„Tölulegar niðurstöður rannsóknar á hagrænum áhrifum skapandi greina á Íslandi sem nú liggja fyrir leiða í ljós að skapandi greinar eru einn af undirstöðuatvinnuvegum þjóðarinnar.“
Þannig hefst frétt frá Mennta- og menningarmálaráðuneytinu sem birt var fyrir rétt um tíu árum, hinn 1. desember 2010 en Katrín Jakobsdóttir var þá menntamálaráðherra. Tilefnið var kynning á tölulegum niðurstöðum rannsóknar á hagrænum áhrifum skapandi greina. Að rannsókninni stóðu: Samráðsvettvangur skapandi greina, Íslandsstofa, Mennta- og menningarmálaráðuneyti, Utanríkisráðuneyti, Fjármálaráðuneyti, Iðnaðarráðuneyti og Efnahags- og viðskiptaráðuneyti, eins og skipan ráðuneyta var í þá daga. Helstu niðurstöður voru eftirfarandi:
Tölulegar niðurstöður rannsóknarinnar sýna að heildarvelta skapandi greina var 191 ma.kr. árið 2009. Þar af var hluti ríkis og sveitarfélaga um 13% sem er sambærilegt við önnur lönd. Þetta er mun meiri velta en í landbúnaði og fiskveiðum samanlagt. Þá er virðisaukaskattskyld velta skapandi greina hærri en í byggingarstarfsemi og sambærileg við framleiðslu málma. Matvæla- og drykkjavöruiðnaður veltir talsvert meira en fyrrnefndar greinar en í þeirri tölu er fiskvinnsla og framleiðsla mjólkurafurða meðtalin. (Sjá hér)
Skýrslan Kortlagning á hagrænum áhrifum skapandi greina kom svo út vorið 2011 og er m.a. aðgengileg á heimasíðu Tónverkamiðstöðvar.
Ekkert hefur bent til annars en að skilgreining skapandi greina sem undirstöðuatvinnuvegar sé enn í fullu gildi. Það er óþarfi að tíunda þau áföll, óvissu og vandkvæði sem hafa steðjað að listum og skapandi greinum undanfarna mánuði. Þau eru að vissu leyti okkar allra og ættu að vera öllum ljós. Ókeypis aðgangur að listviðburðum á netinu segir lítið um ástandið en gefur þó mögulega skakka mynd af þeim aðstæðum sem þeir sem starfa í menningu eru að glíma við í dag. Það er mikilvægt að geta þess að á meðan Helgi Björns hélt móral landsmanna uppi með stofutónleikum var fjöldi tónlistarmanna í algerri óvissu og sá ekki fram á að geta framfleytt sér og fjölskyldu sinni vegna niðurfelldra hátíða, tónleika og tónleikaferða – hvað þá að geta greitt laun þeirra fjölmörgu sem koma að slíkum viðburðum. Það er hlé á útsendingum frá stofutónleikum Helga en staða tónlistargeirans í heild er óbreytt.
Fjölmargir aðilar sem starfa í listum og menningu hafa átt í lífsnauðsynlegu samtali við stjórnvöld um aðgerðir vegna kórónuveirufaraldursins – aðgerðir sem kalla má neyðaraðgerðir. Lauslega má áætla að allir þeir sem stóðu að umræddri skýrslu ásamt fjölmörgum annarra hafi með einum eða öðrum hætti komið að samtalinu sem hefur staðið síðan faraldurinn skall á. Samtalið hefur verið gott en hefur tekið langan tíma og nú er brýn þörf á frekari aðgerðum sem koma til móts við vanda þessa atvinnuvegar.
Hugtakið undirstöðuatvinnuvegur hefur vigt. Líklega detta flestum í hug atvinnuvegir á borð við sjávarútveg og landbúnað þegar þeir heyra orðið og þess vegna er áhugavert að velta upp spurningunni hver viðbrögð yrðu – bæði stjórnvalda og almennings – ef þessir tveir atvinnuvegir eða stór hluti þeirra væri við það að leggjast á hliðina vegna kórónuveirufaraldurs, líkt og því er til dæmis farið með tónlistar- og sviðslistageirann á þessum tímapunkti. Svari hver fyrir sig en fyrst stjórnvöld líta á listir og skapandi greinar sem undirstöðuatvinnuveg verða viðbrögð og aðgerðaáætlanir vegna heimsfaraldurs að endurspegla það.
Góðar (menningar)stundir.
Höfundur er framkvæmdastjóri Tónverkamiðstöðvar.