Storytel mætir HUH!

Bjarni M. Bjarnason rithöfundur og stjórnarmaður í Rithöfundasambandi Íslands segir að eldsneytið sem knúi veldi Storytel áfram séu peningarnir sem rithöfundar fái ekki lengur fyrir verk sín.

Auglýsing

Leirataður HUH-maður opnar faðminn

Nýlendustefna og síðnýlendustefna er efni sem er strax krufið í félagsfræði fyrir framhaldsskóla. Í kennslubókinni Ríkar þjóðir og snauðar, eftir Hannes Í. Ólafsson, segir að út frá sjónarmiði sumra fræðimanna þá skorti; þriðja heiminn tækniþekkingu til þess að íbúar geti nýtt eigin auðlindir á samkeppnisfæran hátt (bls. 112). Rótgróin, en gamaldags hugmynd undir áhrifum tæknihyggju, er að þjóðir þróist frá náttúrumenningu til tæknimenningar (bls. 61). Þróun og hagvöxtur eru lykilhugtök í þessu módeli, þau eru nauðsynleg svo að náttúrusamfélög geti orðið þróuð í FRAMTÍÐINNI. Höfundurinn rökstyður hvers vegna bæði náttúrumenningu og tæknimenningu fylgja kostir og gallar, og hvers vegna ekki er hægt að segja að ein tegund fólks sé annarri fremri.

Það ríkjandi sjónarmið að við Íslendingar tilheyrum þróunarlöndum getur orðið full samgróið manni. Þess vegna er hressandi að upplifa að til manns er talað sem náttúrumanns. Stundum gerist það í bókmenntum að fólk frá gömlum nýlendum er framreitt sem frumstætt, villt, exótískt. Það hendir jafnvel höfunda frá slíkum löndum að klæða landa sína þessháttar mittisskýlum. Kannski er eðlileg framvinda bókmenntasögunnar að höfundarnir sjálfir, sem héldu ef til vill að þeir væru handan við þennan leik, að þeir stýrðu honum úr öruggu skjóli, hafni í því hlutverki að til þeirra er talað eins og exótískra náttúrumanna í fánalitaleir einum fata. Frummanna sem leggja allt sitt í orðið HUH. Þetta hefur gerst undanfarið og er ég sjálfur orðinn mun betri í HUH-inu, en ég var áður en Storytel kokgleypti Forlagið og ég var beðinn um að fagna með: HUH! (=ég er stoltur!)

Auglýsing

FRAMTÍÐIN

Storytelskornið okkar hefst á að fjölþjóðlegt fyrirtæki fellur af himni ofan yfir íslenskan bókamarkað og gerir það í nafni FRAMTÍÐARINNAR! Eins og segir í tilkynningu um atburðinn þá mun þetta gæfuspor „færa okk­ur skrefi nær inn í framtíðina“, og „tryggja for­ystu í sta­f­rænni þróun til framtíðar.“ Hún, framtíðin, hefði ekki komið án Storytel, er strax orðið ljóst. Listilega er svo trommað upp í glæsilegan hápunktinn: „Það má því segja að sam­band Storytel og For­lags­ins sé í raun fjár­fest­ing íslenskrar útgáfu í fram­tíð­inni.“ Hér er sko ekki tuldruð almúgaleg vitleysan. Þegar rökstyðja á flókna hluti fyrir vanþróuðum náttúrumönnum þá er best að nota framtíðina sem trausta forsendu að byggja á. Við þessu segir maður þá kröftuglega: HUH! (=kærar þakkir!)

TÆKNIN

Eins er þetta fyrirtæki komið alla leið hingað á heimshjarann með sjálfa tæknina, og hreinlega „stafrænu þróunina“, svo maður slái aðeins um sig með hátæknimáli. Vegna þess að stafræn útgáfa og hljóðbókarútgáfa er skiljanlega hátækniiðnaður, sem við á mittisskýlunum myndum aldrei henda reiður á sjálf. Um þetta segir hann Jonas minn hjá Storytel þegar hann gleðst yfir að við séum að bætast í „Storytelfjölskylduna“; Hann elsku Júnas segir - og missið ekki af dáleiðandi sönglandanum í hreimnum „þekking Storytel á stafrænni þróun“, muni gera allskonar gott! Gaman er að tengjast svona töfralækni fjölskylduböndum. Manni sem bjargar okkur, því við mundum bara slasa okkur ef við reyndum að fóta okkur án tilskilins hlífðarbúnaðar á sleipu lyklaborði hins stafræna heims. Við þessari gjöf Júndasar, (skyldi ég mega kalla hann pabba?) segir maður vitanlega hlýr í kinnum: HUH! (=kærar þakkir!)

