi hátt sagt nákvæmlega hver talan á að vera, því nenna fæstir að reyna að magnfæra hið illmagnfæranlega. Hvort sem það er gleði hippa vegna hvalfriðunar, eða ást foreldra á börnunum sínum. 

En það sem erfitt – jafnvel ómögulegt – er að mæla er oft mikils virði. Kannski er mannorðsblettur hvalveiða stærri en við höldum. Kannski er langtíma verðmæti hvals á vistkerfið sitt meira en viðbótar EBITDA Samherja. Í öllu falli er ást móður á eigin barni meira virði en launaskerðing og nautnalífið samanlagt. Einhverjir vilja meina að slík ást sé ómetanleg. En hver er munurinn á því ómælnalega og ómetanlega? 

Þegar kostnaður er í raun ábati

Ef allir Íslendingar byrjuðu í dag að setja barneignarákvarðanir sínar upp í Excel, þar sem þeir legðu saman mælanlegan bata og drægju frá honum mælanlegan kostnað, þá tæki það rétt rúmlega 100 ár fyrir þjóðina að þurrkast út. Ekki af því að það er í raun og veru góð ákvörðun að hætta að eignast ekki börn, heldur af því að kostnaðurinn er mælanlegur en ábatinn ekki.

Kúkableyjur, svefnleysi, gubb og grenjuköst er eru allt hlutir sem ég hefði gefið mér að væri kostnaður, hefði ég sett ákvörðun mína að eignast barn í Excel. En þegar á hólminn var komið þá áttaði ég mig á því að þó eitthvað sé erfitt þá þarf ekki að kalla það kostnað. Þó eitthvað sé vinna, þá má vel vera að vinnuna sé þess virði að vinna án þess að þiggja fyrir hana laun. Í öllu falli er þetta vinna sem ég hefði síður viljað missa af.  

Að sjálfsögðu væri ég til í að sofa meira, en ástæðan fyrir slæmum svefni er sá að ég þarf að ganga úr skugga um að strákunum mínum líði vel. Í venjulegu árfari væri svefnleysi kostnaður, en þegar svefnleysi er drifið af kúrþörf hvítvoðungs þá er fórnin sem svefninn er jöfnuð af ábatanum sem kúrið gefur. En þessa hluti veit maður ekki áður en maður upplifir þá, því gefur maður sér að þeir séu kostnaður. 

Franski 17. aldar vísindamaðurinn Blaise Pascal afsakaði einu sinni langt bréf sem hann skrifaði á þeim grundvelli að honum hafi ekki „gefist tími til að skrifa stutt bréf“. Upphaflega langaði mig að skrifa stuttan pistil um fórnarkostnað og barneignir, en í augnablikinu er fórnarkostnaðurinn minn of hár, því skrifaði ég langan pistil. 


Punktar höfundar

[1] Þetta er vissulega mikil einföldun. Að sjálfsögðu má reikna með því að laun kvenna hækki þegar fram líða stundir, en að öllu öðru óbreyttu, þá má meðalkona í Danmörku búast við því að þéna 20% minna en sambærilegur karlmaður, eftir að þau eignast hvor sitt fyrsta barn (eða mögulega saman).


Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Fjallahjólabrautin við Austurkór var eitt verkefna sem valið var til framkvæmda af íbúum í íbúðalýðræðisverkefninu Okkar Kópavogur í fyrra.
Kópavogsbær skoðar flötu fjallahjólabrautina betur eftir holskeflu athugasemda
Kópavogsbær hefur boðað að fjallahjólabraut við Austurkór í Kópavogi verði tekin til nánari skoðunar, eftir fjölda athugasemda frá svekktum íbúum þess efnis að brautin gagnist lítið við fjallahjólreiðar.
Kjarninn 24. júlí 2021
Með stafrænum kórónuveirupassa fæst QR kóði sem sýna þarf á hinum ýmsu stöðum.
Munu þurfa að framvísa kórónuveirupassa til að fara út að borða
Evrópska bólusetningarvottorðið hefur verið notað vegna ferðalaga innan álfunnar síðan í upphafi mánaðar. Í Danmörku hefur fólk þurft að sýna sambærilegt vottorð til að sækja samkomustaði og svipað er nú uppi á teningnum á Ítalíu og í Frakklandi.
Kjarninn 24. júlí 2021
Eldgosið í Geldingadölum hefur verið mikið sjónarspil. Nú virðist það í rénun.
Ráðherra veitir nafni nýja hraunsins formlega blessun sína
Eins og lög gera ráð fyrir hefur Lilja Dögg Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra staðfest nafngift nýja hraunsins í landi Grindavíkurbæjar. Fagradalshraun mun það heita um ókomna framtíð.
Kjarninn 24. júlí 2021
Ferðamenn við Skógafoss.
Lágur smitfjöldi talinn mikilvægur fyrir heilsu og hagsmuni ferðaþjónustu
Ótti við að lenda á rauðum listum sóttvarnayfirvalda í Evrópu og Bandaríkjunum var tekinn inn í heildarhagsmunamat ríkisstjórnarinnar varðandi nýjar sóttvarnaráðstafanir innanlands. Á morgun verður mannlífið heft á ný vegna veirunnar.
Kjarninn 24. júlí 2021
Einkabílaeign á Ísland er hlutfallslega sú hæsta í Evrópu.
Getur Ísland keyrt sig út úr loftslagsvandanum?
Orkuskipti í samgöngum er eitt helsta framlag íslenskra stjórnvalda í baráttunni við loftslagshamfarir. Rafbílar eru hins vegar ekki sú töfralausn sem oft er haldið fram. Vandamálið er ekki bensíndrifnir bílar heldur bíladrifin menning.
Kjarninn 24. júlí 2021
Daði Már Kristófersson
Gölluð greinargerð um fyrningu aflaheimilda
Kjarninn 24. júlí 2021
Nýútskrifaðir sjúkraþjálfarar hafa sem sakir standa ekki kost á því að starfa á einkareknum stofum innan greiðsluþátttökukerfis hins opinbera fyrr en eftir tveggja ára starf í greininni.
Nýútskrifaðir sjúkraþjálfarar byrja að veita þjónustu án greiðsluþátttöku ríkisins
Á nokkrum sjúkraþjálfarastofum er nú hægt að bóka þjónustu nýútskrifaðra sjúkraþjálfara, en þá þarf að greiða fullt verð fyrir tímann, vegna ákvæðis í reglugerð heilbrigðisráðherra. Tveir eigendur stofa segja þetta ekki gott fyrir skjólstæðinga.
Kjarninn 24. júlí 2021
Ríkisstjórnin fundaði á Egilsstöðum í dag. Mynd úr safni.
200 manna samkomutakmarkanir til 13. ágúst
Í mesta lagi 200 manns mega koma saman frá miðnætti á morgun og þar til 13. ágúst og eins metra regla verður í gildi. Barir og veitingahús þurfa að loka á miðnætti.
Kjarninn 23. júlí 2021
Meira úr sama flokkiEikonomics