Er mögulegt að sementsframleiðsla verði aftur að veruleika á Íslandi? Notkun sements og steinsteypu á nú undir högg að sækja. Ástæðan er mikil myndun koldíoxíðs við framleiðslu hefðbundins sements (Portland-sement), sem eykur vandamál vegna loftslagshlýnunar. Þetta getur rýrt samkeppnisstöðu steinsteypunnar sem byggingarefnis gagnvart öðrum efnum svo sem t.d. timbri. Þó er þess að vænta að steinsteypan haldi stöðu sinni í stórum mannvirkjum, sérstaklega þar sem hún er í snertingu við vatn, svo og undir miklu slitálagi svo sem í samgöngumannvirkjum.
Þetta hefur beint athyglinni að nýrri gerð bindiefnis í steinsteypu, sem hefur ekki loftslagsvandamál í för með sér. Uppistaðan í hefðbundnu sementi eru steingerð kalsíumsiliköt, en nýja efnið er ólífræn fjölliðun á álsilikötum. Nýja efnið hefur fengið nafnið jarðfjölliðunar-sement (geopolymer cement). Álsiliköt eru aðaluppistaðan í eldfjalla-jarðefnum, en Ísland er einmitt samsett úr þess konar efnum. Vegna mikils magns og fjölbreytileika þessara efna hér á landi gæti Ísland orðið ákjósanlegur staður fyrir framleiðslu jarðfjölliðunar-sements.
Nýja bindiefnið er enn á rannsóknarstigi og þess bíður langur tími tækniþróunar og reynslu, þar til það verður markaðshæft. Spurningin er þó: Eiga íslensk byggingaryfirvöld og byggingariðnaður að láta málið til sín taka með rannsóknum og tilraunum?
Það hefði ekki þótt mikið vit í þessari spurningu um síðustu aldamót, en þá var fyrst farið að ræða í alvöru um hlýnun jarðar og hvernig mætti takast á við það risavaxna vandamál. Framleiðsla sements er nefnilega sú þriðja í röðinni hvað varðar útblástur koldíoxíðs á eftir orkuframleiðslu með kolaeldsneyti og málmframleiðslu. Hefðbundin viðmiðun er myndun eins tonns af koldíoxíði fyrir hvert framleitt sementstonn.
Sementsframleiðsla
Framleiðsla sements fer þannig fram að blanda af jarðtegundum með háu innihaldi af kalki, t.d. kalksteini, er fínmöluð saman við jarðefni sem innihalda kísilsýru, t.d. leir, og blandan síðan brennd í stórum sívalningsofnum við allt að 1500°C hita. Við það verður til sementsgjall, sem við frekari fínmölun verður að sementi , bindiefni (lími) steinsteypunnar. Við brennsluna ummyndast kalksteinninn í brennt kalk og koldíoxíð. Koldíoxíðið sem þannig myndast er um helmingur þess koldíoxíðs sem myndast við brennsluna. Hinn helmingurinn kemur frá eldsneytinu, sem er venjulega kol.
Upphaf sementsframleiðslu hér og byrjunarörðugleikar
Eftir síðustu heimsstyrjöld var farið að huga að því, hvort framleiða mætti sement hér á landi. Þá þegar var þó ljóst, að hefðbundin hráefni til sementsgerðar voru ekki fyrir hendi á landinu. Hugmyndin byggðist á því, að á Vestfjörðum er skeljasandur víða á fjörum og kalkinnihald hans álíka og í kalksteini. Kísilrík hráefni voru þarna þó af skornum skammti. Góður skeljasandur fannst hins vegar á botni Faxaflóa, milli Reykjavíkur og Akraness. Þar sem kísilríkt basalt (líparít) var að finna á svæðinu norðan Hvalfjarðar, var sementsverksmiðja með um 100.000 tonna framleiðslugetu sementsgjalls byggð á Akranesi. Hóf hún starfsemi árið 1958. Verksmiðjan var í eigu ríkisins og fékk nafnið Sementsverksmiðja ríkisins.
