Þeir sem missa vinnuna og lenda á atvinnuleysisbótum eru helstu fórnarlömb kreppunnar vegna Kóvid veirunnar, auk þeirra sem veikjast illa. Allir sem halda fullri vinnu og launum finna lítið fyrir kreppunni og geta haldið lífi sínu í fyrra fari, utan aðlögunar að sóttvörnum.
Tíundi hluti þjóðarinnar ber helstu byrðar kreppunnar
Nú eru um 9% vinnuaflsins atvinnulausir og spáð er svipuðu atvinnuleysi í september. Síðan gæti það aukist eitthvað á ný með vetrinum. Þetta er sá hluti þjóðarinnar sem ber mestar byrðar vegna kreppunnar.
Þeir sem fara á atvinnuleysisbætur fá 70% af fyrri heildarlaunum í atvinnuleysisbætur fyrstu 3 mánuðina, upp að þaki sem nemur 456.404 kr. á mánuði. Fyrir þá sem voru á meðallaunum eða minna er þetta um 30% kjaraskerðing.
Eftir 3 mánuði fer fólk á flatar atvinnuleysisbætur sem í dag eru 289.510 kr. á mánuði. Þeir sem voru á meðallaunum búa þar með við um 55% kjaraskerðingu. Það er gríðarlega mikið fall, langt umfram kjaraskerðinguna sem var að meðaltali í hruninu, að meðtaldri aukinni skuldabyrði.
Stjórnvöld þurfa að hafa þetta vendilega í huga þegar þau ákveða úrræði gegn afleiðingum kreppunnar. Nauðsynlegt er að létta byrðar þessa tíunda hluta vinnuaflsins sem eru helstu fórnarlömb kreppunnar. Við hin 90% þjóðarinnar getum vel staðið undir því – og þá sérstaklega við sem eru með tekjur yfir meðaltali.
Höfum Dani til fyrirmyndar
Það segir sig sjálft að 30% til 55% kjaraskerðing er gríðarlegt áfall fyrir fjölskyldur. Ef atvinnuleysið dregst á langinn rofna forsendur venjulegs lífs og ekki verður hægt að standa við skuldbindingar fjölskyldunnar.
Þess vegna er nauðsynlegt að hækka atvinnuleysisbæturnar sem fyrst.
Við búum í dýrasta landi Evrópu – og þó víðar væri leitað. Við erum einnig í hópi ríkustu samfélaga heims. Þess vegna eiga atvinnuleysistryggingar á Íslandi að bjóða bætur sem eru með því besta sem þekkist, ef vel á að vera. Ekki í samræmi við meðallag OECD-ríkja, sem mörg hver eru á mun lægra hagþróunarstigi en við.
Danir eru viðeigandi fyrirmynd okkar Íslendinga, en þeir stæra sig af því sem kallað er „flexicurity” skipulag á vinnumarkaði, með góðri blöndu af sveigjanleika, stuðningsúrræðum og bótum meðan á atvinnuleysi stendur. Á íslenskum vinnumarkaði er sambærilegur sveigjanleiki en framfærslutrygging atvinnuleysisbótanna er mun lakari hér en í Danmörku.
Danir fá almennt 90% af fyrri launum í atvinnuleysisbætur (upp að þaki) í allt að 2 ár. Við erum með 70% af fyrri launum (upp að lágu þaki) í 3 mánuði. Það er eðlilegt markmið fyrir okkur Íslendinga að nálgast tryggingarverndina sem Dönum bjóðast.
Við eigum ekki að bera okkur saman við þjóðir sem hafa fallið fyrir ranghugmyndum nýfrjálshyggjunnar og lækkað atvinnuleysisbætur, eins og t.d. Svíar gerðu í tíð hægri stjórna Reinfeldts. Leiðarljós frjálshyggjumanna er alltaf að bætur eigi að vera sem allra lægstar, annars muni fólk ekki vilja snúa aftur til vinnu, rétt eins og atvinnuleysi sé æðsta ósk einhverja! Hið rétta er auðvitað að það er áfall að lenda í atvinnuleysi og út úr því vill fólk komast sem fyrst.
Ríkið skattleggur neyðaraðstoðina
Atvinnuleysisbætur eru neyðaraðstoð samfélagsins, í formi lífskjaratrygginga. Þær bæta tekjumissi vegna atvinnuleysis í takmarkaðan tíma, meðan kreppa eða samdráttur gengur yfir. Því er mikilvægt að tryggingarverndin sé góð og bæti stóran hluta af tímabundna tekjumissinum, eins og er í Danmörku.
Hér er tryggingarverndin veik. Bótahlutfall fyrri launa lágt, tímabil viðmiðs við fyrri laun stutt og flötu bæturnar sem taka við eftir aðeins 3 mánuði eru afar lágar og langt undir framfærsluviðmiði stjórnvalda.
Því til viðbótar lækka stjórnvöld flötu bæturnar úr 289.510 krónum á mánuði með beinni skattlagningu sem nemur kr. 42.759. Í vasann kemur því 246.751, en af því fara svo um 11.580 kr. í lífeyrissjóð. Ráðstöfunartekjur atvinnulausra eru þá um 235.000 krónur á mánuði.
Það sér hver maður að ekki er hægt að lifa af því við venjulegar aðstæður á Íslandi.
Það er raunar fáránlegt að skattleggja neyðaraðstoð sem í reynd dugir ekki til framfærslu.
Ríkið ætti því að hækka atvinnuleysisbætur í átt að því sem tíðkast í Danmörku. Ef tafir verða á því þá er nærtækt að fella strax niður tekjuskatt af hinum alltof lágu atvinnuleysisbótum sem hér tíðkast.
Lágmarkslaun á vinnumarkaði eru nú 335 þús. kr. á mánuði. Lágmark væri að flötu atvinnuleysisbæturnar væru jafnar því, en ekki 289.510.
Við þurfum að létta byrðar þessa litla minnihluta sem ber stærstu klyfjarnar af Kóvid-kreppunni í okkar samfélagi.
Nýjustu fréttir: Nú er komið í ljós að umtalsverður hluti af því fé sem stjórnvöld ætluðu fyrirtækjum í brúarlán og styrki vegna lokunar hefur ekki gengið út. Ekki virðist þörf á því. Það fé má því taka strax til að bæta hag atvinnulausra.
Vilji er allt sem þarf.
Höfundur er prófessor við HÍ og sérfræðingur í hlutastarfi hjá Eflingu-stéttarfélagi.