bankastjórar.jpg

Stóru bankarnir reknir með tapi í tvö ár og virði útlána þeirra gæti rýrnað um 210 milljarða

Seðlabanki Íslands segir í sviðsmyndagreiningu að kerfislega mikilvægu viðskiptabankarnir þrír séu með nægilega góða eiginfjár- og lausafjárstöðu til að geta staðist það álag sem muni fylgja yfirstandandi kreppu. Ljóst sé þó að þeir verði reknir í tapi á næstunni. Sameiginlegt útlánatap þeirra gæti numið allt að 210 milljörðum króna á tveimur árum.

Stóru íslensku viðskiptabankarnir þrír; Landsbankinn, Íslandsbanki og Arion banki, verða reknir með tapi í tvö ár vegna aukinnar virðisrýrnunar útlána og lækkandi tekna þeirra í kjölfar COVID-19 faraldursins. Virðisrýrnun á útlánasafni þeirra gæti orðið allt að sjö prósent samanlagt á næstu tveimur árum, eða allt að 210 milljarðar króna. Til samanburðar má nefna að árleg virðisrýrnun samkvæmt áætlunum bankanna er 0,3 til 0,5 prósent.

Þetta er á meðal þess sem fram kemur í ritinu Fjármálastöðugleiki sem Seðlabanki Íslands birti í dag. Um er að ræða neikvæðustu fráviksspá bankans sem sett er fram í sviðsmyndagreiningu hans á ástandi efnahagsmála vegna COVID-19. 

Eiginfjárhlutfall almenns þáttar 1 gæti lækkað úr 22,3 prósent um síðustu áramót í 16,6 prósent í lok árs 2021 samkvæmt sviðsmyndagreiningunni. 

Borga sjö til átta milljörðum minna í bankaskatt

Í ritinu segir að áhrif farsóttarinnar hafi komið skýrt fram í rekstri kerfislega mikilvægu bankanna þriggja á fyrsta ársfjórðungi þessa árs, þegar þeir töpuðu samtals 7,2 milljörðum króna. Á sama tíma í fyrra var hagnaður þeirra samanlagt 10,4 milljarðar króna og því var um viðsnúning upp á 17,6 milljarða króna að ræða. 

Auglýsing

Arðsemi eiginfjár þeirra var neikvæð um 4,5 prósent að meðaltali á fyrstu þremur mánuðum ársins 2020 en hafði verið jákvæð um 4,6 prósent á sama tímabili í fyrra og um sex prósent á árinu 2018. 

Þótt arðsemin hafi verið neikvæð sé ýmislegt jákvætt í rekstri bankanna. Grunnrekstur þeirra fari til að mynda batnandi og aðgerðir stjórnvalda um að flýta lækkun á bankaskatti auki viðnámsþrótt þeirra. Sú lækkun muni skila því að á milli áranna 2019 og 2020 ætti skattgreiðslur bankanna þriggja að minnka um sjö til átta milljarða króna. „Lækkun bankaskattsins hefur í för með sér tekjutap fyrir ríkissjóð en mun styrkja stöðu bankanna og viðskiptavina þeirra,“ segir í ritinu.

Vaxtalækkanir ekki að skila sér

Seðlabanki Íslands hefur líka gripið til ýmissa aðgerða vegna yfirstandandi ástands sem ætti að nýtast bönkum og viðskiptavinum þeirra. Sveiflujöfnunarauki var afnumin sem losar verulega um það eigið fé sem bankarnir þurfa að halda á og stýrivextir hafa verið lækkaðir úr 4,5 prósentum niður í eitt prósent á þrettán mánuðum, sem ætti að skila miklu betri kjörum fyrir viðskiptavini banka. Seðlabankinn segir í Fjármálastöðugleikaritinu að vaxtalækkunarferlið hafi hins vegar „ekki skilað sér alveg eins vel á innláns- og útlánsvexti KMB [kerfislega mikilvægir bankar] og sérstaklega hafa vextir nýrra útlána til fyrirtækja lítið lækkað.“

