bankastjórar.jpg

Stóru bankarnir reknir með tapi í tvö ár og virði útlána þeirra gæti rýrnað um 210 milljarða

Seðlabanki Íslands segir í sviðsmyndagreiningu að kerfislega mikilvægu viðskiptabankarnir þrír séu með nægilega góða eiginfjár- og lausafjárstöðu til að geta staðist það álag sem muni fylgja yfirstandandi kreppu. Ljóst sé þó að þeir verði reknir í tapi á næstunni. Sameiginlegt útlánatap þeirra gæti numið allt að 210 milljörðum króna á tveimur árum.

Stóru íslensku við­skipta­bank­arnir þrír; Lands­bank­inn, Íslands­banki og Arion banki, verða reknir með tapi í tvö ár vegna auk­innar virð­is­rýrn­unar útlána og lækk­andi tekna þeirra í kjöl­far COVID-19 far­ald­urs­ins. Virð­is­rýrnun á útlána­safni þeirra gæti orðið allt að sjö pró­sent sam­an­lagt á næstu tveimur árum, eða allt að 210 millj­arðar króna. Til sam­an­burðar má nefna að árleg virð­is­rýrnun sam­kvæmt áætl­unum bank­anna er 0,3 til 0,5 pró­sent.

Þetta er á meðal þess sem fram kemur í rit­inu Fjár­mála­stöð­ug­leiki sem Seðla­banki Íslands birti í dag. Um er að ræða nei­kvæð­ustu frá­viks­spá bank­ans sem sett er fram í sviðs­mynda­grein­ingu hans á ástandi efna­hags­mála vegna COVID-19. 

Eig­in­fjár­hlut­fall almenns þáttar 1 gæti lækkað úr 22,3 pró­sent um síð­ustu ára­mót í 16,6 pró­sent í lok árs 2021 sam­kvæmt sviðs­mynda­grein­ing­unn­i. 

Borga sjö til átta millj­örðum minna í banka­skatt

Í rit­inu segir að áhrif far­sótt­ar­innar hafi komið skýrt fram í rekstri kerf­is­lega mik­il­vægu bank­anna þriggja á fyrsta árs­fjórð­ungi þessa árs, þegar þeir töp­uðu sam­tals 7,2 millj­örðum króna. Á sama tíma í fyrra var hagn­aður þeirra sam­an­lagt 10,4 millj­arðar króna og því var um við­snún­ing upp á 17,6 millj­arða króna að ræða. 

Auglýsing

Arð­semi eig­in­fjár þeirra var nei­kvæð um 4,5 pró­sent að með­al­tali á fyrstu þremur mán­uðum árs­ins 2020 en hafði verið jákvæð um 4,6 pró­sent á sama tíma­bili í fyrra og um sex pró­sent á árinu 2018. 

Þótt arð­semin hafi verið nei­kvæð sé ýmis­legt jákvætt í rekstri bank­anna. Grunn­rekstur þeirra fari til að mynda batn­andi og aðgerðir stjórn­valda um að flýta lækkun á banka­skatti auki við­náms­þrótt þeirra. Sú lækkun muni skila því að á milli áranna 2019 og 2020 ætti skatt­greiðslur bank­anna þriggja að minnka um sjö til átta millj­arða króna. „Lækkun banka­skatts­ins hefur í för með sér tekju­tap fyrir rík­is­sjóð en mun styrkja stöðu bank­anna og við­skipta­vina þeirra,“ segir í rit­inu.

Vaxta­lækk­anir ekki að skila sér

Seðla­banki Íslands hefur líka gripið til ýmissa aðgerða vegna yfir­stand­andi ástands sem ætti að nýt­ast bönkum og við­skipta­vinum þeirra. Sveiflu­jöfn­un­ar­auki var afnumin sem losar veru­lega um það eigið fé sem bank­arnir þurfa að halda á og stýri­vextir hafa verið lækk­aðir úr 4,5 pró­sentum niður í eitt pró­sent á þrettán mán­uð­um, sem ætti að skila miklu betri kjörum fyrir við­skipta­vini banka. Seðla­bank­inn segir í Fjár­mála­stöð­ug­leika­rit­inu að vaxta­lækk­un­ar­ferlið hafi hins vegar „ekki skilað sér alveg eins vel á inn­láns- og útláns­vexti KMB [kerf­is­lega mik­il­vægir bankar] og sér­stak­lega hafa vextir nýrra útlána til fyr­ir­tækja lítið lækk­að.“

Auglýsing

Þar segir enn fremur að hreinar vaxta­tekjur nemi um 70 pró­sent af heild­ar­tekjum bank­anna og eru því grunn­und­ir­staða rekstrar þeirra. „Arð­semi KMB hefur í heild farið minnk­andi síð­ustu ár og er undir lang­tíma­mark­mið­um. Ef arð­semi bank­anna á ekki að minnka enn frekar er því mik­il­vægt fyrir þá að reyna að verja vaxta­mun eigna og skulda og koma þar með í veg fyrir að hreinar vaxta­tekjur minnki.“

