Fjórða iðnbyltingin er að frelsa fólk frá vinnu og erfiði. Ef allir hafa í framtíðinni samfellda atvinnu á vinnumarkaði alla ævina (við það sama) mun þjóðfélagið mögulega hafa minna til skiptanna en annars væri. Sköpun auðæfa felst í nýsköpun og nýrri þekkingu, endurmenntun og sveigjanleika á vinnumarkaði, að ónefndum listum - þar sem ný hugsun og sköpun er framkvæmd með sjálfvirkni, í sýndarveruleika og með sjálfboðaliðastarfi - en ekki með launavinnu einni og sér. Í þeirri sköpun eyðir tæknin fleiri störfum en hún myndar, þótt hún myndi ný störf í tæknigeiranum og jafnvel fyrir menntamenn almennt. Í stað eða samhliða kröfu um atvinnu kemur krafa um velferð fyrir alla á síbreytilegum vinnumarkaði. Almannatryggingakerfið þarf að laga sig að nýjum veruleika.
Atvinnuleysi blasir við tugþúsundum Íslendinga með tilheyrandi fátæktargildru. Ekki eru miklar líkur á að allir fái atvinnu aftur. Fyrst og fremst er það vegna aukinna áhrifa fjórðu iðnbyltingarinnar: að sjálfvirknivæðing hefur stóraukist í veirufaraldrinum – hún verður ekki tekin til baka, hún er hluti af langvarandi og yfirstandandi þróun. Nokkur hluti nýsköpunar snýst um að leysa mannshöndina af hólmi, segja má að hvert nýtt tæknistarf taki lítið brot af öðru starfi. Það þarf einnig að fækka fólki í mörgum stórum geirum með endurskipulagningu – af mörgum ástæðum, en m.a. vegna þess að kerfi, ferlar og vinnubrögð eru óskilvirk og starfsfólk hefur ekki endurmenntað sig - til að þeir taki minna til sín og þjóni betur.
Sá sem vill aukna menntun, nýsköpun og aukna tæknivæðingu – sem er lykillinn að aukinni þjóðarframleiðslu og aukinni velsæld allra – hann hlýtur líka að vilja að óarðbær og úrelt störf hverfi; fækka störfum. Það verður ekki bæði sleppt og haldið.
En hvað er starf? Kannski þarf að skilgreina hugtök upp á nýtt. Tala má um að störf á vinnumarkaði séu launavinna, en störf utan vinnumarkaðar má kalla framlag. Framlög geta verið við listsköpun, fræðimennsku, frístundagróðursetningu, björgunarstörf, barnapössun, heimilishald, í íþróttum, í stjórnmálum og í hverju því gagnlegu starfi sem fólk tekur að sér. Hér er ekki síst átt við sjálfboðavinnu. Reikna má með að framlög af þessu tagi séu arðbær fyrir þjóðfélagið, enda þótt þau séu ekki launavinna.
Við erum að tala um tvö kerfi með andstæðar forsendur: (i) á vinnumarkaði skapar vinnan verðmætin og velferð heimilanna, en (ii) utan vinnumarkaðar kemur velferðin á undan; hún skapar síðan verðmæti af ýmsum toga með ýmsum nýjum framlögum lífeyrisþeganna.
Ævitímabilin
Flest félagsleg kerfi, kjarasamningar og lagareglur, miða við að ævinni sé skipt í þrjú tímabil, auk æsku: fyrst til menntunar, síðan til vinnu á vinnumarkaði í um 40 ár og loks ævikvöldi utan vinnumarkaðar. Engin laun eru í boði utan vinnumarkaðar, en nokkur stuðningskerfi og lán (námslán).
Samhliða þessari tímabilaskiptingu, sem er þó enn mikilvæg regla í samfélaginu, þarf að miða við aðrar forsendur gagnvart almannatryggingum - sem er milli þeirra sem eru á vinnumarkaði og eru utan hans.
Ekki þurfa endilega að gilda önnur kerfi fyrir þá sem fara af vinnumarkaði vegna hás aldurs en fyrir aðra sem falla af vinnumarkaði til styttri eða lengri tíma fyrr á ævinni. Það má nota sama félagslega öryggisnetið.
