Skjáskot/Pixabay

Alþjóðleg áhrif og átök í íslenskri bókaútgáfu

Kaup streymisveitunnar Storytel á langstærstu bókaútgáfu á Íslandi hafa vakið undrun á meðal höfunda og í útgáfuheiminum. Sitt sýnist hverjum um þessar sviptingar á íslenskum bókamarkaði – á sama tíma og bókaútgáfa á erfitt uppdráttar. Auður Jónsdóttir rithöfundur og Bára Huld Beck blaðamaður fóru á blaðamannafund þar sem umdeild kaupin voru rædd – til að fá innsýn í þessi óvæntu viðskipti, sem þó hafa verið í burðarliðnum síðan í janúar.

Bókaútgefendur eru augljóslega ekki vanir að halda blaðamannafundi, varð annarri okkar að orði þegar við stigum inn í feikistóran bókalager Forlagsins, við Fiskislóð, til að fylgjast með blaðamannafundi vegna tilkynningar fyrr um morguninn þess efnis að sænska hljóðbókaveitan Storytel AB hefði keypt 70 prósent í Forlaginu, langtum stærsta útgáfufyrirtæki landsins. Hið rótgróna bókmenntafélag Mál og menning, sem átti 87 prósent hlut, mun áfram eiga 30 prósent hlut í félaginu og er ætlunin að Forlagið starfi áfram sem sjálfstætt bókaforlag, aðskilið frá streymisveitu Storytel á Íslandi. 

Nema jú, á bókamessunni í Frankfurt, sagði hin, þar þurfti að halda ófáa blaðamannafundi! Með því vísaði hún til ársins 2011 þegar Ísland var þar í forgrunni svo íslenskar bókmenntir voru þýddar yfir á þýsku á færibandi, nokkuð sem á sínum tíma opnaði hlið út í heim. 

Við mættum tvær á fundinn; Bára Huld blaðamaður á Kjarnanum og Auður, rithöfundur sem hefur, þangað til nýverið, verið viðloðandi Mál og menningu síðan á unglingsárum og er einnig varamaður í Rithöfundasambandi Íslands.

Auglýsing

Kannski var líka eitthvað skáldlegt við þennan blaðamannafund sem stakk í stúf við aðra slíka sem við höfum mætt á. Ef orðið skáldlegt er ennþá brúklegt, því í samtali við framkvæmdastjóra Rithöfundasambandsins, Ragnheiði Tryggvadóttir, hafði komið fram að starfsmaður Storytel í Svíþjóð hefði leiðrétt hana í símtali og sagt: Við notum helst ekki orðið litteratur! 

Eitthvað við setninguna minnir á andann í Meistaranum og Margarítu. Djöfullinn hefði undir eins breytt þessari konu í kornhænu! 

En svo má spegla þessi viðskipti í nýrri litteratúr, t.d. skáldsögunni Lítill heimur eftir David Lodge, því bókmenntaheimurinn verður stöðugt alþjóðlegri og íslenskur útgáfuheimur þarf að laga sig að markaðslögmálum umheimsins sem eru síbreytileg, en þessar umbreytingar opna fyrir margslungnara samtal um þróun útgáfu. Og ef maður sætir færis að hafa skáldlegt gaman af þessu, þá er lúmskt skondið að heyra einhverja bölsótast yfir meintum kapítalistum í Mál og menningu, í þá veru að þeir séu að selja íslenskar bókmenntir úr landi og kannski á einhver höfundur eftir að skrifa sína Atómstöð um það. Það er af sem áður var … eða hvað? Við búum jú í breyttum heimi. 

Allur útgáfubransinn er á ákveðnu breytingaskeiði

Fleira bar á góma í samtalinu við framkvæmdastjórann, eins og það að sala Máls og menningar á 70 prósent eignarhluti skili engu til höfunda, sem búa aðeins að samningi sínum og sölu bóka sinna, en ráð megi gera fyrir að seljendur fái háa upphæð fyrir eignarhlutinn með öllu sem þar er innifalið, og þá er helsti fengurinn væntanlega aðgengið að drjúgum hluta íslenskra bókmennta á einu bretti. 

