Doktor Bjarni Már Magnússon, prófessor við lagadeild HR. hefur sent frá sér grein rétt í þessu til birtingar í Kjarnanum sem hann nefnir; „upplýsingamengun í boði Alþingis.“
Það er ekki ráðist á garðinn þar sem hann er lægstur að svara slíkum, en óumflýjanlegt þar sem verulegs misskilnings svo ekki sé sagt vanþekkingar gætir í greininni á því hvernig um útgáfu lagasafnsins er búið.
Fyrir það fyrsta er það sérstök ritstjórn lagasafnsins sem fer með það hlutverk, sbr. 9. gr. laga nr. 15/2005 um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, sem dómsmálaráðherra skipar. Forseti Alþingis tilnefnir að vísu einn mann í þá ritstjórn en hún er sem slík sjálfstæð og forseti Alþingis hefur ekki afskipti af hennar störfum. Ritstjórnin mótar sér ritstjórnarstefnu og hef ég ástæðu til að ætla að sú sem nú situr hafi siglt eftir svipuðum siglingaljósum og þær næstu á undan henni.
Hitt er allt annað mál að lagasafnið er aðgengilegt á vef Alþingis enda mikið til þess gripið hér á bæ eðli málsins samkvæmt, ekki síst í störfum þingnefnda. Það, að lagasafnið sé aðgengilegt á vef Alþingis, gefur hins vegar leikum hvað þá lærðum engin tilefni til að álykta út frá því að Alþingi sé ábyrgt fyrir útgáfunni og slá um sig með krassandi fyrirsögnum á grundvelli þess.
Höfundur er forseti Alþingis.