I. Upphafið/inngangur
1. Lindarvatn ehf. var stofnað í maí 1993. Félagið kemst í fréttir árið 2014 þegar félagið var í eigu Péturs Þórs Sigurðssonar, eiginmanns Jónínu Bjartmarz, fv. ráðherra, og hugðist byggja 19 íbúðir við Ingólfstorg. Samkvæmt fréttum stóð Pétur í viðræðum um uppbyggingu á reitnum í 9 ár eða frá 2005.
2. Í desember 2014 koma nýir eigendur að Lindarvatni, þegar Dalsnes ehf., 100% í eigu Ólafs Björnssonar eignast félagið. Breytingar á stjórn voru samþykktar á hluthafafundi 10. desember 2014.
3. Í ársreikningi Dalsnes fyrir árið 2014 er 100% eignarhlutur í Lindarvatni metinn á um 930 m.kr. Segir í skýringum að eignin sé metin á gangvirði.
II. Viðskipti með hluti í Lindarvatni ehf.
4. Í ágúst 2015 kaupir Icelandair Group hf. (IG) annars vegar 50% eignarhlut í Lindarvatni af Dalsnesi á 1,9 ma.kr. og hins vegar gerði Flugleiðahótel ehf., dótturfélag IG, leigusamning um fasteignir við Lindarvatn sem leigusala. Leigusamningurinn er til 25 ára og segir í ársreikningi IG að áætlað sé að opna hótel árið 2017. Leigusamningurinn er undirritaður f.h. Flugleiðahótela af Magneu Þórey Hjálmarsdóttur sem er í yfirstjórn Icelandair Group. Leiguverð er ekki tilgreint í þinglýstum skjölum.
5. Leigusamningurinn er dagsettur 26. ágúst 2015 og þann 3. september 2015 er hluthafafundur þar sem skipt er um stjórn í Lindarvatni. Leigusamningurinn og kaupsamningurinn virðast því hafa verið gerðir á sama tíma.
6. Í ársreikningi Icelandair Group fyrir 2015 segir að í árslok 2015 hafi 50% eignarhlutur IG í Lindarvatni verið metinn á um 1,9 ma.kr. (14,5 m.USD x 130 ISK/USD). Á sama tíma var LIVE stærsti hluthafi í IG með um 15% eignarhlut.
Í ársreikningi Dalsnes fyrir árið 2015 var 50% hlutur í Lindarvatni bókfærður á 854 m.kr. Sama ár er söluhagnaður hlutabréfa Dalsnes um 1 ma.kr. á árinu 2015. Í ársreikningi er eina breytingin að eignarhlutur í Lindarvatni fer úr 100% í 50%.
7. Þannig virðist verðmæti Lindarvatns hafa aukist á þeim 8 mánuðum sem það var í eigu Dalsnes um 2.900 m.kr., þ.e. úr um 930 m.kr. í árslok 2014 í um 3.800 m.kr. m.v. virði samkvæmt kaupsamningi í ágúst 2015. Dalsnes, í eigu Ólafs Björnssonar, færir hagnað upp á 1.000 m.kr. vegna sölu á 50% eignarhlut á árinu 2015. Engar skýringar eru á því af hverju hagnaður Dalsnes er 1.000 m.kr. af sölunni en ekki 1.900 m.kr. Í árslok 2015 er 50% eignarhlutur Dalsnes svo metinn á 854 m.kr.
8. Til áréttingar, eina opinbera breytingin sem verður á Lindarvatni á umræddum 8 mánuðum á meðan félagið var í eigu félags í eigu Ólafs Björnssonar er að samstæða IG gerir leigusamning við félagið sem leigusala, leigusamning sem býr til verðmæti. Á sama tíma kaupir IG 50% eignarhlut í félaginu af seljanda að teknu tilliti til verðhækkunar vegna leigusamningsins, þ.e. leigusamnings við samstæðu IG. IG skuldbindur sig þannig annars vegar til að greiða leigu samkvæmt leigusamningi og kaupir hins vegar 50% eignarhlut í leigutaka að teknu tilliti til þeirrar leigu sem samstæðan var að skuldbinda sig til að greiða.
III. Stjórnarhættir og skipun í trúnaðarstöður
9. Eftir gerð leigusamningsins og kaup IG á 50% hlut í Lindarvatni var kosin ný stjórn í Lindarvatni. Á hluthafafundi 3. september 2015 eru Bogi Nils Bogason, Árni Helgason, Halldór Benjamín Þorbergsson og Ólafur Björnsson kosnir í stjórn Lindarvatns.