REKSTURINN

Þetta fyrirtæki er komið í ástleitnum yfirtökuerindum til að tryggja reksturinn, eða eins og segir í frelsisyfirlýsingunni;  „Kaupin munu styrkja rekstrargrunn Forlagsins og tryggja forystu í stafrænni þróun til framtíðar.“

Mikið er gott að vita að Storytel er alls ekki komið vegna þess að fjölþjóðleg fyrirtæki stunda vinalegar yfirtökur útaf hagræðingunni sem eftirá fylgir í niðurskurði á rekstri. Jonas mundi aldrei taka undir það sem segir í ofannefndri leikskrá með þessari revíu; það eru yfirleitt hagsmunir auðhringja að þriðji heimurinn auðgist ekki um of því þá verður vinnuafl þar (rithöfundarnir) ekki eins ódýrt (bls. 117). Jonas mundi aldrei halda því fram að mínus þýddi plús og plús mínus, enda hættulegt að halda andstæðum pólum í hausnum á sama tíma. Nei, reksturinn er tryggður (lesist; rekstur Storytel). Heimurinn verður óbreyttur, nema reyndar að auðhringur hagræddi ekki eftir yfirtöku. Sem er vissulega nýstárlega fréttir, og sýnir bara hvað við erum rosalega heppin með auðhring. Það er frábært líka að sjá að við tryggjum stafræna þróun til framtíðar, dáleiðandi orðalag sem maður bara hlýtur að elska, en í því og allri kynningarframsetningunni felst svo svalandi síðnýlenduhugsun, að hún er kjörið ritgerðarefni í félagsfræði fyrir framhaldsskóla. Lykilhugtökin um þróun ríkja eru komin, þróun sem, eins og við höfum lært, er frá náttúrumenningu til tæknimenningar – samkvæmt tæknihyggjunni – og við erum svo heppin að vera að þróast. Auðhringurinn, sem gleypti Forlagið eins og smá forrétt áður en hann tók yfir stærstu hljóðbókaútgáfuna á arabísku (Kitab Sawti), breiðir tæknina út um allan heim! Og við verðum í fremstu röð, því í þessu kapphlaupi staldrar forustusauðurinn Jonas við, til að hleypa okkur fyrstum í mark! Vei! Við þessu er ekkert annað að segja en: HUH! (=faðmaðu mig strax!)

ALLIR PENINGARNIR 

Stórfyrirtæki rogast hingað með peningapoka í einkaflugvélum sem eru þandar í botn í nafni þróunarhjálparinnar. Eða; það lofar að ýta á millifærslu-takkann í framtíðinni. Peningaseðlar munu fjúka milli herbergja þegar gluggar eru opnaðir af því að þau munu „nýta stóran hluta kaupverðsins til stofnfjár sjóðs,“ bara fyrir höfunda að svamla í. En svo er sá sígildi galdur framinn að fyrirtækið sem setti pening inn í fyrirtækið, það á fyrirtækið. Það jafnvel er fyrirtækið. Það getur breytt öllum reglum þar daglega, til gamans, og hókus pókus; peningur sem fór ofan í vinstri vasa kom upp úr hægri vasa. Þetta eru upptendrandi töfrar Jonasar, og ekkert annað hægt að gera en að grenja; HUH! (=gerðu þetta aftur!)

Þunnur dúddi les viðskiptafréttir – fyrri hluti

Væri maður ekki þessi exótíski náttúrumaður sem maður er, heldur nývaknaður þunnur dúddi frá iðnvæddu ríki eins og til dæmis Svíþjóð að bryðja verkjatöflur og blaða í viðskiptafréttunum á netinu, þá mundi maður álykta að Storytel málið snérist ekki um neitt annað en rekstrarform og markaðsstöðu fyrirtækja á bókamarkaði. Og þá hvarflaði jafnvel að manni að mynttalningarvélin Jonas hefði ekki hugmynd um hvað orðalagið stafræn þróun þýðir. Jafnvel mundi maður stynja yfir þessu, já, þetta snýst auðvitað um peninga og völd. Og rækist maður síðan í tölvuna, til að sjá afstöðu Sænska rithöfundasambandsins til Storytel, þá sæi maður að það logaði svo skært að bálköstinn má sjá frá Gunnarshúsi. Í grein frá rithöfundasambandi upprunalands Storytel sem má finna undir fyrirsögninni Därför är ljudboken en fråga om makt, er viðurkennt að tæknin er fín fyrir bókmenntirnar. Sjálfsagt sé að fagna henni með glasaglamri og kampavíni. En, eins og alveg edrú formaður rithöfundasambandsins Sænska leggur áherslu á; Vandinn er að rithöfundarnir eru valdalausir gagnvart nýju viðskiptamódeli.

