Hagkerfi eru flókin fyrirbæri. Innan þeirra eru margir þræðir sem hægt er að stýra. Ríkisvaldið er eðlilega sú stofnun sem hefur sig þar mest í frammi. Niðurgreiðslur í ýmsu formi er ein þeirra aðferða sem tíðast hefur verið gripið til.
Lengi vel var það landbúnaðurinn einn sem lifði af niðurgreiðslum. Á síðustu áratugum hefur bæði stóriðjan, svo sem PCC á Bakka, og ferðamannaiðnaðurinn bæst við, sem og bókaútgáfa, fjölmiðlar, innanlandsflug og fleira s.s. byggingariðnaður nú í faraldrinum. Þá hafa ýmsar niðurgreiðslur tengdar dreifbýli séð dagsins ljós. Ekki verður því heldur andmælt að nánast ókeypis aðgangur að sjávarauðlindinni bæði fyrir almenna útgerð sem og laxeldi í sjó, er stórtæk undanþága frá eðlilegum viðskiptaháttum, þar sem reglan er að greiða skuli fyrir af afnot af annarra eign.
Niðurgreiðsla og aðrar undanþágur frá gjöldum og greiðslum framkalla að jafnaði betri rekstrarafkomu en ella hefði orðið. Stundum einnig lægra neysluverð. Þær kosta ríkið peninga sem almenningur endurgreiðir með hærri sköttum. Nýtandi og greiðandi er ekki endilega sami aðilinn.
Varhugaverð aðgerð
Niðurgreiðslur hafa hins vegar aðra varhugaverða hlið. Þær breyta litlu sem engu um undirliggjandi vanda. Ef og þegar þær hverfa þá blasir að nýju við sami vandinn. Endar ná ekki saman. Engin raunbreyting hefur átt sér stað. Þetta leiðir til meiri ásóknar í niðurgreidda atvinnuvegi. Starfsemi sem ekki stendur undir sér er gefið framhaldslíf. Fjárfestingum er beint þangað.
Aðstreymi ferðamanna til landsins var keyrt áfram af öflugum ímyndarauglýsingum erlendis sem ríkið greiddi að mestu. Gisti- og móttökustöðvar fyrir ferðamenn spruttu upp eins og gorkúlur um allt land. Þessi grein var undanþegin hluta virðisaukaskatts. Þá var ferðafólki ekki ætlað að greiða neinn umhverfiskostnað sem sífellt varð meiri.
Afleiðingin varð mikil offjárfesting í ferðamannaiðnaði ásamt stórtæku innstreymi erlends vinnufólks. Vandi ferðamannaiðnaðarins birtist þegar slakna fór á aðsókninni. Niðurgreiðslan byrgði sýn á raunveruleikann. Nú er hann kominn í ljós. Covid 19 hefur magnað upp vanda sem var fyrirliggjandi. Undanþágur frá almennum reglum skaða alla þegar fram í sækir. Nú mun almenningur þurfa að axla byrgar vegna gönuhlaupsins.
Er gengissig til blessunar?
Enn er ónefnt til sögunnar það verkfæri sem stórtækast er í niðurgreiðslum og millifærslum en það er gengisfellda krónan. Þegar búið er að keyra kostnað og fjárfestingar innanlands úr hófi og samkeppnisaðstaðan er erfið, þá er gripið til þess ráðs að láta krónuna síga. Síðasta afrekið er 19% sig á árinu.
Gengisfellingar hafa þann tilgang að færa kaupmátt og tekjur frá einum hluta hagkerfisins til annars og eru þannig víðtækari en niðurgreiðslan. Frá almenningi og innlendri framleiðslu til útflutningsgreina. Undirritaður orðaði það einu sinni svo, að gengisfellingar væru öflugasta arðránstæki hagkerfisins. Fjölmargir álíta þær vera sniðuga útgönguleið úr heimatilbúnu klúðri.
Gildismat riðlast
Þeir meinbugir eru hér á að hagaðilar sem og þjóðin mynda með sér ómeðvitað vitund um að óhætt sé að starfa áfram á óábyrgðan hátt, því gengissig sé opinber þjóðhagslegur þrautavari. Svo mögnuð er blekkingin að túlka má sum ummæli forsvarsmanna Seðlabankans á þá leið að gengissig sé öruggasta leiðin til auka stöðugleika og hagvöxt. Þetta hugarfar viðheldur lágri framleiðni og nýjum efnahagslegum ólögum, festuleysi og óstöðugleika, þegar aukið peningamagn gengisfellingarinnar fer á kreik, án þess að þar að baki liggi nein aukning raunstærða og nýja sértækar aðgerðir fara að virka. Gengisfelling framkallar nýjan óstöðugleika sem síðar þarf að leiðrétta með nýrri aðlögun að breyttu gengi. „Sjálfstæður gjaldmiðil“ í örlitlu hagkerfi virkar eins og ranglega stillt vél sem sífellt þarf að leiðrétta.
Þessi heimatilbúni óstöðugleiki og vitundin um reikult, rýrnandi verðgildi gjaldmiðilsins, sem er megin verðgildisviðmiðun hagkerfisins, ruglar verðmætaskyn og gildismat þjóðarinnar. Grunnurinn undir mati okkar á lífsgildum riðlast og verður óstöðugur. Það skyldi þó ekki hafa verið þessi visnun gildismats sem auðveldaði og hvatti fjármálasjóræningja til afreka áratuginn fyrir Hrun?
Svona svikamylla sem krónan er, þarf pólitíska réttlætingu gagnvart þjóðinni. Ríkjandi öfl segja hana vera bæði fullveldistákn og tryggðarpant fyrir hátt atvinnustig. Hvort tveggja hefur brugðist hrapalega. Það síðara hefur vegið þungt í afstöðu verkalýðshreyfingarinnar gagnvart krónunni, þó hreyfingin geri sér ljósa grein fyrir missmíði hennar. Stöðugur gjaldmiðill er forsenda fyrir heilbrigðu þjóðlífi og efnahagslegri velgengni þjóðarinnar í bráð og lengd.
Höfundur er hagfræðingur.