Árið 2019 var mikið afmælisár í sögu lífeyrissjóða á Íslandi. Embættismenn höfðu að vísu fengið eftirlaun frá Danakonungi allar götur frá 19. öld, en árið 1919 var stofnaður lífeyrissjóður embættismanna sem varð að lokum að lífeyrissjóði allra opinberra starfsmanna. Grundvöllurinn að núverandi lífeyrissjóðum almennra launamanna var síðan lagður með allsherjar kjarasamningum á vinnumarkaði árið 1969 þar sem kveðið var á um atvinnutengda lífeyrissjóði með skylduaðild og fullgildri sjóðsöfnun frá ársbyrjun 1970. Árið 1974 voru svo sett lög á grundvelli þessara samninga og lífeyriskerfið hélt áfram að eflast eftir það.
Lífeyriskerfi launamanna var ekki eina róttæka breytingin sem verkalýðshreyfing 20. aldar knúði fram með kjarabaráttu sinni. Atvinnuleysistryggingar höfðu fengist með svipuðum hætti í sögufrægum verkfallsátökum árið 1955, og einnig fengu samtökin smám saman framgengt kröfum sínum um veikindarétt og sjúkrasjóði, veruleg orlofsréttindi, styttingu vinnutímans, umbætur í húsnæðismálum og fleira slíkt sem miklu skipti. Öll þessi réttindi kostuðu mikla og stranga baráttu en reyndust, eftir á að hyggja, miklu meiri og varanlegri kjarabót en fjölgun auranna í launaumslaginu, sem hvarf jafnharðan í hít verðbólgunnar sem einkenndi tímabilið eftir stríð og fram til 1990 eins og margir muna.
Aðdragandinn að stofnun almennra lífeyrissjóða árið 1969 var bæði langur og flókinn. Þó að mönnum kæmi að lokum saman um að sjóðirnir yrðu í reynd eign sjóðsfélaga varð verkalýðshreyfingin að fallast á að stjórnir þeirra skyldu skipaðar fulltrúum atvinnurekenda og sjóðsfélaga til jafns. Á næstu árum eftir stofnun sjóðanna kom krafan um meirihluta verkafólks í stjórn sjóðanna oft til umræðu í samtökum launþega en hún náði þó aldrei fram að ganga, og því sitjum við enn uppi með það óeðlilega fyrirkomulag að fulltrúar sjóðsfélaga eru ekki í meirihluta í stjórnum sjóðanna.
Í 36. grein laga nr. 129/1997 um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða er fjallað um fjárfestingarstefnu sjóðanna. Þar segir í 1. tölulið að „lífeyrissjóður skal hafa hagsmuni sjóðfélaga að leiðarljósi.“ Einnig segir í 5. tölulið: „Lífeyrissjóður skal setja sér siðferðisleg viðmið í fjárfestingum.“
Í hluthafastefnu Lífeyrissjóðs verslunarmanna eru meðal annars eftirfarandi ákvæði, í framhaldi af fyrrnefndum lagaákvæðum:
Lífeyrissjóðurinn er aðili að reglum Sameinuðu Þjóðanna (UN PRI) um ábyrgar fjárfestingar, ásamt mörgum af stærstu lífeyrissjóðum og fagfjárfestum vestanhafs og í Evrópu. Í reglunum er fjallað um hvernig áhersla á umhverfisleg og samfélagsleg málefni auk góðra stjórnarhátta fyrirtækja getur stuðlað að bættum fjárfestingarárangri verðbréfasafna. Þannig fari saman hagsmunir fjárfesta og markmið þjóðfélagsins í víðara samhengi.
LV telur mikilvægt að félög, einkum þau sem skráð eru á hlutabréfamarkaði, setji sér opinbera stefnu um:
- að viðhafa góða stjórnarhætti
- starfskjör
- samfélagslega ábyrgð og umhverfismál.
Lífeyrissjóðurinn Gildi, sem er með stærstu sjóðum landsins, hefur sett sér „stefnu um ábyrgar fjárfestingar“ og þar eru ákvæði af svipuðum toga.
