Af hverju gaf ríkið Vin Diesel og félögum einu sinni 500 milljónir?

Eikonomics segir að á síðustu fimm árum hafi íslenska ríkið greitt erlendum kvikmyndagerðarmönnum rúmlega þrjá milljarða króna. Ganga þurfi úr skugga um að það fjármagn skili samfélaginu hæstu ávöxtun.

Auglýsing

Árið 2016 heiðraði hinn kraftmikli Vin Diesel okkur Íslendinga með heimsókn sinni. Íslandsvinurinn sótti landið þó ekki heim af því að honum langaði að spenna vöðvana á bökkum Árbæjarlaugar, heldur kom hann til landsins til þess að setja mark sitt á kvikmyndasöguna, sem hann gerði með stórleik sínum í meistaraverkinu The Fate of the Furious, einnig þekkt sem The Fast and the Furious 8. 

Þó leiksigur Vin Diesel sé óumdeilanlegur, þá kepptust gagnrýnendur svo sem ekkert um að lofa myndina. Brian Tallercio nöldrað til að mynda yfir því að myndin, sem er tveir tímar á lengd, væri of löng fyrir mynd án söguþráðar. Almenningur hefur þó sjaldan svipaðan smekk og merkikertin sem skrifa í blöðin og samanlagt greiddi almenningur um 170 milljarða króna (á gengi dagsins í dag) til þess að horfa á Vin Diesel þruma um íslenska náttúru á allskonar tryllitækjum

Hvers vegna kom Vin Diesel til Íslands?

Ég er reyndar alls ekkert viss um að Vin Diesel hafi komið til landsins, allavega fann ég ekki eina einustu mynd af kappanum á Íslandi, þó ég hafi leitað á nánast öllu internetinu. Ég reikna þó með því að hann hafi komið og ekki unnið vinnu sína í fjarvinnu, fyrir framan grænan skjá í Los Angeles

Margir gætu gefið sér það að ástæðan fyrir því að stjörnurnar komi til Íslands að taka upp bíómyndir sé hin óviðjafnanlega náttúrufegurð okkar einstöku eyju. Það er allavega forsendan sem ég gaf mér lengi vel, forsenda sem er röng. 

Auglýsing
Ef það er ekki landslagið, þá gæti maður giskað á það sér að stjörnurnar komi kannski af því að Íslendingar eru svo góðir í að aðstoða meistara Hollywood við að búa til kvikmyndir. Einnig gæti það verið að hér sé svo gott aðgengi að topp kvikmyndagerðarbúnaði að það borgi sig að fljúga yfir gjörvöll Bandaríkin og hálft Atlantshafið til að komast í þessa snillinga og græjurnar þeirra. Svo er það ekki.

Ef aðalástæða komu kvikmyndagerðarmanna til Íslands er ekki hæfileikar, ekki tækjabúnaðurinn og ekki landslagið hvað er það þá sem dregur þetta fólk til landsins? Laun á Íslandi eru há, tækjakostnaður almennt ekki lægri en annarstaðar, því er ólíklegt að stjörnurnar komi til Íslands að taka upp af því að það er hagkvæmt. 

Stundum er þó ólíklegasta svarið rétta svarið: Stjörnurnar koma fyrst og fremst til Íslands út af gjafmildi íslenska ríkisins, sem borgar þeim fyrir að koma sem gerir það ódýrara en ella að taka upp kvikmyndir á Íslandi.

Vin Diesel og félagar hefðu líklega bara farið til Kanada að mynda Íslandssenurnar ef ekki hefði verið fyrir gjafmildi íslenska ríkisins, gjafmildi sem nemur 566 miljónum króna, á verðlagi ágústmánaðar 2020 [1]. 

(Nánara niðurbrot á endurgreiðslum ríkisins á framleiðslukostnaði kvikmyndagerðarmanna, sem og alla tölfræði sem ég ræði þessum pistli, má skoða á vefsvæði mínu á grid.is.)

