Eitt af trompum ríkisstjórnarinnar til hjálpar nýsköpunarfyrirtækjum í fjárhagsvanda er svokölluð Stuðnings Kría, sem felur í sér að fyrirtækjum eru veitt lán ef þeim tekst að fá mótframlag frá fjárfestum.
Strax við framlagningu málsins á Alþingi gagnrýndi Viðreisn harðlega að ekki væri veitt nægt fjármagn til verkefnisins en ríkisstjórnin lagði til að 500 milljónir yrðu lagðar til Stuðnings Kríu. Í meðförum fjárlaganefndar og Alþingis tókst að auka framlagið í 700 milljónir en áfram varað við því að það væri ekki nóg. Þá var bent á galla sem fylgdi svokallaðri pro-rata úthlutun, þ.e hlutfallslegrar skerðingar ef fjármagnið dygði ekki. Á þetta var lítið eða ekkert hlustað en sagt að mat nýsköpunarráðuneytisins væri að þetta fjármagn ætti að duga.
Þörfin er sem sagt 1.376 milljónir króna hjá þeim 26 fyrirtækjum sem sóttu um og úthlutunarnefnd taldi uppfylla öll skilyrði. Þar með er hálf sagan sögð. Grípa þarf til skerðingar þar sem aðeins 755 milljónir eru til úthlutunar til þessara 26 fyrirtækja. Þannig verður að skerða lánin um 621 milljón. Fyrirtækin geta því fengið 55% af því sem samþykkt var.
Hafa verður í huga að umsóknirnar eru byggðar á raunverulegri þörf fyrir fjármagn til þess að geta þraukað áfram í erfiðu árferði, fjárfestar hafa lýst vilja sínum til að mæta henni gegn því að ríkið komi með lán á móti þannig að einkafjárfestar og ríkið sameinist um fjármögnunina og skipti henni á milli sín. Veruleg hætta er á að einkafjárfestar haldi að sér höndum við þessi illu tíðindi.
Þetta eru mikil vonbrigði en því miður fyrirséð. Í stað þess að taka stór skref og fullfjármagna þetta mikilvæga úrræði er kastað út hálfum björgunarhring. Því miður er það í samræmi við vinnubrögð ríkisstjórnarinnar þegar nýsköpun á í hlut. Skrefin eru stigin til hálfs í stað þess að taka stór skref strax.
Höfundur er þingmaður Viðreisnar.