Sem stendur eru 100-120 þús. manns utan vinnumarkaðar og 160-180 þús. manns á vinnumarkaði: eldri borgarar, 40 þús.; öryrkjar, 15 þús.; námsmenn 18 ára og eldri, 36 þús.; atvinnulausir, 20 þús.; sjálfstætt starfandi, óþekkt tala og skjólstæðingar sveitarfélaga, 6 þús. (byggt á gögnum Hagstofunnar og Vinnumálastofnunar).
Utan vinnumarkaðar eða innan
Stjórnmálin hafa sýnt kjörum þess fólks sem er utan vinnumarkaðar ótrúlegt fálæti. Verkalýðshreyfingin, Alþýðuflokkurinn og aðrir vinstri flokkar höfðu áhuga á kjörum þessara hópa fyrr á árum (og raunar hafði Sjálfstæðisflokkurinn verkalýðsarm) og almannatryggingakerfi var komið á í fullburða mynd 1946 (fyrirrennari þess var frá 1936).
Mikilvægt að er nýtt almannatryggingakerfi taki til allra þeirra hópa sem standa utan hins hefðbundna vinnumarkaðar. Þá á ég við (i) eldri borgara, (ii) öryrkja, (iii) námsmenn, (iv) atvinnulausa, (v) sjálfstætt starfandi fólk án fastra tekna (t.d. listamenn, fræðimenn) og (iv) aðra, þar með talin olnbogabörn samfélagsins, sem nú eru að mestu leyti á framfæri sveitarfélaga. Öll núverandi kerfi fyrir þessa hópa hverfi – og ekki síður þær viðamiklu opinberu stofnanir sem hafa blásið út í kringum þá.
Á mynd eitt kemur fram að þeir sem verða utan vinnumarkaðar geta komist beint á hann aftur, annað hvort með eigin dugnaði og frumkvæði, kannski með skapandi hugsun – eða með því að endurmennta sig. Það er mikilvægt að menn geti flust milli hlutverka í vinnumarkaðsmódeli framtíðar og að hvatar beini fólki í réttar áttir. Átt er við að atvinnulausir, öryrkjar og aðrir án fastra atvinnutekna, en með lítið eða ekkert skerta starfsgetu - geti farið í nám, einkum tækninám – sem kemur þeim aftur á vinnumarkað og í þá stöðu að auka þjóðarframleiðslu – og fá góð laun.
Stærsti hvatinn þarf að vera að komast á vinnumarkað aftur: störf þurfa að vera það verðmæt að þau standi undir bættum launum. Upphæðir í krónum skipta miklu máli alls staðar í þessu módeli og hvernig hver hópur getur bætt stöðu sína.
Nýtt almannatryggingakerfi (framtíðin)
Hér er gerð tillaga um að eitt kerfi almannatrygginga verði við lýði í stað nokkurra - fyrir alla áðurnefnda hópa fólks utan vinnumarkaðar. Megineinkenni kerfisins er að það verði fjórskipt.
- Grunnframfærsla. Koma þarf á almannatryggingakerfi með norrænu sniði þar sem allir fá jafnt. Slíkt kerfi var hér á landi árin 1946-1974 og aftur 1991-1997 og á árinu 1967 (árið sem lífeyrissjóðalögin voru sett) greiddi það út á núverandi verðlagi 130-150 þús. kr. mánaðarlega. Það er þessi trygging sem eldri borgarar telja sig nú eiga inni hjá ríkinu og að þeir hafi borgað skatta og iðgjöld í lífeyrissjóði á þeim forsendum að slíkt almannatryggingakerfi yrði áfram við lýði. Almannatryggingakerfi í þessari mynd var endanlega lagt niður í árslok 2016 með nýjum lögum, þegar grunnlífeyrir var lagður af. Almannatryggingakerfi er nú líka nefnt grunnframfærsla. Slíkt kerfi getur annað hvort greitt lífeyri til allra sem standa utan vinnumarkaðar og væri það norræna/evrópska módelið eða öllum fullorðnum íbúum landsins sem kalla má borgaralaun.
- Kerfi félagslegrar aðstoðar sem er líkt núverandi almannatryggingakerfi, þar sem þeir sem eru í erfiðastri aðstöðu fái meira en hinir – og er þá átt við til viðbótar við grunnframfærslu. Það nái aldrei til annarra en þeirra sem eru utan vinnumarkaðar. Að lágmarki hafi enginn minna en sem nemur framfærslukostnaði og slíkt kerfi þarf auk þess að taka mið af einstaklingsbundnum aðstæðum. Kerfi félagslegrar aðstoðar ber alltaf með sér skerðingar og háa jaðarskatta, eins og önnur velferðarkerfi ríkisins, t.d. vaxtabætur og barnabætur.
- Aðgangur að sjóðum verkalýðsfélaganna sem kalla má „nýja tryggingakerfið“. Þá er átt við að allir utan vinnumarkaðar hafi aðgang að sjúkrasjóðum, sjóðum sem varða félagsstarfsemi, orlofssjóðum og virkniþjónustu sem verkalýðshreyfingin hefur byggt upp og nú er aðeins fyrir félagsmenn hennar. Þetta nýja tryggingakerfi á að vera hjá ríkinu og ná til allra jafnt, en það er kostað af atvinnurekendum með um 4% gjaldi á heildarlaun launamanna – sem er tvímælalaust skattur, enda eru almannatryggingar og sjúkratryggingar verkefni ríkisins.
- Aðlaga þarf lífeyrissjóðakerfið að nútímanum, það er bundið í klafa gömlu tímabilaskiptingarinnar – og verður að vera það áfram gagnvart þeim þeim sem eru að komast á eða eru komnir á lífeyri. En kerfinu þyrfti að breyta til að það nái til allra sem eru utan vinnumarkaðar, en það nær nú aðeins til til eldri borgara og afar lítils hóps öryrkja, en að mestu leyti nær það ekki til öryrkja og ekki að neinu leyti til atvinnulausra, námsmanna eða skjólstæðinga sveitarfélaganna. 70-90 þús. manns af þeim sem eru utan vinnumarkaðar fá ekki krónu frá lífeyrissjóðunum.
Í lífeyrissjóðakerfinu er ruglað saman eigin sparnaði launafólks og almennu tryggingakerfi – í sjóðum með óskýru eignarhaldi. Til að laga þetta þarf að tvískipta kerfinu í séreignakerfi og skatta til velferðar. Launþegar greiða allt að 4% í séreignasparnað og vinnuveitendur allt að 2% á móti. Það þarf að vera frelsi um hvar sá skyldusparnaður er vistaður því hann er ótvírætt eign launamannsins. Raunar orkar slíkur skyldusparnaður verulega tvímælis yfirleitt, því hann er gróf forsjárhyggja. Ekki síst eru greiðslur vinnuveitenda í séreignasjóði undarlegar, það er ekki endilega þeirra hlutverk að spara fyrir launþega sína. Virðist eðlilegra að greiða 6% hærri laun og láta launþeganum sparnaðinn eftir.
Það þarf einnig að jafna útgreiðslur frá því sem nú er. Sú íslenska hugsun að þeir sem hafa há laun á vinnumarkaði fái meira úr opinberum sjóðum en aðrir eftir starfslok, þegar þeir verða atvinnulausir eða fara í fæðingarorlof – er óeðlileg. Það er sennilega bæði ólöglegt samkvæmt stjórnarskrá og stjórnsýslureglum að opinberir aðilar mismuni skjólstæðingum sínum.
Opinberar bætur þurfa að vera jafnar, nema sterk réttmæt sjónarmið standi til annars – og þeim sjónarmiðum er mætt nú með kerfi félagslegrar aðstoðar og mögulega verður þeim mætt í framtíðinni með kerfislægum hvötum – en mismikil laun fyrr í lífinu eru tæpast réttmæt sjónarmið til að mismuna í opinberri þjónustu. Mismikill einstaklingssparnaður og mishá laun munu hins vegar alltaf valda mismunun.
Hlutverk ríkisins rækt af atvinnurekendum og verkalýðsfélögum
Það ber ekki vott um heilbrigða pólitík eða að samfélagið styðjist við vestræn hlutverk aðila - að verkalýðshreyfingin og atvinnurekendur semji um velferðarmál í stórum stíl og þá bara fyrir félagsmenn verkalýðsfélaganna. Hér er átt við sjóði verkalýðsfélaganna og lífeyrissjóðakerfið. Með þessum kerfum taka þeir aðilar að sér hlutverk ríkisins, bæði skattheimtu og dreifingu félagslegra bóta – til ákveðins hóps þjóðfélagsþegna og skilja aðra eftir, raunar eru þeir skildir eftir sem mest þurfa á stuðningi að halda.
Svo langt hafa þessir aðilar gengið í að styrkja bara félagsmenn sína á vinnumarkaði, að við gerð lífskjarasamninganna datt engum í hug að hugsa um hópinn sem býr við mestu fátæktina, þ.e. fólk utan vinnumarkaðar. Þannig að nafnið á samningunum er að nokkru leyti háð.
Á tímum nýfrjálshyggju og algerrar niðurlægingar sósíalískrar hugsunar hjá jafnaðarmönnum hefur íslenska verkalýðshreyfingin misst sambandið við stjórnmálin – því stjórnmálin hafa um áratugaskeið hafnað því að byggja upp nútímalegt almannatryggingakerfi fyrir alla. Því hefur hreyfingin tekið sér ríkisvald með atvinnurekendum – og byggt slíkt kerfi upp engu að síður.
Atvinnurekendur, sem eru oft talsmenn nýfrjálshyggju, hafa samþykkt að tryggja nútímalegan félagslegan stuðning fyrir starfsfólk sitt og hafa þeir þannig sýnt skilning á mikilvægi góðra kjara. Þeir greiða nú 12% af heildarlaunum allra í landinu til sameiginlegra sjóða í þessu sambandi. Það eru samkvæmt gögnum Hagstofunnar 136 milljarðar á ári. Þar af fara 45 milljarðar í sjóði verkalýðsfélaganna, hitt til lífeyrissjóðanna. Launþegar greiða 46 milljarða í sameiginlega lífeyrissjóði: alls veltir þetta velferðarkerfi 182 milljörðum árlega.
Þetta eru í raun fyrirtækjaskattar og tekjuskattar einstaklinga sem enginn nema ríkið getur krafist, ef litið er til þeirra verkefna sem þeir eru notaðir í. Þessu til viðbótar greiða launþegar allt að 46 milljarða í séreignasjóði og atvinnurekendur allt að 23 á móti – og er það skyldusparnaður upp á allt að 69 milljarða árlega.
Staða verkalýðsfélaga
Verkalýðshreyfingin hér á landi hefur mjög sérstaka stöðu. Fáir á vinnumarkaði standa utan verkalýðsfélaga og meðallaun eru almennt allhá. Það er hugsanlegt að mikil félagsaðild styrki kröfugerð verkalýðsfélaganna. Í þessu sambandi má einnig hafa í huga að gott almannatryggingakerfi framtíðar hlýtur að ýta kaupgjaldi á vinnumarkaði upp og neyða atvinnulífið til að mynda arðbærari störf en ella væri.
Nútíminn ber með sér að fólk á vinnumarkaði vinnur í auknum mæli í verktöku og á það sérstaklega við um tæknigeirann. Verkalýðshreyfingin þarf veita þessum hópi fyrirsvar. Hún þarf einnig að hugsa um aðra hópa sem eru utan vinnumarkaðar um styttri eða lengri tíma – líka námsmenn. Þær föstu viðmiðanir sem verkalýðshreyfingin hefur um launavinnu, sjálfstæðan rekstur starfsfólks á vinnumarkaði, tímabilaskiptingu á vinnumarkaði, hreyfanleika á og af vinnumarkaði – eru úreltar. Og hefðbundin verkalýðsfélög veikjast í okkar heimshluta.
Verkalýðshreyfingin þarf að skoða vel – í ljósi þess að um 40% af fullorðnum eru utan vinnumarkaðar og hlutfallið mun sennilega hækka – að ganga í forsvar fyrir þá hópa, en nú gegnir enginn því hlutverki. Framtíð verkalýðshreyfingarinnar gæti byggst á því að hún aðlagist þjóðfélagsbreytingum.
Ný aðstaða almennings
Með auknum sveigjanleika á vinnumarkaði gætu aðstæður almennings bæði batnað og versnað. Þessi grein er skrifuð til að stuðla að því að þær batni. Aðalatriði málsins er örugg framfærsla utan sem innan vinnumarkaðar og öryggi í lok starfsævi. Þá þarf viðhorfsbreytingu þannig að tryggt sé að fjölbreytt ævistarf eyðileggi ekki sjálfsmynd hvers og eins. Talið er að margir samsami sig starfi sínu og gæti aukinn sveigjanleiki orðið þeim erfiður.
Enginn vafi er á því að nýtt almannatryggingakerfi með tryggri framfærslu muni stórauka listalíf í landinu og gefa fleirum en áður kost á að vinna við list. Skjólstæðingar nýs almannatryggingakerfis ættu að geta sinnt áhugamálum sínum og ástríðu fyrir hinum ýmsu viðfangsefnum með allt öðrum og betri hætti en áður. Má í því efni nefna fræðastörf og fjölda annarra starfa sem unnin eru af sjálfstæðum verktökum eða í sjálfboðaliðastarfi, oftast launalaust. Reikna má með að streita og atvinnusjúkdómar minnki ef farið er af og á vinnumarkað og lífsgæði aukist.
Útskúfun þeirra sem eru utan vinnumarkaðar
Það er niðurlægjandi fyrir þjóðfélag okkar að fólk sem fer af vinnumarkaði og lækkar gríðarlega í launum (aldraðir lækka um helming í launum skv. skattskýrslum, öryrkjar og atvinnulausir og aðrir um hærra hlutfall að jafnaði) missir réttindi sín í sjóðum verkalýðshreyfingarinnar og missir þannig af því þróaða velferðarkerfi sem byggst hefur upp á tímum nýfrjálshyggjunnar. Eins og fram hefur komið nýtur þessi hópur ekki greiðslna úr lífeyrissjóðum, nema eldri borgarar. Hið nýja tryggingakerfi veitir því ekki skjól.
Þetta hefur þau áhrif að þeir sem hafa það betra í samfélaginu og eru í vellaunuðum störfum sjá ekki fátæktina og mæta sjaldan eða aldrei hinum fátæku. Þar sem fátækir lifa á bótum sem eru nokkuð fyrir neðan framfærslumörk og þar sem sjóðir verkalýðsfélaganna eru þeim lokaðir – sjást þeir ekki í leikfimi, í jóga, í félagsstarfi, í virkniþjálfum, hjá sálfræðingum eða öðrum aðilum sem styðja við líf og heilsu almennings – og eru þannig utan hins ríka íslenska þjóðfélags.
Fátækt nær til 75-95 þús. manna hóps sem er ósýnilegur þeim sem eru betur megandi. Hann er hins vegar að finna hjá hjálparstofnunum og þar sem matvæladreifing fer fram – og undrast þeir betur megandi það, viðurkenna jafnvel ekki að slík fátækt sé til og tortryggja sjálft hjálparstarfið. Undantekningin frá þessari fátækt fólks utan vinnumarkaðar er nokkur hópur eldri borgara (20-25 þús. manns) sem á eignir eða mikil lífeyrisréttindi.
Vissulega er fátækt hjá fleirum en þeim sem eru utan vinnumarkaðar og er þá átt við láglaunafólk, ekki síst konur, aðflutt vinnuafl, en um það er ekki þessi grein. Þeir hópar eru líka nokkuð ósýnilegir. Ef þessir hópar missa vinnuna verða þeir verst settir allra í þjóðfélaginu.
Hvernig á að fjármagna framfærslu og jöfnuð?
Ljóst er að þróun í atvinnuháttum hefur skapað fyrirtækjum gríðarlegan auð. Fækkun starfa sparar í vinnulaunum og samþjöppun og önnur hagræðing orsakar sífellt stærri og auðugri atvinnufyrirtæki (auðhringi með fákeppni). Hið almenna svar hagfræðinga samtímans, t.d. Piketty í bókinni Capital and Idealogy, 2019, er að þessi fyrirtæki eigi að skila samfélögum sínum til baka þeim auðæfum sem tækniþróunin og fákeppnin hefur gefið þeim.
Þá er eðlilegt að taka upp hátekjuskatt að norrænni fyrirmynd, það réttlætir að allir fái jafnt úr sameiginlegum sjóðum – en þá greiða þeir tekjuhæstu drjúgan hluta slíks ríkisstyrks til baka.
Þá vantar tölvuvæðingu á öllum helstu verkefnum æðstu stjórnsýslu, eins og þjóðskjalavörður hefur nýlega bent á, og taka má fram að nýtt almannatryggingakerfi ætti í aðalatriðum að vera framkvæmt af flóknu og þróuðu tölvukerfi – og leggja mætti niður Menntasjóð, Vinnumálastofnun, sjóði fyrir fræðimenn, listamenn og fleiri sjálfstætt starfandi starfsstéttir, alla uppbyggingu verkalýðsfélaganna í sjóðum, velferðarkerfi sveitarfélaga og gerbreyta og hagræða Tryggingastofnun. Við þetta sparast tugir eða hundruð milljarða árlega.
Mikilvægt er fyrir þjóðir að auðlindir séu ekki gefnar auðhringum, eins og gerst hefur í þriðja heiminum. Barátta í þeim heimshluta stendur nú milli þess að almenningur eigi auðlindir og ríkisvald eigi að dreifa arði af þeim – eða að þær séu gefnar auðhringum, sem svífast einskis til að ná þessum eignum af almenningi – og þessi barátta er líka háð hér. Við höfum í stórum dráttum tvær auðlindir: sjávarútvegsauðlindina, en arðurinn af henni er gefinn íslenskum stórfyrirtækjum (og er mjög til umræðu í íslenskri pólitík), sem bæði fjárfesta innanlands og færa auð til skattaskjóla og rafmagnið, sem að miklu leyti er gefið alþjóðlegum auðhringum sem láta arðinn koma fram í skattaskjólum (það hefur fengið litla málefnalega umræðu hér á landi). Vissulega eru þó mikilvægar útflutningstekjur af þessari starfsemi hvoru tveggja, en arðurinn rennur ekki til eigendanna, þjóðarinnar. Þá eru önnur verðmæti á landi og sjó og íslensk náttúra er almennt auðlind framtíðar að svo miklu leyti sem hagnýting hennar stangast ekki á við náttúruverndarsjónarmið og ætti að skila þjóðinni öllum afrakstri af henni.
Fjármögnun nýs almannatryggingakerfis hvílir því á kerfisbreytingum og nýrri hugsun um dreifingu verðmæta:
- að skattar á stórfyrirtæki hækki,
- að hátekjuskattur verði tekinn upp,
- að kjarasamningsbundnar greiðslur atvinnurekenda í sjóði renni til ríkisins,
- með endurhönnun verkferla og sjálfvirknivæðingu í stjórnsýslu og í öðrum stórum kerfum,
- að arðurinn af sjávarútvegsauðlindinni renni til þjóðarinnar með uppboði á kvóta og
- að arðurinn af rafmagninu renni til þjóðarinnar. Til þess verður að tengja raforkukerfið við alþjóðlegar veitur þannig að auðhringarnir um iðjuverin geti ekki haldið íslenskum stjórnvöldum í greip sinni.
Þjóðarauður á að aukast smám saman og ríkt samfélag á að geta gert vel við alla þjóðfélagsþegna sína, hvaða hlutverki sem þeir gegna. Þjóðartekjur aukast einkum með tvennum hætti: með aukinni menntun, ekki síst tæknimenntun og með nýsköpun, sem tengist menntun sterkum böndum. Hins vegar eykur aukin verkaskipting milli ríkja kaupmátt, hún er líka er kölluð alþjóðleg viðskipti (af sögulegum ástæðum aðhyllast sumir vinstri menn sjálfsþurftarbúskap – sem stórfelld alþjóðleg reynsla er af hjá sósíalískum ríkjum að veldur fátækt).
Atvinnubótavinna
Töluverð umræða er á Vesturlöndum um atvinnubótavinnu, stundum undir fororðinu að mynda ný störf – en minna er rætt um að fólk utan vinnumarkaðar þurfi velferð eina og sér. Atvinnubótavinna er þó mjög varasöm. Slík vinna þarf að vera í þjóðarhag og er tiltölulega erfitt að finna slík verkefni.
Betra er að hafa fólk á lífeyri þannig að það geri á eigin forsendum það sem það kann vel og hefur ánægju af – en að neyða fólk til að vinna tilgangslítil störf til að sjá sér farborða. Þá verða minni verðmæti til.
Atvinnubótavinna getur haft ruðningsáhrif á önnur störf og þannig aukið atvinnuleysi, hún getur skapað óeðlilega myndun verðlags og breytt kostnaðarvitund til hins verra, hún getur hindrað nýsköpun og uppkomu sprotafyrirtækja – og hún er óeðlilegt framboð á almannafé.
Í þessu efni er ekki hægt að líta í baksýnisspegilinn því brotthvarf starfa hingað til stafar oftast af því að störfin urðu óarðbær og það er dýrara að taka þau upp aftur en halda áfram nútímavæðingu starfa. Hér er t.d. átt við störf í mjólkurbúðum, við handfæraveiðar eða við handmjólkun kúa, svo augljós dæmi séu tekin af störfum sem myndu spilla þjóðarhag. Því þarf að hugsa frumlega ef opinberir aðilar eiga að kosta atvinnubótavinnu.
Hins vegar má - eins og áður er nefnt - hugsa sér að sjálfboðaliðastörf verði algeng í framtíðinni og þau skipulögð þannig að þau styðji þjóðarhag og auki velferð og hér er því spáð að slík störf eigi eftir að skila miklum afrakstri af endurnýjun almannatrygginga.
Lokaorð
Breytt samfélag með fjórðu iðnbyltingunni – það að tæknin leysir manninn undan vinnu og þrældómi og að mannkynið verður herra alheimsins – kallar á breyttar forsendur í dreifingu verðmæta í þjóðfélaginu. Á meðan vinna var forsenda velferðar og að hafa vinnu var krafa samfélagsins snerist allt um að hækka kaupgjald. Nú verður krafan að snúast um velferð allra, hvort sem þeir eru á vinnumarkaði eða ekki. Þetta krefst gerbreytingar á hugmyndum um hefðbundna tímabilaskiptingu ævinnar og að þeir sem eru utan vinnumarkaðar fái aðeins ölmusu og standi utan félagsmálakerfa og búi við fátækt - í því skyni að þvinga þá til að fara á vinnumarkað – og að þeir séu ósýnilegir hinum betur megandi. Það verða mest verðmæti til í þjóðfélaginu, mest til skiptanna, með því að hreyfing sé á vinnumarkaði. Þannig er hagkvæmt fyrir þjóðfélagið að hluti fullorðins fólks sé utan vinnumarkaðar á einhverjum tímabilum ævinnar. Það getur líka verið ákjósanlegt fyrir almenning, en aðeins ef hann býr við fjárhagslegt öryggi. Stjórnmálin, verkalýðshreyfingin og atvinnurekendur geta ekki lengur látið eins og heppilegt sé að nálægt 40% fullorðins fólks búi við ölmusukerfi – og að það sé þjóðfélaginu best.
Sveigjanleiki þarf að vera lykilatriði – en ekki að allar aðstæður á vinnumarkaði og utan hans séu negldar niður í eitt skipti fyrir öll. Taka þarf upp marga kjarasamninga og starfssamninga í þessu ljósi, ekki síst fyrir opinber störf – og síðast en ekki síst almannatryggingakerfið.
Höfundur er stjórnsýslufræðingur.