Nýju frumvarpi um fæðingarorlof er ætlað að slá margar flugur í einu höggi. Það á m.a. að hvetja til þess að báðir foreldrar gegni skyldum sínum gagnvart börnum og fjölskyldulífi, stuðla að aukinni atvinnuþátttöku foreldra, jafna tækifæri þeirra á vinnumarkaði og gera báðum foreldrum auðveldara að samræma þær skyldur sem þeim eru lagðar á herðar í starfi og einkalífi. Allt eru þetta mikilvæg markmið sem ég er sammála. Engu að síður tel ég nýja frumvarpið um fæðingarorlof vera tímaskekkju. Hvers vegna?
Hefði svona frumvarp komið fram þegar mín kynslóð var að eiga börn hefði ég hoppað hæð mína af hrifningu, svo framúrstefnulegt hefði mér þótt það. En árið 2020 finnst mér þetta frumvarp vera íþyngjandi og afturhaldssamt. Í fyrsta lagi er eins og þarfir þess sem þetta á að snúast um, barnið, séu aukaatriði. Spurningin snýst ekki um hvers barnið þarfnast, út frá nýjustu þekkingu á þörfum barna, heldur hvernig er hægt að koma foreldrunum sem fyrst aftur í vinnuna með lágmarks umönnun barns.
Í öðru lagi er eitt ár of alltof skammur tími fyrir ungbarn. Það eru nágrannalönd okkar búin að uppgötva og þangað ættum við að horfa. Þegar fæðingarorlofið verður orðið tvö ár getum við staðið fast á kvótum. Í þriðja lagi er samfélag okkar ekki það sama og það var þegar lögin voru sett árið 2000, meðal annars vegna áhrifa þeirrar lagasetningar sem var mikilvæg á þeim tíma. Mín reynsla og annarra af starfi með foreldrum er að það sé orðið sterkur hluti af sjálfsmynd feðra að vilja annast börnin sín og þess vegna stendur vilji þeirra til að taka fæðingarorlof. Þar með er ekki sagt að þeir geti það alltaf en slíkt verður að vera úrlausnarefni fjölskyldunnar. Forræðishyggja eins og hún birtist í frumvarpinu er ekki boðleg fjölskyldum árið 2020.
Í fjórða lagi er barni refsað fyrir að eiga eitt foreldri, nema að hitt sæti nálgunarbanni, brottvísun af heimili eða ekki hefur reynst mögulegt að feðra barn. Slík takmörkun og einföldun á fjölbreytileika fjölskyldna er með ólíkindum. Aðstæður foreldra eru með þúsund og einum hætti og enginn er hæfari en einmitt þeir til að ákveða hvernig hlutverkaskiptingu á heimilinu verði best hagað. Margir foreldrar geta þurft aðstoð við að finna út úr þessu og ýmsu öðru, ekki síst álagi og streitu, en boðvald er það síðasta sem þeir þarfnast. Ef við treystum foreldrum ekki til að finna út úr verkaskiptingu sín á milli hlýtur að teljast hæpið að fela þeim forsjá barns.
Frumvarpið virðist ganga út frá því að við sem samfélag höfum ekki efni á að ungbarn eigi tvo foreldra. Annað þarf að duga og löggjafinn ætlar að ákveða hvort þeirra og hvenær. Þá virðist ennþá litið á það sem almennilegheit við foreldra að þeir “fái” að vera með barninu. Mér finnst nær að tala um þegnskylduvinnu sem foreldrar verða, hvort sem þeir vilja eða ekki, að taka á sig einfaldlega vegna þess að þeir eru best til þess fallnir.
Eða hver myndi sækjast eftir “orlofi” þar sem nætursvefn er með höppum og glöppum, stundum enginn, matmálstímar, sturtu- og klósettferðir eru háðar samþykki lítillar manneskju sem hefur takmarkaða getu til að tjá sig en þarf alltaf að vera í forgangi, sama hvernig manni sjálfum líður. Ef maður skilur ekki litlu manneskjuna eða gerir henni ekki til hæfis grætur hún og jafnvel öskrar á mann þangað til maður annað hvort rambar á að gera rétt eða örmagnast. Og ef maður upplifir ekki stanslausa hamingju í þessu orlofi er eitthvað að manni. Þegar erfiðasti hjallinn er að baki og maður er aðeins minna úrvinda og hugsanlega farinn að finna taktinn tekur við nýtt verkefni: að finna einhvern ókunnugan til að elska litlu manneskjuna,- kannski einhverja dagmömmu einhvers staðar?
Ef við viljum forgangsraða þörfum þeirra sem þetta snýst um látum við greiðslur fylgja barni, ekki foreldrum, og má þá einu gilda hvort foreldrar þess eru einstæðir, atvinnulausir, námsmenn eða í sambúð. Höfum í huga foreldrar sinna mikilvægasta hlutverki sem fyrirfinnst og fyrir það ættum við sem samfélag að þakka og veita þeim alla þá aðstoð sem þeir þurfa. Þeir sem telja okkur ekki hafa efni á slíku yrðu margs fróðari ef þeir skoðuðu niðurstöður hagfræðinga sem eru búnir að reikna út hversu stóran bakreikning samfélagið borgar fyrir nísku við umönnun ungra barna.
Höfundur er sálgreinir.