10. Með tilkynningu til fyrirtækjaskrár RSK dags. 23. október 2015 er tilkynnt um að Davíð Þorláksson hafi verið ráðinn framkvæmdastjóri Lindarvatns.
11. Á þessum tíma var Björgólfur Jóhannsson framkvæmdastjóri Icelandair Group einnig formaður Samtaka atvinnulífsins eða til mars 2017. Þá var Bogi Nils Bogason, núverandi forstjóri Icelandair Group, fjármálastjóri Icelandair.
Halldór Benjamín starfaði hjá Icelandair frá 2010 til janúar 2017 síðast sem framkvæmdastjóri viðskiptaþróunar. Áður starfaði Halldór m.a. hjá Milestone ehf. Tilkynnt er um ráðningu Halldórs sem framkvæmdastjóra Samtaka atvinnulífsins í desember 2016 og fer hann úr stjórn Lindarvatns í apríl 2017. Halldór var einnig í stjórn sambands ungra sjálfstæðismanna (SUS) í Reykjavík frá 2007-2009.
12. Davíð var yfirlögfræðingur Icelandair Group frá 2009 og var ráðinn til Samtaka atvinnulífsins í október 2017. Hann lætur samhliða af störfum sem framkvæmdastjóri Lindarvatns. Áður starfaði Davíð m.a. hjá Viðskiptaráði, hjá Askar Capital hf. (sem var í eigu Milestone ehf.) og sem framkvæmdastjóri þingflokks Sjálfstæðisflokksins.
13. Árni Helgason er starfandi lögmaður. Árni var áður m.a. varaformaður Heimdallar og framkvæmdastjóri þingflokks Sjálfstæðisflokksins.
14. Halldór, Davíð og Bogi voru því allir í yfirmannsstöðum hjá Icelandair þegar IG kaupir 50% eignarhlut í Lindarvatni og samstæða IG gerir leigusamning við Lindarvatn. Þá koma þeir beint að rekstri Lindarvatns f.h. IG í kjölfar kaupanna, Halldór og Bogi sem stjórnarmenn og Davíð sem framkvæmdastjóri.
15. Engar opinberar upplýsingar liggja fyrir um aðkomu þeirra að fjárfestingu IG í Lindarvatni og Halldór og Davíð segja í yfirlýsingu sinni frá júlí 2020 að þeir hafi ekkert komið að fjárfestingunni. Slíkt vekur upp spurningar þar sem almennt má ætla að kaupandi setji þá aðila í fyrirsvar fyrir nýjar fjárfestingar (félög/verkefni) sem þekkja hvað best til viðkomandi fjárfestingar eða hafa komið með virkum hætti að ákvörðunartöku um fjárfestinguna. Þá væri ekki óeðlilegt að Halldór, sem framkvæmdastjóri viðskiptaþróunar, og Davíð, sem yfirlögfræðingur IG á þeim tíma, hefðu komið að undirbúningi eða ákvarðanatöku um fjárfestinguna.
16. Í því samhengi má spyrja:
a. Er það rétt að, yfirlögfræðingur og framkvæmdastjóri viðskiptaþróunar IG, Halldór og Davíð, hafi í reynd enga aðkomu haft að undirbúningi að ákvörðun um kaup IG á hlutum í Lindarvatni og gerð leigusamnings við Flugleiðahótel? Til hvaða ráðgjafa og starfsmanna eru Halldór og Davíð að vísa til í yfirlýsingu sinni frá júlí 2020?
Er það rétt að Halldór og Davíð hafi ekki með neinum hætti komið að viðræðum við Dalsnes, eiganda Dalsness eða ráðgjafa Dalsness um viðskiptin, þ.m.t. þá aðila sem tóku sæti í stjórn félagsins eftir viðskiptin fyrir hönd Dalsness, kynningu á fjárfestingunni eða ákvarðanatöku innan IG um fjárfestinguna?
b. Hafi Halldór og Davíð ekkert komið að ákvörðun um fjárfestinguna vakna spurningar um á hvaða forsendum þeir hafi verið valdir af IG til að taka sæti í stjórn og framkvæmdastjórn Lindarvatns í kjölfar fjárfestingarinnar? Hvaða aðili, eða eining, innan IG tók ákvörðun um fjárfestinguna og skipan þeirra í trúnaðarstöður Lindarvatns? Hvaða reynslu höfðu þeir Halldór og Davíð af fasteignaþróun? Hafa ber í huga að almennt er yfirlögfræðingur stóra alþjóðlegra fyrirtækja á markaði, ekki einnig framkvæmdastjóri í dótturfélagi Almennt mætti telja að staða yfirlögfræðings Icelandair, svo ekki sé talað um fjármálastjóra, væri fullt starf sem gæfi ekki tíma til þess að sinna framkvæmdastjórn eða stjórnarsetu vegna fasteignaþróunarverkefnis. Einnig vakna spurningar um hvort þessi skipan teljist til góðra stjórnarhátta?