Mál og menning er sjálfseignarfélag og mun styrkjast við þetta, raunar svo að segja má að Forlagið sé komið í höfn, á tvísýnum óvissutímum í bókaútgáfu, eftir stórtækan forsendubrest í kjölfar COVID-19; þegar miklu máli skiptir að stærsta forlag landsins haldi velli. Samningaviðræðurnar hófust þó að sögn kunnugra fyrir það ástand eða í janúar síðastliðnum. Þess ber að geta að Egill Örn Jóhannsson, sem átti hlut á móti Mál og menningu í Forlaginu, seldi hann, en verður áfram framkvæmdastjóri fyrirtækisins. 

Áður hafði Mál og menning keypt hlut föður hans, Jóhanns Páls Valdimarssonar, stofnanda JPV sem við þekktan samruna varð að Forlagsinu. Á tímum Jóhanns Páls voru þeir feðgar vanir að ávarpa hjörð höfunda í jólaboðinu árlega, á þessum sama lager, og skála fyrir ævintýralega góðu gengi í því flókna viðskiptaumhverfi sem bókaútgáfa velkist um í, velgengni sem m.a. spratt úr samspili viðskiptavits sonarins og djarfri uppátektasemi föðurins – sem sonur hans þurfti stundum að hemja. 

Egill Örn var á blaðamannafundinum í vikunni.
Bára Huld Beck

Á bókalagernum voru skreyttar bollakökur á borði og einhverjir fjölmiðlamenn mættir með sjónvarpsupptökuvélar. Upp við vegg stóðu fulltrúar Forlagsins, gamalkunnug andlit, ásamt aðeins sólbrúnni og sumarlegri Skandinövum, fulltrúum Storytel. Enginn virtist ætla að segja neitt svo rithöfundurinn vissi ekki fyrr en hún var búin að taka sér stöðu andspænis gömlu samstarfsfólki og útlenskum viðskiptamönnum til að spyrja, á lifandi Bjarkarensku, út í  vangaveltur sem höfðu kviknað á facebook og í samtölum við kollega eftir að fréttatilkynningin birtist. 

Brosandi yfirvegaðir voru fulltrúar Storytel fljótir að svara skáldkonunni, þar sem hún var mætt í snjáðri lopapeysu með apóteksgleraugu, enda hafði ætlunin verið að þrífa eldhússkápana og skrifa kannski eitt ljóð! – áður en fréttatilkynningin skall á. 

Hana rámaði í að hafa í samtalinu við framkvæmdastjóra Rithöfundasamband Íslands heyrt vitnað í norskan lögfræðing í höfundarrétti; konu sem viðmælandinn vissi ekki hvort vildi láta geta sín, en sem hafði sagt á ársfundi Norrænu rithöfundasamtakanna: Það er ekki spurning að Storytel er gott viðskiptamódel fyrir viðskiptamenn en það verður aldrei fyrir höfunda. 

Hvað viljið þið segja um þetta? spurði Auður eftir að hafa vitnað í ummælin.  

Otto Sjöberg, stjórnarformaður útgáfufélaga í eigu Storytel á Norðurlöndunum, greip orðið: „Ég tel að þetta sé viðskiptamódel í þróun. Áskrift í gegnum streymi kom mjög nýlega til sögunnar en við sjáum á sænskum markaði – en meðal norrænu markaðanna er hann lang þroskaðastur – að hann er enn að þróast. Allur útgáfubransinn er á ákveðnu breytingaskeiði svo við verðum að finna nýjar aðferðir til þess að geta skapað annars konar vettvang. Svo þetta er módel í þróun. Við höfum séð að lesendum líkar vel við þetta fyrirkomulag, til dæmis í Svíþjóð er 50 prósent skáldsagna fyrir fullorðna streymt þannig að sú þróun hefur aukist til muna. Þetta á við um öll Norðurlöndin.“

Otto Sjöberg telur viðskiptamódelið enn vera í þróun.
Bára Huld Beck

Auður hafði næst orð á því að í röðum rithöfunda hefði heyrst gagnrýni á viðskiptamódelið, m.a. rætt hversu sanngjarn hlutur þeirra væri.