Sagan um gjafirnar

Í mars árið 1999 setti Alþingi lög varðandi gjafir til kvikmyndaframleiðenda. Stundum er slík gjöf ríkisins kölluð „endurgreiðsla framleiðslukostnaðar“. Það er þó hálf undarlegt heiti, þar sem framleiðslukostnaður greiðist ekki beint til ríkisins og því ekkert beinlínis fyrir ríkið að endurgreiða.

Markmiðið laganna var (og er) að „stuðla að eflingu innlendrar menningar og kynningar á sögu landsins og náttúru með tímabundnum stuðningi við kvikmyndir og sjónvarpsefni sem framleitt er hér á landi.“  

Þegar lögin voru fyrst sett virðist planið hafa verið að endurgreiða 12% framleiðslukostnaðar þangað til 2003. Þá átti prósentan að falla niður í 9% og enda átti að binda á stuðningurinn árið 2006. Þó ég viti ekki hver hugsunin bak við lögin voru, þá giska ég á að ríkið hafi reiknað með því að 6 ár hafi verið sá tímarammi sem það tæki að byggja upp öflugan og sjálfbæran kvikmyndaiðnað á Íslandi, sem laða ætti að kvikmyndagerðarmenn, án þess að lauma að þeim peningum.

Í október 2001 ákvað ríkisstjórn Íslands þó að sleppa því að lækka prósentuna niður í 9%. Endurgreiðsla upp 12% var greinilega ekki nóg og ef 12% er ekki nóg þá er 9% heldur ekki nóg. Því var stuðningnum haldið í 12%. Sú prósenta var þó enn of lág, aðeins um 13 miljónir voru endurgreiddar erlendum kvikmyndagerðarmönnum það árið.

Í október 2006 var prósentan enn 12%, án þess að hækka prósentuna kom þó mun meiri fjárfesting til landsins, árið 2006 greiddi ríkið 122 milljónir til erlendra verkefna. Það sýnir það að einhver fjárfesting kæmi alltaf til landsins, sama hvort ríkið niðurgreiði framleiðsluna eða ekki. 

Í janúar 2007, var endurgreiðslan svo hækkuð upp í 14%. Sem ekki virðist hafa gert mikið, á árunum 2007 – 2009 fengu erlendir kvikmyndagerðarmenn ekki nema 5 milljónir frá íslenska ríkinu.

Eftir 10 ár af endurgreiðslum var það nokkuð ljóst að þetta virkaði ekki eins vel og lagt var upp með [2]. Erlendir kvikmyndagerðarmenn höfðu einfaldlega ekki áhuga á Íslandi. Þó ríkið greiddi þeim 14% af framleiðslukostnaði þeirra þá var landið einfaldlega ekki nógu fallegt og þjóðin ekki nógu fríð. Eðlilegt hefði þá verið að draga í land og sigla á önnur mið, sem er ekki það sem ríkið gerði. Í staðinn var sett í fimmta gír og í maí 2009 lofað ríkið erlendum kvikmyndagerðarmönnum að þeir fengju 20% af framleiðslukostnaðnum, sem hér á landi félli, endurgreiddan.

Nú var fólk að tala saman. Á árunum 2009-2016 greiddi íslenska ríkið erlendum kvikmyndagerðarmönnum, sem heiðruðu okkur með komu sinni, meira en 3,8 milljarða króna (á verðlagi ágúst 2020). Þá hefði maður haldið að markmiðinu hefði verið náð og tími væri kominn til að fara að binda enda á tímabundna verkefnið og leyfa iðnaðnum að blómstra, án hjálparadekkja. Svo fór ekki. Í staðinn var endurgreiðsluprósentan hækkuð upp í 25% árið 2017 og stendur hún enn þar í dag. 

Hagfræðingurinn og Nóbelsverðlaunahafinn Milton Friedman hafði kannski eitthvað til síns máls þegar hann sagði að „ekkert væri eins varanlegt og tímabundin verkefni ríkisins.“ 

Mynd: Þróun endurgreiðsluhlutfalls framleiðslukostnaðar og endurgreiðslu framleiðslukostnaðarHeimild: Kvikmyndamiðstöð Íslands. Ath.: Fjárhæðir hafa verið endurreiknaðar á verðlagi ágúst 2020.

