Sú mikla aukning atvinnuleysis sem nú á sér stað mun hafa mikil neikvæð áhrif. Fótunum er kippt undan framtíð þeirra einstaklinga sem missa vinnuna með tilheyrandi fjárhagsvandamálum, áhyggjum og kvíða. Þetta bitnar bæði á einstaklingnum, hans nánustu og samfélaginu. Þar að auki glatast verðmætin sem einstaklingurinn hefði skapað með vinnu sinni.
Stuðla atvinnuleysisbætur að atvinnuleysi?
Atvinnuleysisbótum er ætlað að draga úr þessu áfalli og skapa einstaklingnum svigrúm til að finna sér nýja vinnu þar sem hæfileikar hans nýtast sem best. Ríkulegur bótaréttur styður þessi markmið. Á hinn bóginn benda líkön hagfræðinnar til þess að ríkulegur bótaréttur geti dregið úr hvatanum til þess að vinna.
Rannsóknir styðja jákvæð áhrif bóta en benda jafnframt til þess að ríkulegar bætur geti dregið úr hvatanum til að vinna. Rannsóknir sýna hins vegar að þessi áhrif eru háð því hvar í hagsveiflunni hagkerfið er statt. Í niðursveiflum, sérstaklega þar sem niðursveiflan leggst misjafnlega á atvinnugreinar, eru jákvæðu áhrifin meiri en þau neikvæðu.
Hugmyndir að aðgerðum
Þessar niðurstöður styðja framlengingu tekjutengingar bóta. Þær benda einnig til þess að tímabundin hækkun lægstu bóta muni hafa lítil neikvæð áhrif á vinnumarkað. Slík hækkun mundi hins vegar draga mjög úr áfalli þeirra sem ekki njóta tekjutengingar og styðja við hagkerfið með því að viðhalda innlendri eftirspurn. Tímabundin uppbót á atvinnuleysisbætur gæti því verið áhugaverð aðgerð fyrir stjórnvöld.
Atvinnuleysi er samfélagsmein
Neikvæð áhrif atvinnuleysis á atvinnulausa og samfélagið í heild eru vel þekkt og rannsökuð. Samfélagið þarf að bregðast við í samræmi við það. Svigrúm ríkissjóðs til tímabundinna mótvægisaðgerða er til staðar. Á stjórnvöldum hvílir sú skylda að nýta það með besta mögulega hætti svo lágmarka megi neikvæðu afleiðingarnar af þeim tímabundnu þrengingum sem við göngum nú í gegnum.
Höfundur er prófessor við hagfræðideild Háskóla Íslands og hefur tilkynnt framboð til varaformanns Viðreisnar á komandi landsþingi flokksins.