Einhvern tímann heyrði ég sagt að pólitík snúist um það helst að tefja mál þar til þau skipti ekki lengur máli. Ég veit ekki hver orðaði þessa hugsun fyrst eða hvort þetta séu fræg orð einhvers mektarmanns (og þá örugglega karlmanns, því það er svo stutt síðan fólki fannst það sem konur hafa að segja skipta einhverju máli) en ég hef oft hugsað til þeirra og alltof oft hef ég séð slík stjórnmál í verki. En svo eru málin sem eru svo stór að þau munu alltaf skipta máli, sama hvað tímanum líður. Málin sem vaxa og verða mikilvægari með hverju árinu sem líður og neita að hvefa. Það eru málin sem geta ekki dáið.
Íslendingar eru ein ríkasta þjóð í heimi. Hvorki Hrunið né COVID-kreppan sem nú er að skella á okkur breyta þeirri staðreynd. Í sögulegu samhengi er sá auður fremur nýtilkominn því það er ekki nema um mannsævi síðan Ísland var fátækasta þjóð Evrópu. Margt hefur hjálpað okkur. Við erum fámenn þjóð í stóru landi og fiskimiðin eru enn stærri og gjöful. Við getum framleitt mikið af sjálfbærri og fremur umhverfisvænni orku og við fengum aðstoð til þróunar þegar við þurftum. Hér býr því fremur velmenntuð þjóð sem hefur bæði þekkingu og bolmagn til að byggja hér fyrirmyndarþjóðfélag. Engu að síður er hér margt sem þarf að laga.
Ef ástandið væri svoleiðis heima hjá okkur, það er mikill auður en allt í skralli, myndum við sennilega umsvifalaust vinda okkur í lagfæringar. Gera við lekann á þakinu svo hann skemmdi ekki út frá sér, mála húsið, slá blettinn, þrífa og skipta um eldhúsinnréttingu. Hjá þjóðinni virkar þetta ekki þannig. Þegar hjúkrunarfræðingar biðja um sanngjörn laun er ríkiskassinn sagður tómur. Þegar fólk missir vinnuna í stórum stíl er ekki hægt að hækka atvinnuleysisbætur. Þegar börn og ungt fólk þarf geðheilbrigðisþjónustu fer það á biðlista. Þegar elsta fólkið okkar þarf aðstoð við athafnir daglegs lífs taka biðlistarnir sömuleiðis við. Og dæmin eru því miður endalaus.
Á sama tíma og velferðarkerfin okkar eru fjársvelt hafa nokkrir menn auðgast gríðarlega. Voru þeir svona duglegir og klárir? Miklu betri en við hin? Ó nei, fæstir þeirra eru betur skapaðir en meðaljóninn. Þeir höfðu hins vegar aðgang að sameiginlegum auðlindum þjóðarinnar án þess að greiða fullt eða eðlilegt gjald fyrir hann. Og þannig er hægt að skapa mikil auðævi.
Nú fær öll þjóðin að sjá hvernig auðmenn geta keypt sér fjölmiðla og hentuga umfjöllun, sína eigin rannsóknarlögreglumenn með hlerunarbúnaði, lögfræðingaher sem ræðst gegn opinberum stofnunum og fjölmiðlum, allt til að viðhalda stöðu sinni í efstu lögum samfélagsins þar sem lög og reglur eru bara fyrir alla hina og áframhaldandi aðgang að verðmætum þjóðarinnar sem þeir geta notað sem sinn prívat sparibauk.
Eftir Hrunið kom upp krafa um nýjan samfélagssáttmála, nýja stjórnarskrá. Frá lýðveldisstofnun höfðu ýmsir reynt að koma slíkri á enda vissu allir að sú frá 1944 sem byggð var á þeirri frá 1874 með nokkrum breytingum, svo sem að skipta út kóngi fyrir forseta, var bara hugsuð til bráðabirgða. Það er svo margt í því plaggi sem er gjörsamlega óásættanlegt á 21. öldinni. Hún er til dæmis að mestu samin af dönskum embættismönnum fyrir 19. aldar Dani. Erum við 19. aldar Danir? Nei, ég hélt ekki. Og engin kona kom að ritun núgildandi stjórnarskrár fyrr en allra síðustu breytingar fóru í gegn. Og samkvæmt núgildandi stjórnarskrá má forsetinn gefa undanþágur frá lögum eftir eigin geðþótta. Finnst einhverjum það góð hugmynd? Ekki mér.
Mestu skiptir þó það sem vantar alveg en er meðal þess sem er að finna í nýju stjórnarskránni sem öll þjóðin hafði aðkomu að - ákvæði um auðlindirnar okkar, að þær skuli vera ævarandi eign þjóðarinnar og ekki megi selja eða leigja þær nema með afturkræfum hætti fyrir fullt gjald. Það þýðir að fiskveiðikvótinn yrði að fara á markað og útgerðin fengi sjálf að ráða hvað hún vildi borga fyrir veiðiheimildirnar.
En þetta er sjaldan nefnt og margir stjórnmálamenn reyna að drepa málinu á dreif. Hvers konar stjórnmálamaður gæti líka verið á móti slíku ákvæði? Sá sem viðurkennir að vera á móti nýrri stjórnarskrá vegna þess að hann vill ekki tryggja að auðlindir í náttúru Íslands verði sameiginleg og ævarandi eign þjóðarinnar á sér væntanlega ekki bjarta framtíð í stjórnmálum. Hann myndi afhjúpa sig fyrir fullt og allt. Það eina í stöðunni fyrir slíka stjórnmálamenn er að reyna að tefja málið þar til það skiptir ekki máli lengur. En stjórnarskráin er ekki þannig mál. Hún skiptir alltaf máli og eftir því sem tíminn líður og óréttlætið verður sýnilegra er hún enn meira aðkallandi en áður.
En svona er baráttan um Ísland. Hún snýst um auðlindirnar okkar, gildi og hvernig samfélag við viljum byggja. Sumir reyna þó iðulega að tala um allt annað. Missum ekki sjónar á aðalatriðunum og látum ekki stjórnmálamenn telja okkur trú um að þeir viti betur en við sjálf hvernig við byggjum réttlátt samfélag.
Þann 20. október 2012 fór fram þjóðaratkvæðagreiðsla um nýja stjórnarskrá. Stjórnarskrá sem setur ráðamönnum skorður, bannar þeim að ljúga, færir völdin til þjóðarinnar og tryggir fólkinu í landinu arð af auðlindum sínum. Þannig vill meirihluti kjósenda hafa það en Alþingi hefur ekki staðfest þann þjóðarvilja. Nú stendur yfir undirskriftasöfnun til stuðnings því stórmerka og nauðsynlega plaggi. Ég hvet öll til að skrifa undir á nystjornarskra.is.
Hættum að láta ræna okkur.