Hamfarasprengingarnar í Beirút voru svo öflugar að orð fá þeim ekki lýst. Þeir erfiðleikar og sú eyðilegging sem sprengingarnar ollu eru því miður enn eitt áfallið í langri sögu áfalla fyrir þetta litla ríki. Beirút, sem eitt sinn var kölluð París Miðausturlanda, má sannarlega muna fífil sinn fegri.
Bolmagn líbönsku þjóðarinnar ætti fyrir löngu að vera komið að þolmörkum og aðdáunarvert er að fylgjast með íbúum landsins takast á við hvern skellinn á fætur öðrum með samstöðuna eina að vopni. Blóðug borgarastyrjöld, sem geisaði á árunum 1975-1990, er mörgum enn í fersku minni og er fólki því mikið í mun að halda friðinn í þessum suðupotti ótal ólíkra samfélagshópa.
Margir minnast myndbands sem sýndi þessa samstöðu svo vel þegar hópur mótmælenda tók að klappa og syngja barnavísuna Baby Shark til að róa drenginn Robin sem sat í bíl með móður sinni mitt í mótmælaþvögunni á götum í Beirút seint á síðasta ári. Mótmælunum var einmitt beint að þeirri ríkisstjórn sem nú er kennt um að hafa vanrækt að tryggja öryggi við höfnina þar sem hin ógnarstóra sprenging varð síðastliðinn þriðjudaginn.
Líbanon liggur fyrir botni Miðjarðarhafs með landamæri að Sýrlandi í austri og að Ísrael í suðri. Það hefur tekið sinn toll fyrir þetta litla land að eiga svo ógnarsterka nágranna, og gerir enn. Átök og skærur eru tíðar við bæði landamærin og hefur þjóðin í áranna rás tekið á móti flóttafólki, sem til þess streyma, með opnum örmum. Líbanon á þann vafasama heiður að vera það land sem hýsir hæst hlutfall flóttamanna miðað við höfðatölu í heiminum, en allt að þriðjungur íbúa landsins er flóttafólk. Meira en 650.000 palestínskra flóttamanna búa í landinu og talið er að fjöldi sýrlensks flóttafólks sé yfir 1,5 milljón.
Mikil fjármálakreppa hefur ríkt í Líbanon undanfarin misseri. Verðbólga hefur aukist hratt og gengi gjaldmiðilsins hefur fallið gríðarlega og misst nærri 80% af virði sínu frá hausti 2019. Stór hópur íbúa landsins er berskjaldaður og lifir við bágan kost. Atvinnuleysi er mikið og sífellt fleiri upplifa sárafátækt. Þá er mikill skortur á nauðsynlegum lækningavörum. Í ofanálag berst þjóðin, eins og aðrar þjóðir, við útbreiðslu COVID-19.
Fólkið í Líbanon treystir á Rauða krossinn
Rauði krossinn í Líbanon rekur sjúkrabílaflota og heilsugæslur um land allt. Heilbrigðiskerfi landsins er að mestu leyti einkavætt og því er heilbrigðisþjónusta Rauða krossins nauðsynleg til að tryggja aðgengi allra að slíkri þjónustu, sérstaklega þegar svo margir stórir hópar samfélagsins búa við bág kjör og eiga vart í sig og á. Félagið leggur grundvallaráherslu á hlutleysi og sjálfstæði í öllu sínu starfi. Félagið er mikils metið og íbúar landsins leggja mikið traust á þá þúsundi sjálfboðaliða sem félagið byggir starf sitt á. Traustið sem félaginu er sýnt er ekki síst því að þakka, hvernig það hagaði hjálparstarfi á tímum borgarastyrjaldarinnar. Þá var áhersla lögð á að múslimskir sjálfboðaliðar á sjúkrabílum félagsins færu inn á svæði þar sem meirihluti íbúa voru kristnir, til að hlúa að sjúkum og særðum. Að sama skapi voru það kristnir sjálfboðaliðar sem fóru á svæði þar sem meirihluti íbúa voru múslimskir.