Alkalískemmdir og viðbrögð við þeim
Umræðan um alkaliþensluna á sínum tíma varð mjög áköf. Opinber rannsóknastofnun á vegum byggingariðnaðarins, Rannsóknastofnun byggingariðnaðarins, var þá nýtekin til starfa. Iðnaðarráðuneytið skipaði vinnuhóp árið 1967 , sem í sátu allir helstu framámenn byggingamála í landinu, til þess að taka á þessu vandamáli. Hópurinn fékk nafnið Steinsteypunefnd. Framkvæmdastjóri Rannsóknastofnunar byggingariðnaðarins og jafnframt formaður Steinsteypunefndar var Haraldur Ásgeirsson efnaverkfræðingur . Hann hafði lært efnaverkfræði í Bandaríkjunum með sementsgerð sem sérgrein.
Stofnuninni var falið það verkefni að reyna að breyta samsetningu sementsins þannig að hætta á alkaliþenslu væri ekki fyrir hendi. Verkefninu lauk 1971 og voru niðurstöður hennar, að með ímölun jarðefna með svonefnda „possólan“ eiginleika í sementið mætti koma alkaliþenslunni niður fyrir hættumörk. Þessi aðferð hafði verið reynd með góðum árangri í Bandaríkjunum. Jarðefni með possólaneiginleika eru gjarnan gosefni, sem eru lítt kristölluð og samanstanda af efnasamböndum kísils og áls ( álsiliköt ). Er þar viss skyldleiki við efnasamsetningu Portlandsements, sem samanstendur af kísli og kalsíum ( kalsíum-siliköt ). Jarðefni með possólaníska eiginleika fundust víða við norðanverðan Hvalfjörð og þau voru prófuð í alkalírannsóknunum. Þar sem líparítið sem notað var í sementsbrennsluna á Akranesi sýndi góða possólaneiginleika, var þegar hafin sammölun á því með sementsgjallinu.
Possólanefni - þ.a.m. afgangsefni stóriðju
Aðgerðin gegn alkaliþennslunni bar þann árangur sem að var stefnt. Tíu árum síðar, um 1980, kom svo til örfínt kísilryk, sem til féll sem úrgangur úr kísiljárnverksmiðjunni á Grundartanga. Það hafði enn betri possólanáhrif en líparítið og var skipt út fyrir það í Sementsverksmiðjunni. Það sement var fyrsta verksmiðjuframleidda sementið í heiminum sem blandað var kísilryki og var íslenska sementið þá talið í háum gæðaflokki og tekið inn í nýjan Evrópustaðal fyrir sement. Öll þessi rannsóknavinna og tillögur að breytingum á íslenska sementinu fóru fram á vegum Steinsteypunefndar hjá Rannsóknastofnun byggingaiðnaðarins undir handleiðslu Haraldar Ásgeirssonar, sem þekkti til slíkra vandmála frá Bandríkjunum.
Hátt verð jarðolíu
En gæðamál sementsins voru ekki einu vandamálin sem Sementsverksmiðja ríkisins átti við að etja á áratugnum 1970 til 1980. Á þessum árum hækkaði verð á brennsluolíu upp úr öllu valdi. Var talið, að ef ekki yrði brugðist við, myndi rekstur verksmiðjunnar ekki standa undir sér. Aðrar verksmiðjur fóru að brenna kolum, sem voru miklu ódýrari en olían. Til þess að brenna kolum á Akranesi þurfti að reisa mikinn og dýran búnað . Voru þá skoðaðar margar leiðir með aðra orkugjafa t.d. rafmagn, en allar voru of dýrar, svo að kolabrennslan varð að lokum ofan á. Erlendis voru þá margar rannsóknastofnanir að skoða eldsneytisverðið , því kolaverðið hélt líka áfram að hækka. Einn af þeim möguleikum sem talinn var koma til greina, var að þróa nýja gerð af bindiefni í steinsteypu. Farið var t.d. að skoða aðferðir hliðstæðar leirbrennslu. Leir, t.d. kaolin, hefur svipaða efnasamsetningu og possólanisk gosefni og harðnar eftir vissa meðhöndlun og upphitun. Þessar hugmyndir voru fljótlega afskrifaðar vegna mikils kostnaðar, en allur kostnaður í sambandi við sementsgerð á þessum tíma var innan viðunandi marka nema olían.
Eftir þennan formála um sementsgerð á Íslandi er komið aftur að yfirskrift þessarar greinar, þ.e. því sem hefur verið nefnt „ólífræn fjölliðun“ eða geopolymer.
Ný gerð sements (steinlím)
Um er að ræða fjölliðun kísil- og ál-sameinda, til aðgreiningar frá „lífrænni fjölliðun“ ( polymerisation ), sem er undirstaða allra plastefna og byggist á sameiningu á keðjum kolefnis-sameinda. Upphafsmaður hugmyndarinnar um tæknilega nýtingu á jarðfjölliðun var franskur efnafræðingur, Joseph Davidovits að nafni. Hann var með doktorspróf í hefðbundnum fjölliðunarfræðum fyrir vefnaðarvörur og starfaði upphaflega við vefnaðarvöruframleiðslu í Frakklandi. Eftir að framleiðslufyrirtækið sem hann vann hjá eyðilagðist í bruna hóf hann að kanna óhefðbundna nýtingu fjölliðunarfræðinnar, þ.e. ólífræna fjölliðun í stað lífrænnar fjölliðunar. Honum tókst að sýna fram á, að með sterkum alkalískum bösum (alkalískur basi, oft nefndur lútur á íslensku, er andstætt efnasamband við sýru) væri hægt að leysa upp possólanefni og meðhöndla þau á ákveðinn hátt til að mynda með þeim bindiefni. Hann notaði kaolin- leir sem grunnefni í upphafi og tókst að sýna fram á að hægt væri að mynda úr því sterkt og varanlegt bindiefni fyrir steinsteypu. Davidovits fékk síðan einkaleyfi fyrir þessari uppgötvun sinni.
Eins og áður kom fram var framleiðslukostnaður hefðbundins sements mjög lágur þrátt fyrir hátt eldsneytisverð. Sementsiðnaðurinn hafði því ekki áhuga á nýrri gerð bindiefnis.
Rannsóknir og þróun á geopolymersementi
Davidovits hélt þó áfram rannsóknum sínum, flutti til Bandaríkjanna þar sem hann starfaði lengi sem prófessor í sérfræðigreinum sínum. Hvað varðar þróun bindiefna með jarðfjölliðun tók hann þátt í þróun sérsements á possólangrunni , nefnt Pyrament cement, ásamt með fyrirtækinu Lone Star, sem er sementframleiðandi þar. Mjög þekktur varð hann einnig vegna rannsókna sinna og kenninga um tilurð fornra mannvirkja, svo sem rómverskra steypumannvirkja og egypsku pyramídanna. Hann kom svo á fót sérstakri stofnun, Geopolymere Institute, rannsóknastofnun í Saint-Quentin í Frakklandi þar sem unnið er að þróun jarðfjölliðunar-bindiefna.
Rannsóknir Davidovits sýndu með tímanum að steinsteypa sem gerð er með jarðfjölliðun sem bindiefni hafði ýmsa hagkvæma eiginleika umfram steypu úr hefðbundnu Portlandsementi. Framleiðsla jarðfjölliðunar-sements krafðist lægra hitastigs og því minni orku. Ekki myndaðist koldíoxíð við framleiðslu þess. Þá var þekkt að ýmis úrgangsefni frá öðrum iðngreinum, svo sem ryk frá kolabrennslu eða gjall frá stálbræðslum, höfðu possolaniska efnasamsetningu og nýttust sem hráefni. Þessi úrgangsefni voru áður mest urðuð, en hafa síðustu ár einnig verið nýtt sem possólanefni í Portland sement.
