Um daginn lauk stuttu þingi. Þó þingið hafi staðið stutt yfir, voru ákvarðanir teknar um stór mál, m.a. um fjármálastefnu, fjáraukalög og ríkisábyrgð á láni til Icelandair. Með nokkrum lögum voru teknar ákvarðanir um há fjárframlög og styrki til margra aðila sem glíma við fordæmalausar aðstæður vegna COVID-19. Sumt sem samþykkt var á þingi var nauðsynlegt til að aðstoða fólk og fyrirtæki á þessum erfiðum tímum.
Eitt mikilvægt mál ekki náði þó ekki fram að ganga. Það var tillaga um að greiða foreldrum langveikra barna laun meðan börnin þurfa að dveljast heima við í sóttkví. Foreldrarnir eru heima við að sinna umönnun barna sinna launalaust, þar sem barnið kemst ekki í skóla, frístund og dægradvöl vegna COVID-19. Faraldurinn hefur gjörbreytt tilveru þessara barna og þau þurfa að dveljast heima við vegna sóttvarnaráðstafana.
Í stuttu máli var tillaga um að greiða þessum foreldrum laun á meðan þau þurfa að vera frá vinnu til að sinna langveiku barni, sem er í sóttkví vegna aðstæðna, felld af þingmönnum Vinstri Grænna, Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks. Þetta er óskiljanleg afstaða í ljósi þess að langveik börn og foreldrar þeirra er ekki fjölmennur hópur, en mjög viðkvæmur í því ástandi sem nú ríkir. Foreldrarnir hafa ekkert val, því tilvera þeirra stjórnast af veikindum barna þeirra og annað þeirra, jafnvel bæði, þurfa að vera heima við og hugsa um og sinna langveiku barni launalaust. Á meðan getur foreldrið ekki sinnt vinnu, sem kallar, m.a. á fjárhagsáhyggjur sem þau hafa á engan hátt skapað sér sjálf.
Afgreiðsla þessa máls veldur miklum vonbrigðum og er stjórnarflokkunum til skammar að hafa ekki komið þessum foreldrum til aðstoðar. Þessi upphæð er dropi í hafið m.v. margar aðgerðir sem gripið hefur verið til. Þetta mál er klárt velferðarmál sem við sem samfélag eigum að styðja.
Svona gera flokkar ekki sem vilja kenna sig við velferð og þá ekki síst Vinstrihreyfingin – grænt framboð sem telur sig róttækan vinstriflokk sem leggi höfuðáherslu á jöfnuð og sjálfbærni eða Framsóknarflokkurinn sem á góðviðrisdögum kennir sig við félagshyggju og á heimasíðu sinni segist vilja standa vörð um hagsmuni barna!
Höfundur er heilsuhagfræðingur.