Hvers vegna borgar ríkið Vin Diesel fyrir að koma í heimsókn?

Þó markmið laganna stafi það ekki beint, þá er líklega helsta ástæðan fyrir því að ríkið niðurgreiðir kostnað framleiðenda sú að fjárfestingin sem kemur inn í landið skilar sér í störfum og lærdómi. Einnig má færa rök fyrir því að með því að niðurgreiða framleiðslukostnað laði Ísland að sér meiri fjárfestingu en ella og niðurgreiðslan skili sér í meiri skatttekjum en ef ekkert er niðurgreitt. 

Auglýsing
Að fjárfesta í þjálfun íslenskra kvikmyndagerðarmanna með þessu móti er mögulega ekki óskilvirk leið. Skattgreiðendur borga fyrsta flokks kvikmyndagerðarmönnum til þess að koma hingað og kenna íslenskum kollegum sínum handtökin, sem í kjölfarið stofna sín eigin félög og þegar næsta kvikmynd kemur til landsins eru þeir tilbúnir að þjónusta hana og taka meira af kvikmyndagerðarkökunni. 

Ef mjög vel gengur, þá á endanum gætu hin íslensku félög meira að segja keppt við erlend félög, um verkefni sem ekkert hafa með Ísland að gera. Frægasta dæmið er líklega frá Nýja-Sjálandi, WETA Workshop hefði eflaust færri verkefni, færri starfsmenn og skilað minna til samfélagsins, ef ekki hefði verið fyrir niðurgreiðslu þarlendrar ríkisstjórnar á Hringadróttinssögu, J.R.R Tolkien (og á öllum öðrum kvikmyndum allar götur síðan).

Önnur rök, sem ég kaupi ekki á auglýstu verði, eru sú að með því að taka upp myndir á Íslandi fáum við ódýra landkynningu. Það þarf einhver að ýta við mér ef ég á að trúa því að Vin Diesel brunandi um á jöklum og spólandi á svörtum sandi hvetji fólk til að koma til Íslands og kaupa ullarpeysur í Lundabúðum. Líklega spilar tilkoma ódýrra sjálfsmyndatækni og samfélagsmiðla stærra hlutverk en nokkur stórmynd hefur nokkurn tíma gert.

Aðdáendur landkynningar rakanna benda gjarnan á Hringadróttinssögu, sem tekin var upp á Nýja-Sjálandi rétt eftir aldamótin. Hringadróttinssögu þrennan var þó á allt öðru plani en flest allar aðrar myndir. Myndirnar sópuðu að sér 18 óskarsverðlaunum og var leikstýrt af þjóðhollum Nýsjálending, sem gekk úr skugga um að landslagsfegurðin væri þungamiðja myndarinnar. Þegar betur er að gáð er Hringadróttinssaga í útfærslu Peter Jackson eiginlega bara náttúruheimildarmynd, með örfáum innskotum af einhverjum loðnum krökkum að vesenast með einhvern hring. Því er mögulegt að Hringadróttinssaga hafi aukið meðvitund um tilveru þessa frábæra lands, mögulega skiluðu myndirnar sér í efnislegri aukningu á komu ferðamanna. Ég leyfi mér þó að efast um það að aðrar myndir, sem ekki hafa alla kosti Hringadróttinssögu, hafi sambærileg áhrif á komu ferðamanna.

Mynd: Koma ferðamanna til Nýja-Sjálands (og Ástralíu, til samanburðar) fyrir og eftir Hringadróttinssögu

Heimild: Hagstofur Ástralíu og Nýja-Sjálands (ITM005AA).Síðustu rökin sem ég ætla að ræða um eru sú að dæmið greiði fyrir sig sjálft. Ef ríkið borgar fyrir að fá fólk til að koma til Íslands og taka upp myndir þá kemur fjárfestingin til Íslands, annars ekki. Erlenda fjárfestingin fer svo í að borga laun, kaupa mat, gistingu og allskonar. Þegar dæmið er reiknað til enda – og allir skattar sem greiddir eru, frá komu til brottfarar, eru lagðir saman – þá kemur meiri peningur í ríkiskassann en ríkið gaf Vin Diesel og félögum.