Við framleiðslu jarðfjölliðunar- sements myndast ekki koldíoxíð, þar sem kolefnissambönd kalksins koma ekki við sögu. Possólanisku efnin eru ódýr en hitaorka og basisku efnin, sem virka sem hvatar á upplausn hráefnanna og efnaferlið tengt því, er helsti kostnaðarþátturinn. Jarðfjölliðunarsteypa harðnar mjög hratt, nær t.d. fullum styrk, sem er sambærilegur við steypu úr Portlandsementi, innan fjögurra klst. Í stórum dráttum virðist þetta nýja bindiefni mjög áhugavert. Auk hörðnunarhraðans hefur jarðfjölliðunarsteypa með þessu mun meira viðnám gegn bruna og sýruáhrifum en steypa með Portlandsementi. En framleiðslukostnaður þessarar steypu er töluvert meiri en þeirrar hefðbundnu. Í fyrstu hafði sements- og steypuiðnaðurinn því ekki mikinn áhuga á frekari þróun jarðfjölliðna og m.a. þess vegna eyddi Davidovits svo mörgum árum í Bandaríkjunum við kennslu og önnur verkefni.
Sement og loftslag
Það er eiginlega fyrst um síðustu aldamót, eftir að loftslagsumræðan fór að fullu í gang, að menn áttuðu sig á hversu mengandi sementsframleiðslan var. Ein aðalaðgerðin til þess að minnka kolefnisspor sementsins var að drýgja það með óbrenndum efnum. Þar voru possólanefnin heppilegust, þar sem þau juku bindieiginleika sementsins, en hægðu oftast um leið á hörðnunarhraðanum. Það var aftur á móti ekki vinsælt hjá steypuframleiðendum og byggingarverktökum, sem forðuðust jafnan notkun possólansements, þar sem það hægði á byggingarhraðanum.
Vegna loftslagsumræðunnar hóf sementsiðnaðurinn í byrjun 21. aldarinnar íblöndun possólanefna í allt venjulegt sement, allt að 20% af heildarþunga sementsins. Þar sem öll mörk um koldíoxíðmengun voru miðuð við árið 1990 ( yoto samkomulagið 1997) náðu flestir sementsframleiðendur að nýta sér samkomulagið, þar sem miðað var við aukningu frá 1990. Það nýttist þó ekki Sementsverksmiðju ríkisins, sem hóf íblöndun mun fyrr, eða um miðjan áttunda áratug síðustu aldar. Possólaníblöndun sementsframleiðenda í vestrænum iðnaðarlöndum hefur hingað til verið að mestu svonefnd flugaska ( ryk frá kolaorku-verum ) og gjall frá stálverum.
Það er því ekki fyrr en fyrir 5-10 árum að ýmsar rannsóknastofnanir , aðallega háskólastofnanir, fóru fyrir alvöru að huga að nýtingu jarðfjölliðna í stað Portland-sements. Og í raun er þessi rannsóknastarfsemi ekki enn komin vel af stað, enda virðist sementsiðnaðurinn ennþá ekki hafa tekið neina stefnubreytingu í þá átt.
Í þessum rannsóknum er oftast gengið út frá nýtingu úrgangsefna úr iðnaði með possólaneiginleika sem hráefni. Sú forgangsröðun er sjálfsagt bundin kostnaði við öflun þeirra og einnig er heppilegt að geta nýtt úrgangsefni úr einum iðnaði sem hráefni í öðrum iðnaði. Með tímanum má þó gera ráð fyrir, að með aukinni eftirspurn eftir flugösku verði minni þrýstingur á að leggja af kolakynt raforkuver, sem þá fer að vinna gegn markmiðinu að lækka kolefnisspor sementsiðnaðarins.
