Evrópusambandið (ESB) hefur samþykkt að stofna bjargráðasjóð til hjálpar illa stöddum aðildarþjóðum, alls 750 milljónir milljóna evra.
Miklar deilur urðu í forystu ESB um þessar tillögur, en loks tókst málamiðlun. Þessar deilur eru mikilvægar og sýna að þarna er lýðræði og sumir sýna ábyrgð. ESB hefur samkvæmt aðalsáttmála takmarkað umboð á sviði heilsugæslu, en hefur með þessu hafið nýjan kafla á ferli sínum.
Málamiðlunin um bjargráðasjóðinn er öðrum þræði sigur fyrir þjóðríkin, beint og óbeint, andspænis sameiginlegum stofnunum. Við bætist að fyrir skemmstu felldi dómstóll ESB þann dóm að aðildarþjóð, í þessu atviki Írum, sé heimilt að framfylgja skattastefnu í andstöðu við ESB.
Nú var í raun samþykkt að þjóðríkin megi hunsa umbótatillögur um skilvirkni og heiðarlega stjórnsýslu. Þetta hafa sunnanþjóðirnar, Ítalir, Grikkir, og Spánverjar, gert árum saman þvert gegn ítrekuðum tilmælum. Með þessu eru stjórnmálamenn beinlínis verðlaunaðir fyrir ábyrgðarleysi.
Nú var í raun samþykkt að þjóðríki megi beinlínis vinna gegn sameiginlegri stefnu. Þetta gera Ítalir og Ungverjar í málefnum flóttamanna.
Samþykkt var að efna til sameiginlegrar útgáfu skuldabréfa til að fjármagna bjargráðasjóðinn. Hér verða tímamót í sögu ESB, myndun sameiginlegra skulda. Þetta er ískyggilegt fordæmi. Nú má vænta sams konar ákvarðana í ýmsum málaflokkum og samsvarandi útþenslu Brüsselvaldsins. Þetta fordæmi verður líka gripið til að auka veldi og umsvif Seðlabanka ESB.
Norðanþjóðirnar sem reyndu að spyrna við fótum verða auðvitað látnar borga brúsann eins og jafnan áður. Þetta er reynsla ESB sem nú er orðin viðurkennd regla. En þetta vekur gremju og andstöðu, getur valdið klofningi í ESB og jafnvel úrsögnum þjóða.
Enn eiga þjóðþing aðildarríkjanna eftir að staðfesta niðurstöðuna. Og framundan er flókin vinna við úthlutunarreglur, stjórnsýslu, eftirlit og umsjón. En tónninn hefur verið sleginn.
Staða þjóðríkjanna styrkist a.m.k. öðrum þræði, og það er vitaskuld mikilvægt. Ekki skal gert lítið úr þessu, þótt óvíst sé um framhaldið. En varla fer á milli mála að þessi málamiðlun veldur líka vexti í yfirbyggingu ESB. Stofnanabáknið og eyðslukvörnin þenjast út. Öll þessi atburðarás getur fælt frá ESB. Aðdráttarafl ESB gæti snarminnkað.
Höf. er fyrrverandi skólastjóri.