Formaður Frjálshyggjufélagsins fer mikinn þessa dagana (sjá t.d. hér). Hann fárast yfir því að hér hafi verið gripið til ákveðinna sóttvarna til að halda Covid-19 smitum í lágmarki.
Hvers vegna eru hann og félagar hans á móti því?
Jú, í helgiritum nýfrjálshyggjunnar er þessu fólki innprentað að allt sem ríkisvaldið gerir sé slæmt – en allt sem ríkt fólk og einkafyrirtæki gera sé gott.
Slæmt sé að stjórnvöld ráðskist með fólk og banni því að koma saman í fjölmenni, biðji það að þvo sér ótt og títt og að halda tveggja metra fjarlægð – hvað þá að mælast til að fólk hafi á sér sóttvarnargrímu í margmenni. Þetta telja frjálshyggjumenn afleitar skerðingar á frelsi einstaklinga.
Þessir miklu talsmenn „frelsis” vilja sem sagt að fólk fái að haga sér eins og því sýnist, án þeirra hafta sem sóttvarnir fela í sér. Þetta vilja þeir þrátt fyrir að hin hættulega veira sé allt um kring og sæti færis á að berast milli manna í návígi og gera aðför að heilsu þeirra og lífi.
Önnur rök eru þau að tjónið af efnahagssamdrættinum sem sóttvörnum fylgja sé meira og alvarlegra en útbreiðsla Covid-19 veikinnar sjálfrar. Vissulega eru efnahagslegu afleiðingarnar alvarlegar og sársaukafullar, en óheft útbreiðsla veirunnar býður heim mun alvarlegri afleiðingum – bæði efnahagslegum og heilsufarslegum.
Einfeldni frjálshyggjumanna
Jafnvægi millileiðarinnar milli óhefts frelsis og takmarkana er hins vegar viðkvæmt. Aukning smita sem nú gætir í kjölfar meiri lausungar í baráttunni við veiruna víða um heim sýna einmitt að aflétting sóttvarna áður en veiran er úr sögunni eykur tíðni smita og dauðsfalla. Ef ekki er beitt afgerandi sóttvörnum fer allt á verri veg.
Þessir frjálshyggjumenn vilja því að fólk hafi frelsi til að smita aðra af lífshættulegri veiru!
Hvers lags frelsi er það?
Jú, það er frelsi til að skaða annað fólk.
Æskilegt væri að einhver benti þessum aðilum á að það er forsenda klassískrar vestrænnar frjálslyndisstefnu að einstaklingar eigi aldrei að hafa frelsi til að skaða aðra. Þar eru mörk einstaklingsfrelsisins. Þegar yfir þau mörk er farið breytist frelsið í andstæðu sína – ofbeldi og kúgun.
Um þetta geta menn til dæmis lesið í klassískri bók John Stuart Mill, sem heitir einfaldlega Frelsið.
Slæm reynsla Íslendinga af nýfrjálshyggju
Við Íslendingar höfum slæma reynslu af boðskap nýfrjálshyggjunnar.
Á áratugnum fram að hruni fjármálakerfisins 2008 var fyrrverandi formaður Frjálshyggjufélagsins, Hannes Hólmsteinn Gissurarson, atkvæðamikill í boðun þessarar afskiptaleysisstefnu nýfrjálshyggjunnar fyrir fjármálageirann og atvinnulífið almennt.
Davíð Oddsson þáverandi forsætisráðherra sá um að koma þessum einfeldnislega frelsisboðskap í framkvæmd. Afleiðingin var aukið svigrúm fyrir brask og ósjálfbæra skuldasöfnun, drifið áfram af taumlausri græðgisvæðingu yfirstéttarinnar sem á endanum keyrði fjármálakerfið í hrun. Tjón almennings varð gríðarlegt.
Nýfrjálshyggjan var ekki bara vitlaus þá, heldur beinlínis stórhættuleg eins og hrunið sýndi.
Einfeldnisleg og sjálfhverf barátta frjálshyggjumanna núna gegn sóttvarnaraðgerðum er einnig í senn vitlaus og stórhættuleg – beinlínis lífshættuleg.
Við þurfum lækna til að koma viti í kollinn á þessu frjálshyggjufólki!
Höfundur er prófessor við HÍ og sérfræðingur í hlutastarfi hjá Eflingu-stéttarfélagi.