Hvað náttúruefni varðar sem hráefni í bindiefni með jarðfjölliðun, þá rannsaka vísindamenn gjarnan kaolin og efni því skyld. Possólönsk gosefni eins og hægt er að nálgast á jarðeldasvæðum, svo sem Íslandi, hafa minnst verið rannsökuð. Aðspurðir um gróft mat eða samanburð á eiginleikum og nýtingarmöguleikum mismunandi efna, t.d. íslenskra gosefna, segja rannsakendur jarðfjölliðna nauðsynlegt að efnagreina sérhverja tegund gosefna fyrir sig m.t.t. fjölliðunareiginleika og nýtingarmöguleika.
Þá er þess að gæta að eiginleikar grunnhráefnanna segja ekki alla söguna. Aðgangur að basiskum upplausnarefnum og efnahvötum ásamt orkuöflun og kostnaði við þetta hefur þar einnig mikið að segja.
Eins og áður kom fram hefur hinn alþjóðlegi sementsiðnaður ekki sagt skilið við hið upprunalega Portlandsement og mun varla gera það á næstunni. Að baki Portlandssementinu liggur löng og árangursrík þróunarsaga og sama má segja um notkun þess í steinsteypu. Þeirri þekkingu og tækni sem þar liggur að baki verður ekki kastað fyrir róða á skömmum tíma. Steypusvið Nýsköpunarmiðstövar Íslands hefur t.d. undanfarið unnið mikið verk við þróun á umhverfisvænni steinsteypu á þeim grunni.
Tækifæri til framfara
Hugmyndir um nýtt bindiefni í stað Portlandsements í steinsteypu virðast því enn sem komið er framtíðarmúsík. Þó er þegar hafin skoðun á þeim möguleika víða um heim, ekki síst í Ástralíu. Á Íslandi vaknar spurningin: er þarna eitthvert tækifæri fyrir okkur? Innflutningur á ódýrri þungavöru eins og sementi til landsins er óhagstæður og mengandi. Ef hentug possólanefni til framleiðslu á jarðfjölliðunarsementi fyndust hér í miklum mæli væri e.t.v. komið tækifæri til að hefja íslenska sementsframleiðslu á ný.
Í þessu sambandi má minna á þá miklu áherslu, sem lögð var á nýtingu gosefna á árunum milli 1970 og 1990, einmitt á því tímabili sem Sementsverksmiðjan fór að nýta þau til gæðaaukningar íslenska sementsins. Þá var stofnaður vinnuhópur, Gosefnanefnd, á vegum hins opinbera, sem kannaði ýmsa kosti, svo sem útflutning á vikri, vinnslu perlusteins og þensluhæfni hans, framleiðslu steinullar o.fl. Því má spyrja: eiga Íslendingar, stjórnvöld eða byggingaiðnaðurinn ekki að kanna áfram möguleikana á nýtingu gosefna? Og, vitandi um þennan framtíðarmöguleika, hefja rannsóknir á possólanefnum með þessa nýtingu í huga? Í dag er ekki mikill flýtir sjáanlegur á þessum rannsóknum erlendis, en hratt vaxandi kolefnisskattur á sementsiðnaðinn getur breytt því. Grunnrannsóknir á hráefnum héðan þurfa hugsanlega ekki að vera mjög kostnaðarsamar í byrjun, því að þegar er til jarðfræðiþekking og ýmsar aðrar rannsóknir frá því að Rannsóknastofnun byggingariðnaðarins gerði possólanrannsóknirnar 1970-1980. Þá eru hér einnig fyrir hendi possólanísk úrgangsefni, sem falla til við málmiðnað, t.d. kísilryk frá kísiljárn-framleiðslu, ryk frá rykskiljum kísilverksmiðja, gjall frá áliðnaðinum o.s.frv. Þá er hér aðgangur að nægri og hentugri orku fyrir þessa framleiðslu (framleiðslu á alkalílút með rafgreiningu vatns). Hér er bæði jarðvarmi, sem nýst gæti við upplausn efnanna, svo og umhverfisvænt rafmagn. Allt eru þetta atriði sem vert væri að huga að, ef áhugi vaknaði á nýtingu gosefnanna til sementsgerðar.
Höfundur er fyrrverandi framkvæmdastjóri tæknimála Sementsverksmiðju ríkisins.