Það er alls ekki ómögulegt en á þó við um allskonar erlenda fjárfestingu, ekki bara fjárfestingu í að búa til ógeðslega kúl bíómyndir.

Er gáfulegt að borga launin hans Vin Diesel?

Á pappír lítur þetta ágætlega út: Við lærum að búa til bíómyndir; hér verður til iðnaður; og ríkið fær rúmlega hverja krónu til baka. Raunveruleikinn er þó flóknari en pappír.

Fyrsta vandamálið við þetta er það að með því að niðurgreiða framleiðslukostnað erlendra kvikmyndagerðarmanna erum við þátttakendur í kapphlaupi sem endar á vegg. Svo gott sem allar þjóðir heimsins halda úti álíka kerfi og við gerum. Kerfi þar sem moldríkir erlendir kvikmyndagerðarmenn fá borgað fyrir að koma og taka upp mynd. 

Til dæmis býður Nýja-Sjáland, Holland, Tékkland og fleiri svipuð kjör og Ísland gerir í dag. Bretland, Írland og Frakkland bjóða skattaafslátt, sem er önnur aðferð til að niðurgreiða kvikmyndagerð. 

Ef allir aðrir gera það þá verðum við að gera það líka, ef við viljum taka þátt í þessari keppni um erlenda fjárfestingu. Árið 1999 var hægt að fá 9% framleiðslukostnaðar greiddan af íslenska ríkinu, í dag borgar ríkið 25% kostnaðarins. Þetta er hluti af kapphlaupinu og hver veit hvar það endar? Fyrir utan það, þá má spyrja sig hvort ekki sé til iðnaður sem við getum boðið minna skattfé en fengið meira út úr erlendu fjárfestingunni. 

Annað vandamálið er það að með því að niðurgreiða kostnað eins iðnaðar, en ekki annara, er ríkið í meira mæli að ákveða hvaða iðnaður á að vaxa og dafna, en ekki fólkið í landinu. Þetta skapar viss ruðningsáhrif, þar sem vinnuafl og fjármagn leitar í iðnað þar sem kröftum þeirra er ekki endilega best varið.

Jafnvel án ruðningsáhrifa má vel vera að kvikmyndagerð sé ekki sá iðnaður sem mestu skilar til baka í samfélagið. Þar sem samkeppni þjóðanna um þennan iðnað er grimm hefði ég haldið að þetta væri ekki besti iðnaðurinn til að niðurgreiða. Líklega leynast tækifæri í minna spennandi iðnaði. Iðnaði sem við sjáum ekki af því að við erum blinduð af stjörnuskærri nærveru Vin Diesel.

Þegar allt er skoðað saman er líklega alveg hægt að fara verr með almannafé. Samt megum við ekki gleyma okkur í forsendusúpunni sem oft liggur að baki greininga á ávöxtun fjárfestinga ríkisins. Á síðustu fimm árum hefur ríkið greitt erlendum kvikmyndagerðarmönnum rúmlega þrjá milljarða króna. Það er mikill peningur og ef ríkið ætlar að keppast um erlent fjármagn, þá eigum við að ganga úr skugga um að við keppumst við það fjármagn sem skilar samfélaginu hæstu ávöxtun. 

Í öllu falli eigum við að gera það áður en endurgreiðslan hækkar næst [3].

Punktar höfundar

[1] Í þessum pistli hef ég endurreiknað fjárhæðir svo hægt sé að bera saman verðmæti yfir lengri tímabil. Fjárhæðir eru því á verðlagi ágúst mánaðar 2020. Ástæðan fyrir leiðréttingunni er fyrst og fremst verðbólgan sem reið feitum hesti um land vort, eftir að snillingar bankanna settu allt á hliðina árið 2008. 

