Í Englandi voru fasteignagjöld felld niður í heilt ár í þeim geirum sem verst urðu fyrir barðinu á Covid faraldrinum – enda er engin eðlileg atvinnustarfsemi í gangi heldur meira í ætt við björgunarstarf. Fasteignagjöld eru hjá mörgum fyrirtækjum stærsti fasti kostnaðurinn sem eftir stendur í Covid faraldrinum. Ríki og sveitarfélög þurfa að taka til skoðunar hvernig er hægt að bæta úr þessu á sanngjarnan hátt.
Reykjavíkurborg hefur í nýlegu minnisblaði talið saman beinan kostnað sinn vegna ferðaþjónustu rúma 2,2 milljarða árið 2018, og fasteignagjöld ferðaþjónustu um 1,2 milljarða. Það er vel gerlegt fyrir hið opinbera að fella niður fasteignagjöldin í heilt ár án þess að það bitni á fjárhagi borgarinnar, með því að lækka þessi útgjöld. Ef böndum er komið á ólöglega gistingu í borginni mætti einnig ná inn auka milljarði á ári sem nýtist til að lækka fasteignagjöld o.fl.
Óþarfa kostnaður allt að 1,5 milljarður
Í minnisblaði borgarinnar frá síðastliðnum febrúar segir að framlög og styrkir Reykjavíkurborgar til ferðaþjónustu séu um 475 m.kr. á ári og tap vegna Höfuðborgarstofu um 110 m.kr. Líklega eru allir í ferðaþjónustu sammála um að þessi kostnaður má missa sín, og eflaust veit enginn í greininni í hvað allir þessir styrkir til ferðaþjónustu hafa farið.
Ennfremur segir í minnisblaðinu að tap vegna heimsókna ferðafólks í sund og söfn sé rúmur milljarður á ári. Þetta tap er væntanlega ofáætlað þar sem sundlaugar og söfn borgarinnar eru ekki byggð sérstaklega fyrir ferðafólk, og einungis breytilegur kostnaður sem ber að telja til. Þessi kostnaður getur fallið niður því það á ekki að niðurgreiða dægrastyttingu ferðafólks á borð við sund og safnaferðir.
Samgöngur skipta máli
Samgöngur eru ekki taldar með í minnisblaðinu en ferðafólk er stór hluti gesta í strætó og skilar það hagnaði að fá fleiri gesti til að nýta innviðina sem fyrir eru. Tekjur af skemmtiferðaskipum eru ekki heldur taldar með, en þær eru um 450 m.kr. á venjulegu ári. Í greiningarvinnu fyrir Borgarlínu var ekki tekið tillit til ferðafólks hvar það gistir og ferðast, þótt það sé nauðsynlegt fyrir umhverfið og umferð að ferðafólk noti strætó frekar en einkabíla. Einnig var ekki tekið beint tillit til þess hvar íbúar starfa í greiningarvinnunni. Afleiðingin af þessu tvennu er að lega borgarlínunnar er að hluta til ekki þar sem mest þörf er á henni.
3 milljarðar ólögleg sala og 1,3 félagsleg undirboð
Um 60% íbúða í skammtímaleigu árið 2019 í Reykjavík voru ólöglegar og er mikið tækifæri fyrir borgina að auka skatttekjur af þessu neðanjarðarhagkerfi og lækka skatta á löglega starfsemi á móti. Einnig er nauðsynlegt að tryggja nægjanlegar brunavarnir í ólöglegum gistiheimilum, því þar hafa orðið alvarlegir eldsvoðar. Velta ólöglegrar gistingar á höfuðborgarsvæðinu er a.m.k. 3 milljarðar á venjulegu ári. Reykjavík þyrfti að birta tölur ársfjórðungslega á mælaborði sínu um umfangið til að hægt sé að vinna gegn því, ná fram auknu gagnsæji og bæta skipulagsvinnu milli hverfa. Ef borgin nær ekki að rukka þessa starfsemi um skatta þá mætti útvista innheimtunni eða finna aðra lausn til að laga þetta. Með nútíma tækni og lítilli stærð Reykjavíkur á þetta að vera auðleysanlegt verkefni sem skilar hagnaði og auknu öryggi.
Félagsleg undirboð vegna ólöglegrar gistingar í Reykjavík má áætla útfrá hefðbundnum resktrarhlutföllum uppá nærri 1,3 milljarða á ári. Þau skiptist í 335 m.kr vegna virðisaukaskatts, 125 m.kr. í gistináttaskatt, 370 m.kr. í vantalin fasteignagjöld, 265 m.kr. staðgreiðslu og tryggingargjald, 160 m.kr. í ógreidd launatengd gjöld til starfsfólks og a.m.k. 30 m.kr í tekjuskatt. Til viðbótar má áætla útfrá þumalputtareglum í eldvarnarmálum, að kostnaður þjóðfélagsins vegna banaslysa í ólöglegri gistingu í borginni, sé allavega 100 m.kr. á ári.
Tiltektartími
Í minnisblaði borgarinnar koma einnig fram tölur um óbeinar tekjur og gjöld vegna ferðaþjónstunnar sem felast í þjónustu við starfsmenn o.fl. Virðist sem borgin telji betra að starfsfólkið búi ekki í borginni, sem gengur þá gegn stefnu flestra sveitarfélaga um að fjölga íbúum. En það væri gagnlegt að skoða þetta nánar hvað býr að baki þessum útreikningum, og sjá hvort hægt er að hagræða líka í þessum óbeinu útgjöldum.
Þótt ferðaþjónusta sé nú í lágmarki vegna COVID-19 þá mun hún snúa aftur og nú er hárrétti tíminn til að koma öllum málum í lag varðandi skatta, styrki og kostnað ásamt lokun svarta hagkerfisins. Við erum á tímapunkti sem er líkur laugardagsmorgni: Við höfum tíma í tiltekt og stefnumótun áður en næsta tímabil hefst.
Höfundur er hagfræðingur með hagsmuni í ferðaþjónustu.
Heimildir:
https://docs.google.com/spreadsheets/d/1_N-1AKo2fEWnhfevexXig8-ZhLEkoyDAzEKJoIcwfD4