Tækni- og auðhringsdansinn 

Að dúddanum flögraði að gamanmyndaleikarinn og menningargreinandinn Marshall McLuhan hafi sagt að tækni geti gert allt nema bæta sér við það sem við þegar erum. Dúddinn sæi, eins og sami leikari tók fram; að ný tækni brýtur upp alla ferla og raðar brotum saman í nýja röð. Þetta er hægt, vegna þess að þó svo virðist oft þegar maður hefur vanist hlutunum eins og þeir eru, þá er, eins og David Hume sýndi fram á, ekkert orsakalögmál falið í samfelldri röð sem slíkri. (Miðill-áhrif-merking, bls. 41)

Þessi áhrif tækni á menningu sjást víða, en samskiptamiðlar eru nærtækasta dæmið. Þeir stokka upp hvernig mannleg samskipti eru, breyta hvað telst normal. Á tímabili er normal að kynnast fólki í gegnum aðra, blaða í myndaalbúmum eftir löng kynni. Síðar er normal að samþykkja vinabeiðni ókunnugs aðila, og byrja á að skoða myndaalbúið. Að baki ördæminu um hvernig myndaalbúið er selt, og um það vélað, eru átök fyrirtækja um formúur.

Það sem auðvaldið getur nýtt sér vegna þessara einföldu lögmála er að þegar tæknin brýtur upp ferla, sem er ekki slæmt í sjálfu sér, þá má stíga inn og hrifsa til sín vald yfir einingu í ferlinu, eins og myndaalbúminu. Vald sem lá annarstaðar fyrir uppbrotið. Sé uppbrotið framkvæmt nægilega hratt og oft verður fólk óáttað. Lítillar samstöðu gætir þá hjá hagsmunaaðilum enda fólk ósammála um hvað það á að standa saman um. Fyrr en varir eru listamenn farnir að greiða með tónlist sinni til að koma henni á framfæri hjá streymisveitum eins og Spotify, svo hliðstætt dæmi sé tekið við það sem á sér stað í bókmenntaheiminum með örum vexti Storytel (sjá; Áhrif streymisveita á lifnaðarhætti tónlistarmanna, skemman.is). Eldsneytið sem knýr maskínu Storytel áfram, sem skapar yfirtökumáttinn víða um lönd, er peningarnir sem höfundar fá ekki lengur fyrir verk sín. Yfirtakan gengur út á að komast með borana í þá olíulind. Þess vegna er það kaldhæðnislegt framhaldsuppistand þegar ringlaðir greinahöfundar sem annars fjandskapast út af auðhringjum, bæði falla fyrir ofnotaðri retóríkinni, að auðhringurinn komi með framtíðina og tæknina, og gera hana að sinni.

Hvaða ráðum skal hlíta?

Málið er að tæknin er eitt, auðhringurinn annað, og þegar tæknin brýtur upp ferlana, sem er allt í lagi, þá þarf valdið ekki að fara til risa eins Storytel sem hefur skilið eftir sig sviðna jörð víða um lönd. Valdið getur allt eins farið til aðila sem er hagstæðara fyrir höfunda að fari með það. Eins og til dæmis annars hljóðbókafyrirtækis, eða innlendrar bókaútgáfu sem keypti hluta af Forlaginu. Þetta mundi færa okkur það framtíðarríki sem boðað er í frelsisyfirlýsingunni, en auk þess bæta stöðu höfunda, frekar en að skerða hana verulega.

Það eina sem þessi leið mundi breyta peningalega væri að 13% maður fengi ekki vel yfir 100 milljónir í vasann, summu sem er ágætis hvati fyrir hvern sem er, og virðist vera hreyfiaflið á bak við þessar jarðhræringar í bókmenntaheiminum. Að einhver geti grætt á bókaútgáfu er fínt, en fórnarkostnaðurinn er of mikill fyrir heildina sé eignarhlutinn leystur út með þessum hætti. Hóflegri leið, vænlegri fyrir alla, mundi skila aðeins færri milljónum til viðkomandi, enda þá enginn alræmdur auðhringur að þrengja sér upp úr vasa hans með það að marki að taka yfir íslenskan bókamarkað.

Djúpi vasinn sem leið Storytel liggur um hingað til lands er silkivasinn sem stjórn Rithöfundasambands Íslands vill sauma fyrir. Ástæðan er, eins og kemur fram í yfirlýsingu hennar, að hún hefur; áhyggjur af enn meira valdaójafnvægi á bókamarkaði ef kaupin ganga í gegn þar sem stærsta bókaútgáfa landsins og eina streymisveita hljóðbóka verði í eigu sama aðila.