[2] Reyndar nýttu íslenskir framleiðendur sér ríkisstyrkinn vel á þessum tíma. En að gefa Íslendingum styrki til kvikmyndagerðar, sem alltaf hefði verið framleidd á klakanum, er ólíkt því að gefa útlendingum pening til að koma með fjárfestingu inn í landið. 

[3] Viðauka, með ýmiskonar upplýsingum og tölfræði tengdri þessu efni, má finna á vefsvæði mínu á grid.is.

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Einstök lönd geta ekki „bólusett sig út úr“ faraldrinum
Þrjú ríki heims hafa bólusett yfir 70 prósent íbúa. Ísland er eitt þeirra. Hlutfallið er undir 1,5 prósenti í Afríku. Ef ekki næst að koma því í 10 prósent bráðlega verður það „ör á samvisku okkar allra“ enda nóg til af bóluefnum, segir sérfræðingur WHO.
Kjarninn 1. ágúst 2021
Fékk „bakteríuna“ eftir Söngvakeppni sjónvarpsins
„Lögin hafa orðið til á yfir 20 ára tímabili og er því nokkur breidd í þessu hjá mér; allt frá stígandi ballöðum til eins konar rokkóperu,“ segir Pétur Arnar Kristinsson sem blásið hefur til söfnunar fyrir útgáfu fyrstu breiðskífu sinnar.
Kjarninn 1. ágúst 2021
Smári McCarthy er að hætta á þingi og ætlar í kjölfarið að láta reyna á sitt eigið hugvit í tengslum við loftslagsbreytingar.
„Flokkarnir voru að þvælast fyrir hvorum öðrum“ og niðurstaðan varð núll
Smára McCarthy fráfarandi þingmanni Pírata finnst sem undanfarin fjögur ár hafi litast af því að lítið ráðrúm hafi verið til þess að ræða pólitík, þar sem stjórnarflokkarnir eru ósammála um mörg grundvallarmálefni.
Kjarninn 1. ágúst 2021
Það er fremur fátítt að sólarhringsúrkoma í Reykjavík mælist meira en 20 mm eða meiri að sumarlagi.
Rignir af meiri ákefð nú en áður?
Fátt bendir til þess að Ísland sleppi alfarið við aftakaúrkomu sem nágrannaríki okkar hafa upplifað á síðustu árum, skrifar Einar Sveinbjörnsson veðurfræðingur og veltir fyrir sér getu fráveitukerfa til að taka við meiriháttar vatnsflaumi.
Kjarninn 1. ágúst 2021
Norska kvennaliðið í strandhandbolta að loknu Evrópumeistaramótinu í Búlgaríu á dögunum.
Bikiní- og stuttbuxnadeilan
Nýafstaðið Evrópumeistaramót í strandhandbolta vakti mikla athygli víða um heim. Það var þó ekki keppnin sjálf sem dró að sér athyglina heldur deilur um klæðnað. Nánar tiltekið klæðnað norska kvennalandsliðsins.
Kjarninn 1. ágúst 2021
Joe Biden forseti Bandaríkjanna tilkynnti í apríl að viðskiptaþvingunum yrði beitt á Rússland vegna njósnanna.
Brotist inn í tölvupósta bandarískra saksóknara
Óttast er að viðkvæmum gögnum hafi verið stolið er brotist var inn í tölvur tæplega þrjátíu embætta saksóknara í Bandaríkjunum á síðasta ári. Bandarísk yfirvöld telja Rússa standa að baki árásinni.
Kjarninn 31. júlí 2021
Eftir helgi verða breytingar á ferðatakmörkunum til Bretlands.
Fagna ákvörðun Breta um að bólusettir sleppi við sóttkví
„Hvenær ætla Bandaríkin að svara í sömu mynt?“ spyrja Alþjóða samtök flugfélaga sem fang ákvörðun Breta um að aflétta sóttkvíarkröfum á bólusetta farþega frá Bandaríkjunum og ESB-ríkjum.
Kjarninn 31. júlí 2021
Eggert Gunnarsson
Hamfarakynslóðin
Kjarninn 31. júlí 2021
Meira úr sama flokkiEikonomics