c. Á hvaða forsendum og á grundvelli hvaða áætlunar var fjárfesting IG í Lindarvatni ákveðin? Hvaða aðili kynnti fjárfestinguna fyrir IG og hverjir voru ráðgjafar í viðræðum og fjárfestingarferli? Hvaða upplýsingar um verðmæti fjárfestingarinnar lágu til grundvallar? Hvaða áreiðanleikakönnun og verðmat gerði IG á Lindarvatni fyrir fjárfestingu í félaginu?
d. Hvernig gat Dalsnes útskýrt og IG þar með réttlætt að virði hluta í Lindarvatni hækkaði um 2.900 milljónir kr. frá desember 2014 til ágúst 2015? Hvaða verulegu breytingar urðu á Lindarvatni sem fjárfestingarkosts sem útskýrir af hverju IG var tilbúið að greiða Dalsnesi um 1,9 ma.kr. fyrir 50% eignarhlut í félagi sem Dalsnes keypti 8 mánuðum áður á um 930 m.kr.? Var það gerð leigusamningsins við dótturfélag IG?
IV. Skuldabréfaútboð Lindarvatns ehf.
17. Þann 4. febrúar 2016 samþykkti stjórn Lindarvatns ehf. skuldabréfaramma að fjárhæð 6,3 ma.kr. og gáfu út skuldabréf að fjárhæð 3,1 ma.kr. Skuldabréfin voru seld fagfjárfestum svo sem lífeyrissjóðum. Á þeim tíma voru Bogi og Halldór í stjórn og Davíð var enn framkvæmdastjóri.
18. Skuldabréfin eru til 30 ára og bera 3,77% fasta verðtryggða vexti. Á þeim tíma voru slíkir vextir almennt ekki í boði fyrir framkvæmdalán, þ.e. til greiðslu þróunar- og framkvæmdakostnaðar vegna byggingu fasteigna. Skuldabréfin voru tryggð með tryggingarbréfi sem þinglýst var á 1. veðrétt á fasteignum á Landssímareitnum. Þá er einnig veð í öllum leigusamningum, þ.m.t. við Flugleiðahótel ehf.
19. Fasteignirnar voru verðmetnar á 4,5 m.kr. miðað við verðmat Íslenskra verðbréfa (ÍV) dags. í febrúar 2016 og í skilmálum skuldabréfanna segir „að loknum framkvæmdum og í samræmi við áætlanir útgefanda um uppbyggingu og væntar leigutekjur er áætlað verðmat reitsins ISK 10.520 millj.“. Uppreiknað verðmæti skuldabréfanna má á hverjum tíma aldrei nema hærri fjárhæð en 75% af metnu virði fasteignanna. Í skilmálum skuldabréfanna eru svo ýmis fjárhagsleg skilyrði, s.s. um eiginfjárhlutfall, sjóðsstreymi o.fl. sbr. nánar hér.
20. Í fréttatilkynningu frá ÍV vegna útgáfunnar segir að ÍV hafi verið umsjónaraðili skuldabréfaútgáfunnar og miðlaði henni ásamt RU ráðgjöf ehf. til fjárfesta. Þá segir: „Fjármögnun Lindarvatns sýnir fram á styrk Íslenskra verðbréfa og viðskiptavina félagsins til að koma að heildarfjármögnun fyrirtækja og verkefna með markaðsfjármögnun á samkeppnishæfum kjörum og þannig verið drifkraftur þegar kemur að heildarfjármögnun þeirra.“.
21. Af fréttatilkynningunni er því ljóst að ÍV starfaði fyrir Lindarvatn, sem útgefandi og skuldari, við útgáfu og sölu skuldabréfanna. Í því felst m.a. gerð fjárfestakynningar, áætlunar o.þ.h.
22. Þá verður að ætla að stjórn Lindarvatns, og framkvæmdastjóri, hafa annað hvort útbúið eða hið minnsta yfirfarið og samþykkt þær áætlanir sem ÍV lagði til grundvallar við sölu skuldabréfanna til fjárfesta.
