Alþingi er valdastofnun og þar situr fólk með vald sem þjóðin hefur fengið þeim í hendur til afmarkaðs tíma. Alþingi setur okkur lög sem okkur ber að virða. Hvað ef mér finnst lög sem þingið hefur sett ekki nógu góð? Hvað geri ég þá? Get ég þá bara hunsað lögin vegna þess að mér líkar kannski ekki sá meirihluti sem kom lögunum í gegn? Vitaskuld ekki.
Mikilvægt er á hverri tíð að gera greinarmun á valdastóli og þeim er situr stólinn og sá/sú sem situr verður að gera sér grein fyrir að hann eða hún er ekki stóllinn, ekki valdið sjálft, heldur gegnir viðkomandi hlutverki fyrir almenning.
Þegar þingmenn á Alþingi hafa sett okkur lög, þá gilda þau og öllum ber að virða þau. Minnihlutinn verður einnig að sætta sig við lög og samþykktir Alþingis.
Ég rifja þessi alþekktu sannindi upp núna vegna þess að svo virðist sem stór hluti þingmanna geti ekki sætt sig við sum lög sem þingið hefur sett og vilja því ekki hlýða þeim lögum af einskærum geðþótta, eins og óþekkir krakkar sem segja bara í sandkassanum: Aþþíbara!
Hér vísa ég m.a. til laga um Stjórnlagaráð, um þjóðaratkvæðagreiðsluna 2012 og um að taka tillögu að nýrri stjórnarskrá til efnislegrar umræðu og atkvæðagreiðslu eins og meirihluti kjósenda samþykkti. Engu er líkara en meirihluti núverandi þings hugsi: Nei, þessum lögum þurfum við ekki að hlýða því þau voru sett af meirihluta sem mér líkaði ekki við.
Alþingi setti sjálft af stað ferli sem núverandi meirihluti Alþingis vill ekki kannast við: Aþþíbara! Þar með virðir Alþingi ekki sjálft sig.
Eitthvað alvarlegt er að í stjórnmálakúltúr sem hegðar sér með þessu móti. Hér vísa ég til sumra flokka sem eiga sína fulltrúa á Alþingi og virðast ekki kunna almenna kurteisi og skorti virðingu fyrir Alþingi sem það þó situr sjálft.
Er nokkur furða að við, almenningur, höfum þverrandi álit á Alþingi, þegar þau sem þar sitja, virða ekki lög þess og samþykktir og taka ákvarðanir út frá geðþótta og gerræði og ulla um leið á þjóð sína?
Höfundur er fyrrverandi sóknarprestur og sat í Stjórnlagaráði.