Sjöberg svaraði á þessa leið: „Ég veit ekki hvernig þessu er hagað hér á Íslandi en þetta er alltaf í umræðunni. En eins og ég sagði áðan þá er viðskiptamódelið að þróast um leið og bransinn breytist.“

Hvað með hlut rithöfundanna sjálfra og hvernig staðið er að honum? spurði Auður. 

„Það er inn í samkomulaginu að við viljum skýra ferlið allt og gera samningana gagnsærri fyrir íslenska rithöfunda.“ sagði Halldór Guðmundsson, stjórnarformaður Forlagsins og Máls og menningar, þá. 

Eldri verk hafa vaknað til lífsins

Næst varð Sjöberg að orði: „Eitt sem er mjög mikilvægt að velta fyrir sér í þessu samhengi eru eldri höfundarverk. Nú eiga þau endurkomu – þau er að koma til baka því þegar höfundur gefur út nýja bók þá mun hann hagnast af sínum eldri verkum. Ef þú horfir á hefðbundinn smásala þá sérðu að minna hefur verið um sölu á eldri höfundarverkum og í raun hefur dregið verulega úr henni. En núna sjáum við það í gegnum áskriftir að þegar lesandi finnur höfund sem honum líkar við, þá leitar hann að eldri verkum. Eldri höfundarverk hafa því vaknað til lífsins vegna þessa. Sem útgefandi finnst mér þetta mjög mikilvægt.“

Rustan Panday, stjórnarformaður Storytel Group, sagði þá að Storytel hefði aukið hefðbundna bóksölu í Svíþjóð, en fór þó ekki út í ítarlegar greiningar á því. 

Sjöberg lagði áherslu á að mikilvægt væri að ræða þessa hluti. „Það sem við erum að sjá núna er upphaf mikilla breytinga í útgáfugeiranum. Á meðan slíkum umskiptum stendur munu koma upp alls konar áskoranir fyrir alla hlutaðeigendur; fyrir höfunda, forlögin og fyrir áskriftarþjónustur. Við verðum öll að vera opin fyrir breytingum í útgáfulandslaginu. Ég tel að þegar spurt er um viðskiptamódel þá verður að benda á að margt mun gerast á komandi árum, þetta er í raun nýr bransi. Útgáfubransinn er einn sá elsti í heiminum, eða um 500 ára gamall, og í honum hefur verið notað sama módel nánast allan tímann.“

Hann upplýsti að bakgrunnur hans hefði verið í fjölmiðlabransanum og að hann þekkti því vel breytingar í gegnum hann. „Allir hafa upplifað krefjandi áskoranir sem koma í kjölfar breytinga.“

Hvað með aðstæður hér, bókaútgáfa er viðkvæmur bransi á Íslandi? spurði Auður. 

Sjöberg sagði að þetta væri auðvitað mjög viðkvæmt umræðuefni. „En við höfum fengið sömu spurningar í Svíþjóð. Hvað mun þetta í raun þýða fyrir útgáfu? Við höfum séð að það sé gott að hafa eiganda sem er viðriðinn bransann – því þegar hann breytist verðum við að skilja hvort annað,“ svaraði hann og bætti síðan við: „Ég geri mér grein fyrir því að íslenskur útgáfubransi sé ekki eins þroskaður enn og sá sænski en það sama má segja um hinn finnska. Við sjáum þó miklar breytingar þar í landi. Það er alltaf betra að sýna frumkvæði og vera sjálfur við stjórnina.“

Rustan Panday segir að Storytell hafi verið stofnað fyrir bókaunnendur – og að fyrirtækið þurfi sögur fyrir viðskiptavinina.
Bára Huld Beck

Af hverju vill Storytel eignast hlut í íslenskum bókaútgáfumarkaði?