23. Með vísan til þessa væri æskilegt að vita hver hafi verið aðkoma stjórnar Lindarvatns og framkvæmdastjóra að gerð þeirra kynninga og áætlana sem kynntar voru fjárfestum (lífeyrissjóðum) vegna útgáfu skuldabréfanna. Er það einnig rétt, svo vitnað sé til yfirlýsingar Halldórs og Davíðs frá júlí 2020, að fjárfestar hafi aldrei óskað eftir, verið boðið upp á eða átt fund með stjórn og framkvæmdastjóra útgefanda vegna útgáfu skuldabréfanna?
V. Hlutverk Íslenskra verðbréfa; hagsmunaárekstrar
24. Í birtum skilmálum skuldabréfanna kemur fram að Íslensk verðbréf hf. (ÍV) sé einnig umboðsaðili skuldabréfaeigenda.
25. Af skilmálunum má ráða að ÍV starfi bæði fyrir skuldara og kröfuhafa og hefur, samkvæmt skilmálum skuldabréfanna, það hlutverk að stjórna og samræma aðgerðir vegna fullnustuaðgerða, boða til funda skuldabréfaeigenda, s.s. vegna gjaldfellingar o.fl. með öðrum orðum, þá virðist ÍV hafa fengið bæði greitt frá Lindarvatni, sem útgefanda, og fjárfestum í kjölfar viðskiptanna. Óskað er upplýsinga um hvaða fjárhæðir hafi verið greiddar fyrir þá þjónustu, þ.m.t. að aðilar samþykki að aflétta trúnaði vegna þess.
26. Í birtum útdrætti úr stefnu ÍV um hagsmunaárekstra segir að félagið hafi sett sér stefnu um hagsmunaárekstra til að koma í veg fyrir að hagsmunaárekstrar hafi áhrif á viðskiptavini félagsins, orðspor þess eða verðbréfamarkaðinn í heild.
27. Í ljósi þess að ÍV var fengið til að vinna verkefni fyrir Lindarvatn, sem útgefanda, og sá ekki aðeins um sölu skuldabréfa til fjárfesta heldur öll samskipti við fjárfestana, sbr. yfirlýsingu Halldórs og Davíðs, er óskað upplýsinga um hvernig ÍV gætti að hagsmunaárekstrum í tengslum við verkefnið? Þá er óskað upplýsinga um hvernig ÍV sinnti eftirfylgni við skilmála skuldabréfanna, f.h. kröfuhafa, og gætti hagsmuna kröfuhafa gagnvart Lindarvatni sem útgefanda.
VI. Skilmálabreyting skuldabréfa
28. Þann 27. mars 2020 samþykktu skuldabréfaeigendur LIND 16 1 breytingar á skilmálum skuldabréfanna og að veita Íslandsbanka hf. veðleyfi og leyfa þinglýsingu á tryggingarbréfi að fjárhæð um 1,7 ma.kr. á fyrsta veðrétti, framfyrir veðrétt skuldabréfaeigenda.
29. Þannig var tryggingarbréf að fjárhæð um 1,7 ma.kr. gefið út til tryggingar skuld Lindarvatns við Íslandsbanka samkvæmt framkvæmdalánasamningi, dags. 22. maí 2020, þar sem Íslandsbanki lofaði að lána Lindarvatni 1.750 milljónir kr. til að fjármagna byggingu Lindarvatns á hóteli o.fl. á Landssímareit.
30. Skuldabréfaeigendur samþykktu að hið nýja lán Íslandsbanka fengi 1. veðrétt og þar með framfyrir veðrétt skuldabréfaeigenda.
31. Samþykki skuldabréfaeigenda er háð skilmálum sem finna má í fundargerð frá fundinum. Skilmálarnir eru m.a.:
a. Lán frá hluthafa að fjárhæð 1.750 milljónir kr. sem tryggt er með 3ja veðrétti í fasteignum á Landssímareit skal hafa verið greitt út að fullu fyrir lánveitingu Íslandsbanka.
b. Lán Íslandsbanka skal notað til að i) greiða eftirstöðvar framkvæmdakostnaðar, ii) endurgreiða brúarlán frá Icelandair Group að fjárhæð 355 m.kr., iii) greiða afborganir og vexti af LIND 16 1 á framkvæmdatíma og iv) greiða almennan rekstrarkostnað.
c. Þá eru aðrir skilmálar s.s. bann við arðgreiðslu, vanskil o.fl.
