Menningu á tímum kórónuveiruheimsfaraldursins er helst lýst sem skorti. Við upplifum nú skort á menningu og listum. Hvort sem það er að fremja hana eða upplifa og njóta.
Mikið hefur verið rætt um höggið sem þeir sem hafa lifibrauð af því að skapa og fremja list og menningu í allri sinni dýrð, verða fyrir. Enda er það sú stétt sem hefur orðið hvað verst fyrir núverandi kreppu og málin eru alvarleg.
Við almenningur höfum líka misst mikið. Okkar er missirinn þegar við komumst ekki í leikhús, á tónleika eða dansiböll, bíó, myndlistarsýningar, danssýningar eða í stúkuna á íþróttaleikjum hvers konar til að hvetja sitt fólk áfram. Allt þetta krefst þess að við mannfólkið komum saman til að upplifa eitthvað saman í rauntíma. Við erum að menn-ingast.
Ég var á þetta minnt þegar las í bók Viktor E. Frankl; Leitin að tilgangi lífsins. Fyrir þá sem ekki vita skrifar Frankl, sem var menntaður geðlæknir, um reynslu sína sem fangi í fangabúðum nasista í Auschwitz. Ég átta mig algjörlega á að það er meira og minna bannað að blanda helförinni inn í pólitík eða rökræður almennt. En ég bara má til.
Eftir að Frankl lýsir því að samfangar hans hafi nánast með öllu búnir að missa alla lífsvon, tilgang og neista. Örþreyttir. Og einnig! Búnir að missa kynhvötina á meðan þeir voru í pyntingarbúðunum - þá kemur hann inn á hversu mikið þeir vildu fórna til að komast á „kabarett” eða söngskemmtun.
„Þeir komu til þess að hlæja eða gráta svolítið, að minnsta kosti til að gleyma um stund. Það var sungið, lesin ljóð, sagðar skrítlur, sumar með beiskum broddi um lífið í búðunum. Allt þetta átti að hjálpa okkur til að gleyma og það hjálpaði. Samkomurnar voru svo áhrifamiklar að nokkrir venjulegir fangar fóru til að sjá kabarettinn þrátt fyrir þreytuna og þótt það kostaði það að þeir misstu matarskammtinn sinn þann daginn.”
Við lifum á sögulegum tímum að því leyti að það verða sagðar og skrifaðar ótal sögur frá því hvernig heimsbyggðin upplifði Covid19-heimsfaraldurinn. Þar á meðal verða sögurnar um það hvernig menning og skortur á henni hafði áhrif á okkur.
Samkvæmt sögunum um helförina er ekki hægt annað en að draga þann lærdóm af henni en að það að njóta og upplifa list og menningu sé líklegast bara ein af grunnþörfum manneskjunnar. Að njóta menningar, og njóta hennar með öðrum er einn af grunnþáttum mennskunar. Nokkuð sem gott er að hafa í huga í allri umræðu um stöðu menningargeiranna, ekki síst í ljósi alvarlegrar stöðu stéttarinnar nú.
Höfundur er fyrsti varaborgarfulltrúi Viðreisnar.