Frá því stríðið í Sýrlandi braust út, sem varð þess valdandi að mikill fjöldi flóttafólks hefur leitað skjóls í Líbanon, hefur álagið á Rauða krossinn stóraukist dag frá degi og gríðarleg fjölgun hefur orðið í þeim hópi samfélagsins sem reiðir sig á mannúðaraðstoð félagsins. Fyrir stríðið var heildarfjárþörf verkefna Rauða krossins í landinu rétt rúmir 6 milljón bandaríkjadollarar en þegar þörfin var sem mest var hún áætluð allt að 28 milljón bandaríkjadollarar. Fljótt varð ljóst að ástandið í Líbanon er ekki tímabundið heldur langvinnt neyðarástand og því var ákveðið að samhent átak þyrfti til að tryggja að líbanski Rauði krossinn yrði í stakk búinn að halda úti viðamikilli og skilvirkri mannúðaraðstoð í landinu um komandi ár og áratugi.
Íslensk stjórnvöld hafa styrkt neyðarstarf í Líbanon í gegnum þróunarstarf
Rauði krossinn á Íslandi og íslensk stjórnvöld voru meðal þeirra sem svöruðu kalli Rauða krossins í Líbanon um stuðning við uppbyggingu og eflingu félagsins fyrir nokkrum árum. Mikilli orku og fjármunum var varið í að stórefla getu neyðarheilbrigðisteyma Rauða krossins og efla þjónustu sjúkrabíla félagsins. Rekstur blóðbanka félagsins var auk þess styrktur. Hugbúnaður og verkferlar sem nýtast við veitingu fjárhagsaðstoðar voru innleiddir og starfsfólk og sjálfboðaliðar hlutu þjálfun í að veita slíka aðstoð á ábyrgan og öruggan hátt með notkun farsíma.
Íslenskur sendifulltrúi vann með starfsfólki Rauða krossins í Líbanon við að meta getu fjármáladeildar félagsins sem í kjölfarið var endurskipulögð frá grunni. Nú, nokkrum árum síðar, er Rauði krossinn í Líbanon eitt öflugasta landsfélag hreyfingarinnar og heldur ekki aðeins úti mikilvægum verkefnum í þágu berskjaldaðra íbúa Líbanon, heldur sækja landsfélög Rauða krossins og Rauða hálfmánans alls staðar að úr heiminum í reynslubanka félagsins þegar kemur að þjónustu við berskjaldaða íbúa, og ekki síst flóttafólk.
Öll við sem vinnum við hjálparstarf vitum mæta vel hve erfitt það er að afla fjár til uppbyggingar getu hjálparsamtakanna sjálfra. Flest okkar kjósa að styrkja hjálparstarf sem styður beint við berskjaldaða á vettvangi. Það má þó öllum vera ljóst að án slíkrar uppbyggingar eru hjálparsamtök í raun í sjálfheldu. Án nauðsynlegra og sterkra innviða er þeim mun síður kleift að veita nauðsynlegan stuðning á áhrifaríkan og skilvirkan hátt og án þess að geta sýnt fram á að þau í raun veiti slíkan stuðning eru fjársterkir aðilar síður tilbúnir að leggja fé til uppbyggingar. Þegar öllu er á botninn hvolft, eru það þau berskjölduðustu sem af mestu verða. Við í Rauða krossinum viljum því nýta tækifærið og þakka utanríkisráðuneytinu fyrir það traust sem það sýndi félaginu þegar sú ákvörðun var tekin fyrir fimm árum að veita fjármunum í mikla uppbyggingu Rauða krossins í Líbanon, sem nú leggur nótt við dag að hlúa að og styðja hundruð þúsunda fórnarlamba sprengingarinnar við höfnina í Beirút.
Neyðarsöfnun Rauða krossins
Við höfum flest séð myndbönd af sprengingunum sem sviptu á annað hundrað manns lífi, særðu á fimmta þúsund og gerðu um 300 hundruð þúsund heimilislaus. Sjálfboðaliðar og starfsfólk Rauða krossins í Líbanon leggja nótt við dag í björgun á vettvangi en starfið er samt bara rétt að byrja. Það mun taka langan tíma að koma til móts við nauðsynlegustu þarfir þolenda og tryggja húsaskjól, fæði og heilbrigðisþjónustu. Rauði krossinn mun vera í forystu við það mikilvæga verkefni og til þess að það megi takast vel þarf Rauði krossinn stuðning almennings.
Hægt er að styrkja hjálparstarf Rauða krossins um 2900 kr. með því að senda SMS-ið HJALP í númerið 1900. Einnig má leggja inn á reikning 0342 - 26 -12, kt. 530269 - 2649.
Höfundur er sviðsstjóri hjálpar- og mannúðarsviðs Rauða krossins á Íslandi.