Panday svaraði: „Storytel var stofnað fyrir bókaunnendur og við þurfum sögur fyrir viðskiptavini okkar. Við höfum nú um 1.500 íslenska titla á Storytel en það er til gríðarlegur fjöldi af eldri höfundarverkum. Við viljum enn þá fleiri inn fyrir okkar viðskiptavini og það er mjög dýrt að taka öll þessi gömlu höfundarverk upp. Svo við viljum fá forlögin til að taka upp sínar bækur. Höfundarnir munu því hafa fleiri bækur á Storytel sem hlustendur okkar munu síðan nýta sér. Fyrir okkur eru viðskiptavinir okkar þeir mikilvægustu og fyrir forlögin eru það rithöfundarnir, því án þeirra hafa þeir engar sögur.“ 

Hætta á að risar gleypi bókaútgáfu

Rithöfundar eru mikilvægir fyrir Storytel – en skiptir hagur þeirra máli? 

Um það hefur áður verið rætt á stjórnarfundum í Gunnarshúsi, húsakynnum Rithöfundasambandsins, vegna Storytel á Íslandi, m.a. vegna þess að skort hafi þótt gagnsæi í samningum þess við móðurfélagið. 

Ragnheiði Tryggvadóttur, framkvæmdastjóra rithöfundasambandsins, var nokkuð brugðið við þær fréttir að Storytel AB í Svíþjóð hefði nú eignast 70 prósent hlut í stærsta útgáfufyrirtæki landsins. 

Ragnheiður Tryggvadóttir Mynd: Rithöfundasambandið

„Fyrir það fyrsta er áhyggjuefni að íslensk bókaútgáfa yfirleitt sé í eigu erlendra aðila. Bókaútgáfa á örtungumáli – sem er svo smátt að það nær nánast ekki inn í excelskjalið þar sem „stóru“ örtungurnar eins og norska, danska, sænska og finnska eru mældar – verður að vera drifin að hluta til af öðru en markaðslögmálum og ábatavon. Nauðsyn þess að gefnar séu út fjölbreyttar tegundir bókmennta sem spegla íslenskan veruleika er ómælanleg þegar kemur að undirstöðum menningar,“ sagði Ragnheiður. Í títtnefndu samtali við hana hafði líka borið á góma að rithöfundasamtök, í Evrópu, þá ekki hvað síst á Norðurlöndunum, hefðu lengi haft af því þungar áhyggjur að risar í líki Google og Amazon kæmu auga á bókaútgáfumarkaðinn og gleyptu hann í einum bita. 

„Þróunin alls staðar, þar sem þetta er byrjað, sýnir að ýmislegt verður undan að láta og þar er það fyrst fjölbreytnin sem minnkar,“ benti hún einnig á. „Samkvæmt þeim fréttum, sem þegar hafa borist af kaupum Storytel á 70 prósent hlut í Forlaginu, á að reka útgáfuna áfram óbreytta og allir samningar eiga áfram að gilda. Við spyrjum samt, hversu lengi? Óhjákvæmilega mun koma að þeim tímapunkti að ábatavon nýrra eigenda, sem varla líta á sig sem sérstaka vörslumenn íslenskrar tungu, muni hafa áhrif á útgáfustefnu Forlagsins.“

Auglýsing

Ójafnvægið er þegar alltof mikið

Í þessum vangaveltum öllum var ekki úr vegi að heyra í rithöfundi. Svo við báðum Margréti Tryggvadóttur, rithöfund sem gefur út hjá Forlaginu og situr í stjórn RSÍ, að segja okkur í stuttu máli hvernig staðan blasir við henni. 