Auglýsing

Þar segir enn fremur að hreinar vaxtatekjur nemi um 70 prósent af heildartekjum bankanna og eru því grunnundirstaða rekstrar þeirra. „Arðsemi KMB hefur í heild farið minnkandi síðustu ár og er undir langtímamarkmiðum. Ef arðsemi bankanna á ekki að minnka enn frekar er því mikilvægt fyrir þá að reyna að verja vaxtamun eigna og skulda og koma þar með í veg fyrir að hreinar vaxtatekjur minnki.“

Of hár rekstrarkostnaður

Þar segir enn fremur að kostnaðurinn við rekstur íslensku bankanna sé enn mjög hár í samanburði við banka í Evrópu. Launakostnaður þeirra er til að mynda 1,2 prósent af heildareignum á meðan að meðaltalið hjá bönkum á Norðurlöndunum er 0,4 til 0,5 prósent. Heildarkostnaður íslensku bankanna er um 2,2 prósent af heildareignum en það meðaltali á hinum Norðurlöndunum er um 0,7 til 0,9 prósent.

Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri.
Mynd: Bára Huld Beck

Kostnaður íslensku bankanna þriggja er því um eitt til 1,5 prósentustigum hærri miðað við heildareignir en banka á Norðurlöndunum. Niðurstaða Seðlabankans er afgerandi: „Tækifæri íslensku bankanna í að auka arðsemi felast því einkum í því að draga úr kostnaði.“ Það verður helst gert með fækkun starfsfólk og samhliða lækkun á launakostnaði. 

Mikið útlánatap vegna ferðaþjónustu

Í kynningu á Fjármálastöðugleikaritinu í morgun kom fram að um átta prósent húsnæðislána einstaklinga sé nú í greiðsluhléi og um 15 prósent útlána til fyrirtækja. Eins og við var að búast þá eru fyrirtæki í ferðaþjónustu fyrirferðamest þar, en um 50 prósent slíkra hafa óskað eftir greiðsluhléi. Stærri aðilar í geiranum hafa nýtt sér úrræðið frekar en litlir. 

Staða ferðaþjónustunnar vegna COVID-19 hefur eðlilega mikil áhrif á virði útlána bankanna þriggja. Um tíu prósent af útlánun þeirra eru til fyrirtækja í ferðaþjónustu og flest bendir til þess að litlar sem engar líkur séu á því að greinin fái viðspyrnu á þessu ári. Óvissa er um hvort og hversu mikla viðspyrnu verður að finna á næsta ári. Stærstu hluti lána viðskiptabankanna til ferðaþjónustufyrirtækja er til hótela og gististaða. 

Auglýsing

Hrein virðisbreyting útlána bankanna þriggja var neikvæð um 11,6 milljarða króna á fyrsta ársfjórðungi 2020 sem er fjórfalt meiri virðisrýrnun en á sama tíma fyrir ári. 

Seðlabanki Íslands hefur framkvæmt greiningu um möguleg áhrif COVID-19-farsóttarinnar á stöðu kerfislega mikilvægu bankanna, sem byggir á nýjustu þjóðhagsspá Seðlabankans. Niðurstaða hennar er meðal annars sú að gera megi ráð fyrir átta prósent samdrætti í landsframleiðslu í ár, sem er svipað og Hagstofa Íslands, sem spáir 8,4 prósent samdrætti, spáði fyrir skemmstu í sinni þjóðhagsspá. 

Í sviðsmyndagreiningunni var lagt mat á möguleg áhrif á eiginfjárstöðu bankanna og svigrúmi þeirra til að veita útlán á sama tíma og þeir takast á við aukin vanskil og virðisrýrnun vegna efnahagsáfallsins. „Niðurstöður sviðsmyndagreiningarinnar benda til að eiginfjárhlutfall almenns eiginfjárþáttar 1 gæti lækkað um 1,5 - 5,7 prósentur frá árslokum 2019 til ársloka 2021 og að bankarnir gætu þurft að færa útlán niður um 100 – 210 ma.kr. á næstu tveimur árum.“

Eiginfjár- og lausafjárstaða bankanna stóru bankanna þriggja sé þó sterk og þeir ættu að geta staðist það álag sem mun fylgja yfirstandandi kreppu. 

Seðlabankinn leggur hins vegar áherslu á að mikilvægt sé að hraða endurskipulagningu útlána eins og kostur er.

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar