Í þættinum Kveik á RÚV var nýverið fjallað um þá hættu sem steðjar að íslenskum menningarverðmætum. Þar komu fram safnstjórar og forstöðumenn safna og lýstu áhyggjum sínum af þeim safnkosti sem er innan vébanda safnanna vegna óviðunandi varðveisluaðstöðu. Í þættinum kom fram að um þjóðargersemar er að ræða og að forsvarsmenn safnanna hafa staðið í áratuga langri baráttu fyrir forsvaranlegum varðveisluaðstæðum.
Það er dapurlegt til þess að hugsa að safnafólk hafi í áratugi þurft að berjast fyrir sómasamlegu varðveisluhúsi yfir þjóðargersemar okkar, vinna fjölmargar skýrslur sem síðan er stungið ofan í skúffu af yfirvöldum. Ábyrgðin á ekki að vera ábyrgð einstaklingana sem eru í forsvari safnanna heldur er ábyrgðin á höndum ríkis og sveitarfélaga sem eiga að búa svo um að minjar þjóðarinnar séu í varðveittar á forsvaranlegan hátt. Það er þeirra að útvega viðunandi húsnæði fyrir alla starfsemina – en ekki bara hluta hennar. Undirstaða safna er safnkosturinn og án hans eru forsendur safnanna brostnar, því safnkosturinn er sjálf undirstaðan! Það sem almenningur sér á sýningum er einungis lítið brot af þeim safnkosti sem er í vörslu safnanna.
Starfsfólk safna um land allt þekkir þá tilfinningu að óttast að safnkosturinn verði eldi að bráð, enda þekkjum við slík dæmi líkt og fram kom í þætti Kveiks, eins og bruninn á verkum Listasafns Reykjavíkur árið 2002 og bátabruninn mikli árið 1993, þegar bátar á vegum Þjóðminjasafn Íslands brunnu. Það á ekki að vera martröð hvers safnamanns að búa við starfsaðstæður sem þessar. Ábyrgðin er hjá ríki og sveitarfélögum.
Í lok Kveiksþáttarins fengum við þau gleðilegu tíðindi að í nýrri ríkisfjármálaáætlun er gert ráð fyrir að Listasafn Íslands, Landsbókasafnið og Þjóðskjalasafnið verði komin með viðunandi varðveisluaðstöðu eftir fimm ár. Við verðum að trúa og treysta því að það verði að veruleika.
Alþjóðasamtök Bláa skjaldarins - International Committee of the Blue Shield - voru stofnuð árið 1996 til að vinna að verndun menningararfs sem er í hættu vegna náttúruhamfara og stríðsátaka, og grundvöllur hans er Haagsáttmálinn frá 1954. Markmið Bláa skjaldarins er að vinna að verndun menningararfs heimsins með því að samhæfa viðbragðsáætlanir þar sem hættuástand verður. Það má því segja að Blái skjöldurinn sé menningunni það sem Rauði krossinn er mannúðar- og hjálparstarfi. Undanfarin ár hefur landsnefnd Bláa skjaldarins stutt við gerð varðveisluáætlana fyrir söfn um land allt með kynningum og námskeiðum og átt í viðræðum við Almannavarnir um aðkomu félagsins þegar hætta steðjar að söfnum á hamfaratímum. Í þeirri áætlun er Blái skjöldurinn hugsaður sem einskonar björgunarsveit fyrir menningarverðmæti þegar hamfarir eiga sér stað svo sem af völdum vatnsflóða, eldsvoða, snjóflóða, jarðskjálfta eða eldgosa.
Landsnefnd Bláa skjaldarins hvetur sveitarfélögin að taka sér ríkið til fyrirmyndar og setja á stefnuskrá sína og fjárhagsáætlun að hlúa að menningarverðmætum í sinni eigu og koma upp viðunandi varðveisluaðstöðu innan fimm ára og huga það vel að forvörnum í safnastarfi að við þurfum ekki að óttast að missa þjóðargersemi eingöngu vegna ófullnægjandi bygginga. Því allt er þetta spurning um hver við viljum vera og hvort okkur sé í raun og sann annt um þá menningu sem gerir okkur að þjóð.
Höfundur er formaður landsnefndar Bláa skjaldarins.