Þó að sambandssinnuðu áróðurmeistararnir með blitzyfirtöku Storytel á Íslenskum bókmenntaheimi geti skemmt manni með holum og örvæntingafullum söluræðum sem áhugavert er að greina í ljósi eftirlendufræða með hjálp framhaldsskólafélagsfræði, þá er núna skynsamlegra að hlusta á varnaðarorð Evrópsku rithöfundasamtakana. Þau segja í nýrri skýrslu (EWC-survey); Stafræna netútlána- og hljóðbókaáskriftin hefur aukist gríðarlega á kostnað annarar útgáfu, bæði í gegnum bókasöfn og vegna margskonar lággjalda áskriftamódela. Það sem leiðirnar báðar eiga sameiginlegt er að laun höfunda hafa hlutfallslega lækkað, eða horfið.

Þunni dúddinn og viðskiptafréttirnar, seinni hluti

Peningar og völd, muldraði dúddinn, og tæki eftir að yfirtaka Storytel væri háð samþykki samkeppniseftirlitsins, sem enn hefur ekki verið veitt. Þar sem dúddinn byggi yfir meiri tækniþekkingu en við, mundi hann, eftir að hafa hrisst hausinn, gúggla samkeppniseftirlitið, þurrka barbekjúsósu af lyklaborðinu, og komast að því að það er opið fyrir öllum ábendingum almennings um samkeppnislagabrot og um óttann við slík brot í FRAMTÍÐINNI. Dúddinn fyndi netfangið samkeppni@samkeppni.is og benti öllum tækniséníum á að senda þeim skoðun sína á málinu, tæpitungulausa, ásamt yfirlýsingum Rithöfundasambands Íslands og Svíþjóðar, og glás af efni í sama dúr sem auðvelt er að nálgast á netinu. Þetta mundi venjulegur dúddí í þróuðu ríki, í fyrsta heiminum, álykta og gera áður en hann tæki að lesa brandarsíðuna til að ná sér niður með efni sem má taka alvarlega. 

Ég hinsvegar, þegar ég mæti björtum mönnum úti í auðninni sem hrósa mittisskýlunni og litskrúðugum sparileirnum á skrokknum, mönnum sem koma færandi hendi með FRAMTÍÐINA, og einfalda líf mitt með því að rétta mér sjálfa TÆKNINA að styðjast við, - mönnum sem leyfa mér, þurrum í munninum af upphefðarhita að súpa á vatni sem bragðast sem ELDUR,  – þá – já, þá fórna ég höndum til himins og rym frá iðrunum; HUH! (Vinur/bjargvættur – leyfðu mér að knúsa þig!)

Höfundur er rithöfundur, með meistaragráðu í menningarfræði og situr í stjórn Rithöfundasambands Íslands.

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Steinar Frímannsson
Fátækleg umfjöllun – Stefna Flokks fólksins í umhverfismálum
Kjarninn 20. september 2021
Meiri líkur en minni á því að hægt verði að mynda miðjustjórn sem teygir sig til vinstri
Þrjár gerðir fjögurra flokka stjórna sem innihalda miðju- og vinstriflokka mælast með meiri líkur á að geta orðið til en sitjandi ríkisstjórn hefur á því að sitja áfram.
Kjarninn 20. september 2021
Frá undirritun lífskjarasamningsins í apríl árið 2019.
Forsendur brostnar og örlög lífskjarasamningsins ráðist 30. september
Forsendunefnd ASÍ og SA hefur komist að þeirri niðurstöðu að forsendur lífskjarasamningsins frá 2019 séu brostnar, hvað aðgerðir stjórnvalda varðar. Formaður VR segir að örlög samninganna muni ráðast á fundi samninganefnda ASÍ og SA 30. september.
Kjarninn 20. september 2021
Sonja Ýr Þorbergsdóttir
Einkarekstur í heilbrigðisþjónustu er engin töfralausn
Kjarninn 20. september 2021
Þorvarður Bergmann Kjartansson
Þegar sumir hafa vald yfir öðrum
Kjarninn 20. september 2021
Hildur Gunnarsdóttir
Húsnæðispólitík og arkitektúr
Kjarninn 20. september 2021
Inga Sæland, formaður Flokks fólksins
Gæti kostað 50-60 milljarða að gera 350 þúsund króna laun skatt- og skerðingalaus
Staðreyndavakt Kjarnans skoðar fullyrðingu Ingu Sæland um að færsla á persónuafslætti frá „þeim ríku“ til hinna efnaminni geti fjármagnað 350 þúsund króna skattfrjálsa framfærslu.
Kjarninn 20. september 2021
Segja mikilvægt að undirbúa innviði og regluverk fyrir græna orkuframleiðslu
Íslendingar ættu að nýta þau tækifæri sem felast í orkuskiptum hérlendis og undirbúa innviði og regluverk fyrir samkeppnishæfa framleiðslu á kolefnislausum orkugjöfum, að mati tveggja verkfræðinga hjá EFLU.
Kjarninn 20. september 2021
Meira úr sama flokkiAðsendar greinar