Hörmung á sér stað úti í heimi, best að ég breyti prófíl myndinni minni aðeins, þó ekki það mikið að það skyggi á andlitið á mér. Þetta er einfalt dæmi um Slacktivisma. Undanfarinn áratug hefur slacktivismi, samsett úr orðunum slacker/slacking og activism, náð að ryðja sér til rúms á samfélagsmiðlum bæði hér heima og erlendis. Slacktivistar, sem ég kýs að kalla sófasjálfboðaliða, nota samfélagsmiðla til þess að sýna að þeir séu þátttakendur í baráttu, eða sé annt um ákveðin mál eða málaflokk án þess þó að taka beinan þátt í mótmælum eða veita tíma eða peningum til málstaðarins. Sögulega séð hefur hugtakið þótt neikvætt, að sófasjálfboðaliðinn sé eingöngu að klappa sjálfum sér á bakið framan við tölvuskjáinn heima hjá sér. Fyrir tíma samfélagsmiðla notuðu menn barmnælur og bætur til að sýna stuðning sinn út á við.
Frægt dæmi um sófasjálfboðaliða er líklega umræðan sem myndaðist um heimildamyndina Kony 2012. Myndin fjallar um Joseph Rao Kony, leiðtoga skæruhernaðarsveitarinnar Lord´s Resistance Army sem hneppti að minnsta kosti 60.000 börn í þrældóm og þvingaði til þess að taka þátt í stríði sínu með það að markmiði að stofna ríki sem hann sjálfur fengi að ráða. Kony sjálfur trúði því að hann væri sendiboði Guðs. Hluta af börnunum hneppti hann í kynlífsþrælkun á meðan öðrum voru afhent vopn til þess að drepa óvini Kony. Samanlagðar tölur af YouTube og Vimeo gefa til kynna að búið sé að horfa á myndina um það bil 120 milljón sinnum síðan hún kom út árið 2012. Invisible children, fyrirtækið sem framleiddi Kony 2012, náði að safna samtals 30 milljónum dollara í kjölfarið. Þriðjungur af þeirri upphæð fór til hjálparsamtaka, restin fór í að framleiða fleiri heimildarmyndir.
Á sama tíma má færa rök fyrir því að sófasjálfboðaliðar geri visst gagn. Sjálfhverfar færslur þeirra á samfélagsmiðlum gætu orðið til þess að kynna aðra sem áður vissu ekki af málefninu fyrir því sem gætu í kjölfarið ákveðið að bjóða fram vinnu sína og peninga. Sumir sýna einnig fram á peningagjafir sínar í gegnum samfélagsmiðla, þótt hugurinn fylgi ef til vill ekki. Þannig eru góðgerðasamtök styrkt samt sem áður.
Reglulega má sjá sófasjálfboðaliða skjóta upp kollinum á íslenskum samfélagsmiðlum. Talsverður fjöldi Íslendinga setti til dæmis myndir af Líbanska fánanum yfir prófíl myndina sína eftir sprengingu sem átti sér stað við höfnina í Beirút, höfuðborg Líbanon, þann 4. ágúst. Fimm dögum seinna höfðu tólf milljónir króna safnast til hjálpar þeirra sem misstu ástvini sína, heimili eða fyrirtæki. Átta af þeim komu frá Utanríkisráðuneytinu sem þýðir að hver Íslendingur gaf að meðaltali rétt um 11 krónur til íbúa Beirút. Því má spyrja hve mikið gagn Facebook myndin gerði. Hætta er á að einstaklingar hunsi neyð annarra í leit að like-um.
Höfundur er almannatengill.