„Sko … “ hugsaði Margrét upphátt. „Maður óttast ýmislegt. Þegar Oddi hætti að prenta bækur og flestar bækur í kjölfarið prentaðar í útlöndum fannst mér það svolítið eins og þegar Íslendingar hættu að geta smíðað skip í gamla daga. Nú er eignarhaldið á 70 prósent af stærsta útgáfufélagi landsins komið úr landi. Ósjálfrátt sýpur maður hveljur,“ sagði hún en tók síðan fram að eignarhald væri eitt, eigendastefna og daglegur rekstur væri annað.

„Eignarhaldið á Forlaginu og forverum þess hefur verið allskonar og hvorki höfundar né lesendur hafa endilega fundið mikinn mun. Bjartsýnismanneskjan í mér vonar að svo verði áfram og að samningar vegna hljóðbóka verði jafnvel eitthvað skárri en þeir eru nú og höfundar beri sanngjarnari hlut úr býtum. Á sama tíma óttast ég að svo verði ekki og að þeir samningar sem höfundar þó hafa náð við útgefendur og eru skárri en í fjölmennari löndum þar sem meiri sala er möguleg – og þar með hærri höfundalaun, þótt þau séu hlutfallslega lægri – þurrkist út.“

Margrét Tryggvadóttir Mynd: Aðsend

Hún kvaðst líka óttast um íslenskan bókamarkað ef stóri og voldugi aðilinn á markaðnum yrði enn stærri og burðugri. 

„Ójafnvægið er þegar alltof mikið. Það sem mér finnst mest spennandi og áhugavert er þó hvað verður um sjálfseignarstofnunina Bókmenntafélagið Mál og menningu sem mér þykir afar vænt um og er nú allt í einu væntanlega stútfull af peningum. Ég vona svo sannarlega að það fé verði til góðs fyrir íslenskar bókmenntir og bókamarkað eins og til var stofnað.“

Í Rithöfundasambandinu hafa verið viðraðar áhyggjur af samingsstöðu íslenskra höfunda og vangaveltur kviknað; hvort það gæti mögulega haft áhrif á rammasamning RSÍ og FÍBÚT – sem er þessa dagana í endurskoðun. Gæti svo farið að erlent stórfyrirtæki setji afarkosti í slíkum viðræðum, í samfélagi útgefenda og rithöfundar, þar sem bæði liggja sameiginlegir hagsmunir og hagsmunaárekstrar verða á köflum; í bransa sem sameinar báða aðila og er flókinn og um margt sérstakur á Íslandi. 

Blaðamannafundurinn var haldinn í bókabúð Forlagsins á Fiskislóð.
Bára Huld Beck

Á fundinum spurði Auður hvort þessi kaup hefðu áhrif á samningaforsendur íslenskra höfunda og svaraði Egill um hæl að svo væri ekki. „Þetta mun hafa nákvæmlega engin áhrif á samningsstöðu íslenskra höfunda við Forlagið eða Storytel. Forlagið mun alfarið halda áfram að starfa sem sjálfstætt fyrirtæki sem semur við höfunda á grunni og eftir rammasamningi Félags íslenskra bókaútgefanda og Rithöfundasambandsins.“

Í sama streng tók Hólmfríður Matthíasdóttir, útgáfustjóri Forlagsins. „Við fylgjum rammasamningi Rithöfundasambandi Íslands og Félagi íslenskra bókaútgefanda, hvernig sem hann er og verður. Þetta mun ekki hafa áhrif á þá samninga, alls ekki,“ sagði hún. 

Að sögn fulltrúa Forlagsins sem við ræddum við er stefnan að Forlagið starfi áfram sjálfstætt og á þeim má skilja að öðrum útgáfufélögum á Norðurlöndunum hafi vegnað vel á þessum forsendum. Í frétt á Kjarnanum í vikunni mátti sjá eftirfarandi ummæli Jonas Tellander, forstjóra og stofnanda Storytel: „Við erum gríð­ar­lega ánægð með þessa nýj­ustu við­bót við Storytel fjöl­skyld­una og öfl­ugt net útgáfu­fé­laga okkar á Norð­ur­lönd­un­um. For­lagið sómir sér þar vel meðal virtra félaga á borð við Nor­stedts För­lags­grupp, Gum­merus Publ­is­hers og Peop­le’s Press. Við erum spennt að hefja sam­starf með reynslu­miklum útgef­endum For­lags­ins sem deila ástríðu okkar fyrir góðum sög­um.“ 

Í höfuðstöðvar rithöfundasambandsins hafa þó borist flóknari frásagnir. Upplýsingar sem að RSÍ hefur frá systursamtökum sínum á Norðurlöndunum ganga að sumu leyti þvert á þær yfirlýsingar að höfundar séu almennt sáttir og ánægðir. 

Ragnheiður nefndi að fyrrverandi formaður rithöfundasambandsins í Svíþjóð, Gunnar Ardelius, hefði í fjölmörgum viðtölum lýst yfir áhyggjum sínum af viðskiptamódelinu sem Storytel AB stæði fyrir.

Hætta ekki að gefa út prentaðar bækur

Við spurðum útgáfustjórann, Hólmfríði Úu Matthíasdóttur, hvað þau hefðu að segja við þá höfunda sem hefðu áhyggjur af þessum kaupum. „Við segjum fyrst og fremst að það sé ekkert að breytast innan Forlagsins. Þetta er sama fólkið, sömu áherslur og sami útgáfulisti; það mun ekkert breytast í okkar samskiptum við þau. Það eina sem mun breytast með tímanum er það að við ætlum að framleiða fleiri hljóðbækur sem var alltaf á stefnuskránni hjá okkur. Nú fáum við aukinn kraft til að gera það.“

Egill Örn og Hólmfríður spjölluðu við Auði og Báru Huld á fundinum. Hólmfríður segir að ekkert muni breytast í samskiptum við höfunda við kaupin.
Bára Huld Beck

Hún sagði að umhverfið væri að breytast og þróast í tækni og þróun og með þessu yrði vonandi hægt að bregðast fyrr við þeim breytingum. „Við erum ekki að fara að hætta að gefa út prentaðar bækur. Það er alveg víst.“

Hólmfríður sagði að fyrst og fremst sæju þau hjá Forlaginu tækifæri í þessum breytingum á eignarhaldi og benti á að nú væru óvissutímar framundan. „Við erum á þessum umbreytingartímum og við verðum náttúrulega að gera þetta fagmannlega og í samvinnu við höfundana á skynsaman hátt þannig að útkoman sé góð fyrir alla – og þegar ég segi alla þá á ég við höfunda og útgefendur.“ Hún sagðist gera sér grein fyrir því að þetta væru óvæntar fréttir fyrir marga og væri hún að reyna að hafa samband við sem flesta til að ræða þetta og útskýra.

Stærsta forlagi Íslands vonandi siglt í örugga höfn

Halldór Guðmundsson er stjórnarformaður Máls og menningar, en hann var árum saman útgáfustjóri sama félags. Óhætt er að fullyrða að hann búi yfir óvenju margslunginni reynslu á sviði alþjóðlegrar útgáfu, en hann var í forsvari fyrir Ísland þegar það var gestaþjóð á bókamessunni í Frankfurt og síðar einnig fyrir Noreg; auk þess sem hann hefur skrifað á þýsku sérstaklega fyrir þýskan markað. 

Halldór á eftirtektarverðan frumkvöðlaþátt í útrás íslenskra höfunda, bæði með því að leggja grunn að henni í Mál og menningu á sínum tíma og með því að tengja íslenska útgáfu við áðurnefnda alþjóðlega sölumessu, ásamt Árna Einarssyni, sem einnig er í stjórn félagsins, og ýmsum fleirum, eins og Valgerði Benediktsdóttur, sem hefur áratugum saman haldið saman erlendu réttindadeildinni innan Eddu útgáfu og í Forlaginu; rétt eins og Hólmfríður sem starfaði jafnframt lengi í útgáfu í Barcelona. Þó er óhætt að segja að sú staðreynd að Halldór hafi verið alinn upp í Þýskalandi og löngum búið yfir djúpu, margslungnu tengslaneti þar, jafnt sem á Norðurlöndunum, hafi haft skáldleg áhrif á íslenska útgáfu. 

Halldór benti á í samtali við Auði og Báru Huld að Íslendingar horfðu nú fram á mjög erfiða krepputíma, nú þegar við siglum inn í heimskreppu, og þá væri gaman að sjá áhuga erlendra aðila á íslenskri bókaútgáfu. Hann tók sérstaklega fram að þarna væri um að ræða breytingu á eignarhaldi á Forlaginu, það rynni ekki inn í Storytel. „Svo er þetta náttúrulega þannig að landamæri bókaútgáfu eru tungumálið. Þú ferð ekkert með íslenskuna eða íslenskar bækur í burtu. Við vonum að Storytel eigi eftir að efla fyrirtækið og geri það með því að leggja okkur lið með meiri útgáfu með rafrænum hætti.“

Hann sagði að nú, í miklu samdráttarskeiði í íslenskri bóksölu, væri búið að taka stærsta forlag Íslands og sigla því í það sem hann vonar að reynist örugg höfn. 

 „Það finnst mér mikill ávinningur – og svo vona ég að við höfum gæfu til að láta þetta þróast,“ sagði hann og bætti því næst við: „Við þurfum að grípa gæsina – þeir sem vinna hjá Forlaginu, höfundar og aðrir verða að hugsa út í það. Við getum átt sameiginlega sókn inn á alþjóðamarkaði.“

En viltu spá einhverju um hversu mikil áhrif á hljóðbókin eftir að hafa á bókaútgáfu? 

Halldór sagði að enginn vissi það í reynd. 

Hann taldi ekki að minna væri að seljast af prentuðum bókum vegna hljóðbókanna. „Ef við horfum alveg raunsætt á þetta þá hefur venjuleg fýsísk bóksala hægt og hægt dregist saman. Við verðum að horfast í augu við það. Þannig hefur það verið – miklu meira í sumum greinum og minna í öðrum. Skáldsögur hafa oft haldið sér vel en orðabækur eru til dæmis hættar að koma út. En hljóðbókin hefur verið stöðugri sókn.“

En nú hefur verið kurr í RSÍ út af samningum höfunda við Storytel á Íslandi. Viltu segja eitthvað um það?

 „Forlagið ber ekki ábyrgð á því. Það á nú alveg að vera hægt á þessum litla markaði að setjast niður og búa til skýra og góða samninga – og við settum það inn í þetta samkomulag núna að báðir aðilar myndu vinna að því en á sama tíma erum við að reyna að koma með kraft og nýjungar á markað sem hefur átt í miklum vanda. Ég held að það hafi verið unnið heilmikið í því að bæta þá samninga og maður sér náttúrulega á reikningum Storytel á Íslandi að þeir borga verulegar höfundagreiðslur sem hlutfall af sinni veltu. Svo erum við að sjá að vegna hljóðbókarinnar er bókalestur að aukast.“

Halldór segir að bókalestur sé að aukast í kjölfar tilkomu hljóðbókarinnar.
Bára Huld Beck

Hann sagði að þar sem hann væri sjálfur rithöfundur þekkti hann umræðuna vel í kringum forlögin. „Ég hef alveg skilning á því vegna þess að allir rithöfundar eru í „one man warfare“ og þurfa að gæta sinna hagsmuna en við megum ekki misskilja það að breytt eignarhald þýði að Forlagið fari eitthvað eða að það að vera sýnilegra á hugveitum geri það allt í einu að verkum að bækur seljist ekki. Neyslumynstur eru misjöfn og breytast með kynslóðum.“  

Halldór benti jafnframt á að tvær megin ástæður væru fyrir þessu.

