Í frægri tilraun lögðu sálfræðingar við Stanford háskóla eftirfarandi þraut fyrir börn á leikskólaaldri: Barnið kom inn í herbergi þar sem fyrir voru stóll, borð, diskur með girnilegu sælgæti (sykurpúða), auk stjórnanda tilraunarinnar. Stjórnandinn sagði barninu að hann þyrfti að skreppa frá. Barninu var jafnframt sagt að það mætti eiga og borða sælgætið. Ennfremur að ef sælgætismolinn væri óhreyfður þegar stjórnandinn kæmi til baka (eftir 15 mínútur) myndi öðrum mola verða bætt við. Niðurstöður tilraunarinnar voru þær að um þriðjungur barna sem tók þátt fékk 2 sælgætismola.
Meirihlutinn, tvö af hverjum þremur börnum, höfðu ekki þrautseigju eða sjálfsstjórn til að bíða þó í boði væri tvöföldun ávinnings. Endurteknar tilraunir hafa gefið sömu niðurstöðu. Síðan hafa sálfræðingar eytt miklu púðri í að skýra skapgerð, bakgrunn og uppeldi þeirra barna bíða eftir seinni molanum og borið saman við sömu eiginleika hinna sem láta sér nægja einn mola „strax“. Skal það ekki rakið frekar í bili. En þann lærdóm má af tilrauninni hafa að mannfólkinu er ekki áskapað að neita sér tímabundið um glaðning, jafnvel þó ávinningur af frestuninni sé ríkulegur (100% ávöxtun á 15 mínútum). Sú hugsun að það geti verið hagstætt að neita sér um eitthvað gott í dag ef meir gæði eru í boði síðar er lærð, ekki meðfædd.
Hvað skal gera þegar eðlisávísun og meðfædd viðbragðsmynstur knýr marga til að valda sér og öðrum tjóni? Gott fordæmi, upplýsing, kennsla og fræðsla auk lagaboða eru þau tæki sem notuð eru. Kristnum er kennt að breyta eins og frelsari þeirra breytti (þó sumum gangi það illa), reynt er að kenna börnum og unglingum að spara og fjárfesta (fjármálalæsi). Launþegum og sjálfstætt starfandi er skylt samkvæmt lagaboði að leggja umtalsverðan hluta tekna í lífeyrissjóð, enda sýnir sykurpúðatilraunin að ótryggt er að treysta því að unglingar hugsi til elliáranna.
Tilraunasálfræðingarnir í Stanford fylgdust með atferli þátttakendanna í sykurpúðatilrauninni eftir að stjórnandinn fór úr herberginu á sjónvarpsskjá. Eins og við mátti búast reyndu margir þátttakenda bæði að borða sykurpúðann og geyma hann með því að taka örlitla flís. Þeim sem lengst komst tókst að borða megnið af púðanum en skilja „skurn“eftir svo það leit út fyrir að ekki hefði verið hreyft við sælgætinu!
Í baráttu við drepsótt grípa margir til svipaðra aðferða og reyna að sannfæra stjórnvöld um að það sé í lagi að undanþiggja þeirra rekstur frá ákvæðum um samskiptafjarlægð og samkomubönn. Að ekki þurfi að taka sýni af öllum sem koma erlendis frá, að ekki þurfi að íþyngja með greiðslu fyrir sýnatöku, að ekki sé neinn munur á að loka öldurhúsum og veitingahúsum klukkan ellefu að kvöldi eða tólf að kvöldi (eða eitt að nóttu eða....). Þetta er fullorðinsaðferðin við að borða flís af sykurpúðanum í þeirri von að það skaði ekki ávinninginn sem gæti orðið.
Reynsla síðustu daga sýnir svart á hvítu að eftirlátssemi gagnvart samskiptafjarlægð og smitvörnum er fljót að verða kostnaðarsöm. Nú virðist sem rýmkun á skimunarskyldu á landamærum Íslands geti sett stórt strik í reikninginn þegar kemur að skólahaldi í haust. Sömuleiðis er líklegt að ótímabær og/eða of víðtæk opnun landamæra dragi mjög úr möguleikum fyrir tónleikahald, leikhús og aðrar fjöldasamkomur sem fyrst og fremst eru sóttar af innlendum neytendum. Ákvarðanir um beitingu samskiptafjarlægðar og samkomutakmarkana og skimun á landamærum voru, að því er virðist, teknar á grundvelli þrýstings hagsmunagæslumanna og þröngra hagsmuna umbjóðenda þeirra. Ekki á grundvelli hagræns uppgjörs á kostnaði og ábata. Nágrannar okkar í Noregi létu vinna slíkt uppgjör í apríl s.l. Þar kom fram að mestu skiptir að halda útbreiðslu niðri og komast hjá að loka skólum og leikskólum vegna þess hversu hamlandi slíkar lokanir eru á atvinnulífið almennt. Íslensk stjórnvöld þekkja til þeirrar vinnu en hafa ekki látið vinna tilsvarandi álitsgerð mér vitanlega. Það er skaði því hugsanlega hefði niðurstaða slíkrar vinnu haft áhrif. Kannski værum við ekki að velta fyrir okkur að Zoom-væða skólakerfið annað misserið í röð, hver veit?
Höfundur er prófessor í hagfræði við Háskóla Íslands.