32. Tilkynning um breytingu skilmálanna hefur ekki verið birt í verðbréfamiðstöð.
33. Af framangreindu er ljóst að verkefni Lindarvatns á Landssímareit var í uppnámi í mars 2020.
34. Á veðbandayfirliti á eignum Lindarvatns kemur eftirfarandi fram:
1. Veðréttur: Íslandsbanki h/f kr. 1.750.000.000
Útgefið 22.05.2020
2. Veðréttur: Handhafa (skuldabréfaútgáfan) kr. 6.258.000.000
Útgefið 02.03.2016 og var á fyrsta veðrétti.
3. Veðréttur: Dalsnes ehf. kr. 4.000.000.000
Útgefið 24.06.2020
Samtals eru þetta kr. 12.008.000.000 sem hvíla á eignum félagsins.
35. Óskað er upplýsinga um eftirfarandi:
a. Hvenær og á hvaða kjörum Icelandair Group samþykkti að lána Lindarvatni neyðarlán að fjárhæð 355 m.kr.? Í ársreikningi IG 2019 kemur fram að IG eigi kröfu á Lindarvatn að fjárhæð 9,3 milljónir USD (um 1,1 ma.kr) og hafði hækkað frá fyrra ár þegar krafan var 1,6 milljónir USD (um 185 m.kr) Sérstök athygli er vakin á fréttum um rekstrarstöðu Icelandair á þeim tíma þegar fyrirgreiðslan er líklega veitt.
b. Er það Dalsnes sem er að lána Lindarvatni 1.750 milljónir kr. sem hluthafi á 3ja veðrétt? Ef það er rétt af hverju var samþykkt að gefa út tryggingarbréf að fjárhæð 4.000 m.kr. fyrir skuld félagsins við Dalsnes? Af hverju er tryggingarbréf rúmlega tvisvar sinnum hærra heldur en lán hluthafans? Eða er Dalsnes að lána félaginu en hærri fjárhæð og á hvaða kjörum er lánið veitt?
c. Af hverju samþykktu skuldabréfaeigendur að hleypa nýju láni að fjárhæð 1.750 m.kr. á fyrri veðrétt, þ.e. framfyrir í veðröð, án þess að öll fjárhæðin væri greidd inn á skuldabréfin?
36. Miðað við framangreinda skilmálabreytingu skuldar félagið nú a.m.k. 3.500 milljónir kr. meira en upphaflegar áætlanir, sem stjórn Lindarvatns og framkvæmdastjóri lögðu til grundvallar í febrúar 2016. Þá verður skilmálabreytingin ekki skilin með öðrum hætti en að félagið hafi þurft á neyðarláni að halda frá Icelandair að fjárhæð 355 m.kr. vegna stöðu félagsins.
VII. Yfirlýsing núverandi framkvæmdastjóra Lindarvatns
37. Í júlí 2020 birtist yfirlýsing frá núverandi framkvæmdastjóra Lindarvatns ehf., Jóhannesi Stefánssyni, þar sem fullyrðingum mínum var vísað á bug. Segir að framkvæmdir Lindarvatns séu að fullu fjármagnaðar og að framkvæmdakostnaður stefni á að verða „innan áætlana“.
38. Athugasemdir mínar hafa byggt á fyrirliggjandi opinberum gögnum sem m.a. hafa verið rakin hér að framan og þetta var í fyrsta sinn sem Jóhannes, eða fyrirsvarsmenn Lindarvatns, reyna að svara athugasemdum mínum. Segir framkvæmdastjórinn Jóhannes að „Ragnar Þór Ingólfsson hefur undanfarna mánuði farið með himinskautum um verkframkvæmdir á Landssímareitnum.“.
39. Athygli vekur einnig að í yfirlýsingunni er hvergi vísað til þeirra upplýsinga sem nú liggja fyrir um skilmálabreytingu skuldabréfanna, sbr. hér að framan. Það er því verulega villandi að framkvæmdastjórinn gefi yfirlýsingu um að félagið sé að fullu fjármagnað án þess að geta um skilmálabreytinguna. Framkvæmdastjóri Lindarvatns lét eins og félagið sigldi lygnan sjó og vék sér undan því að fjalla um viðbótarlántöku Lindarvatns frá hluthafa, neyðarlánið frá Icelandair og gerði yfirhöfuð engar efnislegar athugasemdir við fullyrðingar mínar um stöðu félagsins og verkefnisins.
VIII. Fréttatilkynning Halldórs og Davíðs
40. Þann 25. júlí 2020 birtist frétt á heimasíðu sa.is þar sem fullyrðingar mínar, í viðtali við Fréttablaðið eru sagðar ósannar.
41. Fréttatilkynningin er undirrituð af Halldóri Benjamín Þorbergssyni, hagfræðingi og framkvæmdastjóra Samtaka atvinnulífsins (SA), og Davíð Þorlákssyni, lögfræðingi og forstöðumanni samkeppnishæfnissviðs SA.
42. Af framsetningu fréttarinnar verður ekki annað ráðið en að um sé að ræða yfirlýsingu tveggja einstaklinga sem eru í starfi hjá SA. Athygli vekur hins vegar að fréttin er birt á heimasíðu samtakanna eins og um sé að ræða yfirlýsingu SA. Verður því að álykta að stjórn SA sé sammála yfirlýsingunni og að hún birtist á heimasíðu samtakanna án nokkurra fyrirvara um að þetta sé yfirlýsing starfsmanna en ekki samtakanna sjálfra.
43. Í yfirlýsingu Halldórs og Davíðs eru tilgreind fimm efnisatriði sem þeir halda fram að ekki fáist staðist í viðtalinu við Fréttablaðið .
a. Í fyrsta lagi er til þess vísað að Halldór og Davíð hafi ekki komið til starfa hjá SA þegar endurfjármögnun Lindarvatns hafi átt sér stað í mars 2016. Halldór hafi komið til starfa í lok árs 2016 og Davíð í lok árs 2017. Ekki er ljóst af hverju Halldór og Davíð tiltaka þetta þar sem enginn hefur haldið því fram að þeir hafi komið að Lindarvatni eftir að þeir urðu starfsmenn SA. Aftur á móti hefur verið fjallað um aðkomu Halldórs og Davíðs að Lindarvatni í tengslum við fyrri störf þeirra hjá Icelandair.
Í yfirlýsingum mínum hefur komið fram að Halldór og Davíð hafi verið í störfum hjá Icelandair Group (IG) þegar IG tók ákvörðun um fjárfestingu í Lindarvatni og gerð leigusamningsins. Þeir hafi í kjölfarið tekið við trúnaðarstörfum hjá Lindarvatni og sinnt þeim samhliða störfum sínum hjá IG. Þá hafi þeir verið í trúnaðarstöðum hjá Lindarvatni (og IG) þegar stjórn Lindarvatns samþykkti útgáfu skuldabréfa sem seld voru fjárfestum svo sem lífeyrissjóðum. Þeir voru einnig í stjórn Lindarvatns þegar ÍV var fengið sem ráðgjafi félagsins, m.a. við gerð áætlana. Loks hafi þeir verið í trúnaðarstörfum fram á árið 2017 (Halldór fór úr stjórn í mars 2017 og Davíð hætti sem framkvæmdastjóri í október 2017) en á þeim tíma mátti vera ljóst að óvissa væri um verkefnið og þar með þeim áætlunum sem lágu til grundvallar fjármögnun félagsins, sbr. m.a. yfirlýsingu í ársreikningi IG um að hótel á Landssímareitnum eigi að opna 2017.
Athugasemdir mínar hafa m.a. beinst að gerningum IG og Lindarvatns á þeim tíma þegar Halldór og Davíð voru þar við störf.
Hins vegar vekur óneitanlega athygli að sömu aðilar skuli fara á sama tíma til starfa hjá SA, sérstaklega í ljósi þess að IG samþykkti að kaupa 50% hlut í félagi á verði sem hækkaði verðmæti félagsins um 2.900 milljónir kr. á 8 mánuðum. Fjárfesting að fjárhæð um 1,9 m.kr. þar sem Dalsnes færði söluhagnað að fjárhæð 1.000 milljónir kr., fjárfesting sem virðist vera uppnámi og fjárfesting þar sem allar áætlanir, sem samþykktar voru af þáverandi stjórn Lindarvatns í tengslum við sölu skuldabréfa til lífeyrissjóða, hafa brugðist og mátti vera ljóst að gætu ekki staðist.
b. Í öðru lagi er til þess vísað að Halldór og Davíð detti ekki í hug að beita lífeyrissjóði þrýstingi þegar kemur að fjárfestingarákvörðunum.
Í íslensku þjóðlífi er því miður algengt að stjórnmálamenn og fyrirsvarsmenn eftirlitsaðila gefa yfirlýsingar um að lífeyrissjóðir eigi að taka þátt í þessu verkefni eða hinu, hvort heldur sem um er að ræða fjárfestingu í grænum skuldabréfum eða fyrirmæli eftirlitsaðila um sjálfssköpuð gjaldeyrishöft á kostnað lífeyrisþega. Þá eru alþekkt dæmi þess að staðbundnir lífeyrissjóðir taki þátt í verkefnum á starfssvæði sínum og séu ítrekað hvattir til að taka þátt í slíku. Eru jafnvel dæmi um að lífeyrissjóðir hafi komið að félögum til að taka þátt í slíkum verkefnum.
Að sama skapi leggja starfsmenn fyrirtækja áherslu á að fá lífeyrissjóði með í verkefni eða taki þátt í fjárfestingum, s.s. útboði. Til dæmis birtist í vikunni viðtal við núverandi forstjóra Icelandair Group, Boga Nils Bogason, fyrrverandi stjórnarmann Lindarvatns, að félagið „einbeitir sér að viðræðum við lífeyrissjóðina“. Verður viðtalið ekki skilið með öðrum hætti en að Bogi, sem forstjóri Icelandair og fyrrverandi stjórnarmaður í Lindvarvatni, sé í viðræðum við lífeyrissjóði um að kaupa hlutabréf í félaginu. Væntanlega er hann að hvetja lífeyrissjóði til kaupanna. Athygli vekur að minna er rætt um loforð og fyrirætlanir félaga í Samtökum atvinnulífsins um þátttöku í útboðinu.
c. Í þriðja lagi segir að lífeyrissjóðirnir hafi ekki fjármagnað kaup á Lindarvatni árið 2015. Kaupin hafi verið fjármögnuð af Icelandair sjálfu og án aðkomu lífeyrissjóðanna.
Fram hefur komið að fréttamaður Fréttablaðsins hafði rangt eftir Ragnari um þetta efnisatriði en Ragnar var að vísa til kaupa lífeyrissjóða á skuldabréfum Lindarvatns.
Hins vegar kristallast huglæg afstaða Halldórs, Davíðs og SA í þessari rangfærslu þar sem þeir segja að kaup Icelandair á félagi séu án aðkomu lífeyrissjóða.
Í svarinu er alfarið horft fram hjá því að á þessum tíma (árslok 2015) var LIVE stærsti eigandi IG með 15% hlut, LSR með 6%, Gildi með 6%, Stafir með 3,6%, Stapi með 3,4%, Sameinaði með 2,8%, LSS með 2% o.fl. Samtals voru lífeyrissjóðir því eigendur að um 41,5% eignarhlut í Icelandair Group hið minnsta.
Af því leiðir að verið var að fjárfesta með stuðningi lífeyrissjóðanna sem áttu rúmlega 41,5% hlut í félaginu. Er það þá skilningur Halldórs og Davíðs að eigendur félagsins fjármagni það ekki?
d. Í fjórða lagi segir að enginn hjá Icelandair eða Lindarvatni hafi verið í beinum samskiptum við lífeyrissjóðina í þessu ferli (væntanlega er átt við útgáfu skuldabréfanna). Samskiptin hafi öll farið fram í gegnum ÍV.
Um þetta efnisatriði má vísa einnig til fyrri umfjöllunar. Stjórn Lindarvatns, sem Halldór og Bogi sátu í, hlýtur að hafa útbúið og samþykkt þá áætlun sem lögð var til grundvallar sölu skuldabréfanna. Þá hlýtur Davíð, sem framkvæmdastjóri félagsins, að hafa komið að þeirri vinnu.
Þá vekur einnig athygli að af yfirlýsingunni má ráða að enginn frá útgefanda, þ.e. skuldara, hafi hitt kröfuhafa í tengslum við fjárfestinguna. Þannig hafi ÍV selt skuldabréf til fjárfesta s.s. lífeyrissjóða án þess að nokkru sinni hafi verið óskað eftir fundi með fyrirsvarsmönnum skuldara. Vekur það nokkra athygli í samræmi við aðrar útgáfur og sölu verðbréfa.
e. Í fimmta lagi segir að Halldór og Davíð hafi með engum hætti komið að kaupum á Lindarvatni þegar þeir störfuðu hjá IG. Það hafi verið aðrir starfsmenn auk ytri ráðgjafa.
Um þetta efnisatriði má vísa einnig til fyrri umfjöllunar en í svarinu er hvorki upplýst um hvaða ráðgjafar það voru sem komu að kaupunum fyrir hönd IG né hvaða aðili eða eining innan IG tók ákvörðun um fjárfestinguna. Eina sem vitað er að Halldór og Davíð tóku sæti sem stjórnarmaður og framkvæmdastjóri í Lindarvatni eftir kaupin, samþykktu áætlanir sem notaðar voru við sölu skuldabréfa og fram á árið 2017.
IX. Enn er spurningum ósvarað
44. Í samantektinni er að finna fjölda spurninga, sem sumar hafa komið áður fram og aðrar sem eru nýjar, sem aldrei hefur verið svarað, hvorki af Lindarvatni, stjórnarmönnum eða framkvæmdastjóra Lindarvatns eða þeim sem að viðskiptunum komu. Þess í stað hafa aðilar gefið yfirlýsingar án þess að svara kjarna málsins.
45. Lífeyrissjóðir áttu a.m.k. 41% í IG þegar IG ákveður að fjárfesta í Lindarvatni. Fjárfestingin er gerð á sama tíma og gerður er langtímaleigusamningur um hótelin. IG kaupir 50% eignarhlut á 1,9 ma.kr. en félagið var 9 mánuðum áður metið á 930 m.kr. Verðmæti félagsins var því um 3.800 milljónir við kaupin en var áður 930 m.kr. Engar upplýsingar eru um að nokkuð hafi breyst í forsendum fyrir rekstri Lindarvatns á tímabilinu annað en leigusamningurinn við IG. Þannig má ætla að leigusamningurinn við IG hafi aukið verðmæti félagsins og að IG hafi greitt hærra kaupverð vegna leigusamnings við dótturfélag sitt. Upplýst er að Dalsnes fékk greitt um 1.900 milljónir kr. fyrir 50% hlut en ársreikningur sýnir „aðeins“ 1.000 milljóna hagnað.
Engar upplýsingar liggja fyrir um hver var a) ráðgjafi IG við fjárfestinguna, b) hvaða áreiðanleikakönnun var framkvæmd á Lindarvatni og verðmat, c) hvaða eining innan IG tók ákvörðun um fjárfestinguna, d) hvaða ráðgjafar veittu Dalsnesi ráðgjöf vegna kaupanna, e) hvaða hlutverk höfðu þeir eftir kaupin? Í stuttu máli; hvernig gat Icelandair samþykkt að kaupa 50% hlut á 1.900 milljónir kr. og hver tók þá ákvörðun innan Icelandair?
46. Þá liggur fyrir yfirlýsing Halldórs og Davíðs, sem yfirlögfræðingur Icelandair og framkvæmdastjóri viðskiptaþróunar á þessum tíma, um að þeir hafi ekkert komið að viðskiptunum. Engu að síður eru þeir skipaðir í trúnaðarstöður hjá Lindarvatni í kjölfar kaupanna og héldu áfram í fullu starfi hjá Icelandair. Ef þeir komu ekkert af viðskiptunum, af hverju voru þeir þá skipaðir í þessa stöðu? Hver er reynslu þeirra af rekstri fasteignaþróunarfélags? Hvernig gátu þeir sinnt þessari fjárfestingu samhliða störfum sínum hjá IG?
47. Loks tók stjórn Lindarvatns ákvörðun um fjármögnun félagsins með útgáfu skuldabréfa í febrúar 2016. Samkvæmt skilmálum skuldabréfanna liggur áætlun framkvæmda til grundvallar o.fl. Hvenær var stjórn Lindarvatns ljóst að áætlunin myndi ekki standast? Hvaða breytingar voru gerðar? Hvenær var kröfuhöfum tilkynnt um að áætlun myndi ekki standast? Rétt er að hafa í huga að í ársreikningi IG, sem birtur var fljótlega eftir viðskiptin, segir að hótelið eigi að opna 2017. Það hefur eitthvað dregist.
48. Að lokum mætti framkvæmdastjórinn Jóhannes uppfæra svör sín og bæta við umfjöllun um neyðarlán IG til félagsins og nýlegar viðbótar lántökur Staðreyndir sem honum voru kunnar á þeim tíma en hann ákvað að sleppa að fjalla um.
49. Eftir stendur spurningin: Er fjárfesting Icelandair Group upp á 1,9 ma.kr. fyrir 50% hlut Lindarvatni töpuð? Miðað við veðbókarvottorð er áhvílandi um 12 milljarðar króna en í útgáfulýsngu skuldabréfa er áætlað verðmæti Landsímareitsins 10,5 milljarðar króna við verklok.
50. Samantekt þessi hlýtur að kalla á óháða rannsókn á málinu í heild sinni. Hvernig getur virði Lindarvatns hækkað úr 934 m.kr. í 3.800 m.kr. á 8 mánuðum? Hverjar voru forsendur viðskiptanna? Hver er skuldbinding IG vegna leigusamnings um fasteignir á Landssímareit? Fjárfestar hljóta að gera kröfu um að allar upplýsingar um þetta mál verði opinberar áður en þeir taka þátt í hlutafjárútboði.
Höfundur er formaður VR.