Of hár rekstr­ar­kostn­aður

Þar segir enn fremur að kostn­að­ur­inn við rekstur íslensku bank­anna sé enn mjög hár í sam­an­burði við banka í Evr­ópu. Launa­kostn­aður þeirra er til að mynda 1,2 pró­sent af heild­ar­eignum á meðan að með­al­talið hjá bönkum á Norð­ur­lönd­unum er 0,4 til 0,5 pró­sent. Heild­ar­kostn­aður íslensku bank­anna er um 2,2 pró­sent af heild­ar­eignum en það með­al­tali á hinum Norð­ur­lönd­unum er um 0,7 til 0,9 pró­sent.

Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri.
Mynd: Bára Huld Beck

Kostn­aður íslensku bank­anna þriggja er því um eitt til 1,5 pró­sentu­stigum hærri miðað við heild­ar­eignir en banka á Norð­ur­lönd­un­um. Nið­ur­staða Seðla­bank­ans er afger­andi: „Tæki­færi íslensku bank­anna í að auka arð­semi fel­ast því einkum í því að draga úr kostn­að­i.“ Það verður helst gert með fækkun starfs­fólk og sam­hliða lækkun á launa­kostn­að­i. 

Mikið útlánatap vegna ferða­þjón­ustu

Í kynn­ingu á Fjár­mála­stöð­ug­leika­rit­inu í morgun kom fram að um átta pró­sent hús­næð­is­lána ein­stak­linga sé nú í greiðslu­hléi og um 15 pró­sent útlána til fyr­ir­tækja. Eins og við var að búast þá eru fyr­ir­tæki í ferða­þjón­ustu fyr­ir­ferða­mest þar, en um 50 pró­sent slíkra hafa óskað eftir greiðslu­hléi. Stærri aðilar í geir­anum hafa nýtt sér úrræðið frekar en litl­ir. 

Staða ferða­þjón­ust­unnar vegna COVID-19 hefur eðli­lega mikil áhrif á virði útlána bank­anna þriggja. Um tíu pró­sent af útlánun þeirra eru til fyr­ir­tækja í ferða­þjón­ustu og flest bendir til þess að litlar sem engar líkur séu á því að greinin fái við­spyrnu á þessu ári. Óvissa er um hvort og hversu mikla við­spyrnu verður að finna á næsta ári. Stærstu hluti lána við­skipta­bank­anna til ferða­þjón­ustu­fyr­ir­tækja er til hót­ela og gisti­staða. 

Auglýsing

Hrein virð­is­breyt­ing útlána bank­anna þriggja var nei­kvæð um 11,6 millj­arða króna á fyrsta árs­fjórð­ungi 2020 sem er fjór­falt meiri virð­is­rýrnun en á sama tíma fyrir ári. 

Seðla­banki Íslands hefur fram­kvæmt grein­ingu um mögu­leg áhrif COVID-19-far­sótt­ar­innar á stöðu kerf­is­lega mik­il­vægu bank­anna, sem byggir á nýj­ustu þjóð­hags­spá Seðla­bank­ans. Nið­ur­staða hennar er meðal ann­ars sú að gera megi ráð fyrir átta pró­sent sam­drætti í lands­fram­leiðslu í ár, sem er svipað og Hag­stofa Íslands, sem spáir 8,4 pró­sent sam­drætti, spáði fyrir skemmstu í sinni þjóð­hags­spá. 

Í sviðs­mynda­grein­ing­unni var lagt mat á mögu­leg áhrif á eig­in­fjár­stöðu bank­anna og svig­rúmi þeirra til að veita útlán á sama tíma og þeir takast á við aukin van­skil og virð­is­rýrnun vegna efna­hags­á­falls­ins. „Nið­ur­stöður sviðs­mynda­grein­ing­ar­innar benda til að eig­in­fjár­hlut­fall almenns eig­in­fjár­þáttar 1 gæti lækkað um 1,5 - 5,7 pró­sentur frá árs­lokum 2019 til árs­loka 2021 og að bank­arnir gætu þurft að færa útlán niður um 100 – 210 ma.kr. á næstu tveimur árum.“

Eig­in­fjár- og lausa­fjár­staða bank­anna stóru bank­anna þriggja sé þó sterk og þeir ættu að geta stað­ist það álag sem mun fylgja yfir­stand­andi kreppu. 

Seðla­bank­inn leggur hins vegar áherslu á að mik­il­vægt sé að hraða end­ur­skipu­lagn­ingu útlána eins og kostur er.

Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar