Á sama tíma og aðgerðir hafa verið hertar vegna þriðju bylgju kórónuveirufaraldursins er fjallað um fjárlög og fjármálaáætlun á Alþingi. Í þeim er staðinn vörður um velferðarkerfið, þó svo að tekjur ríkisins lækki verulega vegna heimsfaraldursins.
Það er ljóst að hallarekstur ríkissjóðs á þessu ári og því næsta verður mikill og raunar sá mesti í hundrað ár. Ríkisstjórnin hefur markað þá mikilvægu stefnu að standa vörð um velferðina í þessum efnahagslegu sviptingum. Það sést til að mynda á því að rétt rúmlega helmingur fjárheimilda ríkisins árið 2021 fer til heilbrigðis-, og félags-, og húsnæðismála. Ef mennta- og menningarmálum er bætt við eru þetta rúmlega 60% af fjárheimildunum ríkissjóðs. Þá blasir trúin á framtíðina jafnframt við og grunnur er lagður að því við getum vaxið út úr efnahagsþrengingunum með stórauknum framlögum til verklegra framkvæmda, rannsókna og umhverfismála. Þetta er meðvituð pólitísk stefnumótun sem snýst um velferð fólks og þá trú að íslenskt samfélag og íslenskt hagkerfi eigi framtíðina fyrir sér þegar veirufaraldurinn er gengin yfir. Hún er alger andstæða hugmyndafræði nýfrjálshyggju sem myndi alltaf miða að því að skera niður opinbera þjónustu, sér í lagi í svona árferði.
Staðið við fyrri áætlanir
Lækkun á tekjuskatti var meðal atriða í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar. Hún kemur að fullu til framkvæmda nú um áramótin. Sú skattkerfisbreyting er í þágu jöfnuðar þar sem fleiri krónur verða eftir í veski þeirra sem hafa lágar atvinnutekjur. Ímyndum okkur fjölskyldu þar sem báðir foreldrar eru útivinnandi með lágar tekjur, 360 þúsund krónur á mánuði hvort um sig. Fjölskyldan á tvö börn, annað undir sjö ára aldri. Þessi fjölskylda mun hafa 240 þúsund krónum meira í ráðstöfunartekjur á næsta ári vegna þessarar skattkerfisbreytingar. Þá hafa barnabætur til þessarar fjölskyldu aukist til muna á kjörtímabilinu, hún fær 240 þúsund krónum meir á næsta ári en hún hefði fengið í því barnabótakerfi sem þessi ríkisstjórn tók við. Samanlagt er þetta tæp hálf milljón sem þessi fjölskylda fær. Samskonar fjölskylda þar sem foreldrarnir eru í hálaunastörfum fær ekki þessa kjarabót – enda þarf að forgangsraða fyrst til þeirra sem eiga minnst.
Þá lengist fæðingarorlofið um tvo mánuði næstu áramót. Það er mikið framfaraskref fyrir bæði börn og foreldra. Það er einnig skref að auknu jafnrétti í landinu. Það bætir efnahagslega stöðu barnafjölskyldna sem margar hverjar glíma við að brúa bil milli fæðingarorlofs og leikskóla og það er einfaldlega orðið löngu tímabært. Sömu sögu er að segja af húsnæðismálum – þar aukum við jöfnuð. Á næsta ári munu hlutdeildarlánin taka gildi, sem aðstoða tekjulágt fólk við að eignast húsnæði með því að lána þeim fyrir útborguninni sem greidd er til baka þegar íbúðin er seld.
Hefjumst handa
Til þess að takast á við þá stöðu sem er í atvinnumálum, þar sem tugþúsundir eru atvinnulaus eða atvinnulítil er aukið fjármagn lagt í framhalds- og háskóla. Þannig getur fólk sem misst hefur vinnuna skapað sér ný tækifæri með að setjast á skólabekk. Þá er búið þannig um hnútana að atvinnuleitendur geti gert það án þess að atvinnuleysisbætur falli niður í ákveðinn tíma. Einnig hefur tímabil tekjutengdra atvinnuleysisbóta verið lengt um helming til þess að bæta kjör þeirra sem misst hafa vinnuna. Nýtt fyrirkomulag námslána tekur einnig gildi á næsta ári, en það kemur ungum barnafjölskyldum sérstaklega vel, þar sem að styrkir verða greiddir með hverju barni.
Á næsta ári mun ríkið ráðast í umfangsmiklar opinberar framkvæmdir til að auka atvinnustig. Enda er besta lausnin á atvinnuleysi að skapa störf. Verkefnin sem bætast við eru af ýmsum toga, mörg tengd samgöngumálum og má þar sérstaklega nefna Borgarlínu. Framlög til rannsóknasjóða af ýmsu tagi er einnig stóraukið en einnig er þar að finna stóraukið fé í rannsóknasjóði af ýmsu tagi. Þá hefur verið tekin ákvörðun um að framlengja allir vinna átakið út næsta ár.
Vegna þess tekjusamdráttar sem orðið hefur í kjölfar heimsfaraldursins kallar þetta á auknar lántökur ríkissjóðs. Þess vegna er svo mikilvægt að með framkvæmdum nú sé lagður grunnur að sterkari framtíð. Með því að standa vörð um velferðina og dreifa högginu af heimsfaraldrinum á lengri tíma munum við geta komist á fætur á nýjan leik og vaxið saman út úr kreppunni.
Höfundur er þingmaður Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs.