Pétur Gauti Valgeirsson, formaður stéttarfélags leiðsögumanna, fer fram á að yfirvöld leiðrétti misrétti í garð stéttarinnar.
Leiðsögumenn eru andlit þeirra ferðaþjónustufyrirtækja sem þeir vinna fyrir og oft á tíðum einu Íslendingar sem erlendir ferðamenn kynnast. Hlutverk leiðsögumanna er að fræða ferðamenn um land og þjóð, en einnig að gæta öryggis þeirrar og tryggja að þeir gangi vel og varlega um íslenska náttúru. Leiðsögumenn hafa því átt verulegan þátt í vexti ferðaþjónustunnar hérlendis undanfarin ár, grein sem skilaði um 340 milljörðum í þjóðarbúið á síðasta ári.
Þrátt fyrir það hafa leiðsögumenn notið takmarkaðs skilnings hjá yfirvöldum undanfarna mánuði, þeir hafa lent illa í áhrifum af COVID-19 og fallið milli skips og bryggju í ýmsum annars ágætum björgunaraðgerðum sem ríkisstjórnin hefur staðið fyrir.
Núna síðast lítur út fyrir að langþráð framlenging á tekjutengingu atvinnuleysisbóta nýtist ekki vegna þess að leiðsögumenn voru ekki á tekjutengingu þann 1. september.
Ástæðan er sú að staða leiðsögumanna á atvinnumarkaði er veik. Þeir eru oftast lausráðnir í stök verkefni (stundum fleiri en eitt í röð). Leiðsögumenn eru yfirleitt ekki fastráðnir. Því er ekki fast ráðningarsamband milli leiðsögumanns og vinnuveitanda. Afleiðingin af þessu er sú að þegar COVID-19 fór að herja á heiminn og ferðamenn hættu að koma í marslok rofnaði þetta ótrygga samband. Leiðsögumenn voru ekki ráðnir í fleiri ferðir, urðu samstundis atvinnulausir og það án uppsagnarfrests. Ennfremur nýttist hlutabótaleiðin eingöngu afar fáum.
Margir leiðsögumenn sóttu um bætur og fóru á atvinnuleysisbætur í lok mars eða snemma í apríl og því rann þriggja mánaða tekjutenging þeirra á atvinnuleysisbótum út í júní eða júlí sem þýðir að þeir voru ekki lengur á tekjutengingu núna í byrjun september.
Ég sem formaður Leiðsagnar, félags leiðsögumanna, hef undanfarið fengið fjölmargar fyrirspurnir frá félögum mínum sem undra sig á þessari stöðu. Getur það staðist að það fólk sem lenti í verstu hremmingunum í vor og passaði ekki inn í hlutabótaleiðina falli enn einu sinni í gegnum möskvana á björgunarnetinu, einungis vegna þess að það er miðað við 1. september?
Þetta er augljós galli á kerfinu. Þetta veldur því að fólk sem féll milli skips og bryggju í fyrri aðgerðum er enn og aftur að upplifa að þeim er ekki rétt hjálparhönd sem öðrum er rétt, eingöngu vegna þess að þau voru þau fyrstu sem lentu í því að missa lífsviðurværið. Þetta er að mínu mati afar ósanngjarnt.
Ég fer því fram á, fyrir hönd Leiðsagnar og leiðsögumanna, að yfirvöld leiðrétti þetta misrétti og liðsinni þannig þessu lykilfólki í ferðaþjónustunni. Það hefur nú þegar þurft að þola nóg og þarf nauðsynlega vera til taks þegar ferðamenn taka að streyma hingað aftur og landið tekur að rísa á ný.
Höfundur er formaður Leiðsagnar, stéttarfélags leiðsögumanna.