Þetta er allt rifjað upp hér sem inngangur að nýjasta tískuorði íslenskunnar, „skuggastjórnun“. Þar sem orðið er nýtt í málinu er þess ekki von að það hafi verið skilgreint til hlítar, en mér sýnist eftirfarandi skilgreining nú vera „mest tekin“:
- Skuggastjórnun er það þegar forystumaður í stéttarfélagi segir í fjölmiðlum að hann ætli að senda fulltrúum félagsins í stjórn lífeyrissjóðs tilmæli eða fyrirmæli um hvernig þeir eigi að taka afstöðu í tilteknu máli. Ef þeir fari ekki eftir tilmælunum verði þeir látnir víkja úr stjórninni við fyrsta hentugleika. Ef forystumaðurinn fer ekki með þetta í fjölmiðla og talar ekki um uppsögn, þá er það hins vegar ekki „skuggastjórnun“ enda eru svoleiðis samskipti milli manna auðvitað altíð í fjármálaheiminum eins og annars staðar. Ég læt lesandann um að hugleiða hvor leiðin honum finnst „skuggalegri.“
Það eru einkum tveir menn sem hafa reynt að móta þessa skilgreiningu þegar þetta er skrifað, að morgni laugardagsins 25. júlí 2020. Það eru þeir Hörður Ægisson blaðamaður á Fréttablaðinu og Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri. Tilefnið hjá báðum varð til eftir að Bogi Nils Bogason forstjóri Icelandair hafði sagt frá þeirri ætlun sinni að slíta samningum félagsins við flugfreyjur og flugþjóna (segja þeim upp), og Ragnar Þór Ingólfsson, formaður Verslunarmannafélags Reykjavíkur sendi þá út þau tilmæli til fulltrúa félagsins í stjórn Lífeyrissjóðs verslunarmanna að styðja ekki hugsanleg kaup sjóðsins á hlutabréfum í félaginu, ella kynnu þeir að verða látnir víkja. Nokkru síðar dró Bogi Nils ákvörðun sína til baka og í kjölfarið fór Ragnar Þór sömu leið með tilmæli sín sem miðuðust auðvitað við ákvörðun Boga.
Engu að síður sáu þeir Hörður og Ásgeir ástæðu til að fjölyrða um málið í föstudagsblaði Fréttablaðsins með stórum orðum um skuggastjórnun, lögbrot og ríka þörf fyrir breytingar á lögum. Þar átti lítil þúfa sannarlega að velta þungu hlassi þótt blessuð þúfan hefði verið í viðtengingarhætti og auk þess verið þurrkuð út snarlega.
Þar sem málið er mikilvægt skulum við huga að efninu sjálfu í lokin. Ég rakti hér á undan þau atriði í lögum um lífeyrissjóði sem lúta að þessu máli. Í þeim felst að sjóðstjórnum ber að gæta hagsmuna sjóðfélaga og hafa siðferðileg viðmið í fjárfestingum, og þessi atriði eru útfærð nánar í samþykktum bæði Gildis og Lífeyrissjóðs verslunarmanna eins og ég nefndi. Lífeyrissjóðir eiga hins vegar EKKI að horfa eingöngu til skammtíma arðsemissjónarmiða í fjárfestingum sínum. Slíkt væri einmitt stórhættuleg stefna og þarf ekki að leita lengi að dæmum um slíkt í fortíðinni, þar sem stór útlán banka og sjóða hafa runnið til siðlausra ævintýramanna og umhverfissóða, með hörmulegum afleiðingum. Forstjóri Icelandair var augljóslega á hálum ís þegar honum datt í hug að þurrka út heilan hóp starfsmanna, draga þannig verulega úr þeirri velvild sem félagið hefur notið á íslenskum markaði og veikja stöðu þess gagnvart fjárfestum. Sem betur fer sá hann að sér og dró þetta til baka. Tíminn leiðir í ljós hvort það dugir til þess að fjárfesting lífeyrissjóða í félaginu geti talist ábyrg gagnvart sjóðfélögum þegar upp er staðið.
Höfundur er fyrrverandi prófessor í eðlisfræði og vísindasögu.
Heimildir:
Saga Alþýðusambandsins eftir Sumarliða Ísleifsson
Lífeyrissjóður verslunarmanna: Hluthafastefna, kafli I.1, liðir f-g
Lífeyrissjóðurinn Gildi: Stefna um ábyrgar fjárfestingar