„Annars vegar: á þessum óvissutímum er mikilvægt að fá inn öflugan aðaleiganda. Og þar að auki eiganda sem er sérhæfður í hljóð- og rafbókum – því við höfum siglt hratt inn í stafræna tíma. Nú er gífurleg eftirspurn eftir hljóðbókum, en þetta hefur setið á hakanum í íslenskum forlögum. Lestrarvenjur breytast með tímanum, en ég vil líka kalla hlustun á hljóðbækur lestur,“ sagði hann og hélt svo áfram: „Útgáfa er jafnframt að verða alþjóðlegri og það er mikilvægt að rödd íslenskra bókmennta heyrist betur erlendis. Hér með tengist íslensk útgáfa alþjóðlegri þróun og hvernig tekist er á við hana. Útgáfa rétt eins og annað er að alþjóðavæðast og er mjög gott fyrir íslenska útgáfu að fá þessa tengingu inn í alþjóðlegan heim. Og ég held að það geti líka orðið til hagsbóta fyrir neytendur, eða réttara sagt lesendur.“

Auglýsing

Öllum bregður við breytingar

Samn­ing­ur­inn er gerður með fyr­ir­vara um sam­þykki Sam­keppn­is­eft­ir­lits­ins og sagðist Halldór ekki geta metið hvort hann myndi hafa áhrif á aðra bókaútgefendur. „Íslenskur bókamarkaður er mjög aðgengilegur, það getur nánast hver sem er sest niður og gefið út bók, þ.e. framleiðslan er orðin ódýrari. En það er ekki mikið um bókamarkaði í Evrópu sem er aðgengilegri en okkar litli markaður. Sem sé í þessari samkeppnismerkingu; að það sé auðvelt að komast inn á hann.“

Hann sagðist hafa fullan skilning á því að rithöfundum hefði brugðið við fréttir af kaupum Storytel á Forlaginu. „Öllum bregður við breytingar en það er líka hægt að prófa að opna hugann og spyrja sig: Eru tækifæri í þessu?“ 

Hann telur að íslenski bókamarkaðurinn sé ekki svo frábrugðinn öðrum – einungis minni og aðgengilegri. „Ég sé ekki að samband útgefanda og höfunda ætti að breytast við þetta.“

Samofinn og sensitívur útgáfuheimur

Hinir og þessir sem við heyrðum í, bæði útgefendur og rithöfundar, hljómuðu undrandi, sumir forvitnir og einhverjir um leið að einhverju leyti gagnrýnir á þessi óvæntu umsvif, en ekki voru allir að sama skapi reiðubúnir til að tjá sig um þau opinberlega, öðruvísi en að segja þetta mikil tíðindi. Kannski er það til marks um hversu samofinn og sensitívur útgáfuheimurinn er í nábýlinu á Íslandi; þetta samfélag höfunda og útgefanda, ýmist í samvinnu eða líflegum rökræðum, sem þó birtist að miklu leyti saman eins og fjölskylda í jólabókaflóðinu ár hvert. Og kannski er samfélagið eins konar fjölskylda – með öllum þeim átökum sem því fylgja. 

Sitt sýnist hverjum og auðvitað er hlutverk Rithöfundasambandsins að vera á tánum fyrir félagsmenn sína, misburðuga í viðskiptum og kjaraumleitunum, um leið og það er hlutverk útgefenda að finna leiðir til að halda lífi í útgáfunni. 

Hvort þessi umsvif eiga eftir að opna spennandi leiðir og stuðla að alþjóðlegri samvinnu í breyttum útgáfuheimi, þar sem er viðbuið að verði ófyrirsjáanlegar áskoranir, eða fæða af sér snúnari sam- og viðskipti í heimabransanum kemur í ljós. Kannski gerist bæði, tækifærin blómstra og um leið átök og álitamál. Þannig er útgáfubransinn og líka veruleikinn, aldrei svart hvítur, frekar í lit, þó að litbrigðin séu stundum með fallega áferð og stundum ekki. Og svo er að sjá hvað Samkeppniseftirlitið segir! 

Að lokum: einhverjar vangaveltur heyrðum við um hverjir eiga stærstan hlut í Storytel, en hér má sjá það í stórum dráttum.

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar